• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Nov

Kynningarfundur með atvinnuleitendum

Formaður félagsins hélt í morgun kynningarfund á Skagastöðum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og þá þjónustu sem Verkalýðsfélag Akraness býður sínum félagsmönnum upp á. Uppundir 30 manns sátu fundinn en þetta eru aðilar sem eru í atvinnuleit og einnig voru þar aðilar sem eru frá Starfsendurhæfingu Vesturlands.

Fundurinn var mjög ánægjulegur en formaður fór ítarlega yfir alla þá þjónustu sem félagið býður sínum félagsmönnum upp á og þau réttindi sem þeim stendur til boða. Fjölmargar spurningar komu frá fundarmönnum sem sýndu mikinn áhuga á umfjöllunarefninu. Verkalýðsfélag Akraness hefur haft það fyrir reglu að halda reglulega slíka fyrirlestra um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Á það jafnt við fundi eins og þennan sem og kynningar í skólakerfinu.

25
Nov

Vel heppnuðu trúnaðarmannanámskeiði lokið

Í gær lauk tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði sem félagið bauð trúnaðarmönnum sínum á, en námskeiðið sátu 10 trúnaðarmenn. Um var að ræða fjórða og síðasta þrep fyrri hluta þessa náms, en áður hafa verið kennd fyrri þrep.

Talsverð endurnýjun hefur verið í hópi trúnaðarmanna Verkalýðsfélags Akraness og af þessum hópi sem sat námskeiðið nú voru 7 trúnaðarmenn sem ekki hafa áður setið námskeið af þessu tagi. Hópurinn allur stóð sig sérlega vel á námskeiðinu, var virkur og áhugasamur og því hefur verið ákveðið að halda námskeið á þrepi 1 og 2 strax á næsta ári. Verða þessi námskeið auglýst um leið og dagsetningar liggja fyrir.

Að ósk trúnaðarmanna sem sátu námskeið hefur nú verið stofnaður lokaður Facebook-hópur fyrir trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness þar sem þeir geta treyst böndin sín á milli, rætt álitamál og fengið upplýsingar frá félaginu varðandi störf þeirra. Trúnaðarmenn hafa alltaf greiðan aðgang að starfsfólki félagsins og aðstöðu, og er það von félagsins að þessi hópur verði til þess að bæta sambandið enn frekar.
Trúnaðarmenn VLFA geta óskað eftir inngöngu hér: https://www.facebook.com/groups/829159810516755/

18
Nov

Stefna gegn SALEK samkomulaginu þingfest fyrir Félagsdómi í dag

Í dag kl. 16 verður stefna Verkalýðsfélags Akraness vegna rammasamkomulags sem SALEK hópurinn gerði og meðal annars Samband íslenskra sveitarfélaga tengist, þingfest í Félagsdómi. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá telur Verkalýðsfélag Akraness að rammasamkomulagið skerði umtalsvert samningsrétt frjálsra stéttarfélaga og sé því brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni á Verkalýðsfélag Akraness eftir að ganga frá einum samningi í þessari samningslotu en það er kjarasamningur félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna Akraneskaupstaðar.

Þegar formaður mætti á samningafund 4. nóvember var honum tjáð það að Samband íslenskra sveitarfélaga væri algjörlega skuldbundið því sem fram kæmi í rammasamkomulagi sem undirritað var 27. október en í því rammasamkomulagi var kveðið skýrt á um hverjar hámarkslaunahækkanir megi vera til ársins 2018. Eins og áður sagði er það mat félagsins að slíkt brjóti algjörlega í bága við lög um stéttarfélög og vinnudeilur enda getur vart verið um frjálsan samningsrétt að ræða þegar SALEK hópurinn er búinn að ákveða fyrirfram hverjar launabreytingarnar megi vera.

Við þingfestingu í dag mun lögmaður félagsins óska eftir því að dómarar sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa skipað í Félagsdómi eins og lög kveða á um víki úr sæti einvörðungu vegna þess að bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ eru aðilar að umræddu rammasamkomulagi. Hugsunin á bakvið það að ASÍ og SA skipi sinn fulltrúa í dóminn er sú að skapa jafnvægi á milli hagsmunaaðila þegar um dómsmál á milli launþega og atvinnurekenda er að ræða. En í þessu tilfelli er það Verkalýðsfélag Akraness sem er að stefna Sambandi íslenskra sveitarfélaga en hinsvegar eru ASÍ og Samtök atvinnulífsins hluti af þessu rammasamkomulagi eins og áður sagði og því eðlileg krafa að þeir dómarar víki og skipaðir verði nýir.

