• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Jóhannes Eyleifsson heiðraður á sjómannadaginn F.v. Júlíus Pétur Ingólfsson stjórnarmaður í VLFA, Jóhannes Eyleifsson, Drífa Garðarsdóttir, Kristófer Jónsson formaður sjómannadeildar VLFA og Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA
07
Jun

Jóhannes Eyleifsson heiðraður á sjómannadaginn

Á sunnudaginn var Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur, en Verkalýðsfélag Akraness leggur sitt af mörkum til hátíðarhaldanna eins og undanfarin ár. Aðkoma félagsins að sjómannadeginum er meðal annars fólgin í því að standa fyrir athöfn við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarðinum, en þar er árlega lagður blómsveigur til að minnast þeirra sem drukknað hafa og týnst á sjó.

Að þeirri athöfn lokinni er haldið í hátíðarsjómannamessu í Akraneskirkju þar sem meðal annars er heiðraður sjómaður fyrir vel unnin störf í þágu þjóðar. Í ár var það Jóhannes Eyleifsson sem fékk æðstu viðurkenningu sjómannadagsráðs Verkalýðsfélags Akraness, en það má segja að Hanni á Lögbergi, eins og hann er ætíð kallaður hér á Akranesi, sé holdgervingur sjómennskunnar enda hóf hann sjómennsku með föður sínum einungis 12 ára gamall. Og enn er hann að og fyrir örfáum dögum síðan lauk hann sinni 60. grásleppuvertíð á sínum langa sjómannsferli, en Jóhannes á og rekur smábátinn Leifa AK 2.

Að heiðrun lokinni bauð Akraneskaupstaður þeim hjónum og fulltrúum sjómannadagsráðs til hátíðarkvöldverðar á veitingastaðnum Galito á Akranesi. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill óska Jóhannesi og konu hans, Drífu Garðarsdóttur, innilega til hamingju með heiðrunina.

Þessu til viðbótar kom Verkalýðsfélag Akraness að fjármögnun á fjölskyldudagskrá á hafnarsvæðinu vegna sjómannadagsins, en eins og undanfarin ár er það Björgunarfélag Akraness sem sá um framkvæmd dagskrárinnar. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image