• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Mar

Bjartara yfir atvinnulífinu á Akranesi

Iðnaðarsvæðið á Grundartanga heldur áfram að stækka þessi misserin en þónokkur fyrirtæki hafa nú bæst við þá starfsemi sem þar er en eins og flestir vita þá eru Norðurál og Elkem Ísland langstærstu fyrirtækin á þessu svæði um þessar mundir. Á liðnum misserum hafa fyrirtæki eins og Lífland, Hamar, Stálsmiðjan og Héðinn hafið starfsemi á Grundartangasvæðinu.

Núna er stálendurvinnslufyrirtækið GMR nýbyrjað uppbyggingu og er að koma sér fyrir á svæðinu og einnig eru fleiri fyrirtæki í startholunum með að hefja starfsemi á Grundartangasvæðinu. Það eru viss forréttindi fyrir okkur Skagamenn að hafa þetta svæði og þó vissulega sé atvinnuleysi á Akranesi of mikið þá er það mat formanns VLFA að atvinnuástandið á Akranesi sé mun betra en víðast hvar, þökk sé stóriðjusvæðinu á Grundartanga. Samkvæmt Gísla Gíslasyni, forstjóra Faxaflóahafna, þá hafa fjárfestingar á Grundartangasvæðinu frá árinu 2007 verið allt að 20 milljarðar króna sem sýnir svo ekki verður um villst þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað á svæðinu.

Það eru fleiri jákvæð tíðindi sem berast frá atvinnulífinu á Akranesi en skemmst er frá því að segja að fyrirtækið Skaginn gerði milljarða samning við færeyskt fyrirtæki sem mun skapa tugum manna störf til viðbótar. Einnig kom tilkynning um að SS verktakar hafi keypt vélar af þrotabúi vegna trésmiðjunnar TH ehf og hyggist endurvekja starfsemina í fyrra húsnæði fyrirtækisins. Væntanlega mun þetta skapa á annan tug nýrra starfa í þessu fyrirtæki. 

Og ekki má gleyma þeirri gríðarlegu loðnuvertíð sem nú er senn á enda en unnið hefur verið sleitulaust á vöktum við hrognatöku sem og við bræðslu en tugir manna hafa gegnt þessum störfum á liðnum vikum og er um umtalsvert uppgrip að ræða hjá þeim sem við þetta starfa.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image