• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Apr

Félagsmenn munið aðalfundinn í kvöld kl. 17:30!

Félagsmenn munið áður auglýstan aðalfund í kvöld kl. 17:30!

Vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna er ekki hægt að halda fundinn á Gamla Kaupfélaginu þar sem eigendaskipti hafa átt sér stað. Þess í stað verður fundurinn haldinn í Golfskála Leynis. Starfsmaður félagsins mun beina þeim sem mæta á Gamla Kaupfélagið á réttan fundarstað, auk þess sem tilkynning verður hengd upp, þannig að enginn komi að luktum dyrum.

Eftir fundinn verður boðið upp á kvöldverð og eru félagsmenn hvattir til að fjölmenna.

24
Mar

Orlofshús - Sumar 2016

Nú eru umsóknir um orlofshús sumarið 2016 á leiðinni heim til félagsmanna og síðar í dag verður opnað fyrir umsóknir á Félagavefnum. Umsóknarfrestur er til 12. apríl og mun úthlutun fara fram þann 13. apríl.

Auk orlofshúsa sem félagið á í Húsafelli, Svínadal, Kjós, Ölfusborgum, Hraunborgum og á Akureyri verður boðið upp á dvöl í húsi í Vestmannaeyjum eins og síðustu ár. Því til viðbótar mun VLFA hafa húsaskipti við Framsýn stéttarfélag eins og í fyrra og geta félagsmenn VLFA dvalið í orlofshúsi á Illugastöðum í Fnjóskadal. Í staðinn geta félagsmenn Framsýnar dvalið í Bláskógum í Svínadal.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum og leggja inn nýjar fyrir endurúthlutun.

Helstu dagssetningar:

12. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

13. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á félagavefnum í lok dags)

02. maí - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

06. maí - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

06. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

13. maí - Eindagi endurúthlutunar

23
Mar

Verkalýðsfélag Akraness stendur vel fjárhagslega sem félagslega

Eins og fram hefur komið hér á heimsíðu félagsins þá verður aðalfundur félagsins haldinn 5. apríl næstkomandi. Undirbúningur fyrir aðalfundinn stendur nú yfir en í gær komu allar stjórnir sjóða félagsins saman og undirrituðu ársreikninginn eftir að endurskoðandi félagsins hafði farið ítarlega yfir hann.

Það er óhætt að segja að Verkalýðsfélag Akraness standi gríðarlega vel ekki bara félagslega heldur einnig fjárhagslega en heildarsamstæða félagsins var jákvæð samkvæmt ársreikningi um rétt tæpar 110 milljónir og jukust iðgjöld félagsins um rétt tæp 20% á milli ára. En það endurspeglast af því að félagið náði mjög góðum kjarasamningum til handa sínum félagsmönnum á síðasta ári og sem dæmi þá hækkuðu laun fiskvinnslufólks sem starfar hjá HB Granda um 27,5% á síðasta ári og laun stóriðjumanna hjá Norðuráli um 16%. Það sem einnig hefur áhrif á tekjur félagsins er að félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt og á síðasta ári fjölgaði þeim um 5% og er heildarfjöldi félagsmanna rétt tæplega 3000.

Verkalýðsfélag Akraness greiddi uppundir 70 milljónir á síðasta ári í hina ýmsu styrki úr sjúkrasjóði félagsins og einnig er rétt að geta þess að VLFA var nánast eina félagið innan Starfsgreinasambands Íslands sem greiddi félagsmönnum sínum verkfallsbætur vegna tveggja daga verkfalls á síðasta ári en félagið greiddi um 6 milljónir í verkfallsbætur.

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að láta félagsmenn ætíð njóta þess þegar afkoma félagsins er góð og á þeirri forsendu ákvað stjórn félagsins að hækka þrjá af styrkjum félagsins myndarlega eða um rúm 20%.  Eftir 5. apríl þá mun fæðingarstyrkurinn hækka um 21% og verður 85.000 kr. og ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá er styrkurinn samanlagður 170.000 kr.  Einnig munu heilsueflingar-og heilsufarsskoðunarstyrkirnir hækka hvor um sig um 20% og verða 25.000 kr. hvor fyrir sig eftir 5. apríl.

