• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Dec

Elkem náði ekki samningum við Landsvirkjun um umframorku - dregur úr framleiðslu!

Nokkrir starfsmenn Elkem Ísland hafa haft samband við formann félagsins og lýst þungum áhyggjum af atvinnuöryggi sínu en öllum starfsmönnum Elkem Ísland var sent bréf frá forstjóra fyrirtækisins. Í bréfinu stóð meðal annars eftirfarandi orðrétt:

„Ofnrekstur hefur almennt gengið vel hjá okkur í ár og endurspeglar sá árangur frábæra samvinnu og liðsheild. Að því tilefni var ljóst að fyrirtækið myndi þurfa að nota meiri orku en skilgreint er í núverandi samningi á milli Elkem og Landsvirkjunar. Til að geta haldið áfram á sömu braut óskaði Elkem eftir því að kaupa viðbótar orku af Landsvirkjun. Því miður var það niðurstaðan að samningar náðust ekki þrátt fyrir góðan vilja. Af þeim ástæðum þurfum við því að lækka álag á ofnum það sem eftir lifir af desember...“

Hér er um grafalvarlegt mál að ræða enda atvinnuöryggi starfsmanna Elkem Ísland í húfi. Þó vissulega sé rétt að taka fram að í þessu tilfelli er einungis verið að tala um viðbótarorku þá er rétt að taka það fram að bæði Elkem Ísland og Norðurál eru með lausa raforkusamninga frá árinu 2019 og ljóst miðað við þessar staðreyndir að Landsvirkjun er að óska eftir þannig verðum á raforkunni að fyrirtækið treystir sér ekki til þess að ganga frá samningi. Þá má vera ljóst að framtíð stóriðjureksturs, ekki bara hjá Elkem Ísland heldur öðrum stóriðjufyrirtækjum, er stefnt í stórhættu.

Hvernig má það vera að Landsvirkjun sé ekki tilbúin til að semja við Elkem Ísland til dæmis núna um viðbótarraforku í ljósi þeirrar staðreyndar að sú orka er til í kerfinu enda liggur fyrir að staða miðlóna er mjög góð um þessar mundir og þessi orka er til staðar. Hvernig má það líka vera að Landsvirkjun sé tilbúin til að fórna milljónum ef ekki tugum milljóna á einum mánuði með því að útvega Elkem ekki þessa viðbótarorku? Vilja forsvarsmenn Landsvirkjunar frekar láta hana flæða til sjávar án þess að hún skapi fyrirtækinu jafnvel tugi milljóna í tekjur?

Það er alveg ljóst miðað við þessar fréttir að framtíð stóriðjunnar á Grundartanga, bæði Elkem og Norðuráls, er eins og áður sagði verulega ógnað vegna þeirrar verðlagsstefnu sem Landsvirkjun er með á orku hér á landi. Það er eins og forsvarsmenn Landsvirkjunar hafi ekki verið að fylgjast með því sem er að gerast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Nægir að nefna í því samhengi að samkvæmt heimasíðu Landsvirkjunar kemur fram að verð á raforku er 43 dollarar fyrir megavattstund en í Skandinavíu er raforkan komin niður í rétt rúma 20 dollara fyrir hverja megavattstund þannig að  á Íslandi  er raforkuverðið 112% hærra heldur en það verð sem boðið er í Skandnavíu. Það er mikilvægt fyrir almenning að vita það að Elkem rekur fyrirtæki víða í Skandinavíu og því ljóst að ef samkeppnisskilyrði hér á landi eru að verða ívið lakari en gerist á hinum Norðurlöndunum og þá eru umtalsverðar líkur á að þessari starfsemi verði hætt hér á landi. Enda blasir það við hverjum vitibornum manni að ef móðurfélagið getur fengið raforku sem er 53% ódýrari en Landsvirkjun er nú að fara fram á þá velja menn slík rekstrarskilyrði. Þetta á einnig við um Norðurál en samningar hjá þeim eru einnig lausir 2019 og hefur formaður verulegar áhyggjur af atvinnuöryggi sinna félagsmanna.

