• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Feb

Kjarasamningur við Samband íslenskra sveitarfélaga undirritaður - SALEK samkomulagið ekki fylgiskjal

Í gær undirritaði Verkalýðsfélag Akraness  nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna þeirra starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað. Eins og margoft hefur komið fram á heimasíðu félagsins þá var djúpstæður ágreiningur á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og VLFA vegna þess að krafa Sambandsins var að SALEK samkomulagið sem undirritað var 27. október yrði fylgiskjal með kjarasamningnum. Það var eitthvað sem Verkalýðsfélag Akraness gat ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við enda ljóst að með slíku væri SALEK samkomulagið orðið ígildi kjarasamnings. Ástæðan fyrir því að félagið hafnaði slíkri kröfu var að félagið taldi að með SALEK samkomulaginu í heild sinni væri verið að skerða og takmarka samningsfrelsi stéttarfélagsins gróflega. 

Á þeirri forsendu ákvað Verkalýðsfélag Akraness að stefna Sambandinu og gerði þá skýlausu kröfu að SALEK samkomulagið væri óskuldbindandi og ólögmætt en grundvöllur fyrir málsókninni á sínum tíma var að Samband íslenskra sveitarfélaga kvað skýrt á um að SALEK samkomulagið væri skuldbindandi. En eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hurfu forsvarsmenn Sambandsins frá því að SALEK samkomulagið væri skuldbindandi, það væri einungis stefnumið. Á þeirri forsendu ákvað Félagsdómur að vísa málinu frá á grundvelli þess að Sambandið viðurkenndi að samkomulagið væri óskuldbindandi. 

Í gær féll Samband íslenskra sveitarfélaga semsagt frá því að SALEK samkomulagið yrði viðhengi við kjarasamninginn og þegar það lá orðið fyrir þá var félagið tilbúið til þess að skrifa undir kjarasamninginn því krafa VLFA var alltaf að SALEK samkomulagið yrði ekki fylgiskjal með samningnum. Rétt er að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness er fyrsta félagið sem Sambandið gerir samning við þar sem SALEK samkomulagið er ekki með sem fylgiskjal. 

Það var aldrei ágreiningur um þær launabreytingar sem stóðu til boða enda var VLFA búið að samþykkja að ganga að þeim launabreytingum sem Sambandið hafði sett upp enda rúmaðist sú launastefna innan þeirra væntinga sem félagið hafði til launahækkana til handa þeim starfsmönnum sem starfa hjá Akraneskaupstað. Aðalmálið var að fylgiskjalið myndi ekki fylgja með og að það væri óskuldbindandi. Eins og áður sagði þá féll Sambandið frá þessari kröfu sinni og því leystist málið á þann hátt sem VLFA hafði ætíð verið tilbúið til að ganga að. 

Samningurinn er með sambærilegum hætti hvað launabreytingar og innihald varðar eins og önnur stéttarfélög hafa gert við Samband íslenskra sveitarfélaga. Laun munu hækka um að lágmarki 25.000 kr. eða að lágmarki um 7,7% og þetta mun gilda afturvirkt til 1. maí 2015 samkvæmt undirrituðu loforði frá bæjarstjóra Akraness. Frá 1. júni 2016 hækka laun um 15.000 kr. eða að lágmarki 5,5%, frá 1. júní 2017 um 2,5% auk 1,7% vegna jöfnunar á bilum milli launaflokka í launatöflu og frá 1. júni 2018 um 2%. En vegna þess að kjarasamningurinn gildir til 31. mars 2019 þá kemur eingreiðsla upp á 42.500 kr. 1. febrúar 2019 og greiðist hún hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018. 

Desemberuppbætur munu verða með eftirfarandi hætti á samningstímanum:

  • Á árinu 2016 106.250 kr. 
  • Á árinu 2017 110.750 kr. 
  • Á árinu 2018 113.000 kr.