Einnig mun lögmaður félagsins fara fram á að fá afhenta fundargerð frá fundinum þann 4. nóvember sem formaður VLFA átti með Sambandi íslenskra sveitarfélaga en á þeim fundi kom skýrt fram að Samband íslenskra sveitarfélaga væri skuldbundið til að fara eftir því sem kveðið væri á um í SALEK samkomulaginu. Og það kom líka fram á þeim fundi hver hámarkslaunahækkunin ætti að vera. En af óskiljanlegum ástæðum þá höfnuðu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga lögmanni félagsins um að fá aðgang að þessari fundargerð og því er félaginu nauðugur einn sá kostur að láta dómstólinn kalla eftir henni. Enda staðfestir hún með óyggjandi hætti að Samband íslenskra sveitarfélaga telji sig að fullu skuldbundið til að fara eftir því sem fram kemur í umræddu rammasamkomulagi.

Í stefnu félagsins gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga er þess aðallega krafist að viðurkennt verði með dómi að ákvæði rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðarins 27. október 2015 sé ólögmætt og óskuldbindandi bæði fyrir Verkalýðsfélag Akraness og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð kjarasamnings þeirra á milli.

Í stefnunni sem félagið leggur fyrir Félagsdóm í dag segir meðal annars orðrétt:

"Svonefndur SALEK-hópur getur ekki samið með bindandi hætti um réttindi, skyldur og önnur atriði sem þeir hafa ekki umboð til að ráðstafa. Stefnandi hefur umboð til að gera kjarasamning fyrir sína félagsmenn og SALEK-hópurinn hefur ekkert umboð til þess að takmarka þau atriði sem samið verður um í kjarasamningi. Þannig getur SALEK-hópurinn ekki með bindandi hætti ákveðið hvert svigrúm er til kjarasamningsgerðar stefnanda.

SALEK-hópurinn getur ekki með þriðjamannslöggerningi ráðstafað réttindum sem stefnanda er rétt og skylt samkvæmt lögum að semja um við gagnaðila sinn í kjarasamningi. Allar tilraunir SALEK-hópsins til þess að gera samkomulag sín á milli til þess að skuldbinda stefnanda og/eða gagnaðila þess í kjarasamningi eru brot á lögum nr. 80/1938 og lögum nr. 94/1986. Slíkir löggerningar eru þannig ólögmætir."

Já það er ljóst að hagsmunir íslensks verkafólks eru gríðarlegir í þessu máli því í þessu rammasamkomulagi er einnig kveðið á um að sett verði á laggirnar svokallað þjóðhagsráð sem mun hafa það hlutverk eftir árið 2018 að ákvarða hvert svigrúm til launabreytinga megi vera og eins og formaður VLFA skilur þetta þá mun stéttarfélögum á Íslandi vera nánast skylt að fara eftir þeirri niðurstöðu sem þjóðhagsráð kemst að og það liggur fyrir að þessir aðilar hafa talað um að þetta svigrúm sé einungis 2-3,5% á ári.

17
Nov

Trúnaðarmannanámskeið í næstu viku

Dagana 23. og 24. nóvember nk. býður Verkalýðsfélag Akraness trúnaðarmönnum sínum á námskeið, en slík námskeið eru haldin árlega á vegum félagsins.

Á fyrri degi námskeiðsins fræðast trúnaðarmenn um samskipti á vinnustað og seinni daginn er á dagskrá námsþátturinn "Að standa upp og tala". Við fræðslu til trúnaðarmanna er unnið eftir námsskrám sem viðurkenndar hafa verið af menntamálaráðuneytinu, og er það Félagsmálaskóli Alþýðu sem annast kennsluna. Fræðslan þrepaskipt og á þessu námskeiði verður farið í gegnum 4. þrep . Ekki er nauðsynlegt að taka þrepin í ákveðinni röð og eru því nýir trúnaðarmenn og þeir reyndari saman á námskeiðunum.

