• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Oct

Forstjóri Landsvirkjunar virðist ekki bjartsýnn á framkvæmdir við álver í Helguvík

Hörður Arnarson, forstjóri LandsvirkjunarFormannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn í dag. Fundurinn byrjaði á ávarpi Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, en forsetinn fór víða í sinni ræðu og m.a. kom fram hjá honum að í ljósi þess að krónan eigi sér ekki viðreisnar von og við blasa gjaldeyrishöft um ókomin ár eigi að ræða milliliðalaust við pólitíska forystumenn helstu ríkja í Evrópu um beina aðstoð þeirra til að treysta stöðu gjaldmiðilsins.

Það má vel vera að það sé rétt hjá forsetanum að gjaldmiðilinn okkar hafi gert okkur erfitt fyrir í gegnum árin vegna óstöðugleika í efnahagsmálum.  Hins vegar er það mat formanns félagsins að krónan sé að hjálpa okkur núna í ljósi þeirrar staðreyndar að mun meira er að fást fyrir okkar útflutningsvörur sökum hruns íslensku krónunnar. Og einnig þeirri staðreynd að íslensk heimili hafa nú þegar tekið skellinn á sig vegna gríðarlegrar lækkunar á gengi íslensku krónunnar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra hélt einnig ávarp og fór hún víða í sínu ávarpi og kom m.a. fram hjá henni að búið væri að verðtryggja persónuafsláttinn og taldi það mikinn áfangasigur, en hún gleymdi hins vegar að geta þess að hún og hennar ríkisstjórn afnámu verðtryggingu persónuafsláttar sem verkalýðshreyfingin gekk frá samhliða kjarasamningum 2006 og 2008, sem hefur gert það að verkum að persónuafslátturinn er nokkrum þúsund krónum lægri en ella ef staðið hefði verið við samkomulagið.

Hins vegar vakti erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, mesta athygli formanns á þessum fundi. Í erindi sínu fór hann yfir hin ýmsu mál er tengjast Landsvirkjun, m.a. virkjunarmál og ekki síður málefni álversins í Helguvík.

Það er mat fomanns VLFA eftir að hafa hlustað á forstjóra Landsvirkjunar að hverfandi líkur séu á að framkvæmdir vegna álversins í Helguvík verði að veruleika. Það kom fram í máli Harðar að Norðurál ætti eftir að fjármagna verkefnið að andvirði 250 milljarða og taldi hann að það yrði gríðarlega erfitt fyrir Norðurál að fjármagna verkefnið sökum ástandsins á alþjóðlegum mörkuðum. Það var í raun og veru undarlegt að hlusta á forstjórann tala um Helguvíkurverkefnið því eins og áður sagði var ekki hægt að skilja forstjórann öðru vísi en að hverfandi líkur séu á því að þetta verkefni verði nokkurn tímann að veruleika. Einnig kom fram í máli hans að ef allt myndi ganga upp varðandi fjármögnun og aðra þætti er lúta að þessari framkvæmd, þá væri í fyrsta lagi hægt að afhenda raforku til álversins eftir 5-6 ár. Aðspurður sagði forstjóri Landsvirkjunar að pólitísk afskipti gagnvart stjórn Landsvirkjunar í þessu máli og öðrum væru alls ekki til staðar. En að sjálfsögðu velta menn því fyrir sér hvort svo geti verið í ljósi þessara tafa sem hin ýmsu stóriðjuverkefni hafa mátt þola á undanförnum mánuðum og árum.

Þessi niðurstaða, ef rétt reynist, hlýtur að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Suðurnesjamenn sem og þjóðina alla. Við Akurnesingar þekkjum vel mikilvægi stóriðjunnar og þau sterku áhrif sem stóriðjan hefur á allt samfélagið. Á þeirri forsendu skilur formaður vel áhyggjur Suðurnesjamanna ef af þessum framkvæmdum verður ekki.

Formaður gat ekki klárað að sitja allan fundinn sökum anna, en fleiri áhugaverð erindi voru eftir á dagskrá eins og t.d. erindi frá Runólfi Ágústsyni stjórnarformanni Atvinnuleysistryggingasjóðs.

