• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Aðalfundur félagsins haldinn í gær Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA og Sigurður Guðjónsson, formaður iðnsveinadeildar á aðalfundi félagsins í gær.
25
Apr

Aðalfundur félagsins haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær og er óhætt að segja að afkoma félagsins á síðasta ári hafi verið mjög góð en rekstrarafgangur var á félaginu sem nemur 73 milljónum króna. Félagstekjur jukust um tæp 7% á milli ára sem má að hluta til rekja til þess að fjöldi fólks vítt og breitt um landið hefur gengið í félagið á síðastliðnu ári. 

Formaður rifjaði það upp að þegar ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003 þá var félagið fjárvana og í algjörri tilvistarkreppu. Sem dæmi var félagssjóður rekinn á 2,5 milljóna króna yfirdrætti eða með öðrum orðum, félagssjóður átti ekki fyrir daglegum rekstri. Sem betur fer hefur nýrri stjórn tekist að byggja félagið upp fjárhagslega sem félagslega því ekkert stéttarfélag getur veitt góða þjónustu nema vera fjárhagslega og félagslega sterkt.

Þessi góða afkoma hefur verið notuð í að bæta þjónustu við félagsmenn og auka hin ýmsu réttindi þeirra. Þetta birtist meðal annars í 9 nýjum styrkjum úr sjúkrasjóði frá því núverandi stjórn tók við ásamt fjölmörgum öðrum réttindum sem félagsmönnum nú býðst. Einnig fjárfesti félagið í nýjum og glæsilegum bústað í Kjós í Hvalfirði vegna fjölgunar félagsmanna og er óhætt að segja að þessi nýi bústaður hefur fallið vel í kramið hjá félagsmönnum enda afar glæsilegur eins og áður sagði.

Formaður gerði grein fyrir starfseminni á síðasta ári en óhætt er að segja að síðasta ár hafi verið afar yfirgripsmikið enda voru allir kjarasamningar félagsins lausir á síðasta ári. Gríðarleg barátta var vegna margra þeirra samninga sem félagið var með og nægir að nefna í því samhengi að félagið lét kjósa um verkfallsheimild í tveimur þessara samninga en það var annars vegar í Síldarbræðslunni og hins vegar hjá starfsmönnum Klafa á Grundartanga. Einnig voru mikil átök við kjarasamningsgerðina fyrir starfsmenn Elkem Ísland og Norðurál. Formaður fór á fundinum yfir samræmdu launastefnuna sem mótuð hafði verið hjá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ, launastefnu sem byggðist á því að samið yrði um sömu launahækkanir fyrir alla launþega, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Það kom fram í máli formanns að vegna samræmdu launastefnunnar hafi félagið slitið sig alfarið frá kjarasamningsgerð með ASÍ með því að taka samningsumboðið til félagsins. Sem betur fer náðist að brjóta samræmdu launastefnuna á bak aftur hvað varðar stóriðjufyrirtækin á Grundartanga en hins vegar tókst það ekki á hinum almenna vinnumarkaði. Það kom einnig fram í máli formanns að það sé nöturlegt til þess að vita að ASÍ skuli hafa lagt stein í götu þess að lagfæra og leiðrétta laun fiskvinnslufólks á grundvelli sterkrar stöðu útgerðarinnar vegna gengisfalls íslensku krónunnar. En á þeim bænum vildu menn að fiskvinnslufólk yrði inni í svokallaðri samræmdri launastefnu.

Það var afar ánægjulegt fyrir starfsmenn og stjórn félagsins að heyra þau hlýju orð sem fundarmenn létu falla í garð félagsins enda gerir slíkt ekkert annað en að hvetja okkur enn frekar til dáða við að bæta réttindi og hagsmunagæslu fyrir okkar félagsmenn enda er það stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að vera það stéttarfélag sem býður félagsmönnum sínum upp á bestu þjónustu sem völ er á.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image