• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Aug

Sjómenn kolfelldu nýgerðan kjarasamning

Í gær kom í ljós að fé­lags­menn Sjó­manna­sam­bands Íslands kolfelldu nýgerðan kjara­samn­ing við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi með 445 at­kvæðum gegn 223.

Verkalýðsfélag Akraness er hluti af Sjómannasambandi Íslands en upp undir 100 sjómenn tilheyra sjómannadeild VLFA.  Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness fól sjómannasambandinu samningsumboð fyrir hönd félagsins en sambandið sá um þessa kjarasamningsgerð.  Það liggur fyrir eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni að innihald þessa samnings var einfaldlega alltof rýnt og er það ástæðan fyrir því að sjómenn felldu samninginn.

Formaður VLFA telur að verðlagsmál á sjávarafurðum og lágmarksmönnun á fiskskipum hafi fyrst og fremst ráðið því að sjómönnum hugnaðist ekki þessi samningur.  Rétt er að geta þess að sjómenn hafa verið með lausan kjarasamning frá 1. janúar 2011.  Núna er morgunljóst að vinna þurfi úr þeirri stöðu sem upp er komin og allt eins líklegt að sjómenn grípi til verkfallsvopnsins til að reyna að knýja fram sínar eðlilegu kröfur.

10
Aug

Formaður fundar með forstjórum Elkem.

Í síðustu viku óskaði Gestur Pétursson forstjóri Elkem Ísland eftir fundi með formanni Verkalýðsfélags Akraness en í för með Gesti var Helge Aasen aðalforstjóri Elkem.  Þetta var mjög góður fundur þar sem farið var yfir hin ýmsu mál er tengjast starfsemi og hagsmunum starfsmanna Elkem Ísland.  Sem betur fer hefur rekstur Elkem Ísland gengið nokkuð vel á undanförnum misserum þrátt fyrir lækkun á afurðaverði  kísiljárns á heimsmarkaði.

Eins og flestir vita þá liggja hagsmunir starfsmanna og stéttarfélaga saman að stórum hluta með fyrirtækjum. Góð afkoma og góð rekstrarskilyrði leiða oftast af sér meiri möguleika fyrir stéttarfélögin á sækja aukna hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja til aukinna launabreytinga. Einnig hafa góð rekstrarskilyrði í för með sér meiri möguleika fyrir fyrirtæki til þess að vaxa og fjölga störfum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að raforkusamningur Elkem Ísland er að renna út á næstu árum og því mjög mikilvægt að fyrirtækið nái samkomulagi við Landsvirkjun um nýjan raforkusamning og má sá samningur ekki ógna atvinnuöryggi starfsmanna eða skerða rekstrarskilyrði fyrirtækisins.

Einnig var rætt um að kjarasamningur starfsmanna rennur út 31. janúar 2017 og munu viðræður um nýjan kjarasamning hefjast þegar líður á árið.  Eins og áður sagði þá var þetta góður fundur enda skiptir gríðarlega miklu máli að góð og hreinskipt samskipti séu við æðstu stjórendum fyrirtækja.

28
Jul

Sérfræðingur í vinnurétti staðfestir áhyggjur Verkalýðsfélags Akraness

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýst yfir gríðarlegum áhyggjum af þeim hugmyndum sem forysta ASÍ vinnur að með því að setja hér á laggirnar nýtt vinnumarkaðsmódel eins getið er um í svokölluðu Salek samkomulagi. Stjórn félagsins telur engum vafa undirorpið að með þeim hugmyndum sé verið að skerða gróflega samningsrétt stéttarfélaga og alls launafólks ef það verður að veruleika.

Í gær staðfesti Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í vinnumarkaði, í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut áhyggjur stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að Salek samkomulagið muni skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna. Lektorinn sagði m.a. orðrétt: "Með þjóðarsáttarsamningunum 1990 var ekkert verið að kippa samningsréttinum frá stéttarfélögunum og ef menn ætla að gera það með Saleksamkomulaginu sem ég sé ekki alveg hvernig þeir ætla að gera þá verða þeir að breyta vinnulöggjöfinni. Því það er alveg skýrt að samningsrétturinn liggur hjá stéttarfélögunum samkvæmt vinnulöggjöfinni."

Þarna hittir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson naglann á höfuðið, það þarf að breyta vinnulöggjöfinni til að hægt sé að skerða samningsrétt stéttarfélaganna og launafólks alls. En takið eftir það liggur fyrir að forysta ASÍ og þeir sem standa að Salek samkomulaginu hafa tilkynnt og það kemur meira segja fram í Salek samkomulaginu að breyta þurfi vinnulöggjöfinni til að festa Salek samkomulagið í sessi eins segir orðrétt í samkomulaginu.

Í þættinum benti Gylfi einnig réttilega á að það er alls ekki nóg að taka einungis einn þátt úr norræna vinnumarkaðsmódelinu en sleppa öllum öðrum þáttum eins og t.d. varðandi vaxtakjör, frían eða gjaldítinn aðgang að heilbrigðiskerfi, barnabætur og margt annað. Gylfi segir vinnumarkaðinn hér ólíkan því sem tíðkast þar. Það var gríðarlega mikilvægt að fá staðfestingu á því frá sérfræðingi í vinnurétti að Salek samkomulagið muni leiða til skerðingar á samningsfrelsi stéttarfélaga og um leið staðfestir hann áhyggjur stjórnar Verkalýðsfélags Akraness hvað varðar skaðsemi Salek samkomulagsins gagnvart samningsfrelsinu.