Orlofsuppbætur munu verða með eftirfarandi hætti á samningstímanum:

  • Á árinu 2016 44.500 kr. 
  • Á árinu 2017 46.500 kr. 
  • Á árinu 2018 48.000 kr. 

Félagið gekk einnig frá nokkrum sérmálum beint við Akraneskaupstað og má helst nefna í því samhengi að félagið náði að tryggja að 4% aukaálag til handa ófaglærðum starfsmönnum á leikskólum mun halda sér fyrir þá starfsmenn sem nú eru í starfi og hefja störf til 1. janúar 2018. En þetta er svokallað sólarlagsákvæði og verður greitt aftur í tímann frá 1. janúar 2015. 

Verkalýðsfélag Akraness vill þakka félagsmönnum sínum fyrir stuðninginn og skilninginn á því að þessar kjarasamningsviðræður hafi dregist þetta lengi en án þessa skilnings og stuðnings hefði þetta verið mun erfiðara en ella. Það er ekkert smá mál fyrir eitt stéttarfélag að standa í slíkri réttindabaráttu sem er fólgin í því að berjast fyrir samningsfrelsi sinna félagsmanna og þurfa að fara með slík mál fyrir dómstóla með öllum þeim töfum sem það veldur á launahækkunum til handa þeim félagsmönnum sem ágreiningurinn nær til. 

Baráttunni gegn SALEK samkomulaginu er hvergi nærri lokið þó þessi orrusta hafi unnist að hluta til því það er ljóst að þessir aðilar sem standa að rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins eru að marka vörður að því að skerða og takmarka samningsfrelsi stéttarfélaganna leynt og ljóst. Nú liggur fyrir að kosið verður sérstaklega um breytingar á nýju vinnumarkaðslíkani á árinu 2017 en það vinnumarkaðslíkan gerir ráð fyrir því að sett verði á laggirnar svokallað þjóðhagsráð sem mun ákvarða hámarks launabreytingar og stéttarfélögum á að vera skylt að halda sig innan þess. Eins og áður sagði er þessari baráttu ekki lokið og mun Verkalýðsfélag Akraness halda áfram að standa vaktina hvað varðar samningsfrelsi íslenskra stéttarfélaga og launamanna. 

Félagið mun halda kynningarfund að Jaðarsbökkum miðvikudaginn 10. febrúar kl. 17 og hægt verður að kjósa um samninginn að aflokinni kynningu. Einnig verður hægt að kjósa um samninginn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness á Sunnubraut 13 en kosningu lýkur kl. 12 föstudaginn 12. febrúar. Þessi stutti tími til kosninga er hafður til þess að gera launafulltrúum Akraneskaupstaðar færi á því að reikna launin aftur í tímann þannig að hægt verði að greiða leiðréttinguna með næstu útborgun.

01
Feb

SALEK samkomulagið ekki skuldbindandi

Á föstudaginn tók Félagsdómur mál Verkalýðsfélags Akraness fyrir. Eins og fram hefur komið þá stefndi félagið Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna þeirrar kröfu að SALEK samkomulagið yrði fylgiskjal með kjarasamningi sem félagið er að gera við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar. 

Forsaga þessa máls er að forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa margoft sagt að SALEK samkomulagið sé skuldbindandi og forsenda þess að Verkalýðsfélag Akraness geti fengið kjarasamning við Sambandið og ef félagið samþykki ekki að rammasamkomulagið verði fylgiskjal með kjarasamningnum þá fái félagið ekki kjarasamning fyrir félagsmenn sína sem starfa hjá Akraneskaupstað. En með því að samþykkja fylgiskjal með kjarasamningi þá verður fylgiskjalið ígildi kjarasamnings samkvæmt dómsorði Félagsdóms. Með öðrum orðum, félagið væri þá að viðurkenna að til dæmis samræmd launastefna gilti fyrir alla kjarasamninga sem félagið ætti eftir að gera til 2018. 

