• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
May

1. maí ræða formanns Verkalýðsfélags Akraness

Kæru félagar innilega til hamingju með daginn.

Sá sem hér stendur ætlaði ekki að flytja neitt ávarp hér í dag enda erum við með frábæran ræðumann sem mun flytja ræðu hér á eftir. Hinsvegar er staðan orðin þannig núna að ég get ekki orða bundist vegna svokallaðs Salek samkomulags sem ég tel vera eina mestu vá sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Enda byggist þetta Salek samkomulag á að skerða frjálsan samningsrétt launafólks. 

Ágætu vinir og félagar, slagorð Alþýðusambands Íslands vegna 1. maí í ár er Samstaða í 100 ár - sókn til nýrra sigra! Sá sem hér stendur er ekki í nokkrum vafa um að verkalýðshreyfingin hefur á þeim 100 árum sem hún hefur verið við lýði unnið marga glæsta sigra við að verja og auka réttindi sinna félagsmanna. Við skulum aldrei gleyma því að mikið af þeim réttindum sem við búum við í dag á íslenskum vinnumarkaði og við teljum vera sjálfsögð mannréttindi voru það svo sannarlega ekki hér á árum áður. Við skulum heldur ekki gleyma því að það voru frumkvöðlarnir í íslenskri verkalýðsbaráttu sem með elju, krafti, dugnaði og atorkusemi lögðu grunn að þeim réttindum og kjörum sem við búum við.

En takið eftir, þessari baráttu fyrir bættum kjörum er hvergi nærri lokið enda liggur það fyrir að lágmarkslaun verkafólks á Íslandi eru einfaldlega alltof lág og það liggur líka fyrir að þau duga ekki fyrir þeim lágmarks framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Það er sorglegt og dapurlegt til þess að vita að við skulum ennþá vera með launataxta á íslenskum vinnumarkaði sem valda því að verkafólk getur ekki haldið mannlegri reisn og framfleytt sér og sínum. Og það sama má segja um kjör aldraðra og öryrkja.

 Ég sagði áðan að slagorð ASÍ væri Samstaða í 100 ár og sókn til nýrra sigra! Já, á sama tíma og forysta ASÍ býr til flott slagorð sem kveður á um „Sókn til nýrra sigra“ þá vinna þessir aðilar að því að setja á laggirnar nýtt vinnumarkaðslíkan sem gengur út á að skerða gróflega frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna. Nýja vinnumarkaðsmódelið sem þessir ágætu snillingar vinna nú að gengur út á að skipað verði þjóðhagsráð sem á að meta hverjar hámarks launahækkanir megi vera í kjarasamningum á Íslandi. 

Í Salek samkomulaginu sem fjallar um þetta nýja vinnumarkaðslíkan er skýrt kveðið á um að stéttarfélögin á Íslandi verði að semja innan þess svigrúms sem umrætt þjóðhagsráð mun ákvarða. En takið eftir, ætíð þegar komið hefur að því að semja fyrir verkafólk og iðnaðarmenn hafa fulltrúar Seðlabankans, Samtaka atvinnulífsins og fjármálakerfisins sagt að svigrúm til launahækkana sé  þetta í kringum 2% til 3,5%.

Það er þyngra en tárum taki að æðsta forysta verkalýðshreyfingarinnar með forseta ASÍ í broddi fylkingar ætli sér að vinna að því að skerða gróflega frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna eins og nú er unnið að. Þessir menn vinna nú að því að meitla í stein samræmda láglaunastefnu þar sem ekki verður möguleiki á að taka tillit til sterkrar stöðu einstakra fyrirtækja og atvinnugreina. 

Hverjir eru það sem eiga að sitja í þessu þjóðhagsráði og ákveða hverjar hámarkslaunabreytingar eigi að vera? Jú, það eru fulltrúar frá eftirfarandi aðilum: Seðlabankanum, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, BSRB og oddvitar ríkisstjórnar á hverjum tíma fyrir sig. 

Þetta verða þeir aðilar sem munu ákveða hvað laun megi hækka um mikið og öllum stéttarfélögum verður skylt að semja innan þess svigrúms sem þetta svokallaða þjóðhagsráð mun ákveða. Með öðrum orðum ef þjóðhagsráð ákveður að svigrúmið til launabreytinga sé 2,5% þá verður stéttarfélögunum skylt að semja innan þess svigrúms. Semsagt, frjáls samningsréttur stéttarfélaganna verður fótum troðinn ef þetta verður að veruleika.

