• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Sep

Fundur í kvöld kl. 20:30 fyrir starfsmenn Norðuráls

Mætum öll í kvöld!Félagið vill enn og aftur minna á gríðarlega mikilvægan samstöðu- og kynningarfund fyrir starfsmenn Norðuráls sem haldinn verður í Bíóhöllinni í kvöld kl. 20:30.

Mjög mikilvægt er að allir starfsmenn sem ekki eru á vakt á þessum tíma mæti á fundinn.

13
Sep

Kynningar- og samstöðufundur fyrir starfsmenn Norðuráls

Kynningar- og samstöðufundur verður haldinn fyrir starfsmenn Norðuráls næstkomandi fimmtudag, 15. september. Fundurinn fer fram í Bíóhöllinni og hefst kl. 20:30. Á fundinum mun formaður félagsins fara yfir stöðu mála en launaliður starfsmanna hefur verið laus frá áramótum. Einnig verður farið yfir hvað hægt sé að gera og ekki síst hvað starfsmenn vilja gera í þessari erfiðu stöðu. Því er gríðarlega mikilvægt að allir sem mögulega geta mæti á fundinn og sýni þannig samstöðu í verki.  

12
Sep

Ferð "eldri deildar" Verkalýðsfélags Akraness vel heppnuð

Síðastliðinn föstudag héldu eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness ásamt mökum í sína árlegu dagsferð á vegum félagsins. Þátttakendur voru um 100 talsins auk fulltrúa frá félaginu. Þessi ferð er árlegur liður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var ferðinni heitið til Reykjavíkur undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen.

Ekið var í tveimur rútum sem leið lá norður fyrir Akrafjall að Grundartanga þar sem ekki var áð, en aðeins keyrt um þetta svæði þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu ár með tilheyrandi nýbyggingum og nýjum fyrirtækjum sem hafa hafið þar starfsemi sína.

Frá Grundartanga var ekið um Hvalfjarðargöng að Kjalarnesi. Hringur var ekinn um Grundarhverfi áður en haldið var áfram suður Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ og að Korpúlfsstöðum, framhjá Egilshöll og áfram upp í Grafarholt þaðan sem frábært útsýni er í allar áttir og ekki síst að Esju og upp á Akranes.

Fyrsti áningarstaður ferðarinnar var í Morgunblaðshúsinu í Hádegismóum þar sem vel var tekið á móti okkur. Karl Blöndal aðstoðarritstjóri ræddi við hópinn og svaraði fyrirspurnum og síðan tók Svanhvít starfsmannastjóri við hópnum og leiddi hann í skoðunarferð um prentsmiðjuna.

Frá Hádegismóum var ekið rakleiðis að Árbæjarsafni þar sem leiðsögumennirnir Hjördís og Karl skiptu hópnum á milli sín og leiddu um safnið. Góður rómur var gerður að kynningu þeirra og hefðu margir vilja dvelja lengur á safninu enda könnuðust sumir vel við að hafa búið í húsum keimlíkum þeim sem tilheyra sýningunni á Árbæjarsafni.

Næsti viðkomustaður var Höfði þar sem ferðafólk teygði úr sér í góða veðrinu og skoðaði þetta virðulega og sögulega hús, en búið er að setja upplýsingaskilti við húsið sem fróðlegt er að skoða.

Þegar hér var komið sögu var ferðfólk farið að svengja enda sól að nálgast hádegisstað. Hádegisverður var snæddur á veitingastaðnum Munnhörpunni sem staðsettur í hinu nýja tónlistarhúsi Hörpu. Eftir matinn gat fólk gengið um Hörpu og skoðað húsið.

Frá Hörpu var ekið að Þjóðarbókhlöðu þar sem hópurinn fékk hlýjar móttökur. Í kynningu sem hópurinn fékk var sérstaklega tekið fram hversu ánægjulegt það væri að fá að kynna þjónustu bókhlöðunnar fyrir þessum aldurshópi þar sem yfirleitt væru notendur safnsins í yngri kantinum og aukinn fjölbreytileiki í þeim efnum væri af hinu góða.

Eftir að hafa blaðað aðeins í tímaritum og bókum á Þjóðarbókhlöðu lá leiðin á Austurvöll þar sem Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, tók á móti hópnum og fylgdi um Alþingishúsið ásamt starfsmönnum Alþingis. Hópurinn fékk góða og fróðlega leiðsögn um húsið og gott spjall við ráðherrann. Vegna stærðar hópsins þurfti að tvískipta honum og fór sá hópur sem var utanþings í Ráðhús Reykjavíkur þar sem sumir skoðuðu upphleypta Íslandskortið á meðan aðrir gengu að Tjörninni og gáfu öndunum brauð.

