• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Nov

Nýr kjarasamningur undirritaður vegna sjómanna

Í gærkveldi var undirritaður nýr kjarasamningur milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómannasambands Íslands en Sjómannasambandið hefur farið með samningsumboðið fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness í þessum kjaraviðræðum.

Kjarasamninginn má finna hér.

Kynningu á nýjum kjarasamningi má finna hér.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hófst verkfall hjá sjómönnum fimmtudaginn 10. nóvember en sjómenn hafa verið samningslausir frá 1. janúar 2011 og því var eðlilega farið að gæta verulegrar óþreyju hjá sjómönnum um að ná fram sanngjörnum kjarasamningi.

Helstu baráttumál sjómanna í þessum samningaviðræðum voru m.a. þessi:

- Verðlagsmálin
- Nýsmíðaálagið
- Hækkun á fatapeningum
- Mönnunarmál á uppsjávarskipum og ísfisktogurum

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að þessar kjaraviðræður voru gríðarlega erfiðar enda bar mikið á milli oft á tíðum.

Helstu atriði sem náðust í þessum samningi voru þau að kauptrygging hækkar um rétt rúm 23% og verður kauptrygging háseta frá 1. nóvember 2016 kr. 288.168 og hjá matsveini, neta- og bátsmanni kr. 360.210.

Eins flestir sjómenn vita þá hefur kauptryggingin frekar lítið að segja enda kemur sjaldan til þess að greiða þurfi einungis kauptryggingu. Hins vegar er rétt að geta þess að því miður hafa sumar útgerðir reynt að koma sér hjá því að greiða kauptryggingu þegar það á við, eins og þegar skip þurfa að fara í viðhald og slipptöku. En slík framkoma útgerðamanna er óþolandi með öllu enda ber útgerðum að greiða kauptryggingu ef skip stoppa vegna t.d. slipptöku. Það er rétt að árétta að gefnu tilefni að útgerðarmönnum ber skylda til að bjóða skipverjum vinnu um þegar skip fer í slipp og ef skipverjar afþakka vinnu á meðan eiga þeir ekki rétt á kauptryggingu. Að öðrum kosti ber útgerðamönnum að greiða kauptryggingu vegna slipptöku.

Verðalagsmálin voru eitt af stóru málunum í þessum kjaraviðræðum og vildu sjómenn að fiskverð á botnfiski yrði fært nær markaðsverði. En í þessum samningi var samið um það markmið að fiskverð miðist að jafnaði við 80% af vegnu meðalverði á grundvelli magns síðastliðinna þriggja mánaða á innlendum fiskmarkaði. En með þessu ákvæði telja menn að verið sé að færa fiskverð mun nær markaðsverði á fiskmörkuðum heldur en áður var.

Einnig er tekið á verðlagningu á uppsjávarskipum en þar hefur að mati sjómanna verið mikil brotlöm á undanförnum árum enda hafa útgerðamenn oft á tíðum ákveðið einhliða hvert fiskverð á uppsjávarafurðum eigi að vera og ekki uppfyllt framkvæmd kjarasamninga með því að viðhafa leynilega kosningu um fiskverð eins og kveðið er á um í kjarasamningi. En slíkt framferði þeirra útgerða sem slíkt gera er ólíðandi og verður alls ekki liðið framvegis.

Það á að stórauka samræmda upplýsingagjöf um afurðaverð á uppsjávarafurðum til að hægt sé að ákvarða rétt verð á uppsjávarafla til áhafnar.  Við upphaf vertíðar í loðnu, kolmunna, makríl og síld, skulu fulltrúar útgerða halda fund með fulltrúum sjómanna sem eru í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og starfsmönnum Verðlagsstofu skiptaverðs þar sem fulltrúum sjómanna verða veittar upplýsingar um það afurðaverð sem útgerð mun fá á erlendum mörkuðum fyrir sínar afurðir.  Þetta á að gefa fulltrúum sjómanna betri sýn á það hvað sé rétt fiskverð til sjómanna.

Skýrt er kveðið á í samningum að útgerðarmaður og áhöfn skulu gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Til að slíkur samningur öðlist gildi, skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Bara þannig að það sé á hreinu þá mun Sjómannasambandið alls ekki undir nokkrum kringumstæðum líða það að útgerðamenn uppfylli ekki þetta ákvæði kjarasamningsins.

Eitt mál sem brann mikið á sjómönnum var svokallað nýsmíðaálag sem sett var á fyrir 14 árum en með nýsmíðaálaginu geta sjómenn þurft að greiða allt að 10% í 7 ár. Samið var um að nýsmíðaálagið myndi fara út á jafn löngum tíma og það hefur verið í gildi, eða á 14 árum. Hins vegar er rétt að geta þess að í sumum tilfellum uppfylla útgerðir ekki ákvæðið til að mega nota nýsmíðaálagið enda þarf skip að auka aflaverðmætið sitt töluvert til að nýsmíðaálagið taki gildi. En vissulega er þetta nýsmíðaálag að bitna á sumum sjómönnum í dag.

Fatagreiðslur til sjómanna  voru líka deiluefni enda umtalsverður kostnaður sem sjómenn þurfa að reiða fram vegna hlífðarfatakaupa. En í þessum samningi hækka fatapeningar um 130% og verða hjá undirmönnum 11.400 á mánuði. Hjá dekkmönnum á frystitogurum verða fatapeningar 14.900 og hækka líka um 130%.

Í þessum viðræðum voru mönnunarmál á uppsjávarskipum og ísfisktogurum mikið deilumál, en sjómenn telja að sú fækkun sem átt hefur sér stað t.d. á uppsjávarskipunum sé farin að ógna öryggi sjómanna við sín störf m.a. vegna brota á hvíldartíma. Því var samið um það að framkvæma athugun á mönnun og hvíldartíma í íslenska fiskiskipaflotanum. Lögð skal áhersla á að setja athugun á uppsjávarskipum í forgang og kynna samningsaðilum niðurstöðu þeirrar könnunar. Skipaður verður starfshópur til að gera þessa könnun og verður hann skipaður þremur fulltrúum tilnefndum af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og þremur fulltrúum tilnefndum sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands. Starfshópurinn skal hefja störf við undirritun kjarasamningsins og miða við að hafa lokið störfum sínum fyrir lok árs 2017.             Ef það verður niðurstaða starfshópsins að fækkun sjómanna hafi leitt til þess að öryggi þeirra sé ógnað eins og sjómenn telja, þá mun það eðlilega leiða til þess að útgerðin verður að bregðast við því með einum eða öðrum hætti t.d. með því að fjölga á skipunum. Á meðan þessi starfshópur er að störfum verður skiptaprósentan hækkuð þar sem 8 eru í áhöfn um 0,55%.

Það er morgunljóst að þetta hafa verið gríðarlega erfiðar kjaraviðræður enda hefur ríkt mikil gremja á meðal sjómanna yfir því að hafa verið samningslausir frá 1. janúar 2011 og því til viðbótar hafa kjör sjómanna lækkað mikið á liðnum misserum vegna lækkunar á afurðaverði og styrkingu á íslensku krónunni.

Hins vegar gildir það í þessum kjarasamningum sem og í öðrum að það eru sjómennirnir sem hafa síðasta orðið enda þarf að kjósa um þennan samning og ef sjómenn eru sáttir segja þeir já en ef menn eru ósáttir þá segja þeir nei. Þannig virkar íslenskur vinnumarkaður að launafólk á blessunarlega alltaf síðasta orðið!      

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image