• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar í dag

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn í dag kl. 14:00 í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, staða kjaramála og önnur mál.

Sjómenn eru eindregið hvattir til að mæta!

23
Dec

Jólakveðja

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness sendir félagsmönnum sínum nær og fjær og landsmönnum öllum hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þökkum fyrir góð samskipti á líðandi ári og óskum um farsæld á ári komandi.

23
Dec

Opnunartími skrifstofu VLFA yfir jól og áramót

Skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness er lokuð frá hádegi í dag Þorláksmessu. Lokað er á Aðfangadag, Gamlársdag og Nýársdag, en annars gildir hefðbundnin opnunartími yfir hátíðarnar.

Þeir félagsmenn sem eiga bókaða bústaði yfir jól hafa þegar sótt leigusamninga sína. Þeir sem eiga bókaðan bústað yfir áramót þurfa að sækja leigusamninga í síðasta lagi fyrir kl. 16 þriðjudaginn 30. desember.

 

Styrkir og sjúkradagpeningar verða greiddir út þann 30. desember og þurfa gögn í tengslum við þær umsóknir að hafa borist fyrir kl. 16 þriðjudaginn 29. desember.

22
Dec

Félagið sendir út bréf til sjómanna

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sendi öllum sjómönnum sem tilheyra deildinni bréf í dag vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu þeirra við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Eins og flestir vita þá er kjarasamningur sjómanna búinn að vera laus frá 1. janúar 2011 eða í rétt tæp 5 ár. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Sjómannasambands Íslands sem fer með samningsumboðið fyrir aðildarfélög sín hefur ekki tekist að ganga frá kjarasamningi til handa íslenskum sjómönnum en það hefur ekki tekist vegna ótrúlegrar óbilgirni útgerðarmanna.

Það liggur fyrir að útgerðarmenn hafa algjörlega hafnað lagfæringu varðandi fiskverð.  Sjómenn krefst þess t.d. að Alþingi Íslendinga sjái til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Eins og reglurnar eru í dag getur kaupandi og seljandi fisks verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið í eigin viðskiptum. Að mati sjómanna getur þetta verðmyndunarkerfi ekki gengið lengur og því nauðsynlegt að setja reglur sem skylda útgerðina til að selja allan afla, sem fer til vinnslu innanlands, á uppboðsmarkaði fyrir sjávarfang. Það liggur líka fyrir að útgerðamenn hafna því alfarið að tekið verði á mönnunarmálum og einnig hafa þeir hafnað því algjörlega að koma með bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar.

 Nú er staðan þannig að sjómenn þurfa að taka afstöðu til þess hvað gera skuli og þess vegna sendi félagið út bréf með skoðanakönnun þar sem meðal annars er spurt um hvort hefja eigi undirbúning verkfallsaðgerða. Vonast formaður félagsins eftir að sjómenn sendi skýr skilaboð um hvað þeir vilji gera til að knýja fram eðlilegan, sanngjarnan og réttlátan kjarasamning til handa sjómönnum því það er ótækt með öllu að sjómenn einir séu án þess að hafa gildandi kjarasamning um sín störf.  

Félagið tók fram í þessu bréfi að hægt yrði að skila skoðanakönnuninni á skrifstofu félagsins eða senda hana í pósti á Sunnubraut 13, 300 Akranesi fyrir 10. janúar næstkomandi. Nú er runnin upp ögurstund um hvað gera skuli í þessari erfiðu deilu því það eru engir aðrir en sjómennirnri sjálfir sem þurfa að taka efnislega afstöðu til þess. Á þeirri forsendu var þessi skoðanakönnun send út en félagið vill einnig minna á að aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn þriðjudaginn 29. desember næstkomandi í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13 þar sem farið verður ítarlega yfir þessi mál.

