• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jul

Verkalýðsfélag Akraness styrkir áfrýjun til Hæstaréttar

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað á fundi fyrir helgi að styrkja félagsmann sinn Þórarinn B Steinsson til að hann gæti áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því 5. júlí sl.  Dómurinn sýknaði Sjóvá og Norðurál af allri bótaskyldu gagnvart Þórarni vegna slyss sem hann varð fyrir þegar hann var að hjálpa samstarfskonu sinni hjá Norðuráli, en Þórarni ásamt öðrum starfsmanni Norðuráls tókst að lyfta 620 kg. stálbita sem fallið hafði á fætur samstarfskonu þeirra. Við slysið varð Þórarinn 75% öryrki og hefur ekki fengið neinar bætur vegna þessa slyss.

Formaður VLFA undrast að forsvarsmenn Norðuráls skuli reyna að skjóta sér undan allri bótaskyldu í ljósi þess að hann vann hetjudáð við að bjarga samstarfskonu sinni og aðgerðir Þórarins við að bjarga konunni geta seint talist glæfralegar enda beittu hann og samstarfsmaður hans einungis handafli þegar þeir lyftu 620 kg. stálbita ofan af samstarfskonunni. 

Það er sorglegt til þess að vita að komi vinnufélagi samstarfsmanni sínum til hjálpar og vinni slíkt þrekvirki geti hann jafnvel átt von á því að sitja uppi með varanlega örorku uppá 75% og það án þess að fá neinar bætur hvorki frá tryggingarfélaginu né fyrirtækinu.  Það er einnig mat formanns að með þessum dómi sé verið að senda slæm skilaboð útí samfélagið, skilaboð sem segja: ef þið aðstoðið fólk í neyð þá er það algerlega á ykkar ábyrgð.

Kostnaður við að reka mál fyrir dómsstólum er hár og hér eru hagsmunir og öryggi allra launþega í húfi. Á þeirri forsendu er stjórn Verkalýðsfélags Akraness stolt af því að hafa gert það að verkum með þessum styrk að þessum dómi verði áfrýjað til Hæstaréttar.  

07
Jul

Ótrúlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

Þann 5. júlí síðastliðinn féll stórundarlegur dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Þórarins Björns Steinssonar gegn Norðuráli og Sjóvá vegna slyss sem hann varð fyrir er hann var að bjarga samstarfskonu sinni sem hafði lent í því að fá 620 kg. stálbita ofan á sig. Þórarinn og samstarfsmaður hans tóku ákvörðun um það að lyfta bitanum ofan af samstarfskonunni til að hægt yrði að ná henni undan. Við þessa hetjulegu björgun varð Þórarinn fyrir alvarlegum bakmeiðslum sem hann hefur átt í síðan slysið átti sér stað og hefur m.a. verið lagður tvívegis inn á sjúkrahús sökum verkja sem rekja má til slyssins.

Enda kemur það fram í niðurstöðu dómsins að ekki er deilt um það að Þórarni hafi tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við þessa björgun skv. þeim læknisfræðilegu gögnum sem hann hefur lagt fram.

Það er í raun og veru með ólíkindum að lesa þennan dóm og að Norðurál skuli ekki sjá sóma sinn í því að bæta Þórarni þann skaða sem hann varð fyrir við það að bjarga samstarfskonu sinni er með hreinustu ólíkindum og er í raun og veru fyrirtækinu til ævarandi skammar. Það er ekki bara að Norðurál hafi óskað eftir algerri sýknu í þessu máli heldur gerði fyrirtækið einnig kröfu um að Þórarinn yrði dæmdur til að greiða Norðuráli málskostnað skv. málskotsreikningi eða að mati dómsins. Með öðrum orðum, maður sem vann hetjudáð með því að bjarga samstarfskonu sinni og hlaut af því varanlegan skaða hefði getað setið uppi með jafnvel milljónir króna í málskostnað, ef dómurinn hefði tekið tillit til kröfu Norðuráls.

Það er mat formanns að Þórarinn og samstarfsmaður hans hafi brugðist við með eðlilegum hætti þegar slysið á sér stað í ljósi þeirra staðreynda að stúlkan lá undir 620 kg. stálbita og fyrsta hugsun þessara manna var að koma henni til hjálpar enda lá hún þar sárkvalin undir. Þetta eru í raun og veru eðlileg viðbrögð fólks sem kemur að slíku slysi, að reyna að aðstoða eins fljótt og kostur er.

