• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Sep

Síðasti kynningarfundur VLFA um launalið Norðuráls var í gær

Í gær var haldinn síðasti kynningarfundurinn sem formaður VLFA hélt fyrir starfsmenn Norðuráls um efni nýgerðs samnings um launalið kjarasamnings Norðuráls en formaður hélt eina fimm kynningarfundi í þessari viku.

Fram kom í máli formanns að hann telur að þessi samningur sé mjög góður fyrir starfsmenn Norðuráls og sem dæmi þá mun verkamaður á vöktum vera kominn með í heildarlaun 1. desember næstkomandi um 502 þúsund krónur. Iðnaðarmaður á vöktum verður kominn með í heildarlaun um 650 þúsund krónur en á bak við þessi laun liggur vaktavinna og heildar vinnustundafjöldi á mánuði er 182 tímar. Mjög algengt er að vaktavinnufólk með 3 ára starfsreynslu eða meira sé að hækka í launum um eða yfir 60 þúsund krónur frá og með 1. desember. Hinsvegar eru iðnaðarmenn á vöktum að hækka um allt að 82 þúsund krónur á mánuði miðað við þau laun sem þeir hafa í dag ef samningurinn verður samþykktur.

Það náðist einnig í gegn í þessum samningi svokallaður stóriðjuskóli sem hefur verið baráttumál félagsins og starfsmanna um alllanga hríð en skólinn mun skila starfsmönnum að afloknu grunnnámi 5% hækkun á grunnlaun og að afloknu framhaldsnámi mun hækkunin vera 4% eða samtals 9% hækkun á grunnlaunum. Til stendur að láta stóriðjuskólann hefjast í byrjun janúar 2012 ef allt gengur upp og ef það tekst munu fyrstu starfsmenn Norðuráls útskrifast úr skólanum um vorið 2013.  

Hægt verður að kjósa um samninginn til kl. 12 á hádegi á mánudaginn en áætlað er að yfir 85% hafi nú þegar kosið. Niðurstaða talningar mun verða birt um leið og hún liggur fyrir.

26
Sep

Starfsmenn Norðuráls minntir á kynningarfundi framundan

Nýtt samkomulag um launalið kjarasamnings verður kynnt fyrir starfsmönnum Norðuráls næstu daga og eru starfsmenn hvattir til að mæta á kynningarfund, kynna sér efni samningsins og taka afstöðu til samningsins með kosningu. Sérstaklega er vakin athygli á því að nú er búið að bæta við kynningu fyrir starfsmenn Kerfóðrunar sem boðað hefur verið til í kvöld kl. 19:30 á vinnustaðnum.

Formaður félagsins mun sjá um kynningarnar og verða þær sem hér segir:

 

  • Mánudaginn 26. september kl. 16 á Gamla Kaupfélaginu
  • Mánudaginn 26. september kl. 19:30 fyrir starfsmenn í Kerfóðrun á vinnustaðnum
  • Þriðjudaginn 27. september kl. 17 á Gamla Kaupfélaginu
  • Miðvikudaginn 28. september kl. 17 á Gamla Kaupfélaginu
  • Fimmtudaginn 29. september kl. 17 á Gamla Kaupfélaginu

Hægt verður að kjósa um samninginn að aflokinni kynningu og einnig verður hægt að kjósa á vinnustaðnum á skrifstofu aðaltrúnaðarmanns frá og með deginum í dag. 

Þeir sem komast ekki á kynningar eða vilja fá nánari upplýsingar um innihald samningsins skulu vera óhræddir við að hringja í formann VLFA hvenær sem er, en sími formanns er 865-1294.

23
Sep

Launaliður kjarasamnings Norðuráls undirritaður hjá Ríkissáttasemjara í dag

Í húsakynnum Ríkissáttasemjara  var rétt í þessu undirritað samkomulag um hækkun á launalið kjarasamnings Norðuráls sem hefur verið laus frá 1. janúar sl. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur átt í viðræðum við forstjóra fyrirtækisins á liðnum vikum til lausnar á þessari erfiðu kjaradeilu sem lauk eins og áður sagði með undirritun rétt áðan.

Stóriðjuskóli

Hækkun launaliðar á samningstímanum mun gefa allt að 21,4% og því til viðbótar var samið um stóriðjuskóla sem hefur verið baráttumál starfsmanna um alllanga hríð, en áætlað er að skólinn hefji starfsemi innan árs frá undirritun samkomulagsins. Hins vegar er það einlægur vilji fyrirtækisins að stóriðjuskólinn hefji starfsemi í janúar 2012 og reynt verður eftir fremsta megni að láta það verða að veruleika. Grunnnám stóriðjuskólans, sem mun taka 3 annir, mun gefa starfsmönnum viðbótarhækkun upp á 5% og framhaldsnám skólans mun gefa 4% til viðbótar.

