• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Jun

Verði fiskvinnslufólk fyrir tekjutapi vegna aðgerða LÍÚ verður látið á það reyna fyrir félagsdómi

Nú hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna tilkynnt að þeir muni halda fiskiskipaflotanum í landi um óákveðinn tíma eða allavega eitthvað fram í þessa viku en það er ljóst að þessar aðgerðir útgerðarmanna eru afar umdeildar svo ekki sé fastar að orði kveðið og æði margt sem bendir til þess að þær séu brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Í þeim lögum segir meðal annars orðrétt:  "Óheimilt er og að hefja vinnustöðvun: Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi. Gildandi lög um opinbera starfsmenn haldist óbreytt þrátt fyrir þetta ákvæði."

Útgerðarmenn segja að þessar aðgerðir séu ekki brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur vegna þess að þeir muni greiða starfsmönnum laun á meðan á aðgerðum stendur. Þetta er grundvallaratriði í huga formanns, að það verði tryggt með afgerandi hætti að sjómenn og síðast en ekki síst fiskvinnslufólk verði ekki fyrir tekjutapi vegna þessara aðgerða LÍÚ. Það er ekki nóg að segja að starfsmenn haldi launum heldur þarf að koma fram yfirlýsing frá LÍÚ um að til dæmis fiskvinnslufólki verði greidd öll laun ef það kemur til stöðvunar á vinnslunni á meðan á aðgerðunum stendur. Rétt er að benda á í því samhengi að fiskvinnslufólk er með bónusgreiðslur og í tilfelli HB Granda eru bónusgreiðslur á fasta unna klukkustund að andvirði rúmlega 300 kr. Því er mikilvægt eins og áður sagði að öll laun verði greidd, ekki einungis grunnlaun.

Á þessari forsendu krefst formaður þess að það komi yfirlýsing frá Samtökum atvinnulífsins og LÍÚ um að fiskvinnslufólki verði greitt allt það vinnutap sem það verður fyrir vegna þessara aðgerða LÍÚ. Því það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun láta reyna á það fyrir dómstólum ef félagsmenn okkar verða fyrir tekjutapi vegna þessara aðgerða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image