Starf trúnaðarmanna er afar mikilvægt fyrir starfsemi félagsins og þurfa þeir að taka á ýmsum erfiðum málum í sínu starfi. Námskeiðinu er ætlað að gera trúnaðarmönnunum betur kleift að takast á við starf sitt. Samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmanni heimilt að sækja slík námskeið í allt að eina viku á ári án skerðingar á dagvinnulaunum.

Enn eru nokkur pláss laus á námskeiðið og fer skráning fram á skrifstofu VLFA í síma 4309900.

12
Nov

Stefna vegna rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins komin til Félagsdóms

Lögmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa nú lagt fyrir Félagsdóm stefnu á hendur Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins sem svokallaður SALEK hópur undirritaði. Krafa Verkalýðsfélags Akraness er að viðurkennt verðir fyrir dómi að ákvæði rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 sé dæmt ólögmætt og óskuldbindandi bæði fyrir stefnanda og stefnda við gerð kjarasamnings þeirra á milli.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að þetta rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins þýðir að þeir hafi skuldbundið sig til að semja ekki um hærri kjarabætur heldur en ákveðið hefur verið í samkomulaginu. Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga tilkynntu þegar fundað var hjá ríkissáttasemjara um kjarasamning VLFA vegna starfsmanna hjá Akraneskaupstað að búið væri að ákveða fyrirfram samkvæmt rammasamkomulagi hverjar launahækkanir mættu vera. Nefnt var að svigrúmið frá nóvember 2013 væri 32% og þau tilkynntu einnig að því til frádráttar ættu að koma 11,4% sem og frádráttur upp á 1,5% vegna lífeyrissjóðsmála. Með öðrum orðum, SALEK hópurinn var búinn að ákveða fyrirfram hverjar launahækkanir gætu orðið hjá starfsmönnum Akraneskaupstaðar og er það mat lögmanna Verkalýðsfélags Akraness að slíkt sé brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og sé veruleg skerðing á samningsrétti félagsins enda búið að ákveða fyrirfram hverjar launabreytingarnar mega vera og það af aðilum sem hafa ekkert umboð til að ákveða slíkt.

Frelsi stéttarfélaga til að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna hefur margoft verið staðfest í dómum Félagsdóms og Hæstaréttar. Hæstiréttur sagði til dæmis einu sinni í dómsorði: "Með vísan til viðtekinnar túlkunar á 1. og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans verður að túlka 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að ákvæðið verndi ekki einungis rétt manna til að stofna stéttarfélög heldur verndi það einnig frelsi stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Samningsfrelsi félaganna er leið að slíku marki og nýtur því sérstakrar verndar." Skýrara verður það ekki frá Hæstarétti Íslands! Því getur það ekki verið að það standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur að aðilar geti gert með sér rammasamkomulag sem ákvarði fyrirfram hverjar launabreytingar geta verið. Með slíku er klárlega verið að fótum troða frjálsan samningsrétt stéttarfélaga.

Það eru þónokkrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni nú þegar búnir að viðurkenna að þeir telji að SALEK samkomulagið sé skerðing á samningsfrelsi stéttarfélaganna. Nægir að nefna í því samhengi að á formannafundi ASÍ 28. október kom fram í máli formanna RSÍ, Byggiðnar og Framsýnar á Húsavík að þeir teldu að umrætt rammasamkomulag væri skerðing á samningsfrelsi. Einnig hefur formaður heyrt haft eftir fyrrverandi formanni Verkamannasambands Íslands að umrætt SALEK samkomulag væri klár skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaga. Og fyrrverandi varaforseti ASÍ sagði inni á fésbókarsíðu sambandsins að SALEK samkomulagið væri lúmsk tilraun til að taka lögvarinn samningsrétt af stéttarfélögum.

