• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Jun

Ályktun um samningsrétt samþykkt á formannafundi SGS

Dagana 2. og 3. júní sl. var haldinn formannafundur Starfsgreinasambands Íslands í Grindavík. Rétt er að geta þess að Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ og er fjöldi félagsmanna sambandsins yfir 51.000. 

Fundurinn var nokkuð góður og voru fjölmörg mál til umræðu, en á fundinum lagði formaður VLFA fram ályktun um mikilvægi samningsfrelsis stéttarfélaga og launafólks. Spruttu miklar umræður um ályktun formannsins en hún laut að því að ef tekið verður upp nýtt vinnumarkaðslíkan, eins og æði margt bendir til að geti orðið, þá verði tryggt með afgerandi hætti að ekki verði hróflað við forræði, sjálfstæði og frjálsum samningsrétti stéttarfélaganna til kjarasamningsgerðar. En eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur VLFA verulegar áhyggjur af því að stefnt sé að því í nýju vinnumarkaðsmódeli að skerða og takmarka frjálsan rétt félaganna til kjarasamningsgerðar.

Formaður færði ítarleg rök máli sínu til stuðnings og það er skemmst frá því að segja og afar ánægjulegt að sjá og heyra að fleiri og fleiri forystumenn í verkalýðshreyfingunni eru farnir að hafa áhyggjur af því að samningsfrelsið verði hugsanlega skert og kom mikill stuðningur fram hjá mörgum formönnum SGS við ályktun VLFA. Ályktunin var borin undir atkvæði fundarins og fór atkvæðagreiðslan með þeim hætti að 9 formenn samþykktu ályktunina, enginn sagði nei, en nokkrir formenn sátu hjá. Það kom skýrt fram í máli formanns VLFA að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum skerða eða takmarka frjálsan samningsrétt launafólks enda er samningsrétturinn hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi, eins og fram kemur í ályktuninni.

Ályktunin hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Ályktun um samningsrétt

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í Grindavík dagana 2. og 3. júní vill taka það skýrt fram að SGS mun ekki verða aðili að nýju vinnumarkaðsmódeli sem nú er unnið að, ef það leiðir til þess að frjáls samningsréttur stéttarfélaganna verður skertur eða takmarkaður á nokkurn hátt.

Formannafundurinn vill einnig taka það sérstaklega fram að ef það kemur til þess að breyta þurfi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur vegna nýs vinnumarkaðsmódels þá verði það tryggt að slíkar breytingar leiði alls ekki til skerðingar eða takmörkunar á frjálsum samningsrétti stéttarfélaganna.

Formannafundur SGS er sannfærður um að forræði hvers stéttarfélags til kjarasamningsgerðar og frjáls samningsréttur sé hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi og það frjálsræði og þann samningsrétt megi ekki skerða eða takmarka á nokkurn hátt

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image