Hækkun grunnlauna

Annað sem um var samið í þessum samningi er hækkun á grunnlaunum um 5,35% frá 1. janúar 2011. Síðan munu þeir sem hafa starfað í 3 ár eða lengur fá 3% hæfnisálag ofan á grunnlaun. Þessu til viðbótar kemur önnur hækkun 1. desember á þessu ári upp á 5,35%. Með öðrum orðum þá fær starfsmaður sem starfað hefur í 3 ár hjá Norðuráli 14,2% launahækkun á árinu 2011. Þeir sem hafa starfað skemur en í 3 ár munu hins vegar fá 11% launahækkun á þessu ári, en þeim er tryggt að um leið og þriggja ára starfsaldri verður náð þá muni starfsmenn fá 3% án þess að þurfa að uppfylla skilyrði sem kveðið er á um í hæfnisálagi. Þeir sem hefja störf eftir 1. september 2011 þurfa hins vegar að uppfylla viss skilyrði til að fá þessi 3%, en ekki mun koma til framkvæmda á því fyrr en eftir 3 ár, eðli málsins samkvæmt.

Einnig mun koma 1% hækkun á launflokkum iðnaðarmanna 116/216 annars vegar og 117/217 hins vegar. Aðrar almennar launahækkanir eru 3,25% 1. janúar 2013 og 3% 1. janúar 2014.

Orlofs- og desemberuppbætur

Orlofs- og desemberuppbætur fyrir árið 2011 og 2012 munu hækka úr 264.000 í 293.000, en rétt er að geta þess að orlofs-uppbótin sem greidd var út í júní verður leiðrétt afturvirkt um 5,35% eins og öll önnur laun sem greidd hafa verið frá 1. janúar 2011 til dagsins í dag. Orlofs- og desemberuppbætur fyrir árið 2013 verða kr. 302.000 og fyrir árið 2014 kr. 311.000.

Sem dæmi þá munu laun vaktamanns með 5 ára starfsreynslu hafa hækkað frá 1. september 2011 um tæpar  kr. 36.000 á mánuði og síðan kemur önnur hækkun 1. desember og þá hafa laun hans hækkað um kr. 61.000 tæpar. Þá hafa heildarlaun þessa vaktamanns hækkað úr kr. 439.000 upp í tæp kr. 502.000 á mánuði. Iðnaðarmaður með 5 ára starfsreynslu á vöktum mun hækka um rúmar 47.000 kr. á mánuði frá og með 1. september og eftir hækkunina 1. desember nk. þá hafa laun hans hækkað um rétt rúmar 80.000 kr. á mánuði. Þá hafa heildarlaun hans hækkað úr rúmum 564.000 kr. í rúmar 644.000 kr. á mánuði.

Eins og áður hefur komið fram þá verða öll laun starfsmanna jafnt þeirra sem eru í starfi núna sem og þeirra sem hafa verið í sumarafleysingum eða hafa látið af störfum leiðrétt um 5,35% aftur til 1. janúar 2011.

Heilt yfir er formaður félagsins afar ánægður með þessa niðurstöðu sem í raun og veru hefur kostað blóð, svita og tár, þótt vissulega sé það alltaf þannig þegar kjaraviðræður eiga sér stað að menn myndu vilja fá meira. Það er hins vegar sannfæring formanns að lengra verði ekki komist í þessari lotu, enda telur formaður að mjög margt jákvætt hafi náðst í þessum samningi og nægir að nefna stóriðjuskólann í því samhengi og einnig þá bláköldu staðreynd að frá og með 1. desember nk. er launamunur á milli vaktavinnumanna Norðuráls og Fjarðaáls orðinn óverulegur sem var jú eitt af stóru baráttumálunum í þessum viðræðum. Það verður að teljast afar góð niðurstaða miðað við horfurnar í kjaraviðræðunum á liðnum mánuðum.

Formaður félagsins mun kynna þennan samning rækilega fyrir starfsmönnum og verða kynningarfundir haldnir á Gamla Kaupfélaginu sem hér segir:

 

  • Mánudaginn 26. september kl. 16
  • Þriðjudaginn 27. september kl. 17
  • Miðvikudaginn 28. september kl. 17
  • Fimmtudaginn 29. september kl. 17

Hægt verður að kjósa um samninginn að aflokinni kynningu og einnig verður hægt að kjósa á vinnustaðnum á skrifstofu aðaltrúnaðarmanns strax eftir helgi.

Að lokum vill formaður VLFA hvetja alla þá sem vilja fá nánari upplýsingar um innihald samningsins að vera óhrædda við að hringja í sig hvenær sem er, en sími formanns er 865-1294.

22
Sep

Fundað hjá ríkissáttasemjara á morgun vegna launaliðar Norðuráls

Húsakynni ríkissáttasemjaraHúsakynni ríkissáttasemjaraBoðað hefur verið til samningafundar í húsakynnum ríkissáttasemjara á morgun kl. 10 vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá rann kjarasamningur starfsmanna út um síðustu áramót og hafa starfsmenn því verið án launahækkana í rétt um 9 mánuði.