Í málsvörn og lagarökum Norðuráls segir m.a. að því sé jafnframt mótmælt sem ósönnuðu og röngu að nauðsynlegt hafi verið að lyfta bitanum án tafar til að komast hjá frekara tjóni og það hafi ekki verið unnt að gera með öðrum hætti. Hvaða skilaboð er verið að senda út til starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði sem koma að vinnufélögum sínum sem hafa slasast? Eru skilaboðin þessi: gerið ekki neitt. Því ef þið verðið fyrir skaða við slíka björgun þá er það á ykkar eigin ábyrgð.

Þetta er grafalvarlegur dómur fyrir alla íslenska launþegar og er í raun og veru mikilvægt að þessum dómi verði algerlega snúið við í Hæstarétti því öryggi starfsmanna vítt og breitt á íslenskum vinnumarkaði getur hér verið í húfi. En það er þyngra en tárum taki að fyrirtæki eins og Norðurál, eitt öflugasta fyrirtækið á íslenskum vinnumarkaði skuli koma fram við sinn starfsmann á þann hátt sem það hefur gert í þessu máli. Því skorar formaður Verkalýðsfélags Akraness á Norðurál að greiða Þórarni þær bætur sem eðlilegt getur talist í ljósi þess líkamstjóns sem hann hefur orðið fyrir því það er sorglegt að einstaklingur sem hefur aðstoðað samstarfskonu sína og jafnframt starfsmann Norðuráls skuli eiga að þurfa að sitja uppi með slíkan skaða án nokkurs réttar.

07
Jul

Starfsmenn Klafa fá sömu launahækkanir og starfsmenn Elkem Ísland

Eftir hörð átök vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa á Grundartanga tókst að ganga frá nýjum kjarasamningi í húsakynnum Ríkissáttasemjara upp úr hádegi í dag. Það er skemmst frá því að segja að markmið félagsins og starfsmanna um sömu launahækkanir og um var samið hjá Elkem Ísland hafi náðst að fullu. Verða það að teljast afar ánægjuleg tíðindi og í ljósi þeirra hefur formaður VLFA tilkynnt Ríkissáttasemjara og Samtökum atvinnulífsins að boðuðu verkfalli sem taka átti gildi nk. þriðjudag hafi verið aflýst.

Eins og áður hefur komið fram byggist samningurinn í meginatriðum á því sama og um samdist við Elkem. Grunnlaun hækka með sambærilegum hætti og bónusinn hækkar einnig með sambærilegum hætti og hámarkið fer úr 10% í 13,5% og einnig hefur starfsmönnum verið tilkynnt að þeir fái eingreiðslu sem er ígildi fastra mánaðarlauna, en sú eingreiðsla er ekki hluti af kjarasamningnum. Mun sú eingreiðsla vera greidd í tvennu lagi, helmingurinn með næstu útborgun og síðan í desember 2011.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka samtals úr 249.000 í 261.400 og í lok samningstímans verða uppbætur komnar upp í tæp 280.000 sem er hækkun um 12,2%. Samningurinn er að gefa starfsmönnum með eingreiðslunni tæp 16% á árinu 2011 og í heildina gefur samningurinn 24% á samningstímanum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill þakka trúnaðarmanni Klafa sem og öllum starfsmönnum fyrir órjúfanlega samstöðu sem gerði það að verkum að meginmarkmið félagsins og starfsmanna náðust að fullu. Því án samstöðu er morgunljóst að slíkt hefði ekki náðst. Einnig vill félagið þakka Elkem Ísland fyrir sinn þátt í því að hafa leyst þetta mál án átaka og ber að virða það. En eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá á Elkem Ísland nú 100% hlut í Klafa eftir að Norðurál seldi sinn helmingshlut.

07
Jul

Kjarasamningur undirritaður við Launanefnd sveitarfélaga

Þessa dagana er mikið um vöfflubakstur hjá RíkissáttasemjaraRétt í þessu skrifaði formaður félagsins undir kjarasamning við Launanefnd Sveitarfélaga vegna félagsmanna sinna sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit. Samningurinn er að mörgu leyti sambærilegur þeim sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en reyndar var verið að breyta launatöflu þar sem lífaldurshækkanir voru lagðar af og í staðinn voru tekin upp svokölluð persónuálög. 

Í hinum nýja samningi eru lágmarkslaun fyrir fullt starf eða 173,33 stundir kr. 196.708,-. Verði samningurinn samþykktur munu starfsmenn fá eingreiðslu að upphæð kr. 50.000 og miðast það við starfsmann í fullu starfi í mánuðunum mars-maí. Einnig mun koma önnur eingreiðsla 1. febrúar 2012 og er sú greiðsla kr. 25.000 m.v. fullt starf.