 Þessir aðilar sem eiga að sitja í þjóðhagsráði hafa ætíð rekið skefjalausan hræðsluáróður þegar kemur að því að semja um kaup og kjör fyrir verkafólk og þeir hafa sagt að verðbólgan muni rjúka upp ef gengið verði að kröfum verkafólks. Öll munum við eftir auglýsingum Samtaka atvinnulífsins þar sem varað var við miklum launahækkunum til handa verkafólki og sem dæmi þá spáðu Samtök atvinnulífsins því að verðbólgan myndi fara jafnvel uppí 27% ef gengið yrði að kröfum okkar um 300.000 kr. lágmarkslaun. 

Já, okkar krafa í síðustu kjarasamningum í fyrra var að lágmarkslaun næðu innan tveggja ára 300.000 krónum, þetta var afar hófvær krafa en hún átti að mati þessara manna að valda óðaverðbólgu. En hugsið ykkur, á sama tíma og Samtök atvinnulífsins vöruðu við launahækkunum verkfólks sem einhverju næmi þá hækkuðu laun formanns Samtaka atvinnulífsins um 624 þúsund á mánuði og nema mánaðarlaun hans nú vel á fimmtu milljón króna. Hræsnin og hrokinn í þessum aðilum ríður vart við einteyming.

Kæru félagar, það er sorglegt að núna hafa æðstu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar enn og aftur tekið undir þennan hræðsluáróður og gefið í skyn að óstöðugleiki og verðbólga sé launahækkunum launafólks nánast einum um að kenna. Allavega gengur þetta nýja vinnumarkaðsmódel út á að skerða möguleika launafólks á að sækja sér umfram kjarabætur. 

Stéttarfélögin hafa í raun og veru verið blóðug upp fyrir axlir undanfarin ár og áratugi við að berjast fyrir því að laun íslensks verkafólks hækki með þeim hætti að þau dugi til að fólk geti haldið mannlegri reisn og framfleytt sér og sinni fjölskyldu. Og takið eftir, við eigum enn töluvert í land hvað það varðar þó okkur hafi tekist að hækka lágmarkstaxta umtalsvert frá árinu 2000 og sem dæmi má nefna að árið 2000 var lægsti taxti verkafólks einungis 63.000 kr. en núna 16 árum síðar er hann kominn upp í 244.000 kr. Þetta er hækkun upp á 287% og kaupmáttaraukningin á þessu tímabili er yfir 60%. En betur má ef duga skal. En kæru félagar, ég fæ ætíð óbragð í munninn þegar talað er um prósentur og kaupmátt, einfaldlega vegna þess að ekkert okkar fer út í næstu verslun og verslar með prósentum. Við verslum með krónum og því er það dapurlegt þegar verið er að blekkja launafólk í formi prósentuhækkana. En samt sem áður í ljósi þess að þessir snillingar telja sig þurfa að tala um að auka þurfi hér kaupmátt með því að ganga frá hófstilltum kjarasamningum þá er mikilvægt að halda þeim staðreyndum hátt á lofti að kaupmáttaraukning lægstu taxta frá árinu 2000 er 60%. Þeir sem standa að Salek samkomulaginu segja að við verðum að auka kaupmáttinn og að það sé gert með hófstilltum launahækkunum. Það eru hinsvegar blákaldar staðreyndir að kaupmáttur lægstu launa á Íslandi er langt fyrir ofan það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. En eins og áður sagði, prósentur blekkja. Ef þú leggur 1 krónu ofan á aðra krónu þá er það 100% hækkun. Ástæðan fyrir því að lágmarkslaun hafa hækkað þetta mikið í prósentum er hversu lág þau eru. Við þurfum að færa launakjör verkafólks í krónum talið til samræmis við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. 

Aðilar Salek samkomulagsins segja að þeir vilji taka upp norrænt vinnumarkaðslíkan þar sem byggt verður upp vinnumarkaðslíkan til að auka kaupmátt. Það stendur ekki til að hækka launin strax í upphafi til samræmis við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Nei, það stendur bara til að taka einn þátt út úr líkaninu sem gengur út á að semja um hófstilltar launahækkanir sem nema á bilinu 2-3,5% á ári. Það stendur heldur ekki til að taka hér á okurvöxtum fjármálakerfisins og færa vaxtakerfið niður í 2% eins og á hinum Norðurlöndunum. Nei, það stendur ekki til. Það stendur heldur ekkert til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga til samræmis við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Nei, það stendur heldur ekki til enda hef ég ekki séð tillögur er lúta að þessum þáttum. 