Það er einnig óhætt að segja að gríðarlegur viðsnúningur hafi átt sér stað frá því núverandi stjórn tók við 19. nóvember 2003 en á þessum árum hefur félagið tekið algjörum stakkaskiptum og sem dæmi þá var félagssjóður rekinn á yfirdrætti og peningalegar innistæður annarra sjóða félagsins voru afar takmarkaðar en í dag er félagið mjög fjárhagslega sterkt og tilbúið að takast á við mörg brýn hagsmunamál sem oft á tíðum kosta mikil fjárútlát. Í dag er félagið t.d. með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem verið er að láta reyna á ágreining við atvinnurekendur um túlkun á kjarasamningum og einnig mál  vegna vangreiddra launa.

Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að vera það félag sem reynir ætíð að bjóða félagsmönnum sínum bestu réttindi og þjónustu sem í boði er á meðal stéttarfélaga hér á landi.

22
Mar

Kjarasamningur Norðuráls svínvirkar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá tímamótasamningi við Norðurál á síðasta ári en sá samningur byggðist meðal annars á því að tengja launahækkanir starfsmanna við hækkun launavísitölu. En á fyrstu 12 mánuðum samningsins hækkuðu laun starfsmanna Norðuráls um 16% en auk þess fékk hver og einn starfsmaður 300.000 kr. eingreiðslu. 

Næsta hækkun mun koma 1. janúar 2017 og er óhætt að segja að fyrstu 2 mánuðirnir lofi góðu hvað varðar launahækkunina enda hefur launavísitalan á fyrstu tveimur mánuðum ársins hækkað um rétt tæp 4% en í síðasta mánuði hækkaði hún um 3,5%. Þannig að nú þegar eru starfsmenn Norðuráls búnir að tryggja sér tæp 4% sem munu koma 1. janúar 2017 og það þrátt fyrir að 10 mánuðir séu enn eftir í mælingu launavísitölunnar. Það er alveg morgunljóst að hér var um algjöran tímamótasamning að ræða sem mun koma starfsmönnum Norðuráls mjög vel og hann verður töluvert yfir þeim væntingum sem menn reiknuðu með að hann myndi gefa. Það góða við tengingu við launavísitölu er að allt launaskrið sem verður á íslenskum vinnumarkaði hefur VLFA tryggt starfsmönnum Norðuráls.   

18
Mar

Mikið annríki á skrifstofu VLFA undanfarna viku

Það er óhætt að segja að það sé búið að vera líf og fjör á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness í þeirri viku sem nú er senn á enda. Vikan byrjaði með látum þar sem þriggja daga trúnaðarmannanámskeið var haldið í fundarsal félagsins. 9 trúnaðarmenn tóku þátt til að fræðast og gera sig hæfari til að geta gegnt því viðamikla verkefni sem er að vera trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Í þessari viku er einnig búið að vera mikið að gera við skattframtalsaðstoð en eins og undanfarin ár hefur félagið boðið félagsmönnum sinum aðstoð við gerð skattframtals. Hafa fjölmargir félagsmenn nýtt sér þessa þjónustu og meirihlutinn eru félagsmenn sem hafa íslensku ekki að móðurmáli. 

Undirbúningur hefur verið á fullu fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður 5. apríl en verið er að ganga frá reikningum félagsins og öðrum undirbúningi sem lýtur að aðalfundi en eins og undanfarin ár er Verkalýðsfélag Akraness gríðarlega sterkt, bæði fjárhagslega sem og félagslega. Hefur félagsmönnum fjölgað á árinu, í heildina eru uppundir 3.000 manns í félaginu en þeim fjölgaði um 5% milli ára. Félagið vinnur nú að því að láta reyna á réttindi félagsmanna fyrir dómstólum og undirbýr stefnu á hendur Norðuráli vegna túlkunar á kjarasamningi. Að öllum líkindum mun stefnan verða klár um eða eftir páska. Það er stefna félagsins að ef ágreiningur er á milli atvinnurekanda og félagsins um túlkun á kjarasamningi og ekki næst sátt við atvinnurekendur að félagið láti skýlaust á slikt reyna fyrir dómstólum. Það er og hefur verið stefna Verkalýðsfélags Akraness að berjast í hvívetna fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna og verja þau réttindi sem félagsmenn hafa með öllum þeim tiltæku ráðum sem félagið hefur. 

Þessu til viðbótar er nú unnið að því að senda út orlofsbæklinga og umsóknir til félagsmanna vegna sumarsins. Boðið verður upp á sambærilega valkosti og í fyrra, meðal annars munu Framsýn á Húsavík og VLFA aftur skipta á bústöðum, VLFA fær Illugastaði af Framsýn og Framsýn fær í staðinn Bláskóga í Svínadal af VLFA. Jafnframt verður áfram boðið upp á sumarhús í Vestmannaeyjum en það nýtur mikilla vinsælda hjá félagsmönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image