• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Nov

Sagði fjármálaráðherra ósatt, eða veit hann ekki betur?

Formaður félagsins ásamt bæjarstjóra og oddvitum stjórnmálaflokka hjá Akraneskaupstað átti fund í hádeginu með þingmönnum NV-kjördæmis. Umræðuefni þessa fundar var m.a. sú grafalvarlega staða sem upp er komin vegna fyrirhugaðs kolefnisskatts sem á að leggja á stóriðjufyrirtækin. En eins og fram kom í fréttum í gær þá sagði forstjóri Elkem Ísland að ef af skattinum yrði myndi það þýða endalok verksmiðjunnar á Grundartanga.

Á fundinum fór formaður yfir þessi mál og byrjaði á því að lýsa yfir undrun sinni á ummælum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í fréttum í gær, en þar sagði hann að skattlagnig vegna kolefnis sé minni hér á landi en í nágrannalöndunum. Formaður sagði að annað hvort væri fjármálaráðherrann að segja ósatt eða þá hann hafi hreinlega ekki kynnt sér málið til hlítar því það liggur fyrir skv. Evrópureglugerð um losunarheimildir að ál- og kísiliðnaður eigi að vera undanþeginn kolefnisskatti. Þetta var m.a. innleitt í gegnum EES-samninginn og gildir fyrir Noreg og alla Evrópu. Þannig að þessar fullyrðingar fjármálaráðherra um að slíkur skattur sé víða viðhafður í heiminum eru alrangar. Það er alveg ljóst að þessi vinnubrögð stjórnvalda eru að gera það að verkum að ekki nokkur erlendur fjárfesti hefur áhuga á að koma nálægt Íslandi, þegar þeir geta átt von á því að eftir hafa gert fjárfestingarsamninga til langs tíma geti þeir átt von á óvæntum íþyngjandi álögum sem riðli öllum arðsemisútreikningnum.

Formaður rakti einnig á þessum fundi mikilvægi stóriðjunnar á Grundartanga. Enda eru þessi fyrirtæki að greiða gríðarlegar upphæðir til samfélagsins í formi hinna ýmsu greiðslna eins og launagreiðslna. Vissulega myndi formaður vilja að launin væru hærri í þessum verksmiðjum enda er það hlutverk formanns í stéttarfélagi að berjast fyrir slíku og er þeirri baráttu hvergi nærri lokið. Hins vegar er það bláköld staðreynd að starfsmaður t.d. í Norðuráli eftir 3ja ára starf er með 502 þúsund krónur á mánuði fyrir 182 klst. vinnu. Iðnaðarmaður á vöktum er með 650 þúsund krónur í laun fyrir 182 klst. vinnu.

Formaður lagði einnig þunga áherslu á það við þingmenn að það sé ólíðandi með öllu hvernig allt of margir þingmenn tala með mikilli fyrirlitningu gagnvart stóriðjunni hér á landi. Hann hvatti til þess að fram færi heiðarleg og sanngjörn umræða um stóriðjuna, enda væri það okkur Akurnesingum algjörlega ljóst hversu gríðarlega mikilvæg stóriðjan er samfélaginu okkar og reyndar íslensku þjóðinni allri.

Það kom skýrt fram í máli formanns á fundinum að ef af þessum skatt verður þá er verið að ógna öryggi starfsmanna á Grundartangasvæðinu illilega, enda er morgunljóst að fyrirtæki eins og Elkem Ísland sem vegna nýja skattsins gæti ekki skilað arði til sinna eigenda í náinni framtíð myndi þurfa að hætta starfsemi. Það er hvellskýrt að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgjast gaumgæfilega með þessu máli og ef ekki verður undið ofan af því þannig að atvinnuöryggi félagsmanna verði tryggt þá mun því verða mætt af fullri hörku, enda er það stefna stjórnar VLFA að gæta hagsmuna sinna félagsmanna í hvívetna og það verður gert í þessu máli sem og öðrum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image