Hinsvegar hef ég séð tillögur sem lúta að því að skerða og nánast gelda stéttarfélögin í sinni kjarabaráttu enda ganga þessar tillögur út á að meitla í stein samræmda láglaunastefnu þar sem ekki má taka tillit til sterkrar stöðu einstakra fyrirtækja. Tökum dæmi hér á Akranesi en þá hefði Verklýðsfélag Akraness ekki mátt semja um 27,5% launahækkun fyrir fiskvinnslufólk HB Granda í fyrra með sérstökum bónussamningi ef nýja samningamódelið hefði verið komið á. Hugsið ykkur, okkur tókst að hækka laun fiskvinnslufólks um allt að 90.000 kr. á mánuði og fyrir fulla dagvinnu er fiskvinnslufólk núna að nálgast 400.000 kr. á mánuði. Þetta vilja þessir menn koma í veg fyrir. Við hefðum heldur ekki mátt semja um launavísitölutengingu við Norðurál í fyrra sem skilaði starfsmönnum yfir 17% launahækkun og 300 þúsund króna eingreiðslu. Kjarasamningur sem að mínu mati var tímamótasamningur. Þetta vill m.a. forysta ASÍ  koma í veg fyrir. Að stéttarfélög hafi tækifæri til að sækja á fyrirtæki sem meðal annars standa vel og eru að skila góðri afkomu. Eru menn hissa á því að sá sem hér stendur hafi áhyggjur af þeim skemmdarverkum sem þessir menn vinna nú að með því að skerða samningsréttinn okkar og færa hann að hluta til yfir á eitthvað þjóðhagsráð! 

Gleymum því aldrei að frjáls samningsréttur stéttarfélaganna hefur verið hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á liðnum árum og áratugum en nú virðast þessir aðilar ætla að breyta stéttarfélögunum í einhverjar umsýslustofnanir þar sem réttur stéttarfélaganna til að semja um kaup og kjör sinna félagsmanna verður færður að stórum hluta frá þeim yfir til umrædds þjóðhagsráðs. 

Það er með svo miklum ólíkindum að forysta Alþýðusambands Íslands skuli hafa mestar áhyggjur af „of miklum“ launahækkunum sinna félagsmanna og að þær þurfi að beisla með því að setja á laggirnar þjóðhagsráð sem fái það vald að ákveða hverjar hámarkslaunabreytingar megi vera á hverjum tíma fyrir sig. Þetta er gert í nafni stöðugleika en forysta ASÍ virðist ekki hafa neinar áhyggjur af milljarða ef ekki milljarða tugum sem greiddir eru í formi arðgreiðslna til eigenda fyrirtækja. Þessar arðgreiðslur valda engum verðbólguþrýstingi að mati valdaelítunnar. Það gildir hinsvegar allt annað lögmál ef verkafólk fær hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja. Þá spretta þessir aðilar enn og aftur fram og gera heilu auglýsingarnar eins og áður sagði um að óðaverðbólga sé hinum megin við hornið. Og meira að segja stekkur seðlabankastjóri fram og hækkar stýrivexti gagngert til þess að draga úr ráðstöfunartekjum verkafólks. En hækkun stýrivaxta gerir ekkert annað en að færa fjármagn frá skuldsettri alþýðu yfir til fjármagnselítunnar. Hvað er að þessum mönnum og hvað gengur þeim til? Spyr sá sem ekki veit. 

Það er líka dapurlegt og í raun og veru sorglegt að forysta ASÍ virðist ekki heldur hafa neinar áhyggjur af þeim miskunnarlausu okurvöxtum og verðtryggingu sem alþýða þessa lands þarf að búa við hér á landi. Og takið eftir, almenningur þarf að greiða um 300% hærri húsnæðisvexti en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Mitt mat: það er brýnasta hagsmunamál sem skuldsett alþýða stendur frammi fyrir að tekið verði hér á okurvöxtum fjármálakerfisins. Nei, forysta ASÍ virðist ekki vera tilbúin að taka á okurvöxtum fjármálakerfisins en er hinsvegar tilbúin til þess að láta breyta lögum um stéttarfélög og vinnudeilur til að festa nýtt vinnumarkaðslíkan í sessi. Semsagt, setja í lög að samningsréttur stéttarfélaganna verði skertur. Að koma með hugmyndir um að setja þak á óverðtryggða vexti eða afnema verðtryggingu? Nei, slíkt virðist ekki koma til greina af hálfu forystu Alþýðusambands Íslands.  