Það ótrúlega í þessu máli er að þrátt fyrir að það liggi fyrir í fundargerð ríkissáttasemjara sem og í tölvupósti og í skriflegu svarbréfi frá Sambandinu að SALEK samkomulagið sé skuldbindandi með öllu að þeirra mati þá sögðu forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga eiðsvarnir frammi fyrir Félagsdómi að slíkt væri ekki rétt og SALEK samkomulagið væri ekki skuldbindandi heldur einungis stefnuviðmið sem Sambandið hefði sett sér. Á þessari forsendu vísaði Félagsdómur málinu frá og kemur fram hjá Félagsdómi að í ljósi þess að ekki sé ágreiningur um að SALEK samkomulagið sé skuldbindandi þá beri að vísa málinu frá. Það er ótrúlegt að verða vitni að því í ljósi fyrirliggjandi gagna þar sem forsvarsmenn Sambandsins hafa ítrekað sagt og haldið því fram að samkomulagið sé skuldbindandi að þeir breyti málflutningi sínum fyrir dómi og segi þvert á það sem þeir hafa áður sagt og gögn staðfesta. 

Það vekur furðu formanns VLFA að dómurinn skuli ekki hafa átalið þetta misræmi í vitnisburði og fyrirliggjandi gögnum í dómsorði en samkvæmt upplýsingum formanns þá vegur vitnisburði fyrir dómi þyngra en fyrirliggjandi sönnunargögn. En það er ljóst að forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga verða að eiga það við sína samvisku að hafa breytt vitnisburði sínum frá því sem þeir hafa áður sagt. Í ljósi þess að hér virðist vera um risastóran misskilning að ræða hvað varðar skuldbindinguna þá má ætla að afar auðvelt verði að ganga frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem þetta fylgiskjal og inngangur samningsins verða látin víkja enda einungis um viðmið Sambandsins að ræða en ekki skuldbindingu eins og áður sagði. 

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á morgun og mun þá koma í ljós hvort Sambandið hefur í hyggju að standa við stóru orðin sem sögð voru eiðsvarin fyrir Félagsdómi um að þetta rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 27. október sé óskuldbindandi og hafi þar af leiðandi enga þýðingu hvað þennan kjarasamning varðar. Eins og áður sagði mun það koma í ljós á þeim fundi en félagið mun klárlega halda áfram að leita réttar síns í þessu máli því um leið og fylgiskjalið er orðið hluti af kjarasamningi þá hefur það sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur samkvæmt niðurstöðu Félagsdóms. Á þeirri forsendu er útilokað að samþykkja rammasamkomulagið vegna þess að þá væri félagið að binda aðra kjarasamninga sem það á eftir að gera til ársloka 2018. Slíkt er algjörlega andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og stjórnarskránni enda væri verið að skerða samningsfrelsi vegna þeirra samninga sem eftir eru.  

29
Jan

Dómur fellur í SALEK málinu í dag

Nú hefur borist tilkynning frá Félagsdómi um að dómsuppkvaðning verði kl. 16:30 í dag í máli vegna SALEK samkomulagsins. Það tók Félagsdóm ekki langan tíma að komast að niðurstöðu en formaður hefur verulegar áhyggjur af því að niðurstaðan sé sú að SALEK samkomulagið heyri ekki undir Félagsdóm heldur almenna dómstóla. Rétt er að geta þess að það var aðalkrafa Sambands íslenskra sveitarfélaga að þessu máli yrði vísað frá á grundvelli þess að málið heyrði ekki undir Félagsdóm.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur lýst mikilli furðu yfir því að það skuli hafa verið aðalkrafa Sambands íslenskra sveitarfélaga að beita fyrir sig frávísun í þessu veigamikla máli en ástæðan er einföld, Samband íslenskra sveitarfélaga þorði ekki að fá efnislega niðurstöðu í þessu eina mesta hagsmunamáli sem lýtur að samningsfrelsi íslenskra stéttarfélaga. Það er einungis tilfinning formanns að svona muni dómurinn falla því það er ljóst að það yrði mjög erfitt fyrir Félagsdóm að komast að þeirri niðurstöðu að þetta SALEK samkomulag sem skerðir samningsrétt stéttarfélaganna sé skuldbindandi og í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur og ákvæði stjórnarskrár Íslands sem lúta að samningsfrelsi.