Það er eins og forsvarsmenn Landsvirkjunar átti sig ekki á því að raforkuverð í heiminum hefur hríðfallið á undanförnum árum og misserum og því eru samkeppnisskilyrði hér á landi að verða mun bágbornari heldur en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Sem dæmi þá er raforkan eins og áður sagði 53% ódýrari í Skandinavíu heldur en verðlagsskrá Landsvirkjunar segir til um, um 28% lægri í Þýskalandi og 34% lægri í Kanada. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að ef Landsvirkjun horfir ekki á þessar staðreyndir þá eru umtalsverðar líkur á því að þúsundir starfa í stóriðjum muni tapast á næstu árum.

Ástæða fyrir fallandi raforkuverði í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við er meðal annars að þjóðir heimsins eru að átta sig á mikilvægi endurnýtanlegrar orku í orkufrekum iðnaði og staðfestir loftlagsráðstefnan í París það svo ekki verður um villst enda byggist niðurstaðan af ráðstefnunni á því að horfið verði frá mengandi orkugjöfum eins og kolum, olíu og gasi og horft meira til vistvænni orkugjafa. Þetta er önnur af ástæðunum fyrir lækkandi raforkuverði, hin ástæðan er að hagvöxtur víða í heiminum hefur dregist saman sem hefur leitt til lækkunar á raforkuverði.

Það er gríðarlega mikilvægt að íslenskum fyrirtækjum séu sköpuð góð rekstrarskilyrði þannig að þau geti vaxið og dafnað, borgað virkilega góð laun og fjölgað störfum. En með þeirri stefnu sem nú er rekin í Landsvirkjun er ljóst að verið er að ógna lífsafkomu þúsunda Íslendinga og heilu byggðarlaganna og því er verðlagsstefna orkumála ekki orðið neitt einkamál forsvarsmanna Landsvirkjunar þegar lífsafkoma áðurnefndra hópa og byggðarlaga er í húfi.

Nýjasta dæmið er deilan sem hefur verið hjá Alcan í Straumsvík en formaður félagsins hefur áður sagt að hann telji meginrekstrarvanda Alcan liggja í raforkusamningi sem gerður var árið 2010 sem kveður á um að Alcan greiði um 500 dollara fyrir hvert brætt tonn á meðan eigendur Alcan í Straumsvík, Rio Tinto, eru með samning í Kanada í álbræðslu þar sem raforkuverðið er 350 dollarar fyrir hvert brætt tonn. Á þessu sést að samkeppnisskilyrði Alcan í Straumsvík miðað við álfyrirtæki í Kanada eru afar slæm og ljóst að hætta á lokun fyrirtækisins er raunveruleg. Hún allavega snýst ekki um kjör örfárra starfsmanna í mötuneyti, ræstingu og hliðgæslu eins og gefið hefur verið í skyn.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslensk stjórnvöld að fá hlutlausan, óháðan aðila til að skoða þessi mál er lúta að raforkuverði í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við því gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðarbúið í heild sinni svo ekki sé talað um okkur Akurnesinga sem byggjum okkar afkomu að stórum hluta upp á þeirri mikilvægu starfsemi sem fram fer á Grundartangasvæðinu. En rétt er að geta þess að útflutningstekjur stóriðjanna á Íslandi í dag nema tæpum 300 milljörðum og munar um minna. En nú er komið að ögurstundu því þessi tíðindi frá Elkem Ísland um að draga þurfi úr rekstri fyrirtækisins vegna þess að fyrirtækið nær ekki samningum við Landsvirkjun er fyrsti vegvísirinn að því sem koma skal og það er með ólíkindum að Landsvirkjun skuli vera tilbúin að horfa á eftir jafnvel tugum milljóna renna óbeislað til sjávar í stað þess að fá það sem tekjur inn í reikninga fyrirtækisins.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness trúir því ekki að forsvarsmenn Landsvirkjunar ætli meðvitað að fórna þúsundum starfa og slátra sínum stærsta viðskiptavini sem eru stóriðjurnar á Íslandi en þær eru 80% af öllum viðskiptum við Landsvirkjun.

