• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Aug

Hvernig er hægt að tapa 4,4 milljörðum á einu olíufélagi

Formaður spyr hvernig það megi vera að lífeyrissjóðir launafólks nái að tapa 4.400 milljónum og það á einu olíufélagi. Hvaða tryggingar og veð lágu eiginlega á bakvið þessar gríðarlegu skuldir N1 við lífeyrissjóðina? Er það tilfellið að tryggingar hafi verið litlar sem engar?

Það er ekki bara að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 4,4 milljörðum á N1 heldur liggur í loftinu einnig tap lífeyrissjóðanna á skuldabréfum í Símanum og hef ég tryggar heimildir fyrir því að alla vega einn lífeyrissjóður er byrjaður að færa skuldir Símans niður hjá sér. Rétt er að rifja það upp að á árinu 2006 fór fram skuldbréfaútboð hjá Símanum uppá 15 milljarða og gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðir launafólks hafi verið stórkaupendur í því útboði og því verður fróðlegt að fylgjast með því hvort næsti skellur hjá íslensku launafólki liggi í afskriftum á skuldabréfum í Símanum.

Ekki stendur á stjórnendum lífeyrissjóðanna að krefja sjóðsfélaga sem taka lán hjá sjóðunum um tryggingar í bak og fyrir og eru sjóðsfélagar girtir upp yfir haus með greiðslumati, tryggu veði, verðtryggingu og sjálfskuldarábyrgð. En á sama tíma var verið að kaupa skuldabréf af fyrirtækjum með engri tryggingu annarri en útblásnum efnahagsreikningum fyrirtækjanna, efnahagsreikningum sem voru stútfullir að lofti eins og sagan hefur sýnt okkur.

800 milljarða tap

Hvað hefur Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur við Háskóla Íslands ekki sagt, jú hann telur að lífeyrissjóðirnir hafi tapað allt 800 hundruð milljörðum í kjölfarið á hruninu.

Á þeirri forsendu einni saman er með ólíkindum að ekki hafi farið fram rannsókn á starfssemi og fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna og þá óháð rannsókn, ekki rannsókn sem lífeyrissjóðirnir sjálfir stjórna og kosta. Hvað sagði ekki í Rannsóknarskýrslu Alþingis bindi 8 á bls. 77 „Margt er óljóst um stöðu lífeyrissjóðanna og starfshætti þeirra en málefni þeirra kalla á sérstaka rannsókn sem ekki er unnt að gera af rannsóknarnefnd Alþingis“

Formaður félagsins trúir því ekki að íslenskt launafólk sem á og greiðir í þessa lífeyrissjóði ætli að sætta sig við að ekki fari fram óháð rannsókn og ég hreinlega krefst þess að farið verði í ítarlega rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna.

Hvað kom ekki fram í skýrslutöku Gunnars Páls Pálssonar fyrrverandi formanns VR, stjórnarmanns í lífeyrissjóði Verslunarmanna og í stjórn Kaupþings hjá rannsóknarnefnd Alþingis:

...að lífeyrissjóðirnir hafi í raun ekkert haft í hinar stóru fjármálastofnanir og þeir hefðu þurft að reisa sér miklu betri varnarmúr, að byggja um fagþekkingu, byggja upp skoðanaskipti innan hópsins, til þess að standast þetta svaka mótvægi sem fjármálalífið var.“ 

Einnig kemur fram í skýrslunni að:

„Gunnari Páli Pálssyni finnst eftir á að hyggja of mikil þjónkun hafa verið hjá lífeyrissjóðunum við viðskiptalífið, ekki síst vegna þátttöku atvinnurekenda í stjórnun sjóðanna. Fyrirtækjasamsteypurnar hafi gjarnan verið sterkar í samtökum atvinnurekenda og Gunnar Páll segist hafa haft á tilfinningunni að þær hnipptu í sína fulltrúa.“

Formaður VLFA hefur í gegnum tíðina ítrekað bent á hví í ósköpunum atvinnurekendur séu í stjórnum lífeyrissjóðanna. Nægir þessi staðfesting frá Gunnari Páli Pálssyni ekki til að þess að sjá að atvinnurekendur eru fyrst og fremst að hugsa um eigin hag og vilja hafa gott aðgengi að fjármagni úr sjóðum lífeyrissjóðanna eins og sagan hefur nú sýnt okkur. Hvað er Gunnar Páll að meina þegar hann segir við rannsóknarnefndina að Fyrirtækjasamsteypurnar hafi gjarnan verið sterkar í samtökum atvinnurekenda og Gunnar Páll segist hafa haft á tilfinningunni að þær hnipptu í sína fulltrúa.