26
Oct

Stjórn VLFA sjálfkjörin til næstu tveggja ára

Á fundi sínum þann 4. október sl. lagði stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fram framboðslista til stjórnar næstu tvö árin. Auglýst var eftir öðrum listum hér á heimasíðunni þann 11. október og einnig í Póstinum og Skessuhorni.

Þar sem ekki bárust aðrir listar til kjörstjórnar telst listi stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

Að miklu leyti er listinn skipaður því fólki sem tók við stjórn félagsins árið 2003 en þó með nokkrum breytingum. Á listanum núna koma nýir inn í stjórn:  Jónína Herdís Sigurðardóttir sem vararitari, Hafsteinn Þórisson sem formaður stóriðjudeildar, og Jóna Adolfsdóttir sem varaformaður opinberrar deildar. Þeir sem láta af störfum í stjórn félagsins eru Þórarinn Helgason, Oddur Kristinn Guðmundsson og Guðrún Guðbjartsdóttir og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Markmið stjórnar Verkalýðsfélags Akraness er og hefur ávallt verið að félagið verði það stéttarfélag sem mest og best þjónar sínum félagsmönnum hér á landi. Vissulega er þetta háleitt markmið en með viljann að vopni er allt hægt. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness er afar stolt af því hvernig til hefur tekist á síðastliðnum 8 árum þar sem afkoma félagsins hefur ekki aðeins batnað til muna, heldur hefur þjónusta við félagsmenn tekið algerum stakkaskiptum.

21
Oct

Frábær nýting á orlofshúsum VLFA

Frábær nýting er á orlofshúsum félagsins og er greinilegt að félagsmenn kunna vel að meta þá kosti sem eru í boði hvað varðar orlofshús og afþreyingu hjá félaginu. Í dag eru öll orlofshús félagsins uppbókuð fram að áramótum um helgar að undanskildum tveimur helgum í Húsafelli, einni í Svínadal og nokkrum í Hraunborgum.

Allar helgar í Ölfusborgum eru upppantaðar fram að áramótum og það er skemmst frá því að segja að nýja sumarhúsið sem félagið festi kaup á í Kjós í Hvalfirði er einnig fullbókað um helgar út þetta ár.

Stjórn orlofssjóðs hélt fund á miðvikudaginn í nýja sumarhúsinu í Kjós en þetta er afar glæsilegur bústaður sem er 83 fermetrar að stærð og búinn öllum helstu þægindum, meðal annars heitum potti. Skrifstofa félagsins hvetur félagsmenn til að fylgjast vel með inni á félagavefnum varðandi laus orlofshús og panta í tíma eins og sagan sýnir okkur nú að er nauðsynlegt.

18
Oct

Mikilvægi stóriðjunnar

Í gær tilkynnti Alcoa að þeir hefðu hætt við áform um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Formaður VLFA skilur vel þá gremju og reiði sem nú ríkir hjá Húsvíkingum en nú hafa þeir beðið eftir atvinnuuppbyggingu á þessu svæði um alllanga hríð og bundu miklar vonir við áform Alcoa um stórt og öflugt álver á þeirra atvinnusvæði.

Við Akurnesingar þekkjum mætavel hversu gríðarlega mikilvæg stóriðja er fyrir hvert atvinnusvæði. En formaður myndi ekki vilja hugsa þá hugsun til enda ef stóriðjunnar á Grundartanga, þ.e.a.s. Elkem Ísland og Norðurál, nyti ekki við á okkar atvinnusvæði. En hjá Norðuráli starfa um 530 starfsmenn og yfir 200 manns starfa hjá Elkem Ísland. Með afleiddum störfum starfa um 3.000 manns tengt stóriðjunni á Grundartanga. Atvinnuástandið á Akranesi væri með öðrum orðum skelfilegt ef stóriðjunnar á Grundartanga nyti ekki við og búsetuskilyrði á svæðinu væru þar af leiðandi ekki vænleg.