Já kæru félagar, mestu áhyggjur hjá forystu ASÍ er að beisla þurfi launahækkanir verkafólks til að koma á stöðugleika og þessar áhyggjur forystu ASÍ birtast okkur á umbrotatímum í íslensku samfélagi þar sem skefjalaus spilling birtist landsmönnum í gegnum Panamaskjölin. Spilling sem teygir anga sína til framkvæmdastjóra sem stjórna lífeyrissjóðunum okkar. Á sama tíma og alþýða þessa lands horfir upp á þessa skefja-og miskunnarlausu spillingu og misskiptingu þá vinnur forystufólk innan ASÍ leynt og ljóst að því að skerða samningsfrelsi launafólks með því að afhenda fulltrúum þjóðhagsráðs ákvörðunarvald yfir því hversu mikla hlutdeild launafólk megi fá frá fyrirtækjum. Það er ekkert skrýtið að forystumenn Samtaka atvinnulífsins, sveitarfélaga, stjórnvalda og Seðlabankans skuli vera æstir í að koma umræddu þjóðhagsráði á laggirnar. Enda liggur ávinningur þessara aðila klár fyrir, þeir eru að vinna fyrir atvinnurekendur, þeir eru launagreiðendur. 

En hvers vegna eru fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar nánast fremstir í flokki í þeirri vegferð að ætla að rýra möguleika launafólks til að sækja kjarabætur? Það er mér gjörsamlega hulin ráðgáta. Að sjálfsögðu fagna atvinnurekendur því að beisla eigi launahækkanir því þá munu þeir bara geta greitt meira í arðgreiðslur til eigenda sinna.

Já, ég spyr á hvaða vegferð er forysta ASÍ svo ekki sé talað um forseta sambandsins sem virðist ætíð taka stöðu með fjármálaöflunum og atvinnurekendum og nægir að nefna í því sambandi hvatningu hans um að alþýða þessa lands skyldi ábyrgjast Icesave á sínum tíma. Svo ekki sé talað um þegar hann lagði til að neysluvísitalan yrði ekki tekin úr sambandi í hruninu í október 2008 en hann sat í nefnd sem hafði það hlutverk að koma með tillögu um hvort hægt væri að taka neysluvísitöluna úr sambandi til að hlífa skuldsettum heimilum. Rök forseta ASÍ á sínum tíma voru að það myndi kosta fjármálakerfið 200 milljarða. Með öðrum orðum var hann í raun og veru að segja á þessum tíma, þegar hann hafði tækifæri til að koma alþýðunni til hjálpar: skítt með alþýðuna, henni mátti fórna á altari verðtryggingarinnar. 

Og hagsmunagæslan í kringum fjármálaöflin og atvinnurekendur heldur áfram því núna vilja þessir sömu aðilar taka þátt í því að skerða samningsfrelsi launafólks með því að láta eitthvað þjóðhagsráð ákveða hámarks launabreytingar í kjarasamningum á komandi árum. Þeir hafa meira að segja í hyggju eins og ég nefndi áðan að láta breyta lögum um stéttarfélög og vinnudeilur til að tryggja umrætt vinnumarkaðsmódel í sessi.

   

Fyrirgefið mér kæru vinir og félagar en mér er mikið niðri fyrir vegna þessa og ég tel að þessir aðilar muni beita öllum brögðum og meðulum til að blekkja launafólk til að reyna að koma umræddu vinnumarkaðslíkani á koppinn. 

En ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskt launafólk stendur nú frammi fyrir mestu vá sem það hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir því eins og áður hefur komið fram þá er frjáls samningsréttur hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu og það er spurning hvort við munum raska ró gömlu frumkvöðlanna sem börðust hér á síðustu öld fyrir bættum kjörum þar sem þeir hvíla nú lúin bein vítt og breitt í kirkjugörðum landsins vegna þeirra fyrirætlana um að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna með þeim hætti sem menn hafa nú í hyggju að gera.

Já kæru félagar, slagorð ASÍ er samstaða í 100 ár - sókn til nýrra sigra. Við ykkur vil ég segja að lokum, ef við ætlum halda áfram að sækja fram til sigurs þá verður það ekki gert með því að láta takmarka samningsrétt launafólks með því að láta þjóðhagsráð ákvarða hámarkslaunabreytingar. Með slíkum gjörningi er verkalýðshreyfingin að skora sjálfsmark aldarinnar og sóknin fyrir bættum kjörum launafólks mun tapast illilega. Stöndum saman öll sem eitt til að koma í veg fyrir það að hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar sem er frjáls samningsréttur verði ekki skertur eða tekinn af okkur. Þannig munum við geta haldið áfram sókn til nýrra sigra.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image