Formaður hefur átt í óformlegum viðræðum við Ragnar Guðmundsson, forstjóra Norðuráls, um mikilvægi þess að ná lausn í þessari erfiðu deilu en það mun skýrast á fundinum á morgun hvort það takist eða ekki. Eins og staðan er í dag er formaður félagsins nokkuð vongóður um að loksins sjái fyrir endann á þessari erfiðu deilu. Enda er gríðarlega mikilvægt að starfsmenn fái launahækkanir í ljósi þess að allt í íslensku samfélagi hefur hækkað umtalsvert á liðnum misserum. Á þeirri forsendu er orðið erfitt fyrir íslenska launþega að láta enda ná saman á meðan allt hækkar eins og áður sagði en launin standa í stað.

Ef samningur næst um launalið á morgun mun formaður kynna sínum félagsmönnum vel og rækilega innihald þess samnings og nú er bara að vona að það sjái fyrir endann á þessari erfiðu deilu eins og áður sagði.  

21
Sep

Bústaðurinn í Kjós er laus næstu helgi

Vegna forfalla er bústaður félagsins í Kjós laus nú um næstu helgi, 23.-26. september.Í bústaðnum eru þrjú tvíbreið rúm auk þess sem aukadýnur eru til staðar en nánari upplýsingar um bústaðinn er að finna hér.

Hægt er að bóka bústaðinn með því að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900 eða á félagavefnum.

19
Sep

Hver þarf að eiga óvini þegar hann á svona vini?

Það  er þyngra en tárum taki að verða vitni að því hvernig svokallaðar vinaþjóðir koma fram við smáþjóð eins og okkur Íslendinga.  Í kjölfar bankahrunsins settu Bretar á okkur hryðjuverkalög sem hafa að öllum líkindum kostað þjóðina tugi milljarða króna og því til viðbótar liggur fyrir að orðspor þjóðarinnar hefur beðið verulegan skaða af á alþjóðavettvangi vegna þessarar ákvörðunar breskra stjórnvalda.

Áfram halda þessar svokölluðu vinaþjóðir að höggva í sama knérunn en Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrir nokkrum dögum að gripið yrði til diplómatískra aðgerða gegn Íslandi vegna hvalveiða Íslendinga.

Formaður félagsins spyr, hvað eru bandarísk stjórnvöld að skipta sér af hvalveiðum Íslendinga í ljósi þeirra staðreynda að hvalveiðar Íslendinga eru löglegar og alþjóðleg viðskipti með hvalaafurðir eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Að fá slíka hótun frá stórveldi eins og Bandaríkjamönnum er grafalvarlegt í ljósi þeirra staðreynda að það liggur fyrir að veiðar Íslendinga á hrefnu og langreyðum eru byggðar á löglegum og traustum vísindalegum grunni og það er skylda íslenskra stjórnvalda að mótmæla svona ofbeldi af fullri hörku.

Það er stórmál ef stórþjóðir eins og Bandaríkin ætla að skipta sér af því hvernig við nýtum  okkar sjávarauðlindir sem eru nýttar samkvæmt útgefnum kvótum að fenginni ráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun.

Það vita allir að afkoma okkar Íslendinga byggist að stórum hluta á sjávarfangi en um 50% gjaldeyristekna þjóðarinnar kemur frá sjávarútvegnum. Því eru svona hótanir ekkert annað en aðför að velferð okkar Íslendinga. Formaður VLFA spyr hvar mun þessi vitleysa  enda og getum við átt von á því að gerð verði krafa um að veiðum verði hætt á öðrum fiskistofnum eins og t.d. þorski.

Það er morgunljóst að hvalveiðar skipta þjóðarbúið máli svo ekki sé talað um samfélagið hér á Akranesi en um 200 manns störfuðu við veiðar og vinnslu á vertíðinni 2010 og sem dæmi voru meðallaun yfir 700.000 kr. á mánuði. Þó er rétt að geta þess að mikið vinnuframlag lá að baki slíkum launum.

Því miður þurfti Kristján Loftsson hjá Hval hf. að hætta við hvalveiðar á þessari vertíð vegna náttúruhamfaranna sem riðu yfir Japan, en það er einlæg von mín úr rætist á næsta ári þannig að hægt verði að hefja veiðar á langreyðum strax í júní á næsta ári.

Formaðurinn skorar á íslensk stjórnvöld að mótmæla harðlega þessum aðgerðum Bandaríkjamanna sem eru eins og áður sagði ógn við velferð og sjálfstæði okkar Íslendinga til að nýta okkar sjávarauðlindir.

Hver þarf að eiga óvini þegar hann á svona vini eins og Breta og Bandaríkjamenn?

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image