• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
May

Norðurál skilar 6 milljörðum í hagnað = Gott starfsfólk

Góður árangur næst ekki nema með afbragðsstarfsmönnumNorðurál á Grundartanga tilkynnti afkomutölur sínar í dag og þar kemur fram að hagnaður fyrirtækisins nam rétt tæpum 6 milljörðum sem verður að teljast mjög góð afkoma í ljósi þess að heimsmarkaðsverð á áli lækkaði verulega á milli ára og stendur álverð í tæpum 1.600 dollurum fyrir tonnið.  

Það er morgunljóst að svona afkomutölur ár eftir ár nást ekki nema fyrirtækið hafi afbragðs starfsfólk innan sinna vébanda og því er það afar mikilvægt að stjórnendur íslenskra fyrirtækja átti sig á því að gott starfsfólk er í höfuðatriðum lykill að góðum árangri og afkomu. Það er líka morgunljóst að góð afkoma Norðuráls hefur m.a. gert Verkalýðsfélagi Akraness kleyft að krefjast aukinnar hlutdeildar í góðri afkomu fyrirtækisins til handa starfsmönnum eins og síðasti kjarasamningur sem félagið gerði við Norðurál sannar.  

Það skiptir launafólk og stéttarfélögin miklu máli að afkoma fyrirtækja sé góð, því góð afkoma gefur stéttarfélögunum aukið svigrúm til að krefjast hlutdeildar í góðri afkomu fyrirtækja og þannig á íslenskur vinnumarkaður að virka. Það er alveg ljóst að vinna Verkalýðsfélags Akraness við að bæta kjör sinna félagsmanna er hvergi nærri lokið og því er afar ánægjulegt að sjá að mörg fyrirtæki sem félagsmenn VLFA starfa hjá eru að skila góðri afkomu eins og Norðurál og HB Grandi svo einhver dæmi séu nefnd.  

Eins og áður sagði er vinnu við að hækka laun okkar félagsmanna hvergi nærri hætt enda lýkur þeirri baráttu aldrei, það er ánægjulegt að okkur hefur tekist vel við að láta eigendur Norðuráls skila góðri afkomu til starfsmanna þegar kjarasamningar hafa verið lausir. Í dag er byrjandi á vöktum hjá fyrirtækinu með í heildarlaun með öllu 522.000 krónur á mánuði fyrir 182 tíma og starfsmaður með 10 ára starfsreynslu er með 611.000 krónur með öllu fyrir sama vinnutíma. Þessu til viðbótar stendur starfsmönnum til boða að taka stóriðjuskóla sem getur skilað allt að 10% launahækkun að afloknum skólanum og með stóriðjuskólanum getur verkamaður náð tæpum 670.000 krónum í mánaðarlaunum með öllu.  En eins og áður sagði er VLFA hvergi hætt að berjast fyrir hærri launum og aukinni hlutdeild í góðum árangri fyrirtækja.

Það sem skyggir á góða afkomu Norðuráls og margra annarra fyrirtækja er að ASÍ ásamt aðilum sem tengjast svokölluðu Salek samkomulagi vinna nú leynt og ljóst að því að taka af eða skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna með því að færa ákvörðunartöku um hámarkslaunabreytingar yfir á nýtt þjóðhagsráð sem á að ákveða hversu mikið svigrúm er til skiptanna og ef þjóðhagsráð kemst að því að svigrúmið sé einungis 3% þá verður stéttarfélögunum skylt að semja innan þess svigrúms. Sem sagt, stéttarfélögin munu ekki mega sækja í góða afkomu fyrirtækja eins og Norðuráls því ætlunin er að meitla í stein samræmda láglaunastefnu. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image