Á heimleiðinni var komið við í Perlunni þar sem félagið bauð upp á síðdegishressingu.

Þykir ferðin í ár hafa heppnast einstaklega vel og kann félagið öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hennar bestu þakkir fyrir. Sérstakar þakkir fær Björn Finsen leiðsögumaður sem kann, að því er virðist, áhugaverða sögu um hvern stein og hvert götuhorn sem á vegi hans verður, samferðafólki hans til fræðslu og yndisauka.

Hægt er að skoða myndir úr ferðinni með því að smella hér.

08
Sep

Fundur með starfsmönnum Norðuráls fimmtudaginn 15. september

Nú er liðinn 251 dagur frá því launaliður kjarasamnings Norðuráls rann út og hafa formlegir samningafundir ekki borið árangur til þessa. Krafa Verkalýðsfélags Akraness í þessum viðræðum er jöfnuður við verksmiðjur í sambærilegum iðnaði en því miður hafa launakjör hjá Norðuráli verið töluvert lakari en gerist í öðrum sambærilegum verksmiðjum.

Formaður hefur átt óformlega fundi með forsvarsmönnum Norðuráls að undanförnu þar sem leitað er leiða til að finna lausn á þeim ágreiningi sem er á milli samningsaðila. Hefur það ekki borið árangur til þessa en þessum óformlegu viðræðum verður haldið áfram. Nú liggur fyrir að kjarasamningur Alcan í Straumsvík sem undirritaður var fyrir skemmstu var kolfelldur í atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna en ein af kröfum starfsmanna Norðuráls er einmitt jöfnuður meðal annars við Alcan í Straumsvík.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að halda fund með starfsmönnum Norðuráls sem haldinn verður í Bíóhöllinni fimmtudaginn 15. september næstkomandi en þar mun formaður fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni og kalla eftir viðbrögðum frá starfsmönnum um hvað gera skuli. Félagið leggur mikla áherslu á það að upplýsa starfsmenn eins vel og kostur er um þá möguleika sem í stöðunni eru en eins og áður sagði er það morgunljóst að félagið mun ekki hvika frá þeirri sanngjörnu kröfu að launakjör í Norðuráli verði með sambærilegum hætti og í sambærilegum verksmiðjum hér á landi. Það liggur fyrir að baráttumál eins og upptaka á stóriðjuskóla, sem mun skila starfsmönnum ávinningi að loknu námi, virðist vera að nást í þessum viðræðum, eina sem útaf stendur er hversu mikill sá ávinnungur verður og hvenær skólinn á að hefjast. En formaður er vongóður um að niðurstaða muni nást í þessu máli sem ætti að geta verið ásættanleg fyrir starfsmenn.

Eins og áður sagði er 251 dagur liðinn frá því að launaliðurinn rann út og því er mjög mikilvægt að niðurstaða fari að komast í þessar viðræður því það er ekki hægt að bjóða starfsmönnum upp á að vera án kjarasamningsbundinna launahækkana í eina 9 mánuði eins og raunin er nú orðin.

06
Sep

Kjarasamningur VLFA við sveitarfélögin

Kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var þann 7. júlí síðastliðinn hefur nú verið prentaður. Þeir félagsmenn sem starfa fyrir sveitarfélögin geta nálgast innbundið eintak af samningnum á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13. Hægt er að nálgast vefútgáfu af samningnum hér og einnig má nálgast kauptaxtana hér.

02
Sep

Nýi sumarbústaðurinn klár til útleigu 16. september

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá festi Verkalýðsfélag Akraness nýverið kaup á sumarbústað að Berjabraut 10 í Kjós í Hvalfirði sem er einungis í 25 mínútna akstursfjarlægð frá Akranesi. Þetta er 83 fm bústaður sem byggður var 2005 og er allur hinn glæsilegasti. Nú hafa iðnaðarmenn verið að störfum við að stækka pall og aðlaga bústaðinn að þörfum félagsmanna og er áætlað að bústaðurinn verði klár til útleigu föstudaginn 16. september. Hins vegar verður nokkurra vikna bið á því að hægt verði að taka í notkun heitan pott vegna þess að nokkurra vikna afhendingatími er á þeim potti sem pantaður hefur verið.

Starfsmenn hafa verið að kaupa inn húsbúnað og annað innbú og er ljóst að bústaðurinn verður allur hinn glæsilegasti þegar hann verður tilbúinn til útleigu fyrir félagsmenn. Vonandi munu félagsmenn nýta sér þennan valmöguleika vel enda er bústaðurinn staðsettur á gríðarlega fallegum stað í Hvalfirði. Hægt er að panta bústaðinn nú þegar, en eins og áður sagði hefst útleigan föstudaginn 16. september.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image