• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Jan

Sigur fyrir allt íslenskt launafólk

Það er óhætt að segja að íslenskt launafólk hafi fengið frábæran dóm frá Hæstarétti í gær er hæstiréttur sneri dómi héraðsdóms Reykjavíkur algjörlega við. Það mál sem um ræðir er vinnuslys sem varð í Norðuráli þegar Þórarinn Björn Steinsson kom samstarfskonu sinni til hjálpar eftir að bakskautaklemma sem var 620 kg að þyngd, féll ofan á hana. Þórarni ásamt öðrum vinnufélaga sínum tókst með ótrúlegum hætti að lyfta þessu þunga járnstykki ofan af samstarfskonunni en því miður með þeim skelfilegu afleiðingum fyrir Þórarin að hann hefur verið 75% öryrki eftir þessa hetjudáð.

Eins og áður sagði sneri hæstiréttur dómnum algjörlega við en bæði Sjóvá almennar og Norðurál höfðu verið algjörlega sýknuð af allri skaðabótaskyldu gagnvart þessu vinnuslysi í héraðsdómi og er því hér um gríðarlega hagsmuni að ræða, ekki bara fyrir Þórarin heldur alla íslenska launþega eins og áður sagði.

Nú hefur verið tekinn af allur vafi um að íslenskt launafólk þarf ekki að hika við að koma samstarfsfólki sínu til hjálpar og sitja sjálft uppi með tjón sem það hugsanlega getur orðið fyrir við slíka björgun.

Dómurinn er alveg hvellskýr en hann kveður á um að Norðurál sé skaðabótaskylt gagnvart Þórarni þegar hann kom samstarfskonu sinni til hjálpar. Í dómnum segir meðal annars:

Áfrýjandi varð fyrir tjóni sínu er hann kom samstarfsmanni sínum Málfríði Söndru í skyndingu til hjálpar þar sem hún hafði skorðast undir þungu málmstykki. Telja verður að viðbrögð áfrýjanda, og hins starfsmannsins sem lyfti undir klemmuna með honum, hafi verið eðlileg við þær aðstæður sem upp voru komnar. Má fyrirfram gera ráð fyrir að starfsmenn komi samstarfsmönnum, sem verða fyrir slysum, til hjálpar eftir föngum, ekki síst til að aflétta hættu sem að samstarfsmanni steðjar, eins og að losa hann undan fargi svo sem hér var raunin. Viðbrögð áfrýjanda og starfsfélaga hans voru líka til þess fallin að draga úr tjóni samstarfsmannsins sem undir farginu lá og voru þau að því leyti í þágu hagsmuna stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. sem vinnuveitanda samstarfsmannsins. Af þessu leiðir að tjónið sem áfrýjandi varð fyrir, er hann lyfti hinu þunga fargi, telst til bótaskyldra afleiðinga af þeirri háttsemi sem fyrr var lýst og talin er valda bótaskyldu stefnda Norðuráls Grundartanga ehf.

Þessu til viðbótar var Norðurál dæmt til að greiða Þórarni málskostnað að upphæð 1.200.000 kr.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega ánægður með þennan dóm en félagið hefur staðið þétt við bakið á Þórarni í þessu máli og sá meðal annars til þess að greiða allan kostnað varðandi áfrýjun til hæstaréttar og var búið að gefa Þórarni fullkomið loforð um það að ef málið myndi tapast þá myndi félagið greiða allan þann málskostnað sem hlytist af þessu máli. Enda er það stefna stjórnar félagsins að standa ávallt þétt við bakið á sínum félagsmönnum þegar brotið er á þeim og hagsmunir þeirra eru í húfi.

Formaður félagsins óskar Þórarni innilega til hamingju með þennan dóm en það er ljóst að með þessum dómi mun hann fá skaða sinn bættan og formanni þótti vænt um að heyra þau hlýju orð sem Þórarinn lét falla víða í fjölmiðlum í gær í garð félagsins er lítur að aðstoð og aðkomu VLFA að þessu máli.

19
Jan

Formaður félagsins ætlar að leggja fram ályktun á formannafundi ASÍ á eftir

Klukkan 13 í dag hefst formannafundur Alþýðusambands Íslands þar sem farið verður yfir forsendur kjarasamninga og lagðar línurnar hvort segja eigi upp samningunum vegna vanefnda ríkisstjórnar Íslands á loforðum sem gerð voru samhliða kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 5. maí 2011.

