• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Nov

Réttinda- og hagsmunagæsla skilar árangri

Á síðasta föstudag skilaði hagsmunagæsla félagsins tæpum þremur milljónum til tveggja starfsmanna en þeim hafði verið sagt upp störfum og áttu ekki að fá greiddan umsaminn uppsagnarfrest. Eftir nokkura vikna baráttu tókst félaginu að fá fyrirtækið til að hverfa frá því að greiða þeim ekki áðurnefndan uppsagnarfrest enda voru hér umtalsverðir hagsmunir í húfi fyrir umrædda starfsmenn.

Ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003 og er óhætt að segja að hagsmunagæsla og það að verja kjör félagsmanna VLFA hafi gengið frábærlega á þessum tíma en félagið hefur náð að verja réttindi þar sem kjarasamningsbrot fyrirtækja hafa átt sér stað um sem nemur rúmum 200 milljónum á áðurnefndu tímabili. Það er stefna stjórnar félagsins að hvika hvergi frá þegar réttinda- og hagsmunagæsla er í húfi og horfir félagið ekki í krónur og aura í þeirri baráttu. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir hina almennu félagsmenn að vera með öflug stéttarfélög á bakvið sig sem eru tilbúin til þess að berjast af alefli gegn hinum ýmsu kjarasamningsbrotum sem félagsmenn verða því miður alltof oft fyrir af hálfu sinna atvinnurekenda. Það er því miður bláköld staðreynd að leikurinn á milli launþegans og atvinnurekandans er afar ójafn þegar kemur að hinum ýmsu málum er lúta að réttindum launþegans.

Verkalýðsfélag Akraness er stolt af þessum árangri enda er hér ekki um neinar smáupphæðir að ræða og stærsta einstaka málið sem félagið hefur innheimt fyrir félagsmenn nemur á þriðja tug milljóna króna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image