Þriðjudaginn 19. júlí mun samningurinn verða kynntur fyrir félagsmönnum sem starfa eftir umræddum kjarasamningi og að aflokinni kynningu verður hægt að kjósa um samninginn. Hægt er að sjá samninginn í heild sinni síðar með því að smella hér.

06
Jul

Annríki vegna kjarasamningagerðar

Töluvert annríki hefur verið við kjarasamningagerð undanfarna daga en nú er verið að leggja lokahönd á kjarasamning fyrir starfsmenn sveitarfélaga. Það eina sem eftir á að ganga frá eru sérákvæði sem Verkalýðsfélag Akraness hafði og er allt útlit fyrir að skrifað verði undir kjarasamninginn á morgun. Í framhaldinu mun formaður kynna samninginn þá félagsmenn sem starfa eftir samningi VLFA við launanefnd sveitarfélaga en í þessu tilfelli er bæði um að ræða félagsmenn hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit.

Einnig er töluvert að gerast varðandi kjaradeilu Klafa, en Samtök atvinnulífsins og forsvarsmenn Klafa óskuðu eftir formanni og trúnaðarmanni í dag til að undirbúa fundin hjá Ríkissáttasemjara á morgun. En eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá skellur verkfall á hjá Klafa á hádegi næsta þriðjudag ef ekki verður búið að leysa deiluna fyrir þann tíma.

Krafa félagsins í þessari deilu er hvellskýr, það er að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og um var samið fyrir starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland og ríkir alger einhugur og samstaða á meðal starfsmanna um að hvika hvergi frá þeirri sanngjörnu kröfu. 

05
Jul

Engin stefnubreyting á meðal forsvarsmanna Norðuráls

Fundað var vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara í gær, og er skemmst frá því að segja að enginn niðurstaða hafa orðið af þeim fundi.

Það kom fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir væru að skoða þessi mál, en engin stefnubreyting hafi orðið af þeirra hálfu varðandi það tilboð sem fyrirtækið hafði lagt fram, en það tilboð byggðist alfarið á því sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en þar áttu starfsmenn að hækka um 4,25% á þessu ári, 3,5% árið 2012 og 3,25% árið 2013.

Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness algerlega hafnað og mun aldrei koma til greina að samið verði á þessum nótum því eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í áliðnaði sem hefur notið áhrifa af gengisfalli íslensku krónunnar og stórhækkaðs afurðaverðs sé sett undir sama hatt og fyrirtækis sem eiga í rekstrarerfiðleikum eins og til dæmis í byggingariðnaðinum.

Formaður félagsins kynnti einnig á fundinum í gær fyrir forsvarsmönnum fyrirtækisins þann launasamanburð sem félagið hefur gert vegna þessa kjarasamnings sem gerður var fyrir starfsmenn Fjarðaáls, en sá samanburður sýnir að launamunur á milli Fjarðaáls og Norðuráls getur numið í sumum tilfellum allt að 30% sem gerir það að verkum að það er tug þúsunda launamunur á milli þessa tveggja fyrirtækja fyrir sama vinnustundafjölda enda eru vaktakerfi þessara verksmiðja nánast eins.

Þetta eru niðurstöður sem starfsmenn, trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akraness munu aldrei sætta sig við og liggur fyrir að krafa félagsins fyrir hönd starfsmanna verður að sömu launahækkanir og um var samið í Fjarðaál munu koma til handa starfsmönnum  Norðuráls. Starfsmenn eru algerlega sammála því að það tilboð sem liggur fyrir mun aldrei verða samþykkt í fyrirtækinu enda gefur þetta tilboð starfsmönnum einungis 15-19 þúsund króna launahækkun á mánuði sem þýðir að starfsmenn munu einungis fá um 10 þúsund krónur í vasann.

Það hefur komið fram á fjölmennum fundum sem VLFA hefur haldið að starfsmenn ætla að standa þétt saman í þessari baráttu og eru frekar tilbúnir að bíða eins lengi og þörf krefur til að ná fram þeirri sjálfsögðu kröfu sem er að þeir njóti sömu launahækkana og um var samið í Fjarðaáli enda eru engar forsendur fyrir öðru.

Næsti fundur hefur ekki verið boðaður fyrr en 22. ágúst og má segja að það sé engin ástæða til að funda meðan ekki verður hugarfarsbreyting á meðal forsvarsmanna Norðuráls. Þennan slag mun Verkalýðsfélag Akraness taka alla leið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image