• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Nov

Einu af stoltum Skagamanna hefur nú blætt út

Útisvæði SementsverksmiðjunnarÚtisvæði SementsverksmiðjunnarSorgartíðindi bárust í dag þegar tilkynnt var um að Sementsverksmiðjan á Akranesi sé að hætta starfsemi. Sementsverksmiðjan hóf starfsemi 1958 og lengi vel störfuðu upp undir 180 manns í verksmiðjunni. Það er þyngra en tárum taki að sjá þetta stolt okkar Skagamanna blæða út eins og það hefur gert á síðustu árum. En rétt er að rifja upp að fyrirtækið var selt 2003 til B.M Vallár, Björgunar, fjárfestingarbanka og norska sementsframleiðandanum Norcem AS, en þessi aðilar áttu 25% í verksmiðjunni hver um sig.

Verksmiðjan var seld á heilar 67 milljónir króna, en það kaupverð fékk aldrei greitt og því til viðbótar á B.M. Vallá að hafa skilið eftir um 400 milljóna króna skuld við Sementsverksmiðjuna þegar B.M. Vallá varð gjaldþrota. Það er með ólíkindum að Sementsverksmiðjan, sem framleiddi að meðaltali um 120.000 tonn á ári á árunum fyrir hrun, framleiðslu sem var nánast yfir framleiðslugetu verksmiðjunnar, skuli nú vera að loka sökum erfiðleika. Ugglaust hefur vantrú atvinnulífsins á íslenskum stjórnvöldum ekki hjálpað til og nægir að nefna í því samhengi fyrirhugaðan kolefnisskatt sem Sementsverksmiðjan hefði ekki og gæti aldrei staðið undir.

Formaður veltir því líka fyrir sér hvort norski aðilinn sem nú á 37% í Sementsverksmiðjunni hafi ætíð stefnt að því að leggja niður verksmiðjuna hér á landi og flytja inn sement frá Noregi. Það er alvarlegt mál þegar sú yfirgripsmikla þekking og hugvit sem starfsmenn Sementsverksmiðjunnar búa yfir skuli nánast hverfa á svipstundu með þessari ákvörðun. Það er einnig umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga þegar hvatt er til að við stöndum vörð um íslenska framleiðslu og verjum íslensk störf eins og kjörorðið "Veljum íslenskt" felur í sér. Það er síðan hunsað þegar kaup á sementi eiga sér stað í hinar ýmsu framkvæmdir, en vitað er að sement hefur verið flutt inn frá Danmörku og Noregi í stórum stíl á undanförnum árum. Rétt er að geta þess að íslenska sementið er unnið úr 90% innlendu hráefni og því er það einnig með miklum ólíkindum að menn skuli ekki reyna að stuðla að því að spara gjaldeyri og viðhalda verksmiðjunni, samfélaginu til heilla.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur afar ólíklegt að rekstur þessarar verksmiðju muni fara af stað aftur, og eru það gríðarleg vonbrigði ef það reynist rétt. Enda hefur Sementsverksmiðjan á undanförnum áratugum verið eitt af hornsteinum okkar samfélags og átt þátt í að byggja okkar sterka samfélag upp.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image