Það liggur fyrir að laun eiga að hækka um næstu mánaðarmót og sem dæmi þá eiga taxtalaun að hækka um 11 þúsund krónur og hjá þeim sem ekki vinna eftir svokölluðu taxtakerfi eiga laun að hækka um 3,5%. Það liggur einnig fyrir að forsendur er lúta að Samtökum atvinnulífsins hafa staðist nokkurn veginn en öðru máli gegnir um forsendur er lúta að loforðum ríkisstjórnarinnar. Ef verkalýðshreyfingin ætlaði sér að segja upp samningum til að sækja meiri launabætur til handa launafólki þá er Verkalýðsfélag Akraness tilbúið til að fara í þá vegferð. Það liggur hins vegar fyrir að það stendur ekki til vegna þess að forsendur er lúta að Samtökum atvinnulífsins hafa staðist. Því telur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness það ekki skynsamlegt að segja upp kjarasamningum og hafa af launafólki þær kjarabætur sem eiga að koma til framkvæmda 1. febrúar næstkomandi. Formanni er það minnisstætt þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður 2009 og launahækkunum var frestað sem hafði þær afleiðingar að verkafólk varð af á annað hundrað þúsund krónum í launum.

Hins vegar er ekki hægt að horfa stundinni lengur á þau svik ríkisstjórnarinn er lúta að íslensku launafólki og þeim loforðum sem gerð hafa verið í gegnum tíðina en þau svik hafa gert það að verkum að ráðist er á þá sem minnst mega sín í íslensku samfélagi sem eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar og öryrkjar. Samkvæmt loforði Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur áttu atvinnuleysisbætur og elli- og örorkubætur að hækka um 11 þúsund krónur en það hefur verið svikið og áðurnefndar bætur munu einungis hækka um 5.500 kr. Ekki hefur heldur verið staðið við jöfnun lífeyrisréttinda heldur hefur verið tekin ákvörðun um að skattleggja lífeyrissjóðina á hinum almenna vinnumarkaði sem gerir ekkert annað en að auka á þann ójöfnuð sem nú er fyrir.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness ætlar að leggja fram ályktun á formannafundinum og vonast hann eindregið til þess að sú ályktun verði samþykkt en hún hljóðar með eftirfarandi hætti:

Ályktun

 

 Formannafundur Alþýðusambands Íslands haldinn þann 19. janúar 2012 lýsir forundrun sinni á því að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti ætli enn og aftur að svíkja verkalýðshreyfinguna illilega þegar kemur að því að efna loforð sem gerð eru samhliða kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Aðildarfélög ASÍ geta ekki og ætla ekki að láta þessi síendurteknu svik stjórnvalda átölulaus stundinni lengur. Á þeirri forsendu krefst formannafundurinn þess að ríkisstjórn Íslands standi við þau loforð sem fram koma í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gerði við verkalýðshreyfinguna samhliða kjarasamningum 5. maí 2011. Að öðrum kosti sér formannafundurinn sig knúinn til að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Íslands vegna þessara síendurteknu svika.

___

Hér má svo sjá ályktun stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness sem samþykkt var 10. janúar 2012.

17
Jan

Birgir S. Elínbergsson borinn til grafar í dag

Birgir S. ElínbergssonÍ dag verður borinn til grafar Birgir S. Elínbergsson, fyrrverandi formaður orlofsdeildar Verkalýðsfélags Akraness. Birgir var gríðarlega mikill áhugamaður um verkalýðsmál og félagslega baráttu og er skemmst frá því að segja að Birgir tók þátt í mikilli baráttu sem átti sér stað í Verkalýðsfélagi Akraness frá árinu 2001 til ársloka 2004. Sú barátta endaði með því að Alþýðusamband Íslands skipaði starfsstjórn yfir félaginu og efnt var til allsherjarkosninga innan félagsins.

Birgir var einn af þeim sem voru á lista undir forystu núverandi formanns VLFA en sá listi vann kosningarnar árið 2003 og tók við rekstri félagsins en reksturinn var afar slæmur á þessum árum jafnt fjárhagslega sem félagslega. Það var mikið kappsmál hjá Birgi að koma félaginu í samt lag enda var hann með gríðarlega sterka réttlætiskennd og uppgjöf var ekki til í hans orðabók. Hann var ætíð tilbúinn að berjast með kjafti og klóm til að réttlætið myndi ná fram að ganga og fyrir bættum hag íslenskra launþega.

