• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Sep

Nýi sumarbústaðurinn klár til útleigu 16. september

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá festi Verkalýðsfélag Akraness nýverið kaup á sumarbústað að Berjabraut 10 í Kjós í Hvalfirði sem er einungis í 25 mínútna akstursfjarlægð frá Akranesi. Þetta er 83 fm bústaður sem byggður var 2005 og er allur hinn glæsilegasti. Nú hafa iðnaðarmenn verið að störfum við að stækka pall og aðlaga bústaðinn að þörfum félagsmanna og er áætlað að bústaðurinn verði klár til útleigu föstudaginn 16. september. Hins vegar verður nokkurra vikna bið á því að hægt verði að taka í notkun heitan pott vegna þess að nokkurra vikna afhendingatími er á þeim potti sem pantaður hefur verið.

Starfsmenn hafa verið að kaupa inn húsbúnað og annað innbú og er ljóst að bústaðurinn verður allur hinn glæsilegasti þegar hann verður tilbúinn til útleigu fyrir félagsmenn. Vonandi munu félagsmenn nýta sér þennan valmöguleika vel enda er bústaðurinn staðsettur á gríðarlega fallegum stað í Hvalfirði. Hægt er að panta bústaðinn nú þegar, en eins og áður sagði hefst útleigan föstudaginn 16. september.

26
Aug

Fundur með starfsmönnum Norðuráls í Bíóhöllinni

Það er ekki hægt að segja að útlitið sé ýkja bjart hvað varðar lausn á kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við forsvarsmenn Norðuráls. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá ber himin og haf á milli deiluaðila, miðað við það tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls lögðu fram samningafundinum á mánudaginn var.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness og starfsmanna er jöfnuður á við verksmiðjur í sambærilegri starfsgrein, en launamunur á milli Alcan, Fjarðaál og Elkem Ísland er sláandi eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni.  Í fyrradag gekk Alcan frá samningi við sína starfsmenn og er launamunur Norðuráls og Alcan eftir samninginn orðinn 12% og ef tekið er tillit til stóriðjuskólans sem Alcan býður sínu starfsfólki uppá er launamunurinn 23%. 

Launamunurinn á milli Elkem Ísland og Norðuráls er 11% en búið er að semja fyrir starfsmenn Elkem og síðan er launamunurinn á milli Fjarðaáls og Norðuráls á bilinu 15% og uppí allt að 30%

Á þessu sést að staðan er ekki ýkja björt og lausn á þessari erfiðu deilu ekki í sjónmáli og það er formanni Verkalýðsfélags Akraness algerlega hulin ráðgáta hví í ósköpunum forsvarsmenn og eigendur Norðuráls halda að þeir komist upp með að greiða langtum lægri laun en sæmbærilegar verksmiðjur hér á landi.  Ef eigendur Norðuráls halda að formaður VLFA og starfsmenn hafi þolinmæði til að sætta sig við að rekin sé einhver láglaunastefna ár eftir ár í Norðuráli þá er það mikill misskilningur vegna þess að þolinmæðin er gjörsamlega að þrotum komin.

Eins og áður sagði þá var gengið frá nýjum kjarasamningi við Alcan í fyrradag og mun atkvæðagreiðslu um þann samning ljúka 8. september og í beinu framhaldi af þeirri niðurstöðu mun formaður Verkalýðsfélags Akraness boða til fundar með starfsmönnum í Bíóhöllinni þar sem sem farið verður yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin og það verða starfsmenn sjálfir sem munu taka ákvörðun um hvert framhaldið verður í þessum viðræðum.  En það hefur verið gríðarlega jákvætt að finna þá miklu samstöðu sem ríkir á meðal starfsmanna í þessari erfiðu deilu og greinilegt að starfsmenn Norðuráls sætta sig ekki við þessa mismunun stundinni lengur.

Rétt er að geta þess að sú bókun sem Verkalýðsfélag Akraness náði í gegn í síðasta samningi er gríðarlega mikilvæg í þessari erfiðu deilu.  En bókunin tryggir með afgerandi hætti að ávalt skuli launaliðir kjarasamnings Norðuráls gilda frá þeim tíma sem samningar renna út. Með öðrum orðum, starfsmenn eru tryggðir fyrir því að þótt samningar dragist á langinn þá munu þeir gilda frá þeim tíma sem fyrri samningur rann út.

Fundurinn í Bíóhöllinni verður auglýstur mjög vel þegar nákvæm dagsetning liggur fyrir.