Sú skefjalausa árás sem stóriðjan hefur þurft að þola, orð eins og að þeir fái raforkuna gefins, stenst ekki nokkra skoðun enda liggur fyrir að afkoma Landsvirkjunar hefur verið gríðarlega góð og sem dæmi hefur Landsvirkjun greitt niður um 100 milljarða af sínum skuldum og verður jafnvel orðin skuldlaus eftir 7-8 ár og það þrátt fyrir að hafa ráðist í dýrustu fjárfestingu Íslandssögunnar sem var bygging Kárahnjúkavirkjunar. Landsvirkjun er gullkálfur íslensku þjóðarinnar sem mun skila íslensku þjóðarbúi tugum milljarða í arðgreiðslur eftir örfá ár en það mun ekki gerast ef þeir ætla að slátra sínum stærsta viðskiptavini sem eru stóriðjurnar.  

14
Dec

Nýtingarbónus í Elkem Ísland lagfærður um 0,6%

Á síðasta föstudag fundaði formaður félagsins með mannauðsstjóra og fjármálastjóra Elkem Ísland vegna yfirferðar Verkalýðsfélags Akraness á kjarasamningi sem félagið gerði við Elkem á árinu 2014. Í þeim kjarasamningi var gerð breyting á bónusi starfsmanna þar sem tekinn var upp nýr nýtingarbónus en í einni greininni var kveðið á um að þegar starfsmenn hefðu náð 80% hlutfalli af því sem hann getur gefið í heildina skyldi hann hækkaður úr 2,4% upp í 3% eða sem nemur 0,6%. Við yfirferð félagsins á samningnum kom í ljós að 80% hlutfall af þessum bónus hafði náðst í febrúar á þessu ári en fyrirtækið var ekki sammála útreikningi félagsins og á þeirri forsendu var boðað til þessa fundar.

Það er skemmst frá því að segja að eftir að formaður Verkalýðsfélags Akraness hafði farið yfir með fjármálastjóranum og mannauðsstjóranum á hvaða göngum og forsendum félagið hefði komist að þeirri niðurstöðu að 80% markinu hafi verið náð í febrúar, þá sáu þeir að Verkalýðsfélag Akraness hafði rétt fyrir sér í þessu máli. Það þýðir að leiðrétting á bónusnum mun koma til framkvæmdar í janúar en við þessa hækkun á bónusnum mun leiðrétting koma til starfsmanna sem nemur ca. 0,41% og getur þessi leiðrétting numið um eða yfir 3 milljónum króna í heildina. Einnig var Verkalýðsfélag Akraness búið að ganga frá samkomulagi við forsvarsmenn Elkem um að það kæmu tvær eingreiðslur á samningstímanum. Sú fyrri kom í október og nam hún 50.000 kr. á hvern starfsmann og svo mun önnur eingreiðsla koma í janúar sem nemur einnig 50.000 kr. Kjarasamningurinn sem gerður var hefur reynst starfsmönnum nokkuð góður því félagið gerði líka samning um nýjan tjónabónus sem hefur verið að skila starfsmönnum góðum ávinningi eða umtalsvert meiri en reiknað var með í upphafi en hann hefur skilað hverjum starfsmanni að meðaltali 9.000 kr. á mánuði eða sem nemur 54.000 kr. á 6 mánaða tímabili. Þegar samningurinn var gerður var reiknað með að tjónabónusinn myndi gefa um 4.000 kr. að jafnaði á mánuði þannig að blessunarlega hefur hann verið að skila meira en reiknað var með, báðum aðilum til hagsbóta.

