• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
May

1. maí hátíðarhöldin heppnuðust vel á Akranesi

1. maí á Akranesi heppnaðist í alla staði mjög vel eins og hann reyndar gerir ætíð. Dagskráin var hefðbundin, farið var í kröfugöngu undir taktföstum tónum skólahljómsveitar Akraness. Að því loknu var haldið í sal Verkalýðsfélags Akraness að Kirkjubraut 40 þar sem hefðbundin hátíðar- og baráttudagskrá tók við. Formaður VLFA flutti ávarp en barátturæðuna flutti hinsvegar Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. 

Í ávarpi formanns Verkalýðsfélags Akraness kom fram að hann hefði gríðarlegar áhyggjur vegna fyrirætlana um að taka hér upp nýtt vinnumarkaðsmódel eins og kveðið er á um í svokölluðu Salek samkomulagi og kom fram í máli hans að hann teldi að þetta nýja vinnumarkaðsmódel gæti orðið ein mesta vá sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Enda byggist þetta vinnumarkaðslíkan á að skerða og takmarka frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna og færa hann yfir á nýtt ráð sem á að kallast þjóðhagsráð. Þetta þjóðhagsráð á að meta hversu miklar hámarkslaunabreytingar megi eiga sér stað þegar kjarasamningar eru lausir og stéttarfélögum verður skylt að halda sig innan þess svigrúms. Það kom líka fram í máli hans að verkalýðshreyfingin sem afl er gríðarlega mikilvægt enda er leikurinn milli atvinnurekandans og launamannsins æði oft afar ójafn og því mikilvægt fyrir íslenskt launafólk að hafa sterk og öflug stéttarfélög til að verja og bæta kjör sín. 

Drífa Snædal hélt mjög góða ræðu og kom meðal annars inn á hversu sterk baráttuhefð hefur verið hjá fiskvinnslukonum á Akranesi og rifjaði meðal annars upp sögu frá Bjarnfríði Leósdóttur frá 1976 í því samhengi. Hún sagði meðal annars í ræðu sinni: 

"Bjarnfríður Leósdóttir sem lést á síðasta ári segir í ævisögu sinni frá kvennaverkfallinu sem háð var hér á Skaganum árið 1976 þegar karlarnir í Reykjavík höfðu samið uppsagnarákvæði af fiskverkakonum. Konurnar á Akranesi sættu sig ekki lengur við að vera varavinnuafl og með styrk úr kvennabaráttunni, miklum hlátri, stemningu, bakkelsi og baráttuanda náðu þær að rétta kjör sín. Karlarnir voru óskaplega þreyttir á þeim, hvort sem litið var til blaðamanna, stjórnmálamanna eða þeirra sem höfðu í raun átt að vera samherjar. Bjarnfríður orðar það svo: „Það hefur verið rok á Skaga undanfarna daga með leiftrum og ljósagangi. Konurnar hafa staðið með storminn í fangið, algallaðar á verkfallsvakt.“ Við eigum konum og öðru baráttufólki á Skaganum mikið að þakka og þessi saga Bjarnfríðar skýrir það af hverju ég hef alltaf borið óttablandna virðingu fyrir fiskverkakonum frá Akranesi."

Á milli ræðuhalda ómuðu ljúfir tónar frá Kvennakórnum Ymi og í lokin var Maístjarnan sungin og að sjálfsögðu Alþjóðasöngur verkalýðsins (Internasjónalinn) þar sem allir stóðu á fætur og tóku undir. Það var ekki bara að kvennakórinn Ymur töfraði fram ljúfa tóna heldur sáu þær einnig um ljúffengar veitingar enda svignaði borðið af kræsingum. Vill Verkalýðsfélag Akraness þakka öllum þeim sem sáu sér fært að mæta og taka þátt í þessum baráttudegi verkalýðsins sem er og verður mjög mikilvægur öllu íslensku launafólki. Hér má sjá myndir frá deginum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image