25
Aug

Ferð eldri félagsmanna í undirbúningi

Á skrifstofu félagsins stendur nú sem hæst undirbúningur fyrir dagsferð eldri félagsmanna, en árlega býður félagið félagsmönnum sínum 70 ára og eldri ásamt mökum í slíka ferð. Þessi ferð hefur verið afskaplega vinsæl og venjulega taka yfir 100 manns þátt í henni. Síðustu ár hefur t.a.m. verið farið um Reykjanesið, Snæfellsnes, Suðurlandið og í fyrra var farið til Vestmannaeyja.

Verið er að leggja lokahönd á dagskrána, en í ár er dagsferðin fyrirhuguð föstudaginn 9. september og er ferðinni heitið til Reykjavíkur undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Áð verður á ýmsum stöðum og boðið upp á hádegisverð og síðdegishressingu.

Í næstu viku fá félagsmenn VLFA 70 ára og eldri sent boðsbréf þar sem nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráningu koma fram.

23
Aug

Starfsmenn Norðuráls sárir og reiðir

Það er óhætt að segja að starfsmenn Norðuráls séu sárir og reiðir vegna þeirra tíðinda sem bárust af samningafundinum í gær, en eins og fram kom hér á heimasíðunni þá lögðu forsvarsmenn fyrirtækisins fram tilboð sem gerði ráð fyrir launahækkun í krónum talið frá 15.000 upp í rúmar 30.000 krónur. Þetta er fjarri því að jafna þann gríðarlega launamun sem ríkir nú á milli verksmiðjanna Fjarðaráls og Norðuráls.

Það ríkir ekki aðeins mikill launamunur á milli þessara tveggja fyrirtækja heldur er einnig umtalsverður launamunur á milli Norðuráls og Elkem Íslands og nemur sá launamunur að teknu tilliti til vinnustundafjölda allt að 11%. Einnig ríkir töluverður launamunur á milli Alcan í Straumsvík og Norðuráls og nemur sá launamunur nú hjá almennum starfsmanni sem ekki hefur lokið stóriðjunámi 3%. Að teknu tilliti til stóriðjunámsins er þessi launamunur 13%, en um 200 starfsmenn Alcan hafa lokið stóriðjunámi.

Eins og áður sagði, þá eru starfsmenn sárir og reiðir yfir því skilningsleysi sem forsvarsmenn fyrirtækisins sýna starfsmönnum því það er óþolandi með öllu að Norðurál skuli ávalt vera það fyrirtæki sem býður starfsmönnum sínum hvað lökustu kjörin. Það getur ekki verið neitt eðlilegra en að gera kröfu um jöfnun við álfyrirtæki sem einungis hefur starfað í 4 ár, eins og Fjarðaál, því hvorki formaður Verkalýðsfélags Akraness né starfsmenn skilja hví í ósköpunum starfsmenn Norðuráls eigi að njóta lakari kjara svo nemur tugum þúsunda á mánuði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur barist fyrir því í síðustu kjarasamningum að útrýma þessum launamuni á milli Alcan og Norðuráls og hefur orðið nokkuð ágegnt í þeirri baráttu þótt þetta hafi ekki tekist að fullu eins og áður sagði. En það er grátbroslegt að heyra rök forsvarsmanna Norðuráls varðandi kröfu félagsins um jöfnun við Fjarðaál, en rökin byggjast á því að þar sem Fjarðaál sé á landsbyggðinni sé ekki grundvöllur fyrir því að miða við Fjarðaál. Þessi ummæli eru undarleg í ljósi þess að þegar að félagið barðist fyrir jöfnun launa við Alcan í Straumsvík t.d. árið 2005 þá voru rök forsvarsmanna Norðuráls þau að ekki væri hægt að miða við launakjör í höfuðborgarsvæðinu þar sem Norðurál væri á landsbyggðinni, eða nánar tilgetið á Vesturlandi.

Það er alveg ljóst að starfsmenn og VLFA ætla  og munu ekki sætta sig öllu lengur við þessa mismunun og verður hart barist til að knýja fram þessa sanngjörnu kröfu og hafa m.a. heyrst raddir frá starfsmönnum um að best sé að bíða þar til kjarasamningurinn rennur út í heild sinni í lok árs 2014 en þá mun verkfallsrétturinn koma inn. Að sjálfsögðu er það skylda samningsaðila að finna lausn á þessari erfiðu deilu, en það liggur fyrir að það þarf að verða alger hugarfarsbreyting hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins til að svo verði. Skyldu forsvarsmenn álfyrirtækja hér á landi bera launakjör sín saman eins og við höfum nú verið að gera gagnvart almennum starfsmönnum? Svar formanns félagsins við þessari spurningu er já, vegna þess að samkvæmt tekjublaði frjálsrar verslunar eru launakjör forstjórna Norðuráls, Alcan og Fjarðaáls öll á svipuðu róli. En það vekur hins vegar athygli formanns að forstjóri Norðuráls trónir á toppnum þótt álverksmiðja Norðuráls sé stödd á Vesturlandi.

