• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Nov

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness í vinnslu

Tvisvar á ári gefur Verkalýðsfélag Akraness út fréttabréf í þeim tilgangi að kynna starfsemi og þjónustu félagsins og segja fréttir af þeim málum sem félagið vinnur að hverju sinni.

Starfsfólk skrifstofu VLFA vinnur nú að gerð næsta fréttabréfs og verður það aðeins efnismeira en venja er til. Meðal efni blaðsins er aldarminning Herdísar Ólafsdóttur fyrrverandi formanns kvennadeildar, ritara félagsins og starfsmanns skrifstofu í yfir 30 ár og viðtal við Þórarin Helgason sem nýverið lét af störfum í stjórn félagsins. Einnig verður sögð ferðasaga "eldri deildar" VLFA í máli og myndum auk ýmissa frétta af málefnum félagsins.

Blaðinu verður dreift á öll heimili á Akranesi og í nærsveitum þann 1. desember nk. Lesa má eldri fréttabréf VLFA með því að smella hér.

08
Nov

Heilbrigðisstofnun Vesturlands verður stefnt fyrir félagsdómi

Formaður félagsins fundaði með lögmanni félagsins í morgun þar sem tekin var ákvörðun um að stefna Heilbrigðisstofnun Vesturlands fyrir félagsdómi vegna brota á kjarasamningi. En 1. janúar á síðasta ári tilkynnti stofnunin starfsmönnum einhliða eftir fyrirmælum frá fjármálaráðuneytinu um að HVE ætti að hætta að greiða starfsmönnum vaktaálag þegar starfsmenn tækju helgidagafrí í samræmi við svokallað 12 daga frí sem þeir eiga rétt á.

Þessar greiðslur hafa verið greiddar til starfsmanna í áraraðir og jafnvel í áratugi og það er mat lögmanns félagsins og formanns að ekkert kveði á um í kjarasamningum að starfsmenn eigi ekki rétt á vaktaálagsgreiðslum þegar áðurnefnd frí eru tekin. Enda stendur í aðalkjarasamningi, grein 2.6.7.: "Starfsmaður sem vinnur á reglubundnum vöktum alla daga ársins, getur í stað greiðslna skv. gr. 2.3.2. fengið frí á óskertum föstum launum í 88 vinnuskyldustundir á ári miðað við fullt starf í heilt ár." Eins og á þessu sést er kveðið á um óskert föst laun og vaktaálög eru sannarlega hluti af föstum launum starfsmanna. Á þeirri forsendu stenst þessi ákvörðun HVE og fjármálaráðuneytisins á engan hátt og því ætlar Verkalýðsfélag Akraness að láta á málið reyna fyrir dómi.

Það er einu sinni þannig að launakjör ófaglærðs fólks á heilbrigðisstofnunum eru ekki til að hrópa húrra fyrir og því þarf að verja öll þau réttindi sem umræddir starfsmenn eru með með kjafti og klóm og það mun Verkalýðsfélag Akraness gera í þessu máli sem og öðrum.

04
Nov

Rekstrarafkoma þriggja stærstu fyrirtækja á félagssvæði VLFA mjög góð

Verksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaVerksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaÞað er afar ánægjulegt að sjá að þrjú af stærstu fyrirtækjunum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness skiluðu umtalsverðum hagnaði á árinu 2010 samkvæmt upplýsingum sem fram koma í bókinni 300 stærstu fyrirtæki á Íslandi.

Formaður VLFA hefur verið að rýna í þessar rekstrartölur og kemur meðal annars fram að heildarvelta HB Granda var rúmir 23 milljarðar, eigið fé fyrirtækisins er um 22 milljarðar og hagnaður á árinu 2010 voru rúmir 3 milljarðar króna. Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness starfa hjá fyrirtækinu, bæði í landvinnslu og til sjós.

Hjá Elkem Ísland, þar sem 213 manns starfa, var heildarveltan upp á 23,5 milljarða, eigið fé fyrirtækisins var 22,5 milljarðar og hagnaður ársins fyrir skatta voru 2 milljarðar króna. Á þessu sést að rekstur Elkem Ísland á Grundartanga var mjög góður.

Það fyrirtæki sem skilaði mestum hagnaði á árinu 2010 á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness var Norðurál en það fyrirtæki skilaði fyrir skatta hvorki meira né minna en 10 milljörðum í hagnað en heildarvelta Norðuráls nam 55 milljörðum. Til að sýna sterka stöðu Norðuráls er eigið fé hvorki meira né minna en 60 milljarðar króna.

Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Verkalýðsfélag Akraness og í raun og veru allt samfélagið hér á Akranesi og í nærsveitum þessi sterka staða þessara kjölfestufyrirækja. Þetta var ein af röksemdarfærslum Verkalýðsfélags Akraness þegar félagið barðist með kjafti og klóm gegn svokallaðri samræmdri launastefnu, þessi sterka staða sem útflutningsfyrirtækin byggju yfir í kjölfar gengisfalls íslensku krónunnar og hækkandi afurðaverðs. Sem betur fer náði félagið að brjóta á bak aftur þessa samræmdu launastefnu sem byggðist á því að allir launþegar áttu að fá sömu launahækkanir, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Þessar afkomutölur styðja að málflutningur Verkalýðsfélags Akraness fyrir því að útflutningsfyrirtæki ættu að greiða meira heldur en aðrar atvinnugreinar var á rökum reistur. En sem dæmi þá hækkuðu laun starfsmanna Norðuráls um 14,1% á þessu ári og starfsmanna Elkem Ísland álíka sem er langt fyrir ofan það sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessi góða staða vekur bjartsýni fyrir því að hægt verði að bæta kjör starfsmanna í stórðiðjum enn frekar í náinni framtíð því eins og segir í orðatiltækinu, betur má ef duga skal.