Eins og áður sagði hefur þessi samningur sem gerður var við Elkem Ísland verið nokkuð góður og í raun og veru farið fram úr þeim væntingum sem menn höfðu til samningsins á sínum tíma en það er ljóst að hann er umtalsvert innihaldsríkari en kjarasamningar sem gerðir hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði. Hinsvegar óttast formaður það að ef svokallað SALEK samkomulag verður að veruleika þá muni þessum aðilum sem að því standa takast að eyðileggja slík sóknarfæri því í SALEK samkomulaginu er kveðið á um að stofna skuli sérstakt þjóðhagsráð sem muni ákvarða allar launabreytingar og að öllum stéttarfélögum verði skylt að semja innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð mun ákveða. Ef slíkt verður að veruleika mun það hafa gríðarlega mikil skaðleg áhrif fyrir þá starfsmenn sem starfa hjá sterkum og öflugum fyrirtækjum og ekki bara það heldur mun það bitna illilega á til dæmis Akraneskaupstað sem hefur notið góðs af umfram launahækkunum í stóriðjunum í formi útsvarstekna.

09
Dec

Samið við Faxaflóahafnir vegna hliðgæslumanna á Grundartanga

Verklýðsfélag Akraness gekk frá fyrirtækjasamningi við Faxaflóahafnir þann 4. desember síðastliðinn vegna starfsmanna sem starfa í hliðgæslu á Grundartangasvæðinu. Hlutverk hliðgæslumanna á Grundartangasvæðinu er að vakta svæðið og sjá um skráningu allra gáma sem fara inn á svæðið frá stóriðjufyrirtækjunum á Grundartanga, það er að segja Norðuráli og Elkem Ísland.

Þessi samningur gildir frá 6 maí 2015 til 31. desember 2018 og er því afturvirkur. Það mun þýða að starfsmenn munu fá greiðslu vegna afturvirkninnar sem nemur um eða yfir 200.000 kr. Launataxtar hækka um 25.000 frá 6. maí síðastliðnum og svo mun koma 6% hækkun á launatöflu 1. júní 2016. Árið 2017 mun koma 4,5% hækkun auk breytinga á álagsþrepum í stað aldursþrepa. 2018 mun launatafla hækka um 3% og 1. febrúar 2019 mun koma sérstök eingreiðsla að upphæð 49.000 kr. Þessu til viðbótar mun orlofsuppbót starfsmanna hækka um 0,2% af heildarlaunum starfsmanna sem ætti að geta gefið starfsmönnum fyrir utan hefðbundna orlofsuppbót hækkun sem nemur allt að 12.000 kr. á ári.

Samningurinn í heild sinni gefur tæp 29% en rétt er að geta þess að þeir sem gegna hliðvörslu á Grundartangasvæðinu eru fyrrverandi starfsmenn Securitas en Verkalýðsfélag Akraness samdi við Faxaflóahafnir í maí á þessu ári um að þeir myndu taka yfir starfsemina. Þetta hefur gert það að verkum að starfsmenn sem gegna hliðvörslu á Grundartangasvæðinu hafa hækkað í launum frá maí á þessu ári að meðtalinni þessari 25.000 kr. hækkun sem nú er að koma um allt að 175.000 kr. á mánuði og er það verulega góð kjarabót fyrir þá sem þar starfa. Heildarlaun starfsmanna eru komin yfir 500.000 kr. á mánuði fyrir 182 tíma vaktavinnu og er Verkalýðsfélag Akraness nokkuð stolt af því að hafa náð að lagfæra kjör þeirra sem gegna hliðgæslunni jafnmikið og raun ber vitni um. En barátta fyrir bættum kjörum félagsmanna, henni lýkur aldrei.

Hinsvegar er morgunljóst að ef svokallað SALEK samkomulag aðila vinnumarkaðarins hefði verið orðið að veruleika þá hefði ekki verið möguleiki að lagfæra kjör starfsmanna í hliðgæslu á Grundartangasvæðinu með þeim hætti sem hér hefur verið lýst að ofan. Þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að láta SALEK samkomulagið ekki verða að veruleika enda mun það skerða frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna illilega og rýra möguleika stéttarfélaganna til að sækja kjarabætur til handa íslensku verkafólki.