Eins og áður hefur komið fram hefur enginn fundur verið ákveðinn en formaður reiknar með því að funda með starfsmönnum fljótlega þar sem farið verður yfir þessa stöðu sem upp er komin enda er málið einfalt. Það verða starfsmennirnir sjálfir sem taka ákvörðun um þær leiðir sem farnar verða.

22
Aug

Árangurslaus fundur í kjaradeilu Norðuráls

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi vegna launaliðar í kjarasamningi Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Það er skemmst frá því að segja að fundurinn var því miður árangurslaus, en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá gera starfsmenn kröfu um jöfnuð á launakjörum á við starfsmenn Fjarðaáls.

Eins og einnig hefur komið fram hér á síðunni þá hefur skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness unnið að launasamanburði milli Fjarðaáls og Norðuráls og eftir að gengið var frá kjarasamningi við starfsmenn Fjarðaáls þá er launamunur milli þessara fyrirtækja frá tæpum 16% upp í rúm 30% eftir því við hvaða launaflokka er miðað. Algengt er að launamunurinn sé í krónum talið frá 70.000 krónum og upp í allt að 100.000 krónur. Þetta er launamunur sem starfsmenn og Verkalýðsfélag Akraness geta ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við. Því byggist krafan, eins og áður sagði, á því að farið verði í greiningarvinnu á því hvernig þessum launamuni skuli eytt.

Það er skemmst frá því að segja að þessari kröfu samninganefndarinnar stéttarfélaganna var hafnað alfarið, en hins vegar lögðu forsvarsmenn Norðuráls fram tilboð sem er í anda þess sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði þ.e.a.s. 4,25% grunnkaupshækkun frá 1. september 2011, auk 3% hæfnisálags fyrir starfsmenn sem hafa starfað í 3 ár eða lengur og uppfylla kröfur um frammistöðu og hæfni í starfi, góða öryggishegðun, virðingu fyrir reglum fyrirtækisins og mætingu. Þeir sem uppfylla þessi skilyrði eiga skv. þessu tilboði rétt á að fá 3% hækkun á grunnlaun. Í þessu tilboði eiga síðan laun að hækka um 3,5% 1. jan 2012, 3,25% 1. jan 2013 og 3% 1. jan 2014. Rétt er að geta þess að í þessu tilboði er talað um að launahækkanirnar gildi frá 1. september 2011, þrátt fyrir að til sé bókun hjá Ríkissáttasemjara sem kveður á um að launahækkanir skuli gilda frá 1. janúar 2011. Norðurál býður hins vegar eingreiðslu að andvirði fastra mánaðarlauna í viðkomandi launaflokki til handa þeim sem eru í starfi í september 2011. Þetta eitt og sér myndi þýða það að sumarafleysingamenn og þeir sem látið hafa af störfum á árinu munu ekki fá leiðréttingu aftur í tímann eins og áðurnefnd bókun hjá Ríkissáttasemjara kveður á um.

Einnig kemur fram í þessu tilboði að Norðurál hefur í hyggju að koma á formlegu starfsnámi sem myndi gefa starfsmönnum að afloknu námi 5% grunnlaunahækkun og að loknu framhaldsnámi myndi koma 3% launahækkun. Rétt er að geta þess að bæði Alcan í Straumsvík og Fjarðaál starfrækja nú þegar slíka skóla og gefur stóriðjunámið hjá Alcan í Straumsvík 10% launahækkun og framhaldsnámið gefur 4% til viðbótar. Í Fjarðaáli var samið um að grunnnám stóriðjuskólans skuli gefa 5% og framhaldsskólinn 5% til viðbótar. Á þessu sést að þetta tilboð um stóriðjuskólann af hálfu Norðuráls er lakara en hinar tvær verksmiðjurnar bjóða nú þegar.

Tilboð Norðuráls í heild sinni má sjá hér.

En hvað þýðir þetta tilboð Norðuráls í krónum og aurum? Jú, byrjandi mun hækka um rétt rúmar 15.000 kr. á mánuði og eins árs taxtinn um rúmar 17.000 kr. Þeir starfsmenn sem hafa náð 3ja ára starfsaldri og uppfylla skilyrðin um hæfnisálagið munu hækka frá 30.000 kr. upp í 33.000 eftir því hversu langur starfsaldurinn er. Eins og sést þýðir þetta að það yrði áfram tugþúsunda launamunur á milli Fjarðaáls og Norðuráls og það er alveg morgunljóst að þetta er eitthvað sem er gjörsamlega útilokað og ætla starfsmenn og Verkalýðsfélag Akraness ekki að sætta sig við slíkt enda eru engar forsendur fyrir því.