Það er gríðarlega mikilvægt að stóriðjan bjóði upp á bestu mögulegu launakjör og það er eitt af því sem Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að berjast fyrir um alllanga hríð. Í síðustu samningalotu sem nú er nýlokið var stigið skref í jákvæða átt hvað varðar launakjör Norðuráls á Grundartanga, en baráttu fyrir bættum kjörum félagsmanna mun að sjálfsögðu aldrei ljúka. Rétt er að geta þess að í dag er verkamaður á vöktum með 5 ára starfsaldur hjá Norðuráli með yfir 500.000 kr. í heildarlaun á mánuði fyrir 182 klst vinnu. Iðnaðarmaður er með um 650.000 kr. á vöktum fyrir sama vinnustundafjölda.

Launakjör í Norðurál hækka á þessu ári sem nemur 14,1% sem klárlega skilar sér til samfélagsins með einum eða öðrum hætti og þessar launahækkanir sýna sterka stöðu þessara fyrirtækja og mikilvægi þeirra hér á landi. Eins og áður sagði þá starfa t.a.m. 530 manns hjá Norðuráli á Grundartanga og það er ljóst að sveitarfélögin njóta góðs af þessari starfsemi bæði í formi fasteignagjalda, útsvars og annarra greiðslna til ríkis og sveitarfélaga.

Formaður hefur oft og tíðum undrað sig á þeim fordómum sem ríkja í garð stóriðju hér á landi í ljósi þeirra staðreynda hversu mikilvæg hún er íslensku samfélagi og síðast en ekki síst hverju því atvinnusvæði sem hún tilheyrir. Það þýðir ekki lengur fyrir þá sem gagnrýna stóriðju hér á landi að segja að það verði bara eitthvað annað að koma í staðinn. Þá verða þessir sömu aðilar að benda á hvað annað eigi að koma, því formaður fullyrðir það að ef stóriðjunnar nyti ekki við á Akranesi þá væru búsetuskilyrði hér vægast sagt skelfileg.

14
Oct

Gríðarleg vonbrigði - tillaga um afnám verðtryggingar felld á þingi SGS

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness fram tvær ályktanir á þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var dagana 13. og 14. október og lauk rétt í þessu.

Það er óhætt að segja að þessar ályktanir hafi vakið verðskuldaða athygli á þinginu enda sköpuðust miklar umræður um þær báðar. Það er skemmst frá því að segja að einungis önnur ályktunin náði fram að ganga en það var ályktun um leiðréttingu á þeim gríðarlega forsendubresti sem varð í kjölfar efnahagshrunsins. Það ber að þakka fyrir þann stuðning sem þessi ályktun fékk á þinginu, en hún fór í gegn með örlitlum orðalagsbreytingum.

Hins vegar veldur það undrun og hryggð formanns VLFA að ályktun um afnám verðtryggingar skyldi hafa verið felld bæði í nefndarstarfi sem og í allsherjarkosningu á þinginu. Það er með ólíkindum í ljósi þess að verðtryggingin hefur leikið skuldsett heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum. Hvernig má það vera að verkalýðshreyfingin skuli ekki vera í sama takti og hinn almenni félagsmaður hvað þetta brýna hagsmunamál varðar? Enda var niðurstaða könnunar, sem Hagsmunasamtök heimilanna létu Capacent Gallup gera fyrir sig um vilja til afnáms verðtryggingar, sú að 80% þátttakenda vildu afnema verðtrygginguna af 1600 manns sem spurðir voru.

Formaður spyr sig á hvaða vegferð er íslensk verkalýðshreyfing þegar hún gengur slag í slag þvert gegn vilja hins almenna félagsmanns, eins og áðurnefnd könnun sannar, og þarna er kannski komin skýringin á þeirri gríðarlegu gjá sem er á milli forystu verkalýðshreyfingarinnar og hins almenna félagsmanns um þessar mundir.