Formaður félagsins telur að allflestir sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum landsmanna séu sammála því að það verði að hefja tafarlaust rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna og það óháð eins og rannsóknarnefnd Alþingis hefur bent á að þurfi að framkvæma.

Þetta er lífeyrir launafólks sem verið er að sýsla með og það eru sjóðsfélagar sem eiga þessa fjármuni og á þeirri forsendu krefst ég þess að Alþingi Íslendinga sjái til þess eins og þeir hafa lofað að fram fari óháð rannsókn á lífeyrissjóðunum og hagsmunir launafólks verði einu sinni hafðir að leiðaljósi.

12
Aug

Eigendur Norðuráls, vaknið af Þyrnirósarsvefninum!

Starfsmenn Norðuráls sætta sig ekki við þennan gríðarlega launamunStarfsmenn Norðuráls sætta sig ekki við þennan gríðarlega launamunAlla síðustu viku hafa forsvarsmenn Norðuráls fundað með starfsmönnum fyrirtækisins þar sem hin ýmsu mál hafa verið til umræðu. Meðal annars hefur framtíðarstefna fyrirtækisins verið rædd, tryggingamál og síðast en ekki síst kjaramál. Fjölmargir starfsmenn Norðuráls hafa haft samband við formann félagsins eftir þessa fundi og lýst yfir gremju sinni vegna þess að verið sé að láta í veðri vaka að launamunur á milli Norðuráls og annarra stóriðjufyrirtækja sé oft á tíðum sáralítill.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness unnið samanburð á þeim stóriðjum sem eru starfræktar hér á landi en þær eru meðal annars Alcan, Elkem Ísland og Fjarðaál. Í þessum samanburði kemur hvellskýrt fram að launakjör í Norðuráli eru lökust af þessum verksmiðjum og í sumum tilfellum munar tugum prósenta. Launamunur á milli Alcan í Straumsvík og Norðuráls er í dag, án stóriðjuskóla, um 3% en báðar þessar verksmiðjur eiga eftir að ganga frá sínum kjarasamningum. Rétt er að geta þess að ef tekið er tillit til þess sem Alcan býður upp á, sem er svokallaður stóriðjuskóli, þá nemur launamunurinn um 13% en það eru um 200 starfsmenn Alcan af tæpum 300 sem hafa lokið þessu námi sem veitir starfsmönnum um 10,5% launahækkun. Launamunurinn milli Elkem Ísland og Norðuráls er einnig sláandi en þó er rétt að geta þess að Elkem Ísland hefur gengið frá sínum kjarasamningi. Í dag er launamunurinn á milli Elkem Ísland og þeirra starfsmanna sem starfa á vöktum í Norðuráli 12%. Hjá dagvinnumönnum er munurinn hins vegar töluvert meiri og nemur hann allt að 17%.

Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur Fjarðaál samið við starfsmenn sína nýverið og var sá samningur verulega góður fyrir hönd starfsmanna. Langflestir starfsmenn voru settir í launaflokk sem nefnist framleiðslumaður 3 en það eru um 84% verkamanna sem tilheyra þessum launaflokki. Að teknu tilliti til þessa launaflokks nemur launamunurinn á milli Fjarðaáls og Norðuráls frá tæpum 16% upp í tæp 22% eða frá 69.000 kr. upp í 83.500 kr. á mánuði. Hjá iðnaðarmönnum er launamunurinn ennþá meiri og fer í sumum tilfellum yfir 30%. Tæp 80% iðnaðarmanna var raðað inn í launaflokk sem nefnist iðnaðarmaður 4 sem gerir það að verkum að launabilið á milli iðnaðarmanna í Fjarðaáli og Norðuráli getur numið allt að 100 þúsund krónum á mánuði.

Á þessari forsendu ríkir gríðarleg gremja á meðal starfsmanna Norðuráls yfir að hlusta á forsvarsmenn fyrirtækisins gefa í skyn að sáralítill launamunur sé á milli Norðuráls og annarra stóriðjufyrirtækja. Það er morgunljóst að hvorki Verkalýðsfélag Akraness né starfsmenn munu sætta sig við þennan gríðarlega launamun öllu lengur og formaður vill koma skýrum skilaboðum til forsvarsmanna Norðuráls og eigenda að krafa félagsins og starfsmanna er sú að þessum launamun verði eytt alfarið í komandi kjarasamningum. Það getur ekki verið að forsvarsmönnum fyrirtækisins finnist það eðlilegt að starfsmenn Norðuráls séu þetta langt á eftir í launakjörum á við starfsbræður þeirra í öðrum stóriðjum.

