• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Aug

Skattgreiðendur verða að segja nei

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í fréttum gær á ruv.is að hann væri búinn að gefast upp á viðræðum við stjórnvöld um að þau ráðist í stórframkvæmdir til að efla byggingaiðnaðinn. Í þessu samhengi nefndi Vilhjálmur að samgönguframkvæmdir hafi ekki gengið eftir, t.d. tvöföldun Suðurlands- og Vesturlandsvegar, og nefndi einnig að engar framkvæmdir séu hafnar við nýtt háskólasjúkrahús.

Formaður félagsins spyr, hvernig dettur framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í hug að krefja ríkissjóð um að ráðast í slíkar framkvæmdir í ljósi þeirrar stöðu sem ríkissjóður er í. 

Hér hefur verið blóðugur niðurskurður frá hruni, m.a. í löggæslunni og menntakerfinu, svo ekki sé talað um í heilbrigðiskerfinu sem er að mati þeirra sem þekkja til farið að ógna öryggi sjúklinga allverulega.  Það er meira að segja búið að loka líknardeildum og ekki fæst fjármagn til að endurnýja bráðnauðsynlegan tækjakost á Landspítalanum. 

Formaðurinn spyr því aftur, hvernig dettur framkvæmdastjóra SA það í hug að ætla að leggja tuga ef ekki hundraða milljarða króna drápsklyfjar á íslenska skattgreiðendur í ljósi þeirra hamfara sem þeir hafa mátt þola á  liðnum árum.  Hvað með bullið í kringum Hörpuna en þar er búið að skuldsetja íslenskan almenning næstu 35 árin um sem nemur einum milljarði á ári og hvað með hugsanlegan kostnað skattgreiðenda vegna Vaðlaheiðarganga, en félag íslenskra bifreiðaeigenda segir að 250 til 400 milljóna reikningur muni berast íslenskum skattgreiðendum árlega næstu þrjá áratugina vegna þeirra framkvæmda.

Formaður VLFA veit að Samtök atvinnulífsins og ASÍ vilja ráðast í stórfelldar byggingaframkvæmdir hér á landi og að lífeyrissjóðir launafólks láni fé í þessar framkvæmdir. Einnig voru uppi hugmyndir um að þessar vegaframkvæmdir yrðu greiddar með veggjöldum af vegfarendum á öllum stofnæðunum frá höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum launafólk átti að lána lífeyrir sinn í þessar framkvæmdir og greiða síðan lánið með vegtollum, við þessari framkvæmd vil ég segja, þvílíkt kjaftæði.

Formaðurinn segir að núna verða íslenskir skattgreiðendur að stoppa þessa vitleysu af og koma í veg fyrir að hundraða milljarða króna reikningur skelli af fullum þunga á skattgreiðendur. Ríkissjóður hefur alls ekki fjármagn til að ráðast í slíkar framkvæmdir á þessum tímapunkti og frekari byrðar verða ekki lagðar á íslenska skattgreiðendur enda eru þeir blóðugir upp fyrir axlir vegna þeirra byrða sem lagðar hafa verið á þá á liðnum misserum.  Ugglaust eru þetta allt réttlætanlegar framkvæmdir til lengri tíma litið en alls ekki á meðan skefjalaus niðurskurður á sér stað í grunnstoðum okkar samfélags sem er nú þegar farinn að ógna öryggi borgara og sjúklinga eins og áður hefur komið fram.

Formaður félagsins myndi vilja að lífeyrissjóðirnir lánuðu t.d Landspítalanum fjármagn á viðráðanlegum kjörum til að lagfæra húsnæðið og endurnýja öll þau bráðnauðsynlegu tæki sem eru úr sér gengin eins og t.d. geislatæki fyrir krabbameinssjúklinga.  Hann er sannfærður um að hinn almenni sjóðsfélagi í lífeyrissjóðunum sé þessu hlynntur en sá kostnaður væri bara brotabrot af því sem kostar að ráðast í byggingu á nýjum spítala sem er áætlað að muni ekki kosta undir 100 milljörðum.  Það er morgunljóst að þessi endurnýjun á tækjakosti spítalans myndi gagnast okkur öllum vel.

Skattgreiðendur verða að tryggja með öllum tiltækum ráðum að hinir ýmsu sérhagsmunahópar og einstaka kjördæmapotarar vaði ekki hér uppi og skuldsetji íslenskan almenning enn og aftur um tugi ef ekki hundruð milljarða með skelfilegum afleiðingum fyrir allan almenning hér á landi. Slík vinnubrögð eiga að heyra sögunni til, enda þekkjum við afleiðingarnar af slíkum vinnubrögðum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image