• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Dec

Samkomulag gert við Norðurál

Rétt fyrir jól náði Verkalýðsfélag Akraness ásamt þeim félögum sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál samkomulagi vegna ágreinings sem laut að því að starfsmenn sem ráðnir voru til afleysinga í orlofi hafa ekki verið að fá greiddan fullan bónus fyrr en eftir 4 mánuði í starfi.

Samningsaðilar fóru yfir þessa framkvæmd og benti Verkalýðsfélag Akraness á að ekki hafði verið rætt sérstaklega um þessa takmörkun á bónusgreiðslum til afleysingamanna þegar umfangsmiklar breytingar voru gerðar á bónuskerfinu í kjarasamningnum sem tók gildi 1. janúar 2010. Ekkert var getið um slíka takmörkun á bónusgreiðslum til afleysingamanna í þeim kjarasamningi. Voru samningsaðilar sammála um að vafi léki á hvort heimilt hafi verið að greiða ekki umræddum starfsmönnum fulla hlutdeild í árangri en Norðurál byggði sína framkvæmd á samkomulagi sem undirritað var af fyrrverandi trúnaðarmanni frá árinu 2000.

Samningsaðilar gengu frá samkomulagi um að frá og með 1. janúar 2012 breytist framkvæmd greinarinnar 3.14 í kjarasamningi þannig að allir starfsmenn eigi rétt á fullri hlutdeild í árangri frá upphafi ráðningar. Jafnframt er samkomulag um að starfsmenn sem ekki fengu greidda fulla hlutdeild í árangri frá 1. janúar 2010 og út árið 2011 fái greidda eingreiðslu sem svari til mismunar á greiddri hlutdeild annars vegar og fullri hlutdeild í árangri hins vegar sem greidd var á starfstíma árin 2010 og 2011. Áætlað er að kostnaður Norðuráls vegna þessarar leiðréttingar sé um 8 milljónir fyrir hvort ár fyrir sig eða samtals um 16 milljónir króna. Uppgjör fer fram samhliða launaútborgun 31. janúar 2012.

Formaður er afar ánægður með þetta samkomulag og sérstaklega í ljósi þess að ekki hafi þurft að koma til þess að málið færi fyrir félagsdóm. Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir alla þá starfsmenn sem eru ráðnir til afleysinga því nú munu þeir framvegis njóta fulls bónus en ekki með takmörkunum eins og framkvæmdin var áður.

22
Dec

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Skrifstofa félagsins verður lokuð á Þorláksmessu og þriðjudaginn 27. desember en opnar á ný miðvikudaginn 28. desember.

Ef áríðandi mál koma upp er hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

19
Dec

Verkalýðsfélag Akraness hefur styrkt góðgerðafélög um 4 milljónir á liðnum árum.

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðamál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi sínum á fimmtudaginn var að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness um 100.000 kr.  Einnig ákvað stjórn félagsins að styrkja styrktarsjóð Akraneskirkju um 150.000 kr. og mun séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar Skagamanna sjá um að útdeila þeim fjármunum til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum.  Verkalýðsfélag Akraness hefur frá árinu 2005 styrkt hin ýmsu góðgerðasamtök hér á Akranesi um tæpar 4 milljónir í gegnum þennan samning sem félagið gerði við Landsbankann á Akranesi.

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðasamtökum til hjálpar með þessu framlögum. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks á um sárt að binda fjárhagslega um þessar mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

16
Dec

Verðtryggingarvítisvélin

Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað frá 1. janúar 2009 til 1. september 2011 um 18,3 milljarða bara vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar.  Þessu til viðbótar munu verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 3-4 milljarða vegna fyrirhugaðra skattahækkana, samtals eru þetta hækkanir á verðtryggðum skuldum heimilanna frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2012 uppá 22,3 milljarða og þetta er bara vegna hækkunar á neysluvísitölunni vegna skattahækkana.

