• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jan

Fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda

Nú er að hefjast fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi en samkvæmt kjarasamningi hækka starfsmenn við slíkt námskeið um tvo launaflokka. Með öðrum orðum, þeir fara úr launaflokki 5 sem er almennur fiskvinnslumaður og í sérhæfðan fiskvinnslumann sem er launaflokkur 7.

Því til viðbótar var samið um í síðustu samningum að sérhæfður fiskvinnslumaður sem lokið hefur slíku námskeiði getur farið í viðbótarfiskvinnslunám sem veitir honum tveggja flokka launahækkun til viðbótar sem þýðir að viðkomandi fer í launaflokk 9.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun á mánudaginn fara yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði og jafnframt gera grein fyrir hinum ýmsu bónuskerfum sem nú eru í gildi og sýna hver meðaltalsbónus á landinu er sem og hér á Akranesi. Það er skemmst frá því að segja að það er mismunandi á milli fiskvinnslufyrirtækja hver bónus fiskvinnslufólks er. Meðaltalsbónus á landsvísu er 290 kr. en á Akranesi er meðaltalsbónusinn hins vegar 350 kr sem er rúmlega 20% hærri bónus en á landsvísu.

Launataxtar fiskvinnslufólks munu hækka um 11 þúsund krónur frá og með 1. febrúar næstkomandi og einnig mun bónusinn hækka um 3,5% en þó að lágmarki um 10 krónur pr. klst.  

26
Jan

Samið um hækkun kauptryggingar og annarra kaupliða sjómanna

Þann 20. janúar skrifaði Sjómannasamband Íslands undir samkomulag við LÍÚ um hækkanir á kauptryggingu og öðrum kaupliðum frá 1. febrúar nk.

Kjarasamningar sjómanna á fiskiskipum hafa verið lausir frá 1. janúar 2011 og ekki útlit fyrir breytingar á því á næstunni. Í desember 2010 lýsti formaður LÍÚ því yfir að ekki yrði samið við sjómenn fyrr en niðurstaða fengist varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Niðurstaða í því máli hefur ekki enn fengist og því nánast engar viðræður í gangi milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins. Á aðalfundi sjómannadeildar VLFA sem haldinn var 28. desember 2011 voru kjarasamningar m.a. til umræðu og var það mat fundarmanna að algjörlega óásættanlegt væri að halda kjarasamningum sjómanna í herkví vegna ágreinings útgerðarmanna við stjórnvöld. Hins vegar voru fundarmenn sammála um að ámælisvert sé af stjórnvöldum hversu lengi það hefur dregist að leggja fram breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu

Þrátt fyrir samningsleysið hefur LÍÚ fallist á að hækka kauptryggingu og aðra kaupliði hjá sjómönnum um sömu prósentuhækkun og samið var um á almenna vinnumarkaðnum. Hækkunin nemur 3,5% og tekur gildi 1. febrúar næstkomandi eins og áður sagði.

Hér er hægt að nálgast samkomulagið í heild sinni.

Hér er hægt að nálgast nýja kaupskrá fyrir sjómenn sem tekur gildi 1. febrúar 2012.

26
Jan

Ófærð spillir útleigu á sumarbústaðnum í Svínadal

Það er óhætt að segja að tíðarfarið í vetur hafi haft áhrif á útleigu á sumarbústöðum félagsins, sérstaklega á bústaðnum í Svínadal. En nú er staðan þannig að það er búið að vera meira og minna ófært frá byrjun desember til dagsins í dag og á þeirri forsendu hefur ekki verið hægt að leigja bústaðinn út. Ófærð af þessu tagi hefur ekki verið síðastliðin 10 ár þó vissulega detti út ein og ein helgi sem ekki hefur verið hægt að leigja út sökum ófærðar. 

Einnig hefur dottið út ein og ein helgi í sumarbústað félagsins í Hraunborgum í Grímsnesi sökum ófærðar en aðrir orlofskostir félagsins hafa gengið frábærlega eins og til dæmis bústaðurinn í Húsafelli og síðast en ekki síst í Kjós í Hvalfirði en í bæði þessi hús félagsins hefur verið greiðfært fram til þessa. Nú er bara að vona að tíðin fari að lagast þannig að hægt verði að koma bústöðunum út í fulla útleigu að nýju enda er eftirspurnin gríðarleg um allar helgar.

24
Jan

Loðnuvertíðin að komast á fulla ferð á Akranesi

Það er óhætt að segja að loðnuvertíðin sé nú að fara á fulla ferð í síldarbræðslunni hér á Akranesi. Á fimmtudaginn síðasta landaði Ingunn AK 2000 tonnum og í þessum töluðu orðum er gamla aflaskipið Víkingur AK að landa 1400 tonnum. Í kvöld landar Faxi RE og samkvæmt upplýsingum þá er hann með fullfermi.

Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir enda byggjast laun starfsmanna í síldarbræðslum að stórum hluta á loðnuvertíðinni sjálfri þegar unnið er á vöktum svo ekki sé nú talað um tekjur sjómanna sem byggjast á því að aflist vel. Einnig skiptir þetta íslenskt þjóðarbú mjög miklu máli enda liggur það fyrir að það eru útflutningstekjur sem halda uppi íslenskri velferð og á þeirri forsendu verða það að teljast jákvæðar fréttir að hér stefni í eina bestu loðnuvertíð í mörg ár.

23
Jan

Félagsmenn duglegir að nýta sér þjónustu félagsins

Það er óhætt að segja að félagsmenn nýti þjónustu félagsins vel, en á árinu sem nú er nýliðið voru greiddar út úr sjúkrasjóði félagsins upp undir 35 milljónir króna í formi sjúkradagpeninga og hinna ýmsu styrkja sem félagið býður upp á. Einnig voru félagsmenn duglegir að nýta sér fræðslustyrki úr þeim sjóðum sem félagið á aðild að, en greiðslurnar námu á síðasta ári 7,7 milljónum króna. 208 félagsmenn nýttu sér þessa fræðslustyrki sem gerir að meðaltali um 37.000 kr. á mann.

Félagavefurinn sem opnaður var árið 2010 hefur farið gríðarlega vel af stað, en á síðasta ári voru 1952 innskráningar. Þetta segir okkur að félagsmenn hafa nýtt sér félagavefinn mjög vel og sést umtalsverð aukning frá mánuði til mánaðar. Á félagavefnum er hægt að skoða iðgjaldasögu, punktastöðu, greiðslusögu vegna bóta og styrkja og úthlutunarsögu vegna orlofshúsa. Jafnframt býður félagavefurinn upp á upplýsingar um stöðu orlofshúsa og einnig er hægt að sækja um, bóka og greiða fyrir orlofshús með greiðslukorti.

Nýting á orlofshúsum félagsins hefur einnig verið gríðarlega mikil, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá fjárfesti félagið í nýjum glæsilegum bústað í Kjós í Hvalfirði og það er skemmst að segja frá því að hann er uppbókaður allt fram að sumarúthlutun. Þetta sýnir að félagsmenn eru afar ánægðir með þennan nýja valkost sem félagið býður upp á.

Þrátt fyrir samdrátt á íslenskum vinnumarkaði og minnkandi tekjur þá jukust félagstekjur Verkalýðsfélags Akraness um tæp 7% á milli ára sem sýnir okkur svo ekki verður um villst að félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness er sterkt m.a. vegna öflugra útflutningsfyrirtækja sem starfa á svæðinu. Upp undir 70% af félagsmönnum VLFA starfa hjá útflutningsfyrirtækjum. Þessi aukning á félagstekjum skýrist einnig af því að félaginu tókst að ná umtalsvert betri kjarasamningum á liðnu ári, en um var samið á hinum almenna vinnumarkaði í anda svokallaðrar samræmdrar launastefnu.

Sökum sterkar stöðu félagsins þá hefur félagið ákveðið að hækka t.d. fæðingarstyrki um 100% og nemur styrkurinn nú 70.000 kr. til félagsmanns. Ef báðir foreldrarnir eru félagsins þá nemur styrkurinn 140.000 kr. Það er stefna stjórnar að láta félagsmenn ávalt njóta góðs af góðum rekstri og rekstrarafkomu félagsins, enda stefnir stjórnin að því að reyna að þjónusta sína félagsmenn eins vel og kostur er á öllum sviðum.

20
Jan

Lýðræðisofbeldi og einræði innan ASÍ

Það er óhætt að segja að lýðræðisofbeldið og einræðið innan Alþýðusambands Íslands hafi náð nýjum hæðum í gær. En eins og fram hefur komið í fréttum þá var í gær haldinn formannafundur ASÍ þar sem farið var yfir forsenduákvæði kjarasamninga og síendurteknar vanefndir ríkisstjórnar Íslands á liðnum árum.

Á fundinum gerði forseti ASÍ grein fyrir vanefndum ríkisstjórnarinnar á samkomulagi við verkalýðshreyfinguna sem gert var samhliða kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 5. maí 2011. En fram kom í máli forsetans að ríkisstjórnin ætlaði ekki að taka fjárlögin upp og koma með þær launahækkanir til handa atvinnulausum, ellilífeyrisþegum og öryrkjum sem um hafði verið samið. Einnig kom fram að ekki yrði breyting á skattlagningu á lífeyrissjóðunum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tók til máls og sagði að þetta væri grafalvarlegt mál í ljósi þess að atvinnurekendur hefðu staðið við sinn þátt í kjarasamningum, en hins vegar lægi það fyrir að ríkisstjórn Íslands hafi enn og aftur svikið sinn þátt í þríhliða samkomulagi við gerð kjarasamninga. Á þeirri forsendu lagði formaður fram tillögu þar sem þess var krafist að ríkisstjórn Íslands stæði við þau loforð sem fram komu í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gerði við verkalýðshreyfinguna samhliða kjarasamningum 5. maí 2011. Að öðrum kosti myndi formannafundurinn lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Íslands vegna þessara síendurteknu svika.