02
Dec

Verkalýðsfélag Akraness mun hvergi hvika í máli sínu gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni á félagið í nokkuð harðri deilu við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamnings sem félagið á við sambandið vegna starfsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað. Rétt er að upplýsa að deilan byggist ekki á þeim launabreytingum sem félaginu stendur til boða af hálfu sambandsins enda eru þær launabreytingar innan væntinga og í samræmi við þær launahækkanir sem um hefur verið samið gagnvart verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði.

Deilan snýst um að það er skilyrðislaus krafa af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga að í inngangi samningsins sé vitnað í rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 27. október síðastliðnum, svokallað SALEK samkomulag, og það verði látið fylgja með sem fylgiskjal með samningnum. Það er mat stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness og lögmanna félagsins að innihald þessa rammasamkomulags sé skýrt brot á samningsfrelsi stéttarfélaganna og 74. grein stjórnarskrár Íslands. Enda byggist þetta SALEK samkomulag upp á að taka og skerða samningsrétt íslenskra stéttarfélaga illilega.

Á fjölmennum félagsfundi starfsmanna Akraneskaupstaðar var SALEK samkomulaginu alfarið hafnað vegna þess að starfsmenn telja sig ekki hafa lagalega heimild til að takmarka samningsfrelsi annarra samninganefnda innan félagsins né heldur að afsala forsenduákvæðum í öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á íslenskum vinnumarkaði eins og kveðið er á um í umræddu rammasamkomulagi. Þessu til viðbótar er það mat Verkalýðsfélags Akraness að þjóðhagsráð sem á að setja á laggirnar eftir árið 2018 eins og fram kemur í rammasamkomulaginu muni takmarka og skerða samningsfrelsi íslenskra stéttarfélaga svo mikið að slíkt standist ekki skoðun gagnvart lögum um samningsfrelsi stéttarfélaganna og því ekki hægt að samþykkja að umrætt rammasamkomulag fylgi með sem viðhengi við kjarasamning VLFA við Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Í fréttum í dag segir Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, að samninganefnd sveitarfélaganna viti ekki um önnur séttarfélög en Verkalýðsfélag Akraness sem séu á móti SALEK samkomulaginu. Það má vel vera að forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi ekki vitneskju um andstöðu gegn þessu samkomulagi innan verkalýðshreyfingarinnar en formaður VLFA fullyrðir að til séu formenn innan verkalýðshreyfingarinnar sem séu á móti þessu samkomulagi þó slíkt hafi ekki birst með afgerandi hætti á opinberum vettvangi.

En grundvallaratriðið er að Samband íslenskra sveitarfélaga getur ekki gert þá kröfu á félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað að þeir skrifi undir samning þar sem búið er að hengja SALEK samkomulagið við kjarasamninginn vegna þeirrar bláköldu staðreyndar að yfirgnæfandi líkur eru á að slíkt stangist á við lög og stjórnarskrá Íslands. Félagsmenn VLFA vilja vera löghlýðnir og því er þessum gjörningi algjörlega hafnað. Hinsvegar vekur það forundran félagsmanna VLFA að sambandið skuli gera þá kröfu að félagið dragi mál til baka sem það er með vegna SALEK samkomulagsins fyrir Félagsdómi og það er æði margt sem bendir til þess að sambandið vilji ekki fá efnislega niðurstöðu fyrir Félagsdómi um hvort umrætt rammasamkomulag stangist á við lög um stéttarfélög og vinnudeilur og stjórnarskrá Íslands. 