Íslensk heimili skulda að meðaltali 18 milljónir í verðtryggðum skuldum þannig að jólagjöfin í ár frá ríkisstjórninni til heimilanna er hækkun að meðaltali uppá tæpar 400.000 kr á skuldum heimilanna.  Mér reiknast til að verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna hefi hækkað um hvorki meira né minna en yfir 300 milljarða frá 1. janúar 2008, á þessu sést hverslags vítis- og drápsvél verðtryggingin er íslenskum heimilum.

Vítisvél

Verðtryggingarvítisvélin hefur farið á undanförnum árum eins og skýstrókur um skuldsett heimili og sogað allan eignarhluta í burtu frá heimilunum og fært hann yfir til fjármagnseigenda, banka, lífeyrissjóða og erlendra vogunarsjóða.

Á sama tíma og íslensk heimili þurfa að horfa uppá 400.000 kr. hækkun á  höfuðstól verðtryggðra skulda að meðaltali vegna hækkunar neysluvísitölunnar vegna skattahækkana, þá hækkar lífeyriseign Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J Sigfússonar fjármálaráðherra um 300.000 kr.  vegna þess að neysluvísitalan mun hækka um 0,2% vegna fyrirhugaðra skattahækkana.

Réttlæti og jöfnuður

Eins og fram hefur komið þá er talið að lífeyriseign forsætisráðherra og fjármálaráðherra sé yfir 150 milljónir hvort fyrir sig.  En þessi gríðarlega lífeyriseign er með ríkisábyrgð og verðtryggð sem gerir það að verkum að skattahækkanir sem fara útí neysluvísitöluna gera ekkert annað en að stórhækka lífeyri æðstu ráðamanna.  Er þetta réttlætið og jöfnuðurinn sem þessi ríkisstjórn vill kenna sig við, að alþýða þessa lands þurfi að horfa upp á 400.000 króna hækkun á höfuðstól sinna lána á meðan lífeyrisréttindi oddvita stjórnarflokkanna hækka um 300.000 krónur vegna áðurnefndrar hækkunar á neysluvísitölunni vegna skattahækkana.

Svo talar forysta ASÍ fyrir því að mikilvægt sé að viðhalda verðtryggingunni til að verja eignir lífeyrissjóðanna en það virðist ekki skipta þessa menn neinu máli þótt verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað yfir 300 milljarða frá 1. janúar 2008, já yfir 300 milljarðar hafa verið færðir frá skuldsettum heimilum yfir til fjármagnseigenda, banka, lífeyrissjóða og erlendra vogunarsjóða.  Ég veit ekki betur en að öllu jöfnu ætti húseignin okkar að vera líka okkar lífeyrir.

Verðtryggingarvítisvélinni verður að eyða með öllum tiltækum ráðum því hvaða réttlæti og jöfnuður er það að t.d ofur lífeyrisréttindi æðstu ráðamanna bólgni út á meðan skuldsett heimili horfa uppá eignarhlut sinn sogast í burtu vegna verðtryggingarvítisvélarinnar.

15
Dec

Félagsskírteini 2012

Í lok desember mun félagsskírteini fyrir árið 2012 berast félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness. Einnig verða send út yfirlit vegna greiddra  félagsgjalda á árinu svo og upplýsingabæklingur um sérkjör og afslætti sem félagsmönnum bjóðast gegn framvísun félagsskírteinis.

Athygli er vakin á því að dagbók VLFA verður prentuð í litlu upplagi og ekki send heim til félagsmanna þar sem hún gildir ekki lengur sem félagsskírteini. Hægt verður að nálgast dagbókina um áramót á skrifstofu félagsins eða hafa samband og óska eftir að fá hana senda.

Tvö fyrirtæki hafa bæst við í hóp þeirra sem bjóða félagsmönnum sérkjör og afslætti á árinu 2012, það eru Snyrtistofan Dekur á Dalbraut og Tannlæknastofa Jónasar á Kirkjubraut. Samstarfsfyrirtæki VLFA eru nú orðin 12 talsins:

Tryggingafélagið VÍS: 5% afsláttur af iðgjöldum óháð öðrum afsláttarkjörum sem félagsmenn kunna að hafa.

N1: Umtalsverður afsláttur á eldsneyti, vörum og þjónustu, sjá nánar hér..