Í þessu rammasamkomulagi er líka kveðið á um nýtt vinnumarkaðslíkan sem byggist á því að stofnað verði þjóðhagsráð aðila vinnumarkaðarins sem eigi að vega og meta hvert svigrúm til launahækkana er á hverjum tíma fyrir sig og allar líkur eru á því að öllum stéttarfélögum verði skylt að fara eftir því svigrúmi sem umrætt þjóðhagsráð mun ákvarða. Þetta mun hinsvegar ekki taka gildi fyrr en eftir árið 2018 en þetta á eftir að skýrast betur þegar líður að lokum samningstímans. Það er morgunljóst að ef þjóðhagsráð verður sett á laggirnar og það kæmist til dæmis að þeirri niðurstöðu að svigrúmið væri 2,5-3,5% og það ætti að vera það svigrúm sem félögin hefðu til að semja um þá væri slíkt einnig gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Og það er líka morgunljóst að VLFA mun láta á það mál reyna en það er seinni tíma vandamál. Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan í þessu máli verður því það er mat félagsins að hér sé um að ræða eitt stærsta hagsmunamál íslensks launafólks því við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum glata þessum lögvarða rétti og gera kjarasamningsgerð á Íslandi miðstýrða. Það myndi leiða til þess að tilvist stéttarfélaganna yrði stefnt í hættu eins og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum enda er stéttarfélagsaðild í Noregi einungis 55% á móti 87% á Íslandi.

06
Nov

Stefnan gegn SALEK hópnum að verða klár

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness ákveðið í samráði við lögmenn félagsins að stefna öllum aðilum SALEK samkomulagsins, sem undirritað var 27. október síðastliðinn. Það er mat félagsins að þetta SALEK samkomulag sé skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaganna enda kemur fram í samkomulaginu að fyrirfram sé búið að ákveða hverjar launabreytingar eigi að vera í þeim frjálsu samningum sem félagið er að gera og á eftir að gera. 

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að á formannafundi ASÍ þann 28. október síðastliðinn kom fram hjá nokkrum formönnum, meðal annars Aðalsteini Baldurssyni formanni Framsýnar á Húsavík, Finnbirni Hermannssyni formanni Byggiðnar og einnig Kristjáni Þórði Snæbjörnssyni formanni RSÍ, að klárt mál væri að SALEK samkomulag aðila vinnumarkaðarins væri skerðing á samningsrétti stéttarfélaganna. Hinsvegar heldur forseti Alþýðusambandsins því fram að samkomulagið innihaldi ekki skerðingu á samningsrétti en það er mat formanns VLFA að þar sé hann að tala gegn betri vitund því flestum ber saman um að hér sé um skerðingu á samningsrétti frjálsra stéttarfélaga að ræða. Hvernig má líka annað vera þegar búið er að ákveða fyrirfram nákvæmlega samkvæmt rammasamkomulaginu sem undirritað var 27. október, hverjar kostnaðarbreytingarnar mega vera? Og ekki bara það heldur kemur skýrt fram í rammasamkomulaginu að allir aðilar að samkomulaginu séu skuldbundnir til að fylgja því eftir í hvívetna. Og því til viðbótar hafa aðilar rammasamkomulagsins skuldbundið sig til að láta það einnig gilda fyrir alla þá sem standa utan samkomulagsins. Hugsið ykkur að það sé búið að skuldbinda aðila sem eru ekki einu sinni aðilar að þessu samkomulagi til að taka þeim launabreytingum sem þessir tilteknu aðilar hafa ákveðið. Að sjálfsögðu getur slíkt ekki staðist frjálsan rétt stéttarfélaganna til kjarasamningsgerðar samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Það liggur líka fyrir að það eru veruleg áhöld um hvaða umboð forseti ASÍ hafði til að ganga frá umræddu rammasamkomulagi því nánast engin lýðræðisleg umræða fór fram hjá aðildarfélögum ASÍ hvað þetta samkomulag varðar, hvað þá kosningar eða annað slíkt. Til dæmis var samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands tilkynnt um að forsetinn væri að fara að undirrita þetta samkomulag nánast 5 mínútum áður en undirskriftin átti að eiga sér stað.

Núna eru lögmenn félagsins að leggja lokahönd á stefnuna en hún verður klár til birtingar á mánudaginn og það er morgunljóst að hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða fyrir allt íslenskt launafólk og öll stéttarfélög í landinu enda er með þessu rammasamkomulagi verið að fótum troða frjálsan rétt stéttarfélaganna til kjarasamningsgerðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image