Það verður forvitnilegt að sjá niðurstöðu Félagsdóms því hér er eins og áður sagði um eitt mesta hagsmunamál að ræða sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir í áraraðir ef ekki áratugi því þetta samkomulag er að marka vörðu að því að taka smátt og smátt samningsréttinn af stéttarfélögunum og færa hann yfir til fámenns hóps í íslensku samfélagi. Ef að málinu verður vísað frá þá er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun halda áfram með málið fyrir almennum dómstólum því það er mat félagsins að þetta SALEK samkomulag sé gróft brot á samningsfrelsi íslenskra stéttarfélaga.    

28
Jan

SALEK samkomulagið bíður dómsuppkvaðningar

Í gær tók Félagsdómur mál Verkalýðsfélags Akraness gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir vegna svokallaðs SALEK samkomulags. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýst því yfir að þeir séu skuldbundnir af SALEK samkomulaginu og gera þá skýlausu kröfu að SALEK samkomulagið í heild sinni verði hluti af kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness vegna starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað.

Það sorglega í þessu máli er að það er enginn ágreiningur hvað varðar launabreytingar í umræddum kjarasamningi heldur einungis hvort Sambandi íslenskra sveitarfélaga sé stætt á því að krefjast þess að SALEK samkomulagið sé sem fylgiskjal við samninginn en með slíku er ljóst að samkomulagið í heild sinni er orðið hluti af kjarasamningnum. Enda kemur fram á heimasíðu ASÍ þar sem fjallað er um gildi bókana og fylgiskjala með kjarasamningum og þar sem fjallað er um gildi fylgiskjala segir orðrétt á heimasíðu ASÍ: "Sé efni fylgiskjala með kjarasamningi samningur aðila um tiltekin efni, hafa þau sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur."

Þetta myndi þýða ef að Verkalýðsfélag Akraness myndi samþykkja að SALEK samkomulagið yrði með sem fylgiskjal með kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga að félagið væri búið að samþykkja að fullu allt sem í SALEK samkomulaginu stendur eins og til dæmis þjóðhagsráð, samræmda launastefnu til 2018 og önnur atriði sem að í samkomulaginu er kveðið á um. Eðli málsins samkvæmt hefur Verkalýðsfélag Akraness enga heimild til að samþykkja slíkt enda væri það gróft brot á frjálsum samningsrétti stéttarfélagsins samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Formaður VLFA sagði í vitnaleiðslum fyrir Félagsdómi í gær hverjar afleiðingarnar yrðu af því ef félagið myndi samþykkja að umrætt SALEK samkomulag myndi fylgja með kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Afleiðingarnar væru fólgnar í því að í SALEK samkomulaginu er kveðið á um að launabreytingar frá nóvember 2013 til 31. desember 2018 megi ekki vera hærri en sem nemur 32%. Þetta myndi þýða að starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga sem verða með lausan samning í árslok 2017 ættu ekki rétt á neinni launahækkun fyrir árið 2018 vegna þess að þeir fylla upp í 32% kostnaðarrammann sem SALEK hópurinn er búinn að ákveða að megi vera hámark. Semsagt, þegar Verkalýðsfélag Akraness myndi mæta að samningsborðinu vegna kjarasamnings Elkem Ísland á Grundartanga þá væri í boði 0% launahækkun vegna þess að SALEK hópurinn segir að ekki megi semja um meira en 32% á áðurnefndu tímabili.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki aðili að þessu samkomulagi enda veitti félagið ASÍ aldrei umboð til þess að ganga frá umræddu SALEK samkomulagi. Samkomulagi sem gengur markvisst út á að skerða samningsrétt stéttarfélaganna og ógna tilvist þeirra enda er samningsfrelsið eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni, hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar. En með þessu SALEK samkomulagi er verið að marka vörðu að því að taka hægt og bítandi samningsréttinn af stéttarfélögum og færa hann yfir á miðstýrðan vettvang eða eins og kemur fram í rammasamkomulaginu, að stofnað verði þjóðhagsráð sem muni ákvarða allar launabreytingar á islenskum vinnumarkaði og stéttarfélögunum verði skylt að semja innan þess svigrúms.

Lögmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga gerðu það að aðalkröfu sinni eins og svo oft áður í svona málum að þessu máli yrði vísað frá á grundvelli þess að það ætti ekki heima undir Félagsdómi. Það er með ólíkindum að Samband íslenskra sveitarfélaga vilji ekki fá efnislega niðurstöðu í þetta mál, mál sem lýtur að einum mestu hagsmunum sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir nánast frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Hagsmunum sem lúta að því að samningsrétturinn sé hjá fólkinu sjálfu en ekki einhverjum fámennum hópi sem getur ákvarðað hverjar hámarks launabreytingar mega vera eins og kveðið er á um í samræmdu launastefnunni sem og því sem lýtur að þjóðhagsráði.

Formaður vonast til þess að Félagsdómur haldi áfram að dæma með sama hætti og Félagsdómur, Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa gert hingað til þegar kemur að samningsfrelsi stéttarfélaganna en allir dómar sem fallið hafa hvað samningsfrelsi varðar hafa verið ótvíræðir. Samningsfrelsi stéttarfélaganna hefur margoft verið staðfest á öllum þessum dómstigum enda er samningsfrelsið bundið í lög um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránna. Félagsdómur á ekki að geta komist að þeirri niðurstöðu að þetta mál heyri ekki undir Félagsdóm enda liggur fyrir krafa um að SALEK samkomulagið sé fylgiskjal með kjarasamningi sem þýðir að það er ígildi kjarasamnings eins og kemur fram á heimasíðu ASÍ og í þessu SALEK samkomulagi er verið að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna sem er brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og þar af leiðandi á málið heima undir Félagsdómi. Að þessu sögðu á dómurinn ekki að geta komist að annarri niðurstöðu en að þetta sé óskuldbindandi og andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránni.

Væntanlega mun dómur verða kveðinn upp eftir viku til tíu daga en þetta mál hefur dregist algjörlega úr hófi enda eru liðnir tveir mánuðir frá því að þessu máli var stefnt til Félagsdóms. Formaður hefur sínar skýringar á því hvers vegna það hefur gerst en þær verða ekki tjáðar að svo stöddu.

25
Jan

SALEK málið tekið fyrir á miðvikudaginn fyrir Félagsdómi

Á miðvikudaginn næstkomandi mun Félagsdómur taka fyrir mál Verkalýðsfélags Akraness vegna svokallaðs SALEK samkomulags. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Samband íslenskra sveitarfélaga gert þá skýlausu kröfu að til að Verkalýðsfélag Akraness fái að njóta þeirra launabreytinga sem eru í boði þá þurfi SALEK samkomulagið í heild sinni að fylgja með sem fylgiskjal við kjarasamninginn en slíku hefur Verkalýðsfélag Akraness alfarið hafnað enda er félagið sannfært um að svokallað rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 27. október sé gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskránni.