VLFA mun hvergi hvika í þessari baráttu. Félagið vill fá niðurstöðu fyrir félagsdómi, efnislega niðurstöðu, og vonast til þess að sambandið muni ekki reyna lagaklæki, meðal annars með því að beita frávísunum og öðru slíku til að forðast þá niðurstöðu. Það er ekkert mál að skrifa undir samning án þessa SALEK samkomulags en það eru lágmarksréttindi launafólks að þetta samkomulag fái mun ítarlegri kynningu og kosið verði um það sjálfstætt en ekki samhliða launabreytingum þó aðalmálið sé að fá efnislega niðurstöðu fyrir Félagsdómi um hvort verið sé að brjóta á réttindum íslensks launafólks.  

27
Nov

Gríðarleg samstaða á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar gegn SALEK samkomulaginu

Rétt í þessu lauk fundi starfsmanna Akraneskaupstaðar vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga. Eins og flestir vita rann kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga út 1. maí síðastliðinn og nú hefur Sambandið gert þá skýlausu kröfu á VLFA að svokallað rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins eða nánar tiltekið SALEK samkomulagið sé hluti af þeim kjarasamningi sem verður gerður.

Starfsmenn Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness voru einróma sammála um að það væri algjörlega ómögulegt því slíkt væri í andstöðu við frjálsan samningsrétt stéttarfélaga og brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna samkvæmt stjórnarskránni. Samþykkt var ályktun á fundinum þar sem meðal annars kom fram að félagsfundur starfsmanna sem tilheyri Verkalýðsfélagi Akraness harmi það ofbeldi sem Samband íslenskra sveitarfélaga reynir að beita samninganefnd VLFA með því að gera skýlausa kröfu um að SALEK samkomulagið verði hluti af kjarasamningi starfsmanna, ellegar verði enginn kjarasamningur gerður.

Í þessari ályktun er líka kveðið á um að starfsmenn telja sig hvorki hafa lagalega heimild né umboð til að skerða samningsrétt annarra launamanna í sínum kjarasamningum með því að samþykkja umrætt rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins. En það var mat fundarmanna að fjölmörg atriði í rammasamkomulaginu frá 27. október muni klárlega leiða til takmarkana og skerðingar á samningsfrelsi launafólks til framtíðar. En orðrétt hljóðar ályktun fundarins með eftirfarandi hætti:

Ályktun

 

Félagsfundur  starfsmanna Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness, haldinn 27. nóvember 2015, harmar það ofbeldi sem Samband íslenskra sveitafélaga reynir að beita samninganefnd VLFA með því að gera skýlausa kröfu um að SALEK-samkomulagið verði hluti af kjarasamningi starfsmanna ellegar verði enginn kjarasamningur gerður.

Félagsfundur starfsmanna Akraneskaupstaðar telur sig hvorki hafa lagalega heimild né umboð til að skerða samningsrétt annarra launamanna í sínum kjarasamningum með því að samþykkja umrætt rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins.  Fjölmörg atriði í rammasamkomulaginu frá 27. október munu klárlega leiða til takmarkana og skerðingar á samningsfrelsi launafólks til framtíðar.

Einnig lýsir félagsfundurinn undrun sinni á þeirri skýlausu kröfu Sambands íslenskra sveitfélaga að Verkalýðsfélag Akraness dragi til baka stefnu félagsins gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga þar sem látið er reyna á lögmæti SALEK- samkomulagsins.  Fundurinn undrast það að sambandið vilji ekki fá efnislega niðurstöðu frá félagsdómi um hvort aðilar SALEK- samkomulagsins séu að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur, enda er samningsfrelsi stéttarfélaganna hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar og einnig varinn í stjórnarskrá Íslands og í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Fundurinn lýsir fullum stuðningi við baráttu Verkalýðsfélags Akraness í kjaradeilu félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga enda telur fundurinn að framtíð íslenskrar stéttarfélagsbaráttu sé í húfi.  Fundurinn skorar á allt íslenskt launafólk að kynna sér margumrætt SALEK-samkomulag vel og rækilega því frjálsum samningsrétti stéttarfélaga fyrir bættum kjörum launafólks verður ógnað illilega ef þetta rammasamkomulag verður endanlega að veruleika.  

