• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Nov

Formaður SGS og forseti ASÍ heimsóttu Drífanda stéttarfélag og kynntu sér atvinnulífið í Vestmannaeyjum

Formaður Starfsgreinasambands Íslands, Villi, ásamt Finnbirni Hermannssyni forseta ASÍ og Róberti hagfræðingi ASÍ, heimsóttu nýverið Vestmannaeyjar í boði Drífanda stéttarfélags og Sjómannafélagsins Jötuns. Þar tóku á móti þeim þau Arnar Hjaltalín og Guðný Kjartansdóttir fyrir hönd Drífanda ásamt Kolbeini frá Jötni.

Á fundi með fulltrúum félaganna var farið yfir helstu baráttumál launafólks í Eyjum, meðal annars samgöngumál, heilbrigðisþjónustu og réttindamál starfsfólks. Mikil áhersla var lögð á mikilvægi þess að þjónusta og innviðir tryggi búsetuöryggi og jafna möguleika íbúa í sjávarbyggðum og öðrum brothættum samfélögum.


Heimsókn í Laxey – stórfelld uppbygging og gífurleg verðmætasköpun í kortunum

Að loknum fundi heimsótti hópurinn landeldisfyrirtækið Laxey, þar sem mikil uppbygging stendur yfir. Fyrstu löxunum var slátrað fyrir skemmstu, samtals um 150 tonnum, og fóru um 98% framleiðslunnar í hæsta gæðaflokk.

Starfsemin er í örum vexti og búist er við að hún nái fullum afköstum á næstu 5–7 árum. Áætlaðar útflutningstekjur fyrirtækisins gætu þá numið um 43 milljörðum króna á ári, sem jafnast á við sterka loðnuvertíð. Um 100 starfsmenn vinna nú hjá fyrirtækinu og ljóst er að afleidd störf verða fjölmörg í tengslum við vöxt og þróun starfseminnar.

Sérstaka athygli vekur að ríflega helmingur eignarhluta Laxeyjar er í höndum Eyjamanna, 30% er í eigu lífeyrissjóða og einungis 20% erlent fjármagn. Um er að ræða mikilvægt atvinnuverkefni fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum og þjóðarbúið í heild.


Heimsókn til Vinnslustöðvarinnar – 5 milljarða fjárfesting í nýjum mannvirkjum

Einnig var farið í heimsókn til Vinnslustöðvarinnar, þar sem ráðist hefur verið í mikla uppbyggingu vinnsluhúsa sem nemur um 5 milljörðum króna.

Á fundi með stjórnendum fyrirtækisins voru veiðigjöld og áhrif þeirra á rekstur og störf í greininni til umræðu. Fulltrúar VLFA og ASÍ lögðu áherslu á mikilvægi þess að skoða áhrif veiðigjalda af kostgæfni og tryggja að þau leiði hvorki til samþjöppunar né minna atvinnuöryggis sjómanna og fiskvinnslufólks.

Markmið VLFA og ASÍ eru skýr: að tryggja fyrirtækjum góð rekstrarskilyrði til að fjárfesta, skapa störf og greiða laun sem endurspegla verðmætasköpunina í greininni.


Öflugt samfélag sem stendur á sterkum stoðum

Heimsóknin til Vestmannaeyja var afar upplýsandi og staðfesti enn á ný þann kraft og metnað sem býr í samfélaginu. Þar er unnið markvisst að verðmætasköpun sem skilar sér í atvinnuöryggi, tekjum og framtíðaruppbyggingu – ekki aðeins fyrir Eyjar heldur fyrir landið allt.

VLFA sendir Arnari, Guðnýju og Kolbeini kærar þakkir fyrir hlýjar móttökur og faglegt samtal.

Vestmannaeyjar eru samfélag með skýra sýn: að byggja framtíð sína á sterkum atvinnugreinum, nýsköpun og virku samspili fólks, fyrirtækja og stéttarfélaga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image