Olís: Umtalsverður afsláttur á eldsneyti, vörum og þjónustu, sjá nánar hér.

Apótek Vesturlands: 10% afsláttur af vörum í búð (ekki lyfjum).

Gallerí Ozone: 10% afsáttur.

Omnis: 15% afsláttur af skólavörum, skrifstofuvörum og bleki, 5% afslátt af tölvum og öðrum vörum - 12 mánaða vaxtalaus lán á kreditkort (GSM símar undanskildir).

Bifreiðaverkstæðið Brautin: 7% afsláttur af vinnu.

Model: Blóm og blómaskreytingar 10%, Hljómtæki / sjónvörp 5-10%, Heimilistæki 10%, Skartgripir 10%, Gjafavara 5-10%, Flísar og önnur gólfefni 10%

Rafþjónusta Sigurdórs: Rafþjónusta Sigurdórs býður félagsmönnum 5% afslátt af vinnu og 10% afslátt af efni.

Bílar og dekk: 10% afsláttur af dekkjum.

Snyrtistofan Dekur: 10% afsláttur

Tannlæknastofa Jónasar Geirssonar: 10% afsláttur af vinnu.

13
Dec

Áskorun til fyrirtækja

Nokkur útgerðarfyrirtæki greiða landverkafólki launauppbót í desemberNokkur útgerðarfyrirtæki greiða landverkafólki launauppbót í desemberÞað er afar ánægjulegt að sjá að nokkur útgerðarfyrirtæki, eins og Síldarvinnslan, Eskja, Brim og Samherji, hafa tilkynnt fiskvinnslufólki að þau ætli að greiða þeim launauppbót umfram gildandi kjarasamninga. Þessar greiðslur nema í sumum tilfellum 300 þúsund krónum nú í desember. Sum þessara fyrirtækja greiddu einnig uppbót í júní og nam sú uppbót rúmum 60 þúsund krónum.

Formanni reiknast til að einstök fiskvinnslufyrirtæki hafi greitt landverkafólki allt að 1 milljón króna á síðustu þremur árum umfram gildandi kjarasamninga. Fyrir slíkt ber að þakka enda kemur það þeim starfsmönnum sem starfa í fiskvinnslunni afar vel, enda launakjör fiskvinnslufólks ekki til að hrópa húrra fyrir.

Hins vegar hryggir það formann Verkalýðsfélags Akraness að t.d eitt stærsta útgerðarfyrirtæki á landinu, HB Grandi, hefur ekki séð sér fært að fylgja þessu glæsilega fordæmi þessara fyrirtækja þegar um launauppbót er að ræða. En í fyrra hafði formaður Verkalýðsfélags Akraness samband við forsvarsmenn HB Granda þar sem óskað var eftir að þeir myndu fylgja fordæmi annarra útgerðarfyrirtækja og greiða álíka uppbót, en því miður var því erindi hafnað.   

 

Þessar launauppbætur sýna hins vegar að það var rétt mat hjá Verkalýðsfélagi Akraness þegar félagið sagði við gerð síðustu kjarasamninga að fiskvinnslufyrirtækin hefðu svo sannarlega borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna umfram svokallaða samræmda launastefnu sem ASÍ og Samtök Atvinnulífsins. Það er því í raun og veru sorglegt að stór og sterk sjávarútvegsfyrirtæki geti skýlt sér á bak við gildandi kjarasamning sem gerður var í anda svokallaðrar samræmdrar launastefnu, samræmdrar launastefnu þar sem lítið sem ekkert tillit mátti taka til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.

Verkalýðsfélag Akraness telur fulla þörf á að þakka þegar fyrirtæki gera vel við sína starfsmenn umfram gildandi kjarasamninga, enda vílar félagið ekki heldur fyrir sér að gagnrýna fyrirtæki harðlega þegar þau standa sig ekki sem skyldi gagnvart sínum starfsmönnum.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á öll fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði og getu til að fylgja þessu fordæmi þessara fyrirtækja og greiða sínum starfsmönnum launauppbót því ekkert fyrirtæki er án góðra starfsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image