26
Nov

Neyðarfundur með starfsmönnum Akraneskaupstaðar vegna djúpstæðs ágreinings vegna kjarasamningsgerðar!

Verkalýðsfélag Akraness boðar til gríðarlega áríðandi neyðarfundar á morgun með starfsmönnum Akraneskaupstaðar vegna djúpstæðs ágreinings félagsins í kjarasamningsviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga. Eins og flestir vita hefur Verkalýðsfélag Akraness gagnrýnt harðlega svokallað SALEK samkomulag eða rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins. Rammasamkomulag sem klárlega getur verið gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur enda gengur samkomulagið út á að skerða stórkostlega frjálsan samningsrétt íslenskra stéttarfélaga.

Það ótrúlega hefur verið að gerast í þessu máli að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið að ganga frá kjarasamningum við ein 35 stéttarfélög þar sem búið er að hengja SALEK samkomulagið við kjarasamninginn og það þrátt fyrir að verulegar líkur séu á að slíkt sé gróft brot á frjálsum samningsrétti íslenskra stéttarfélaga. Það er reyndar með ólíkindum að íslensk stéttarfélög skuli yfir höfuð samþykkja að umrætt rammasamkomulag sé orðið hluti af kjarasamningi starfsmanna sem starfa hjá íslenskum sveitarfélögum en það er eitthvað sem þau verða að eiga við sína samvisku.

Nú hefur Samband íslenskra sveitarfélaga krafist þess að Verkalýðsfélag Akraness falli frá máli sem nú er rekið fyrir Félagsdómi og einnig að félagið skrifi undir nákvæmlega eins kjarasamning og hin félögin, með SALEK samkomulaginu, en að öðrum kosti fái félagið engan samning né hugsanlega afturvirkni samningsins frá 1. maí 2015. VLFA gerir ekki ýkja miklar athugasemdir við launabreytingar samningsins enda eru þær innan þeirra væntinga sem félagið hafði hvað launahækkanir til handa starfsmönnum Akraneskaupstaðar varðar. Hinsvegar kemur ekki til greina að skrifa undir samkomulag með svokölluðu SALEK samkomulagi því forsvarsmenn félagsins eru löghlýðið fólk og skrifar ekki undir samkomulag sem yfirgnæfandi líkur eru á að sé brot á íslenskum lögum.

Ef fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðilar SALEK samkomulagsins halda í eina einustu mínútu að hægt sé að beita Verkalýðsfélag Akraness slíkri kúgun, þá vaða menn villu vegar. Það er hinsvegar fróðlegt að vita hvort þessi hótun Sambands íslenskra sveitarfélaga sé gerð með vitneskju bæjarstjóra og bæjaryfirvalda því annað eins ofbeldi gagnvart sínum félagsmönnum hefur formaður ekki orðið áskynja á 12 ára ferli sem formaður félagsins. Það er með ólíkindum að Samband íslenskra sveitarfélaga virðist ekki vilja fá efnislega niðurstöðu fyrir Félagsdómi í þessu veigamikla máli en ætlar hinsvegar að reyna að beita grófum þvingunaraðferðum á saklausa starfsmenn Akraneskaupstaðar. Slíku ofbeldi verður að sjálfsögðu mætt af fullum þunga af hálfu félagsins.

Rammasamkomulagið sem gerð er krafa um að fylgi með kjarasamningnum gengur út á að félagið sé skuldbundið til að ganga frá öllum þeim samningum sem félagið á eftir á sömu nótum og kveðið er á um þar, semsagt samningsrétturinn er tekinn af félaginu. Félagið er til dæmis með lausa samninga við Elkem Ísland á Grundartanga árið 2017 og því er með ólíkindum að leggja það á herðar starfsmanna Akraneskaupstaðar að sá samningsréttur sé skertur allverulega með samþykki rammasamkomulagsins. Þessu til viðbótar er kveðið á um í SALEK samkomulaginu að endurskoðunarákvæði sem eiga sér stað í febrúar falli úr gildi að uppfylltum vissum skilyrðum. Formaður spyr reyndar hvaða heimild þeir hafi og í hvaða umboði aðilar rammasamkomulagsins geri slíkt enda er kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði sjálfstæður kjarasamningur og algjörlega óháður öðrum kjarasamningum.

