• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Aðalfundur VLFA - félagið stendur vel félagslega sem fjárhagslega Frá aðalfundi félagsins í gær
06
Apr

Aðalfundur VLFA - félagið stendur vel félagslega sem fjárhagslega

Í gær var haldinn aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness og það er óhætt að segja að félagið standi gríðarlega vel jafnt félagslega sem fjárhagslega. Formaður fór yfir skýrslu stjórnar yfir liðið starfsár og kom meðal annars fram í skýrslunni sá mikli árangur sem félagið náði við kjarasamningsgerð á síðasta ári en sumir samningar sem félagið gerði voru langt umfram það sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði. Nægir að nefna í því samhengi að félagið gerði við HB Granda á síðasta ári sérstakan bónussamning og í heildina skilaði hann fiskvinnslufólki um 27,5% launahækkun. Því til viðbótar gekk félagið frá algjörum tímamótasamingi við Norðurál með tengingu við launavísitölu ásamt 300.000 kr. eingreiðslu til handa öllum starfsmönnum. Sá samningur gaf á fyrsta árinu uppundir 17% launahækkun. Það sem af er þessu ári hefur launavísitalan hækkað um 4% sem mun koma til hækkunar 1. janúar á næsta ári en eins og fram kom í skýrslunni þá eru 10 mánuðir eftir í mælingu á launavísitölunni þannig að það er ljóst að starfsmenn Norðuráls munu fá umtalsverða launahækkun á næsta ári. Einnig kom fram í skýrslu stjórnar að gerðir voru samningar fyrir hliðgæslumenn á Grundartangasvæðinu sem nú eru orðnir starfsmenn Faxaflóahafna en laun þeirra hækkuðu um allt að 150.000 kr. á mánuði við gerð nýs fyrirtækjasamnings. Einnig gerði félagið feikilega góðan samning við verktakafyrirtækið Snók á Grundartanga sem skilaði starfsmönnum þar 70-80.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum. Þannig að árangur VLFA hvað kjarasamninga varðar var mjög góður á síðasta ári. 

Það kom líka fram í skýrslu stjórnar hvað kjarasamninga varðar að farið var í verkfall á hinum almenna vinnumarkaði 6. og 7. maí á síðasta ári og það var ánægjulegt að geta greint fundarmönnum frá því að Verkalýðsfélag Akraness var eitt félaga sem tók ákvörðun um að greiða verkfallsbætur fyrir báða dagana en eftir bestu vitneskju forsvarsmanna VLFA veit félagið ekki til þess að önnur félög hafi gert slíkt. Félagið greiddi um 6 milljónir í verkfallsbætur til félagsmanna vegna þessa 2 daga verkfalls. 

Formaður fór yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin varðandi hugmyndir um nýtt vinnumarkaðslíkan í anda þess sem búið er að teikna upp í gegnum svokallað Salek samkomulag og kom fram í máli hans að þetta væri mesta vá sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir. Þetta nýja vinnumarkaðslíkan gengur út á að taka frjálsan samningsrétt af stéttarfélögunum og færa hann yfir til svokallaðs þjóðhagsráðs sem mun ákvarða hverjar hámarkslaunabreytingar megi vera. Það kom skýrt fram í skýrslu stjórnar að frjáls samningsréttur er hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu og foru fundarmenn sammála því að félagið myndi beita sér af alefli fyrir því að þessi frjálsi samningsréttur yrði ekki skertur eins og menn hafa í hyggju að gera. 

Það kom líka fram í skýrslu stjórnar að félagið er nú með 3 mál fyrir dómstólum þar sem verið er að láta reyna á réttindi félagsmanna enda er það skylda stéttarfélaga að standa vörð um kjör og réttindi sinna félagsmanna. Félagið horfir ekki í krónur og aura hvað þessa réttindabaráttu varðar enda er leikurinn afar ójafn oft á tíðum milli launamanna og atvinnurekanda og því skiptir höfuðmáli að hafa sterkt og öflugt stéttarfélag að baki sér. 

Afkoma félagsins var mjög góð og var meðal annars aukning á iðgjaldatekjum félagsins vegna góðra kjarasamninga og fjölgunar félagsmanna. Nam hækkun iðgjaldatekna félagsins tæpum 20% milli ára en félagsmönnum fjölgaði um 117 á sama tíma. Allir sjóðir félagsins skiluðu rekstrarafgangi og nam heildar rekstrarhagnaður félagsins 108 milljónum. Það er stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta góðs af góðri afkomu félagsins og var tilkynnt á aðalfundinum að 3 af 15 styrkjum félagsins yrðu hækkaðir. Sem dæmi þá hækkar fæðingarstyrkurinn úr 70.000 kr. á félagsmann upp í 85.000 kr. og ef báðir foreldrar eru félagsmenn nemur þessi styrkur 170.000 kr. Einnig voru heilsueflingar- og heilsufarsskoðunarstyrkir hækkaðir úr 20.000 kr. í 25.000 kr. Það er eins og áður sagði stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn njóta góðs af góðum árangri félagsins.  

Það er jafnframt stefna stjórnar VLFA að halda áfram að berjast fyrir réttindum sinna félagsmanna og auka réttindi á öllum sviðum eins og kostur er og að Verkalýðsfélag Akraness verði áfram eitt af sterkustu stéttarfélögum á íslenskum vinnumarkaði. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image