• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Formaður VLFA gagnrýndi nýtt vinnumarkaðslíkan harðlega á þingi Samiðnar Formaður VLFA í ræðustól (mynd frá 1. maí 2015)
25
Apr

Formaður VLFA gagnrýndi nýtt vinnumarkaðslíkan harðlega á þingi Samiðnar

Þing Samiðnar, sem er landssamband iðnaðarmanna, var haldið föstudaginn 21. apríl og laugardaginn 22. apríl. Meginþema þessa þings var nýtt vinnumarkaðslíkan byggt á svokölluðu Salek samkomulagi sem og lífeyrismál. Fulltrúar á þinginu fyrir hönd iðnsveinadeildar Verkalýðsfélags Akraness var formaður félagsins ásamt Guðmundi Rúnari Davíðssyni. Þetta var í fyrsta sinn sem formaður sá ástæðu til að fara á þetta þing í ljósi þeirra miklu hagsmunamála sem undir voru á þinginu en það er mat formanns félagsins að nýtt vinnumarkaðslíkan sé ein mesta vá sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir nánast frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. 

Formaður tók tvisvar sinnum til máls á þinginu og fór yfir áhyggjur Verkalýðsfélags Akraness af þessu nýja vinnumarkaðslíkani en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá byggist það á því að stofnað verði þjóðhagsráð sem muni ákvarða hverjar hámarkslaunabreytingar megi vera útfrá einhverju efnahagslegu líkani sem farið verður eftir. Formaður fór yfir í ræðu sinni að Seðlabankinn, Fjármálaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins hafi ætíð sagt þegar kemur að því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði, bæði fyrir iðnaðarmenn og verkafólk, eru lausir að svigrúmið sé í kringum 2-3,5%. Þetta þýðir á mannamáli að æði margt bendi til þess að þetta nýja þjóðhagsráð muni byggja sínar ályktanir útfrá þessum staðreyndum - að hámarkslaunabreytingar séu ætíð í kringum 2-3,5%. Þetta þýðir líka á mannamáli að verið sé að taka og skerða samningsrétt stéttarfélaganna enda kemur skýrt fram í Salek samkomulaginu að stéttarfélögin þurfi að semja innan þess svigrúms sem þjóðhagsráð ákveður á hverjum tíma fyrir sig. 

Forseti ASÍ hélt erindi á þessu þingi og kom fram í máli hans að mikilvægt væri að auka kaupmátt launafólks og því væru hófstilltar launahækkanir leiðin að þvi marki með sambærilegum hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum. Forseti ASÍ sagði og vitnaði þar í kynningarefni sem aðilar Salek samkomulagsins gáfu út, að frá árinu 2000 til ársins 2014 hafi kaupmáttaraukning á Norðurlöndunum verið 1,7% en einungis 0,8% á Íslandi. Í ljósi þess að þessir aðilar vilja tala um prósentur og kaupmáttaraukningu þá er mjög undarlegt að þeir skuli nota þetta viðmiðunartímabil því að inni í þessu tímabili er sjálft hrunið þar sem verðbólgan fór hér í hæstu hæðir eða uppundir 20%. Þannig að það yrði fróðlegt að sjá hvernig staðan yrði ef efnahagshrunið mikla væri ekki inni í þessum samanburði. Forseti ASÍ var heldur ekki að segja frá því að launataxtar bæði verkafólks og iðnaðarmanna hafa hækkað gríðarlega, í prósentum takið eftir, og nemur sú hækkun hjá iðnaðarmönnum frá árinu 2000 199% en á sama tíma hækkaði neysluvísitalan um 122% þannig að kaupmáttaraukning iðnaðarmanna sem taka laun eftir töxtum er 77% á umræddu tímabili. Einhverra hluta vegna sleppa forseti ASÍ og talsmenn Salek samkomulagsins þessum staðreyndum. 

Þeir sleppa því líka að á síðustu 12 mánuðum hefur launavísitalan hækkað um rúm 13% á meðan verðbólgan er einungis 1,5% sem þýðir að kaupmáttaraukning síðustu 12 mánaða samkvæmt launavísitölu er 11,5%. Þeir sleppa því líka að segja að kaupmáttaraukning hjá iðnaðarmönnum hafi verið rúm 18% frá síðustu samningum. Á sama tíma hækkuðu laun til dæmis í Noregi um 2,5% og verðbólgan var einnig 2,5% þannig að í Noregi var engin kaupmáttaraukning á meðan kaupmáttaraukningin hér var hjá iðnaðarmönnum rúm 18%. Nei, það hentar ekki þessum ágætu mönnum að segja allan sannleikann en ekki þar fyrir utan að þá hefur formaður VLFA ekki verið mikið fyrir að tala í prósentum enda fer enginn launamaður og verslar með prósentum heldur beinhörðum íslenskum krónum. 

Þessi blekkingarleikur þessara aðila er mjög alvarlegur og formaður ítrekar það að hér er um mestu vá að ræða sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir ef þeim tekst að taka samningsréttinn með einum eða öðrum hætti af stéttarfélögunum og færa hann yfir til þjóðhagsráðs. Enda hefur frelsi stéttarfélaganna til samningsgerðar verið hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu á liðnum árum og áratugum. Formaður kom þessum skilaboðum rækilega til skila á þinginu og afstaða Verkalýðsfélags Akraness er hvellskýr hvað þetta mál varðar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image