Birgir gerðist síðan verkstjóri og samkvæmt lögum félagsins gat hann ekki setið lengur í stjórn félagsins. En hann var ekki lengi að koma sér aftur í verkalýðsbaráttuna enda var hann orðinn gjaldkeri Verkstjórafélagsins örfáum mánuðum eftir að hann gerðist verkstjóri. Allir sem þekktu Birgi vissu að hér var mikill öðlingur á ferð og var hann ætíð tilbúinn til að rétta fólki hjálparhönd ef það átti í einhverjum vanda.

Stjórn félagsins kveður þennan góða og dygga vin með miklum söknuði og vottar aðstandendum og vinum sína dýpstu samúð.

13
Jan

Reiði og gremja á fundi um öldrunarmál í gær

Það ríkti umtalsverð gremja og reiði á meðal fundarmanna á fundi sem haldinn var í gærkvöldi vegna þess mikla niðurskurðar sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur mátt þola á undanförnum árum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hefur verið tekin ákvörðun um að loka öldurnardeild sjúkrahússins með þeim afleiðingum að um 26 starfsmenn munu missa vinnuna.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, flutti ávarp og fór yfir ástæður fyrir þessum niðurskurði. Einnig voru bæjarfulltrúarnir Sveinn Kristinsson og Gunnar Sigurðsson með ávörp á fundinum en fundurinn var boðaður af hálfu Sjúkraliðafélags Íslands en langflestir þeirra sem fengu uppsögn vegna þessarar lokunar eru frá Sjúkraliðafélaginu. Þingmönnum Norðvesturkjördæmis var boðið á fundinn og þeir sem mættu voru Ásmundur Daði Einarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ásbjörn Óttarsson og Einar K. Guðfinnsson.

Fundarmenn kölluðu eftir því í hverju þessi sparnaður væri fólginn því það lægi fyrir að alltaf þarf að þjónusta þetta fólk sem dvalið hefur á öldrunardeildinni. Fram kom hjá aðstandendum sem sátu fundinn að frábær þjónusta hafi verið veitt á þessari tilteknu deild og það væri sárt að sjá á eftir því góða starfsfólki sem þar starfar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt var fundarstjóri á þessum fundi, gagnrýndi harðlega þá forgangsröðun sem hefur verið hjá stjórnvöldum og nefndi hann sem dæmi að verið væri að styrkja Sinfónínuhljómsveit Íslands um 800 milljónir ásamt fjölmörgum öðrum atriðum sem klárlega hefði mátt skera frekar niður heldur en þá grunnstoð sem heilbrigðiskerfið okkar er. Fram kom í máli Guðbjarts að búið er að skera fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands niður um 550 milljónir króna á ári á liðnum árum. Það sér það hver maður að svona blóðugur niðurskurður mun klárlega fara að stefna öryggi þeirra sem þurfa að sækja þá þjónustu sem þar er veitt í hættu. Það er kaldhæðnislegt til þess að vita að fjárveitingar til fjármálaeftirlitsins voru auknar um 550 milljónir á síðasta ári á sama tíma og búið er að skera niður um sömu krónutölu á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þetta er forgangsröðun sem meðal annars formaður félagsins skilur alls ekki.

Formaður félagsins sagði einnig á fundinum að það er ekki það eina að þessir 26 einstaklingar séu að missa vinnuna heldur hafi tugir starfsmanna verið lækkaðir í starfshlutfalli og því var grátbroslegt að sjá í fréttum að seðlabankastjórinn Már Guðmundsson hefur stefnt bankanum sem hann stýrir vegna brota á ráðningarsamningi og krefst hann launahækkunar sem nemur 300 þúsund krónum á mánuði. Veruleikafirring þessara manna er algjör í ljósi þeirra hamfara sem nú ganga yfir starfskjör heilbrigðisstarfsmanna þar sem starfsfólki er sagt upp, launakjör lækkuð og þess krafist að fólk leggi mun meiri vinnu á sig sökum fækkunar á hinum ýmsu stofnunum. Það var greinilega enginn vilji til þess að endurskoða þessa ákvörðun ef marka má orð ráðherrans á fundinum.