Það er óhætt að segja að þessi ályktun hafi gert það að verkum að flokkspólitísk gríma nokkurra af æðstu forystumanna verkalýðshreyfingarinnar hafi fallið. Forseti Alþýðusambandsins tók til máls og neitaði að taka tillöguna til afgreiðslu, á þeirri forsendu að formannafundur ASÍ væri ekki ályktunarhæfur. Formaður VLFA benti forseta ASÍ á að formannafundur Starfsgreinasambands Íslands, sem er stærsta landsamband ASÍ, hafði ályktað deginum áður um vanefndir ríkisstjórnarinnar og að sjálfsögðu var formannafundur SGS ályktunarhæfur, enda datt engum í hug að draga slíkt í efa.

Um það er getið í lögum ASÍ að hægt sé að leggja fram ályktanir á formannafundum, en það þurfi að gerast með þriggja vikna fyrirvara. Í þessu tilfelli lá fyrir að fundurinn var einungis boðaður með 13 daga fyrirvara og því ekki mögulegt að verða við því. Formaður óskaði eftir því að fundurinn myndi greiða um það atkvæði hvort tillagan yrði tekin til afgreiðslu, því í öllum lýðræðislegum félögum geta fundir tekið ákvarðanir um slíkt. Þessi harðneitaði forseti Alþýðusambands Íslands, en lagði hins vegar fram tillögu um að ályktuninni yrði vísað til umfjöllunar hjá samninganefnd ASÍ. Formaður hefur aldrei orðið vitni að öðru eins lýðræðislegu ofbeldi, þótt hann hafi nú marga fjöruna sopið hvað það varðar þegar kemur að forystu ASÍ og nægir að nefna í því samhengi þegar reynt var að slökkva á míkrófóni þegar formaður hélt ræðu á ársfundi Alþýðusambands Íslands 2009..  Það liggur alveg fyrir í huga formanns að sú ályktun sem lá fyrir fundinum þjónaði hvorki flokkspólitískum hagsmunum forsetans né annarra forystumanna innan verkalýðshreyfingarinnar og því var þessu lýðræðislega ofbeldi beitt.

Sem betur fer fékk þessi ályktun stuðning nokkurra aðila, þar á meðal formanns stærsta stéttarfélags á Íslandi í dag sem er VR, auk nokkurra aðila til viðbótar. Þessir aðilar voru því sammála að formannafundur ASÍ væri að sjálfsögðu ályktunarhæfur og þessi ályktun ætti að koma til afgreiðslu. En eins og áður sagði neitaði forseti ASÍ því algerlega, þó svo að miðstjórn ASÍ hafi í janúar 2009 lagt fram vantrauststillögu á þáverandi ríkisstjórn og einnig sent frá sér fréttatilkynningu eftir formannafund einnig í janúar 2009 um að verkalýðshreyfingin lýsti yfir vantrausti á þáverandi ríkisstjórn.

Formaður félagsins sagði á fundinum í gær að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki, heldur styðja öll góð málefni óháð því frá hvaða flokki slík mál koma. Og að sjálfsögðu á að gagnrýna ríkisstjórnir óháð því hvaða stjórnmálaflokkar sitja í ríkisstjórn hverjum tíma fyrir sig. Það er greinilegt að það skiptir máli hvaða ríkisstjórn er við stjórnartaumana þegar kemur að því að senda frá sér afdráttarlausar ályktanir af hálfu ASÍ. Það skiptir máli hvort ríkisstjórnin er til hægri, vinstri eða miðju. Þessi afgreiðsla forsetans í gær staðfestir það svo ekki verður um villst.

Það liggur fyrir að forseti Alþýðusambandsins hefur unnið leynt og ljóst að því að ná samningsumboði frá stéttarfélögunum við gerð kjarasamninga, sem honum hefur að hluta til tekist eins og sást í síðustu samningum. En það liggur algerlega fyrir að samningsumboðið á að vera hjá stéttarfélögunum sjálfum. Þessu til viðbótar er búið að læða inn forsenduákvæði kjarasamninga, þar sem fámenn elíta innan forystu ASÍ tekur afstöðu til þess hvort forsenduákvæði kjarasamninga eigi að halda eða ekki. Það er ekki í höndum stéttarfélaganna eins og margir halda. Lýðræðislegt ofbeldi af þeim toga sem forseti ASÍ sýndi í gær og þeir einræðistilburðir sem hann hefur ástundað frá því hann tók við sem forseti ASÍ þekkjast ekki nema þá helst hjá forseta Norður-Kóreu og hans líkum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image