Næsti fundur í kjaradeilunni verður haldinn þann 22. ágúst í húsakynnum ríkissáttasemjara og bera starfsmenn og formaður félagsins þá von í brjósti að forsvarsmenn fyrirtækisins fari að vakna af þeim Þyrnirósarsvefni sem þeir hafa sofið þegar kemur að þessum mikla launamun. Enda eins og áður sagði munu og ætla starfsmenn Norðuráls og Verkalýðsfélag Akraness ekki að sætta sig við þessa mismunun stundinni lengur. Félagið gekk á sínum tíma frá bókun hjá ríkissáttasemjara sem tryggir að kjarasamningur starfsmanna gildi ávallt frá þeim tíma sem kjarasamningurinn rann út en hann rann út um síðustu áramót sem þýðir að starfsmenn eiga nú þegar orðið 8 mánuði í afturvirkni. Og það er ljóst að starfsmenn eru tilbúnir til að bíða enn lengur ef ekki verður hugarfarsbreyting hjá eigendum fyrirtækisins en þeir hafa hingað til einungis boðið það sama og um var samið í anda hinnar margfrægu samræmdu launastefnu sem er 11,5% í 3 ára samningi eða nánar tiltekið 4,25% á þessu ári, 3,5% árið 2012 og 3,23% árið 2013. Bara þannig að það sé algjörlega á hreinu, þá er ekki verið að fara að ganga frá samningi á þessum nótum enda eru engar forsendur fyrir slíku þar sem um útflutningsfyrirtæki er að ræða sem hefur hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs álverðs á liðnum misserum.

03
Aug

Fékkst þú ekki örugglega eingreiðsluna og álagið ofan á orlofsuppbótina greidda

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína á hinum almenna vinnumarkaði á að samkvæmt nýgerðum kjarasamningi þá áttu starfsmenn að fá greidda eingreiðslu að upphæð 50.000 kr og ofan á þá upphæð leggst orlof. Eingreiðslan átti að koma til útborgunar með júnílaunum.  Einnig var samið um 10.000 kr álag ofan á orlofsuppbótina og hvetur stjórn Verkalýðsfélags Akraness félagsmenn sína til að kanna vel og rækilega hvort þessar greiðslur hafi ekki örugglega skilað sér eins og kveðið er á um í nýgerðum kjarasamningi.

ess 

26
Jul

Launamunurinn í álfyrirtækjunum snýst við þegar kemur að forstjórunum

Almennir starfsmenn Norðuráls vilja sanngirniAlmennir starfsmenn Norðuráls vilja sanngirniEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá á Verkalýðsfélag Akraness í kjaradeilu vegna launaliðar kjarasamnings starfsmanna Norðuráls en starfsmenn Norðuráls hafa verið án launahækkana frá 1. janúar 2011.  Það hefur einnig komið fram hér á heimasíðunni að gríðarlegur launamunur er nú orðinn á milli starfsmanna Fjarðaáls og Norðuráls eftir að gengið var fá kjarasamningi fyrir starfsmenn Fjarðaáls ekki alls fyrir löngu.  En launamunurinn nemur allt að 30% í sumum tilfellum og nemur hann í krónum talið frá tæpum 70.000 kr. uppí allt að 100.000 kr. fyrir sömu vinnu og sama vinnutíma á mánuði.  Þetta er launamunur sem Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn munu ekki og ætla ekki að sætta sig við, en forsvarsmenn Norðuráls hafa boðið sömu launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði eða sem nemur 4,25% á þessu ári og 11,4% á samningstímanum.  Með öðrum orðum þá vilja forsvarsmenn Norðuráls ekki taka tillit til þeirra launahækkana sem um var samið við starfsmenn Fjarðaráls og þeirra góðu rekstrarskilyrða sem áliðnaðurinn býr við um þessar mundir en álverð stendur nú 2.600 dollurum sem er gríðarlega hátt verð.  Einnig er rétt að geta þess að launamunur er einnig á milli Alcan og Norðuráls og þá sér í lagi ef tekið er tillit til þeirrar launauppbótar sem stóriðjuskólinn gefur Alcanmönnum sem ekki stendur starfsmönnum Norðuráls til boða.