03
Nov

Tvö ágreiningsmál gætu endað fyrir Félagsdómi

Verkalýðsfélag Akraness vinnur nú að tveimur hagsmunamálum fyrir sína félagsmenn er lúta að broti á kjarasamningum að mati félagsins. Hér er um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir þá félagsmenn sem um ræðir. Á þessari stundu er æði margt sem bendir til þess að bæði málin muni enda fyrir félagsdómi enda er það mat lögmanns félagsins að hér sé um klárt brot á kjarasamningi að ræða.

Ítarleg grein verður gerð fyrir þessum málum ef ekki næst niðurstaða í þeim, en það ætti að skýrast um miðjan þennan mánuð hvort félagið neyðist til að fara með þessi mál fyrir félagsdóm eður ei.

Það er alveg skýr stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að réttindi félagsmanna verða varin með kjafti og klóm ef félagið telur að um brot á kjarasamningsbundnum réttindum sé að ræða og er þá að sjálfsögðu ekki horft í kostnað hvað þá réttindagæslu varðar. 

01
Nov

Sérkjör og afslættir fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness

Á árinu 2011 hefur félagsskírteini Verkalýðsfélag Akraness gilt sem afsláttarkort hjá fjölda fyrirtækja og þjónustuaðila á Akranesi. Þetta samstarf hefur gengið frábærlega og hefur mikill fjöldi félagsmanna notið góðs af þeim sérkjörum sem þessir samstarfsaðilar bjóða. Að sjálfsögðu verður framhald á þessu samstarfi og hefur Verkalýðsfélag áhuga á að ná samkomulagi við ennþá fleiri fyrirtæki um sérkjör og afslætti til félagsmanna.

Þau fyrirtæki sem eru tilbúin til að veita félagsmönnum VLFA sérkjör og afslætti eru eindregið hvött til að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900 eða senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Rétt er að geta þess að um 3.000 félagsmenn eru í VLFA og mun félagið sjá um að kynna þessi afsláttarkjör vel og rækilega fyrir sínum félagsmönnum.

Samstarfsaðilar Verkalýðsfélags Akraness eru:

Tryggingafélagið VÍS: 5% afsláttur af iðgjöldum óháð öðrum afsláttarkjörum sem félagsmenn kunna að hafa.

N1: Umtalsverður afsláttur á eldsneyti, vörum og þjónustu, sjá nánar hér.

Olís: Umtalsverður afsláttur á eldsneyti, vörum og þjónustu, sjá nánar hér.

Apótek Vesturlands: 10% afsláttur af vörum í búð (ekki lyfjum).

Gallerí Ozone: 10% afsláttur.

Omnis: 15% afsláttur af skólavörum, skrifstofuvörum og bleki, 5% afslátt af tölvum og öðrum

vörum - 12 mánaða vaxtalaus lán á kreditkort (GSM símar undanskildir).

Bifreiðaverkstæðið Brautin: 7% afsláttur af vinnu.

Model: 5-10% afsláttur af ýmsum vörum og tækjum, sjá nánar hér.

Rafþjónusta Sigurdórs: Rafþjónusta Sigurdórs býður félagsmönnum 5% afslátt af vinnu og 10% afslátt af efni.

Bílar og dekk: 10% afsláttur af dekkjum.

Dekur snyrtistofa: 10% afsláttur af allri þjónustu og vörum.

Grand Hótel Reykjavík: Ýmis fríðindi og betri kjör á veitingum, gistingu og salarleigu, sjá nánar hér.

27
Oct

Gott námskeið með atvinnuleitendum

Formaður félgasins hélt kynningu í morgun fyrir hóp atvinnuleitenda um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Einnig fór formaður ítarlega yfir þau réttindi og þá þjónustu sem félagið býður sínum félagsmönnum upp á en það er alveg óhætt að fullyrða að sú þjónusta er með því besta sem gerist hjá stéttarfélögum í dag.

Námskeiðið stóð í tæpa 3 klukkutíma og sköpuðust fjörugar umræður um hin ýmsu mál er lúta að réttindum og skyldum á íslenskum vinnumarkaði og var ánægjulegt að sjá hversu mikill áhugi var meðal atvinnuleitanda og hversu virkan þátt þeir tóku í námskeiðinu. Það gladdi formann fyrir hönd starfsmanna og stjórnar Verkalýðsfélags Akraness hversu jákvæðum orðum atvinnuleitendurnir fóru um starfsemi félagsins og þá þjónustu sem félagið er að veita sínum félagsmönnum. Það er svona hvatning sem hvetur stjórn og starfsmenn félagsins til að halda áfram því góða starfi sem nú er unnið hjá VLFA en það er ljóst að þeirri vinnu lýkur aldrei við að gæta að hagsmunum og verja réttindi félagsmanna.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image