12
Jan

Opinn fundur á Kaupfélaginu í kvöld um lokun öldrunardeildar á Sjúkrahúsi Akraness

Vesturlandsdeild Sjúkraliðafélags Íslands fór þess á leit við formann Verkalýðsfélags Akraness að hann tæki að sér fundarstjórn á opnum fundi í kvöld, þar sem málefni aldraðra á Vesturlandi verða til umfjöllunar. Tilefnið er sú ákvörðun að loka öldrunardeild á Sjúkrahúsi Akraness. Fundurinn verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu í kvöld og hefst kl. 20:00.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  • Erla Linda Bjarnadóttir, formaður Vesturlandsdeildar Sjúkraliðafélags Íslands flytur ávarp.
  • Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, mun einnig flytja ávarp.
  • Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar og Gunnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi, flytja ávörp um afleiðingar breytinga á þjónustu við aldraðra á Akranesi og fækkun atvinnutækifæra.
  • Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands mun fjalla um stöðu starfsmanna.

Þingmönnum Norð-Vesturkjördæmis og landslækni hefur verið boðið til fundarins og er vonast eftir þátttöku þeirra í umræðum á eftir framsögu erindum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá hefur Verkalýðsfélag Akraness mótmælt harðlega þeim gríðarlega niðurskurði sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur mátt þola á undanförnum misserum og nú síðast með lokun á áðurnefndri öldrunardeild með þeim afleiðingum að upp undir 30 manns missa atvinnuna. Auk þess hefur umtalsverður fjöldi starfsmanna verið skertur í starfshlutfalli.

Félagið hefur mótmælt þeirri forgangsröðun sem hefur verið við lýði á undanförnum árum og finnst það með ólíkindum hvernig höggvið hefur verið í sífellu í okkar grunnstoð, sem er að sjálfsögðu heilbrigðiskerfið.

11
Jan

Ályktað um vantraust á ríkisstjórn Íslands

Í gær kom stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness saman til að ræða forsendur kjarasamninga og hvort segja bæri upp kjarasamningum vegna forsendubrests. Formaður fór yfir forsenduákvæði kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði og kom fram í máli hans að forsendur gagnvart Samtökum atvinnulífsins hafa staðist en öðru máli gegndi með samkomulag sem gert var við ríkisstjórn Ísland samhliða kjarasamningum.

Það var mat stjórnar og trúnaðarráðs félagsins að ekki væri grundvöllur fyrir því að segja upp kjarasamningum þó svo forsenduákvæði gagnvart ríkisstjórninni hefðu kolbrostið, enda mun ekkert annað gerast gagnvart íslenskum launþegum, ef kjarasamningum verður sagt upp, en að launahækkanir sem koma eiga 1. febrúar verða hafðar af launafólki.

Hins vegar var stjórn og trúnaðarráð félagsins agndofa yfir þeim síendurteknu svikum sem núverandi ríkisstjórn hefur ástundað gagnvart íslensku launafólki og á þeirri forsendu var samþykkt ályktun þar sem m.a. kemur fram:

"Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að ríkisstjórn Íslands standi við öll þau loforð sem fram koma í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gerði við verkalýðshreyfinguna samhliða kjarasamningum 5. maí 2011. Að öðrum kosti sér stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness sig knúið til að lýsa yfir algeru vantrausti á núverandi ríkisstjórn vegna síendurtekinna svika og vanefnda við íslenskt launafólk og krefst þess að stjórnin fari frá og boðað verði til kosninga við fyrsta tækifæri."

Einnig kemur fram í ályktuninni:

"Hver hefði trúað því að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti skyldi ráðast jafn illilega á kjör íslensks launafólks eins og núverandi stjórn hefur ítrekað gert frá því hún komst til valda.

Það er ekki aðeins að þessi samkomulög hafi verið svikin, heldur hefur skjaldborgin gagnvart heimilunum einnig brugðist og í staðinn fyrir skjaldborg í kringum heimili hefur verið slegin skjaldborg í kringum fjármálastofnanir og erlenda vogunarsjóði. Atvinnuuppbygging og atvinnusköpun hefur algerlega brugðist, enda er nánast sama atvinnuleysi í dag og var í janúar 2009. Alþýða þessa lands átti síður en svo von á því að öllum vanda hrunsins yrði varpað miskunnarlaust og grímulaust yfir á launafólk, sem birtist m.a. í skefjalausum skattahækkunum og gjaldskrárhækkunum sem dunið hafa í íslenskum launþegum á síðustu misserum."

Hægt er að lesa ályktunina í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image