Formaður færði ítarleg rök fyrir þessari ályktun sem felld var á þinginu og kom m.a. fram í máli hans að almenningur hefur verið að mótmæla á Austurvelli m.a. verðtryggingunni og í þessu samhengi er rétt að minna á að þegar stóru mótmælin voru þegar upp undir 10.000 manns mættu 1. október 2010 voru verðtryggð íbúðarlán heimilanna 1.236 milljarðar og hafa hækkað vegna 5,7% verðbólgu á síðustu 12 mánuðum um 70 milljarða. En formanni reiknast til að frá 1. janúar 2008 hafi verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað hvorki um meira né minna en 350 milljarða króna. Því er það þyngra en tárum taki að ályktun um að eyða þessum skaðvaldi sem verðtryggingin er, hafi verið felld á þessu þingi með 54,5% atkvæða. Þarna var kjörið tækifæri til að standa með alþýðu þessa lands gegn því miskunnarlausa óréttlæti sem birtist í formi verðtryggingar. Óréttlæti sem birtist í því að fjármagnseigendur og fjármálastofnanir bólgna út á kostnað skuldsettra heimila.

Formaður sagði á þinginu að stéttarfélög innan ASÍ hafi fengið gríðarlegar upphæðir í formi vaxta og verðbóta frá hruni og mætti alveg segja að þetta séu hálfgerðir blóðpeningar enda koma þeir frá skuldsettum heimilum. Hrunið virkaði eins og lottó-vinningur fyrir fjármagnseigendur sem voru með sína fjármuni verðtryggða.

Formaður kom einnig inn á það þegar Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd í október 2008 til að meta áhrif þess að taka neysluvísitöluna tímabundið úr sambandi. Formaður þeirrar nefndar var Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og það var með ólíkindum að hann skuli hafa lagst alfarið gegn því að taka neysluvísitöluna úr sambandi tímabundið og dreifa með því byrðum hrunsins jafnt milli fjármagnseigenda og skuldsettra heimila . Rök forseta ASÍ voru þau að þetta myndi kosta fjármagnseigendur 180 milljarða, en skítt með skuldsett heimili. Ég hef áður skorað á forseta ASÍ að segja af sér vegna þessarar afstöðu sem hann tók gegn skuldsettum heimilum og ég geri það aftur nú.

Eins og áður sagði vakti þessi niðurstaða undrun formanns, enda er hún ekki í neinum takti við það sem alþýða þessa lands hefur verið að berjast fyrir á síðustu misserum. En þetta er engin nýlunda fyrir formann Verkalýðsfélags Akraness að lenda í slíkum átökum þegar um forystu verkalýðshreyfingarinnar er að ræða en eins og frægt var lagði Verkalýðsfélag Akraness fram tillögu um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum þar sem sjóðsfélagarnir myndu kjósa alla sína stjórnarmenn og hætt yrði með helmingaskipti verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda eins og nú tíðkast. Sú tillaga var felld með 80% atkvæða á ársfundinum, en félagið lét Capacent Gallup gera könnun fyrir sig um sama efni og það er skemmst frá því að segja að þar voru um 80% sem vildu auka við lýðræði í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá gríðarlegu gjá sem er á milli hins almenna félagsmanns og æðstu stjórnenda verkalýðshreyfingarinnar svo ekki verður um villst.

13
Oct

Formaður VLFA mun leggja fram tvær ályktanir á þingi SGS

Þing Starfsgreinasambands Íslands, sem er eitt stærsta landssamband innan ASÍ, mun hefjast í dag kl. 11. Þingið mun hefjast á því að velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, mun flytja ávarp ásamt forseta Alþýðusambands Íslands.

Það er alveg ljóst að fjölmörg mál er lúta að hagsmunum félagsmanna SGS munu verða til umfjöllunar á þessu þingi. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur samið tvær ályktanir sem hann mun leggja fram á þinginu. Önnur ályktunin lýtur að afnámi verðtryggingar enda er hér um að ræða samfélagslegt mein sem hefur leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum.

Hin ályktunin mun lúta að því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því af fullum þunga að sá gríðarlegi forsendurbrestur sem varðar skuldir heimilanna verði leiðréttur með afgerandi hætti í eitt skipti fyrir öll. Formaður trúir ekki öðru en að þessi mikilvægu hagsmunamál okkar félagsmanna fái brautargengi á þinginu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image