Eins og flestir vita undirritaði forseti ASÍ fyrir hönd sambandsins rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins 27. október 2015 og er það mat VLFA að forsetinn hafi ekki haft neitt umboð til að undirrita umrætt samkomulag. Samkomulag sem skuldbindur aðildarfélög ASÍ til að ákvarða launabreytingar allt til ársins 2018 sem og afsala sér endurskoðun kjarasamninga svo ekki sé talað um að sett verði á laggirnar nýtt vinnumarkaðslíkan þar sem skipað verði svokallað þjóðhagsráð sem mun ákvarða allar hámarks launabreytingar og að stéttarfélögunum verði skylt að vera innan þess svigrúms eins og kveðið er á um í samkomulaginu. Nánast engin umræða fór fram um þetta rammasamkomulag, ekki var kallað eftir neinu umboði af hálfu VLFA hvað samkomulagið varðaði og fékk Starfsgreinasamband Íslands munnlega kynningu nokkrum mínútum áður en samkomulagið var undirritað en engin drög eða gögn voru lögð í hendur aðildarfélaganna. Með öðrum orðum, þetta rammasamkomulag var undirritað án nokkurs umboðs enda kom fram á miðstjórnarfundi sem haldinn var 4. nóvember að nú þyrfti að fara að kynna samkomulagið á meðal aðildarfélaga ASÍ og út á hvað það gengi. Semsagt, gengið var frá samkomulaginu og síðan átti að fara að kynna það en rétt er að taka það fram að engin kynning hefur farið fram af hálfu Alþýðusambands Íslands á meðal aðildarfélaga sambandsins, allavega ekki hjá Verkalýðsfélagi Akraness.

Eins og áður hefur komið fram gengur rammasamkomulagið að verulegu leyti út á að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna, meðal annars að ákveða fyrirfram hverjar launabreytingar megi vera til ársins 2018, endurskoðun kjarasamninga var afsalað með nýjum samningi og svo eins og áður sagði á að setja á laggirnar nýtt þjóðhagsráð sem mun takmarka samningsfrelsi stéttarfélaganna. Það liggur fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga segir hvellskýrt að allt rammasamkomulagið sé undir og verði að vera fylgiskjal með þeim samningi sem VLFA á eftir að gera við sambandið, ellegar verði ekki gengið frá samningnum og þeir segja líka að þeir séu skuldbundnir í gegnum þetta rammasamkomulag sem þeir hafi gert við ASÍ. Þetta er eðli málsins samkvæmt gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og stjórnarskránni enda er samningsfrelsið hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi.  

Rétt er að geta þess að bæði Hæstiréttur og Félagsdómur hafa margoft fjallað um samningsfrelsi stéttarfélaganna og segir meðal annars í dómsorði frá Hæstarétti: "Með vísan til viðtekinnar túlkunar á 1. og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans verður að túlka 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að ákvæðið verndi ekki einungis rétt manna til að stofna stéttarfélög heldur verndi það einnig frelsi stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Samningsfrelsi félaganna er leið að slíku marki og nýtur því sérstakrar verndar." Skýrara verður það ekki frá Hæstarétti Íslands!

Einnig er rétt að vísa í annan dóm um samningsfrelsið frá Hæstarétti en þar segir orðrétt:  "Í samningsrétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga."

Já, skýrara verður það ekki hvað Hæstarétt varðar þegar fjallað er um samningsfrelsi stéttarfélaganna og ef aðilar rammasamkomulagsins vilja meina að þeir séu ekki að skerða samningsfrelsið með þessu samkomulagi, samkomulagi sem gengur út á að takmarka launabreytingar til handa launafólki, þá veit formaður VLFA ekki hvað það er að skerða samningsfrelsi. Að sjálfsögðu er verið að skerða samningsfrelsi með þessu rammasamkomulagi enda eru aðilar að samkomulaginu búnir að skuldbinda sig til að fara eftir því í hvívetna eins og fram kemur í rammasamkomulaginu.