Hversu sorglegt er það á 100 ára afmælisári Alþýðusambands Íslands að núverandi forysta ASÍ skuli vinna að því skerða gróflega frjálsan samningsrétt aðildarfélaga sinna, en eins og allir vita þá hefur frjáls samningsréttur verið hornsteinn verkalýðsbaráttunar á Ísland í ein 100 ár. Forysta ASÍ mætti frekar leggja áherslu á að félagsmenn þeirra fái aukna hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja en auknum arðgreiðslum til fyrirtækja, en arðgreiðslur fyrirtækja námu 215 milljörðum árið 2014 á meðan launahækkanir á sama tíma numu 35 milljörðum!  Þessi aðferðafræði forystu ASÍ að vilja kenna launahækkunum félagsmanna sinna um óstöðugleika og verðbólguþrýsting gengur ekki upp í ljósi þess að arðgreiðslur námu 215 milljörðum á sama tíma og laun hækkuðu um einungis 35 milljarða samkvæmt fréttablaði ríkisskattsjóra.

25
Jul

Tenging við launavísitölu í kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál skilað um 6,4% fyrstu 6 mánuðina.

Það er óhætt að segja að kjarasamningurinn sem Verkalýðfélag Akraness gerði 17. mars 2015 við forsvarsmenn Norðuráls sé svo sannarlega að svínvirka, en samningurinn hefur skilað starfsmönnum góðum ávinningi.  Í þessum samningi var í fyrsta skipti gengið frá því að launahækkanir taki mið af hækkun launavísitölunnar en í heildina gaf samningurinn á árinu 2015 starfsmönnum um 16% launahækkun.  Á árinu 2015 höfðu laun starfsmanna ekki bara hækkað um 16% heldur fengu starfsmenn einnig 300.000 kr. eingreiðslu samhliða kjarasamningnum í mars í fyrra. Á þessu eina ári hafa starfsmenn á vöktum í kerskála því hækkað með öllu um frá tæpum 72.000 kr. upp í 86.000 kr. á mánuði.

Á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hefur launavísitalan gefið starfsmönnum 6,4% og enn eru 6 mánuðir eftir af launavísitölutímabilinu. Það má því allt eins reikna með því að 1. janúar 2017 muni laun starfsmanna Norðuráls hafa hækkað um allt að 10% ef sama ferð verður á launavísitölunni eins og verið hefur fyrstu 6 mánuði þessa árs.  Rétt er að geta þess að heildarlaun byrjanda í Norðuráli á 12 tíma vöktum í kerskála fyrir 182 tíma á mánuði eru núna komin upp í 525.940 kr. og starfsmaður sem er með lengsta starfsaldurinn er kominn upp í tæpar 633.000 kr. Þeir sem hafa lokið báði grunn og framhaldsnámi Stóriðjuskólans eru með tæpar 700 þúsund í heildarlaun með öllu fyrir 182 tíma vinnu á mánuði.

28
Jun

Nýr kjarasamningur sjómanna undirritaður

Sjómannasamband Íslands, sem fer með samningsumboð fyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness undirritaði nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). En eins og flestir muna rann kjarasamningur sjómanna út 1. janúar 2011 og hafa sjómenn því verið með lausan kjarasamning í 5 og hálft ár.

Það verður því miður að segjast að innihald þessa samnings sé fremur rýrt, enda er ekki tekið á stóru málunum eins og til dæmis mönnunarmálum og verðlagsmálum á sjávarafurðum. Þó er rétt að geta þess að í samningnum var gerð bókun sem kveður á um athugun á lágmarksmönnun um borð í uppsjávarskipum, ísfiskstogurum og dagróðrarbátum. Einnig er í þessari bókun kveðið á um að hvíldartími sjómanna verði skoðaður. Örlitlar bætur koma til vegna afnáms sjómannaafsláttar og nemur sú upphæð 500 kr. fyrir hvern lögskráningardag í skattfrjálsan frádrátt frá tekjum vegna fæðiskostnaðar. Rétt er einnig að geta þess að kauptrygging hækkar um rúm 23%, en eins og flestir sjómenn vita þá hefur sú hækkun fremur litla þýðingu í ljósi þess að sjómenn eru á aflahlut og í frekur fáum tilfellum reynir á kauptrygginguna.

Eins og áður sagði er þessi samningur að mati formanns VLFA fremur rýr og óttast formaður að þessi samningur verði ekki samþykktur af hálfu sjómanna, enda er eins og áður sagði ekki tekið á stærstu kröfum þeirra þótt vissulega beri að fagna því að málið sé sett í farveg með áðurnefndum bókunum.

Lesa má samninginn hér og er mikilvægt að sjómenn kynni sér vel og rækilega innihald hans. Kosið verður sameiginlega meðal allra sjómanna sem eiga aðild að Sjómannasambandi Íslands og fólu sambandinu umboð til kjarasamningsgerðarinnar.

22
Jun

Skrifstofan lokar kl. 15 í dag - Áfram Ísland!

Vegna leiks íslenska landsliðsins við Austurríki í dag verður skrifstofu félagsins lokað klukkan 15:00 í dag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image