Í raun og veru hefur nú slitnaði upp úr þessum samningaviðræðum og hefur ekki verið boðað til annars fundar, enda í raun og veru ástæðulaust að setjast niður á meðan himinn og haf ber á milli samningsaðila eins og staðan er núna.

19
Aug

Eftirvænting á meðal starfsmanna Norðuráls

Næsti samningafundur vegna kjarasamnings Norðuráls verður haldinn mánudaginn 22. ágúst kl. 10 og verður fundurinn í húsakynnum ríkissáttasemjara. Síðasti fundur var haldinn þann 4. júlí og var sá fundur algjörlega árangurslaus en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá bjóða forsvarsmenn Norðuráls starfsmönnum sínum einungis það sama og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði í anda hinnar margfrægu samræmdu launastefnu. Í því tilboði kveður á um launahækkanir upp á 4,25%, 3,5% og 3,25% á þremur árum eða sem nemur rétt um 11%.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hvellskýr en hún byggist á þeim kjarasamningi sem um var samið hjá starfsmönnum Fjarðaáls ekki alls fyrir löngu. Þar var gengið frá mjög ríflegum samningi til handa starfsmönnum og hefur launasamanburður sem unninn hefur verið sýnt fram á að munur á milli launa í Fjarðaáli og Norðuráli getur í einstaka tilfellum numið yfir 30%. Algengur launamunur er frá 15% og upp í eins og áður sagði 30%. Það er morgunljóst að hvorki Verkalýðsfélag Akraness né starfsmenn Norðuráls munu undir nokkrum kringumstæðum samþykkja annað en að launakjör í þessum tveimur verksmiðjum verði með sambærilegum hætti enda kom það skýrt fram á gríðarlega fjölmennum fundi sem haldinn var í Bíóhöllinni. Þar mættu yfir 250 manns og var samþykkt með dynjandi lófaklappi að hvika hvergi frá þessari sanngjörnu kröfu - sömu laun og greidd eru í Fjarðaáli.

Forsvarsmenn Norðuráls hafa að undanförnu verið að funda með starfsmönnum sínum og hefur komið fram á þeim fundum að þeir telji að launamunur á milli Norðuráls og annarra sambærilegra verksmiðja sé mun minni heldur en Verkalýðsfélag Akraness heldur fram. Þessu vísar formaður félagsins algjörlega á bug og stendur fast við þann launasamanburð sem hann hefur unnið en hann hefur kynnt forsvarsmönnum fyrirtækisins þennan samanburð.

Það er alveg ljóst að mikil eftirvænting ríkir hjá starfsmönnum Norðuráls en einnig er kraumandi reiði yfir því að launakjör í Norðuráli hafa ætíð verið lakari en í öðrum verksmiðjum og sem dæmi þá eru bæði Alcan í Straumsvík og núna Fjarðaál komin með svokallaðan stóriðjuskóla sem veitir starfsmönnum að afloknu námi um og yfir 10% launahækkun. Það má segja að núna sé loftið orðið rafmagnað yfir þeirri spennu sem hefur myndast í þessum kjaraviðræðum og er spurning hvort forsvarsmenn Norðuráls geti ekki farið að nýta þá raforku. Það er ekki að ástæðulausu að andrúmsloftið sé rafmagnað á meðal starfsmanna í ljósi þeirra bláköldu staðreynda að starfsmenn hafa verið án launahækkana frá síðustu áramótum en þá rann launaliður samningsins út.

Það er í raun og veru óskiljanlegt að fyrirtæki eins og Norðurál sem er starfandi í útflutningi skuli ekki vera tilbúið til að koma með sambærilegar hækkanir og um var samið í Fjarðaáli í ljósi þeirra staðreynda að fyrirtækinu hefur gengið gríðarlega vel vegna gengisfalls íslensku krónunnar og hækkaðs heimsmarkaðsverðs á áli. Eins og áður sagði þá mun Verkalýðsfélag Akraness koma þeim skilaboðum skýrt til forsvarsmanna fyrirtækisins á fundinum á mánudaginn að einungis jöfnun kjara við Fjarðaál muni koma til greina í þessum kjarasamningum og frá þeirri kröfu verður ekki kvikað af hálfu félagsins né starfsmanna enda um sanngjarna kröfu að ræða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image