Hinsvegar er stóra málið sem fram kemur í SALEK samkomulaginu það að eftir árið 2018 verði tekið upp nýtt vinnumarkaðslíkan. Vinnumarkaðslíkan sem gengur út á að stofnað verði þjóðhagsráð sem hafi það markmið að meta hvert svigrúm til launabreytinga geti orðið. Ef þetta þjóðhagsráð mun komast að því að svigrúmið sé 2,5% þá verður stéttarfélögunum skylt að semja innan þess svigrúms enda er skýrt kveðið á um slíkt í rammasamkomulaginu. Semsagt, samningsréttur íslenskra stéttarfélaga verður fótum troðinn verði þetta að veruleika en Verkalýðsfélag Akraness mun berjast af alefli fyrir því að svo verði ekki.

Það er grátbroslegt til þess að vita að þegar Verkalýðsfélag Akraness hefur náð góðum kjarasamningum eins og til dæmis á Grundartanga og við HB Granda í síðustu samningum þá hafa forsvarsmenn bæjarins komið og klappað forsvarsmönnum Verkalýðsfélags Akraness á bakið og sagt glæsilegt hjá ykkur, það skiptir miklu máli að þið náið að bæta kjör ykkar félagsmanna því það skilar sér með afgerandi hætti í hækkun tekna bæjarsjóðs í formi útsvars. En núna er semsagt krafa Akraneskaupstaðar sú að eftir árið 2018 verði Verkalýðsfélagi Akraness og öðrum stéttarfélögum þetta ekki heimilt enda skýrt kveðið á um eins og áður sagði að stéttarfélögin verði að vera innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð ákvarðar. Svigrúmið sem þjóðhagsráð mun komast að liggur nokkurn veginn fyrir enda hafa forsvarsmenn SA og ASÍ sagt á fundi hjá framkvæmdastjórn Samiðnar að þetta svigrúm sé á bilinu 2-3,5%. Það er ömurlegt til þess að vita að íslensku launafólki sé sagður hálfur sannleikurinn í þessu máli. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar margir hverjir segja að ekkert sé búið að ákveða í þessum málum en slíkt eru hreinustu ósannindi enda er búið að móta svona nokkurn veginn hvernig þetta þjóðhagsráð mun verða.

Ég skora á íslenskt launafólk að fylgjast með því hvað hér er að gerast. Látum ekki traðka á okkur og taka af okkur samningsréttinn eða í það minnsta skerða hann stórlega. Og rétt er að minna á að þegar rannsóknarskýrsla Alþingis kom út vegna bankahrunsins þá bentu skýrsluhöfundar á að það sem leiddi okkur í þessar ógöngur voru meðvirkni, jámennska og gagnrýnilaus hugsun. Og það nákvæmlega sama er að gerast núna, menn horfa á þetta með meðvirkni, jámennsku og gagnrýnislausri hugsun. Að sjálfsögðu gæti Verkalýðsfélag Akraness hallað sér aftur og látið eins og þetta sé allt í góðu en forsvarsmenn félagsins hafa ekki samvisku til að taka þátt í slíkum gjörningi. Enda er hér um lífsviðurværi íslensks verkafólks og velferð þeirra að ræða.

Að lokum hvetur Verkalýðsfélag Akraness alla sem sem starfa hjá Akraneskaupstað til þess að mæta á þennan neyðarfund sem haldinn verður í hátíðarsal íþróttamiðstöðvarinnar að Jaðarsbökkum kl. 17 á morgun, föstudag. Félagar, látum ekki þetta ofbeldi yfir okkur ganga, stöndum saman öll sem eitt!  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image