Að sjálfsögðu er það hlutverk Verkalýðsfélags Akraness að bera saman launakjör í öðrum álverksmiðjum og gera þá kröfu að félagsmenn VLFA njóti sömu launakjara og starfsbræður þeirra í öðrum álverksmiðjum, annað væri óeðlilegt enda eru engin haldbær rök fyrir að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara en starfsmenn Alcan og Fjarðaáls.

Þessum rökum hafa forsvarsmenn Norðuráls hafnað alfarið til þessa og telja sig alls ekki þurfa að horfa til annarra álfyrirtækja hvað launakjör varðar m.a. vegna þess að Fjarðaál sé á landsbyggðinni og Alcan á höfuðborgarsvæðinu.   

Það er fróðlegt að sjá að launamunurinn á milli Norðuráls, Alcan og Fjarðaáls snýst við þegar launakjör forstjóranna eru skoðuð.  En ef marka má tekjublöðin þá kemur í ljós að Ragnar Guðmundsson fostjóri Norðuráls er með hæstu launin á meðal þessara þriggja forstjóra með 4,431 milljón á mánuði næst kemur Rannveig Rist forstjóri Alcan í Straumsvík með 4,337 milljónir á mánuði og síðan kemur Tómas Már Sigurðusson forstjóri Fjarðaáls með 4,132 milljón.  Það vekur undrun formanns Verkalýðsfélags Akraness að þurfa að berjast fyrir því sjálfsagða réttlæti að launakjör hins almenna launamanns í Norðuráli verði jöfnuð við launakjör í Fjarðaáli um sem nemur eins og áður sagði allt að 30%, á sama tíma og launakjör forstjóra Norðuráls eru 7,2% hærri en launakjör forstjóra Fjarðaáls ef marka má tekjublöðin.

22
Jul

90% sögðu já við kjarasamningi við Launanefnd sveitarfélaga

Kosningu um nýgerðan kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness við Launanefnd sveitarfélaga lauk kl. 16:00 í gær og var samningurinn samþykktur með miklum meirihluta þeirra sem kusu.   En af þeim sem höfðu kosingarétt sögðu 90% já og 10% nei.

Nú hefur Verkalýðsfélag Akraness gengið frá nánast öllum sínum kjarasamningum. Félagið á einungis eftir að ganga frá launaliðnum fyrir starfsmenn Norðuráls en það er morgunljóst að þar verður við ramann reip að darga enda hafa forsvarsmenn Norðuráls hafnað öllum hugmyndum félagsins til lausnar á þeirri deilu.  Forsvarsmenn Norðuráls bjóða það sama og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði eða sem nemur 4,2% á fyrsta ári og 11,4% á samningstímanum, þeir eru með öðrum orðum alls ekki til í það að skila þeim mikla ávinningi sem fyrirtækið hefur notið vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs álverðs.

Krafa félagsins er að starfsmenn Norðuráls fái sömu launahækkanir og starfsbræður þeirra í Fjarðaáli. En eins og sýnt hefur verið fram á hér á heimasíðunni þá er launamunur á milli starfsmanna áður nefndra fyrirtækja frá tæpum 70.000 kr uppí rúm 100.000 kr. á mánuði fyrir sömu vinnu og sama vinnutíma.  Við slíkan launamun verður ekki unað af hálfu Verkalýðsfélags Akraness og starfsmanna Norðuráls.  Næsti fundur í þessari deilu verður ekki fyrr en 22. ágúst.

20
Jul

Starfsmenn Akraneskaupstaðar hvattir til að nýta sér kosingarétt sinn

Kynningarfundur um nýgerðan kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness við Launanefnd sveitarfélaga var haldinn í Gamla Kaupfélaginu í gær.  Á fundum fór formaður félagsins yfir helstu atriði samningsins og svaraði hinum ýmsu spurningum sem vöknuðu hjá fundarmönnum um innihald samningsins.  Að lokinni kynningu gafst fundarmönnum kostur á að kjósa um samninginn en hægt verður að kjósa um samninginn á skrifstofu félagsins til kl. 16:00 fimmtudaginn 21. júlí.

Þeir félagar sem starfa eftir samningnum eru eindregið hvattir til að nýta sér kosningarétt sinn.

Kjarasamninginn í heild sinni má nálgast hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image