Það eru þónokkrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni nú þegar búnir að viðurkenna að þeir telji að SALEK samkomulagið sé skerðing á samningsfrelsi stéttarfélaganna. Nægir að nefna í því samhengi að á formannafundi ASÍ 28. október kom fram í máli formanna RSÍ, Byggiðnar og Framsýnar á Húsavík að þeir teldu að umrætt rammasamkomulag væri skerðing á samningsfrelsi. Einnig hefur formaður heyrt haft eftir fyrrverandi formanni Verkamannasambands Íslands að umrætt SALEK samkomulag væri klár skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaga. Og fyrrverandi varaforseti ASÍ sagði inni á fésbókarsíðu sambandsins að SALEK samkomulagið væri lúmsk tilraun til að taka lögvarinn samningsrétt af stéttarfélögum.

Það er líka rétt að rifja það upp að forseti ASÍ sagði á framkvæmdastjórnarfundi Samiðnar að ef SALEK samkomulagið hefði verið komið á laggirnar fyrr þá væri ljóst að ekki hefði verið hægt að semja um þær miklu launabreytingar sem samið var um við stóriðjurnar á Grundartanga. Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá skuldbindingu sem mun felast í SALEK samkomulaginu ef það verður að veruleika og ef einhver ætlar að segja að þetta sé ekki skerðing á samningsfrelsi Verkalýðsfélags Akraness og brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þá veit formaður ekki hvað.

Það er gríðarlega mikilvægt að Félagsdómur kynni sér þetta mál vel og rækilega og verji frjálsan samningsrétt íslenskra stéttarfélaga sem er bundinn í lögum og stjórnarskrá því eins og áður sagði er samningsfrelsi launafólks hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu.

22
Jan

Laun starfsmanna Norðuráls hafa hækkað um tæp 16% á einu ári!

Í mars á síðasta ári gerði Verkalýðsfélag Akraness tímamótasamning við Norðurál á Grundartanga en í þeim samningi var samið um að tengja launabreytingar starfsmanna við hækkun launavísitölunnar. Samningurinn byggðist á því að upphafshækkunin var 6% og auk þess var samið um að starfsmenn fengju á nýjan leik hækkun samkvæmt hækkun launavísitölu frá desember 2014 til júní 2015 og reyndist sú hækkun vera 4,25%. Næsta hækkun var frá júlí 2015 til desember 2015 og á þessu 6 mánaða tímabili munu starfsmenn núna fá hækkun frá og með 1. janúar um 4,703%.

Þetta þýðir að á þessu eina ári frá því að Verkalýðsfélag Akraness gerði kjarasamning við Norðurál þá hafa laun starfsmanna hækkað um tæp 16%. Það er ekki bara að launin hafi hækkað um 16% heldur fengu starfsmenn 300.000 kr. eingreiðslu samhliða kjarasamningnum í mars í fyrra. Á þessu eina ári hafa starfsmenn á vöktum í kerskála því hækkað með öllu um frá tæpum 72.000 kr. upp í 86.000 kr. á mánuði.

Heildarlaun byrjanda í Norðuráli á 12 tíma vöktum í kerskála fyrir 182 tíma á mánuði eru núna komin upp í 525.940 kr. og starfsmaður sem er með lengsta starfsaldurinn er kominn upp í tæpar 633.000 kr. Það er sorglegt til þess að vita að á sama tíma og þessi kjarasamningur náðist til handa starfsmanna Norðuráls þá hefur ekkert gengið að semja við Alcan í Straumsvík en samningur Norðuráls rann út á sama tíma og samningur Alcan. Verkalýðsfélag Akraness getur ekki neitt annað en sent starfsmönnum Alcan í Straumsvík baráttukveðjur í því að ná fram í það minnsta sambærilegum launahækkunum og náðust í Norðuráli en það er hinsvegar sorglegt til þess að vita að samninganefnd Alþýðusambands Íslands skuli hafa skilið starfsmenn Alcan eftir kjarasamningslausa þegar endurskoðun kjarasamninga fór fram.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image