22
Dec

Verkalýðsfélag Akraness stendur í stórræðum í réttindabaráttu sinna félagsmanna

Það er óhætt að segja að það sé nóg að gera hjá Verkalýðsfélagi Akraness við að verja réttindi félagsmanna sinna. Nú þegar er félagið með eitt mál fyrir Félagsdómi vegna svokallaðs SALEK samkomulags. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gerði Samband íslenskra sveitarfélaga þá skýlausu kröfu á Verkalýðsfélag Akraness að SALEK samkomulagið skyldi fylgja með sem fylgiskjal í kjarasamningi sem félaginu stóð til boða vegna starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað. Slíku hafnaði Verkalýðsfélag Akraness eðli málsins samkvæmt algjörlega enda liggur fyrir að SALEK samkomulagið er að mati félagsins gróf skerðing á frjálsum samningsrétti stéttarfélaga og því mikilvægt að fá úr því skorið fyrir Félagsdómi hvort röksemdir VLFA eigi við rök að styðjast. Að mati félagsins er ekki hægt að fara fram á að fylgiskjal fylgi með kjarasamningi sem er andstætt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og 74. grein stjórnarskrárinnar en það er mat VLFA að samningsrétturinn sé einn af hornsteinum stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi. Með þessu samkomulagi er verið að taka og færa samningsréttinn meðal annars yfir til þjóðhagsráðs sem til stendur að setja á laggirnar og mun ákvarða hverjar hámarkslaunabreytingar í kjarasamningum mega vera á hverjum tíma fyrir sig og stéttarfélögunum á að vera skylt að semja innan þess svigrúms.

Verkalýðsfélag Akraness er einnig á leið með annað mál fyrir dómstóla en það er vegna túlkunar á ráðningarsamningi starfsmanns sem hefur starfað við vinnslu á hvalaafurðum í hvalstöðinni í Hvalfirði. Einnig snýst það mál um lágmarksbónus sem samið var um samhliða kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði til handa fiskvinnslufólki en slíkri greiðslu var ekki til að dreifa hjá starfsmönnum í hvalstöðinni á liðinni vertíð.

Einnig er félagið nú með til skoðunar mál er lýtur að túlkun á útreikningi á orlofs- og desemberuppbótum en eins og staðan er í dag eru yfirgnæfandi líkur á því að félagið muni fara með þann ágreining fyrir dómstóla. Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja réttindi og kjör sinna félagsmanna í hvívetna ef félagið hefur minnsta grun um að verið sé að hafa laun og réttindi af þeim. Það skiptir máli að vera í öflugu stéttarfélagi sem hefur burði til að ráðast í slíka réttindabaráttu því öll svona mál kosta mikla yfirlegu og fjármuni og því skiptir það miklu máli að félagið standi vel félagslega sem fjárhagslega til að ráðast í slíka réttindabaráttu.

21
Dec

Móttökuathöfn vegna nýs skips sem mun bera nafnið Víkingur AK-100

Núna kl. 14 hefst móttökuathöfn við Akraneshöfn í tilefni þess að HB Grandi var að fá nýtt og glæsilegt skip sem ber það virðulega nafn Víkingur AK 100. Þetta nýja skip tekur við af gamla Víkingi, einu aflasælasta uppsjávarskipi sem við Íslendingar höfum átt, en nýja skipið er eitt það glæsilegasta sem nú prýðir íslenskan skipaflota.

Forstjóri HB Granda mun bjóða gesti athafnarinnar velkomna og forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, mun flytja ávarp sem og bæjarstóri Akraness, Regína Ásvaldsdóttir. Það mun hinsvegar koma í hlut Steinunnar Óskar að gefa skipinu formlega nafn og að því loknu mun sóknarprestur okkar Akurnesinga, sr. Eðvarð Ingólfsson, blessa skipið. Að því loknu munu gestir geta fengið að skoða þetta nýja og glæsilega skip. 

Rétt er að geta þess að þónokkrir af skipverjunum á þessu nýja skipi tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness og vill Verkalýðsfélag Akraness óska áhöfninni sem og eigendum HB Granda innilega til hamingju með skipið með ósk um góða framtíð þess. Megi það verða jafn farsælt og það skip sem það hefur nú leyst af hólmi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image