• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Nov

Viðhorfskönnun um 12 eða 8 tímavaktakerfi í Norðuráli

Þessa dagana stendur yfir viðhorfskönnun meðal starfsmanna Norðuráls þar sem leitast er eftir því að kanna hvort vilji sé hjá starfsmönnum að fara úr 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma vaktakerfi eins og tíðkast hjá Elkem Ísland á Grundartanga og reyndar öllum þeim stóriðjum sem eru starfræktar hér á landi.

Í dag er vaktavinnufólk í ker- og steypuskála Norðuráls að vinna 182 tíma á mánuði sem þýðir að starfsmenn skila 26 föstum yfirvinnutímum á mánuði, en dagvinnuskylda í stóriðjum er 156 dagvinnustundir en ekki 173,33 eins og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Hjá Elkem Ísland er eins og áður sagði 8 tíma vaktakerfi þar sem starfsmenn standa 6 vaktir á 5 dögum og eiga 5 daga í frí. Það þýðir að á meðaltali eru þar 18,2 vaktir á mánuði sem gera 145,6 tíma á mánuði og til að fylla uppí 156 dagvinnustundaskylduna þurfa menn að taka 1 skilavakt í mánuði.

Það liggur fyrir að þetta 8 tíma vaktakerfi sem er við lýði hjá Alcan í Straumsvík, Fjarðaráli og Elkem Ísland er mjög gott vaktakerfi sem allir starfsmenn láta vel af. Hins vegar hefur verið töluverð ónægja á meðal sumra starfsmanna hjá Norðuráli með þetta 12 tíma vaktakerfi enda liggur fyrir að það getur tekið mjög á starfsmenn að vinna svo langar vaktir. Hins vegar er þetta 12 tíma vaktakerfi þannig uppbyggt að starfsmenn hafa 26 fasta yfirvinnutíma og við það að fara í 8 tíma vaktakerfi falla þessir 26 yfirvinnutímar út.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að allar upplýsingar séu yfir allan vafa hafnar þegar kemur að því að upplýsa starfsmenn um kosti og galla þess að hverfa frá 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma kerfi.

Miðað við þau gögn sem formaður VLFA hefur farið yfir er ljóst að upplýsingagjöfin um kosti og galla þessara tveggja vaktakerfa er ekki hlutlaus, enda liggur fyrir að forsvarsmenn Norðuráls virðast frekar vilja halda í 12 tíma vaktakerfið enda mun 8 tíma kerfið kalla á aukakostnað fyrirtækisins. Formaður VLFA hefur enga hagsmuni af því að breytt verði um vaktakerfi í Norðuráli aðra en velferð starfsmanna og er formaður ekki í neinum vafa um að hagsmunum og velferð starfsmanna er betur borgið í 8 tíma vaktakerfi enda er gríðarlega erfitt að standa í 12 tíma nánast samfleytt í miklum hita og við krefjandi aðstæður.

Eins og áður sagði þá finnst formanni upplýsingarnar ekki vera hlutlausar af hálfu fyrirtækisins og sem dæmi þá er talað um að frí vaktavinnumanna Norðuráls sé á milli vaktatarna 5 dagar, 4 dagar og 5 dagar.  Þetta er bara alls ekki rétt því starfsmenn eru búnir að skila 8 tímum í vinnu á öllum þessum frídögum og því er hið rétta að starfsmenn eiga 4 daga, 3, daga og 4 daga frí.  Hvernig geta forsvarsmenn Norðuráls talið það frídag þegar starfsmenn hafa skilað 8 tímum í vinnu? Í 8 tíma vaktakerfinu vinna menn 6 vaktir á 5 dögum og eiga 5 daga í frí.

Það líka mikilvægt að starfsmenn átti sig á því að þeir munu vinna sem nemur 1,7 mánuði minna á ári en þeir gera á 12 tíma vöktum eða sem nemur tæpum 2 mánuðum.

Í kynningu um launabreytingar á 12 og 8 tíma vaktakerfi kemur fram að byrjandi í Norðuráli sé með 496 þúsund á mánuði en með því að taka 26 yfirvinnutíma út og fara á 8 tíma vaktakerfi þá eru launin 425 þúsund á mánuði eða sem nemur lækkun um 71 þúsund krónum. Hjá starfsmanni sem er með 10 ára starfsaldur eru launin miðað við 12 tíma vaktakerfi 603 þúsund á mánuði en á 8 tíma vaktakerfi verða launin 516 þúsund eða sem nemur lækkun um 86 þúsund. Mikilvægt er að átta sig á því að með 8 tíma vaktakerfinu eru starfsmenn að vinna 156 tíma á mánuði en ekki 182 tíma sem eru 26 færri tímar á mánuði eða samtals 312 tímar á ári. Með öðrum orðum þá vinna starfsmenn sem nemur tæpum 2 mánuðum minna á ári. Það líka mikilvægt að hafa í huga að þótt starfsmenn séu að lækka í heildarlaunum frá 71 þúsundum uppí 86 þúsund krónur á mánuði þá lækka útborguð laun mun minna og sem dæmi þá lækka útborguð laun byrjanda um 41 þúsund og starfsmanns með 10 ára starfsaldur um 50 þúsund á mánuði en starfsmenn eru líka að vinna 26 tímum minna á mánuði og einnig eru þetta 8 tíma vaktir en ekki 12 tíma.  Það líka mikilvægt að starfsmenn átti sig á því að þetta vaktakerfi gefur þeim sem það vilja möguleika á að taka aukavaktir ef starfsmenn þurfa að auka tekjur sínar.

Það er alls engin tilviljun að allar stóriðjur fyrir utan Norðurál eru með 8 tíma vaktakerfi enda liggur fyrir að það kerfi er mun fjölskylduvænna, vinnutíminn mun styttri og því hafa starfsmenn meiri frítíma með sinni fjölskyldu.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur formaður félagsins enga hagsmuni af því að horfið verði frá 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma kerfi aðra en þá er lýtur að velferð starfsmanna enda telur formaður að langur vinnudagur í miklum hita og álagi sé lýðheilsumál og er hann ekki í nokkrum vafa um að 8 tíma vaktakerfi sé betra hvað velferð og heilsu starfsmanna áhrærir.

Formaður skorar á starfsmenn að skoða þessi mál vel og rækilega og því er mjög mikilvægt að allar upplýsingar sem starfsmenn fá séu hafnar yfir allan vafa en það liggur fyrir að fyrirtækið er hlynnt því að halda óbreyttu vaktakerfi og því verða starfsmenn að taka allri upplýsingagjöf frá fyrirtækinu með það í huga. Verkalýðsfélag Akraness skorar á vaktavinnufólk í Norðuráli að hafa samband ef það óskar eftir frekari upplýsingum er lýtur að kostum og göllum þess að vera á 12 eða 8 tíma vaktakerfi.

Það er mat formanns að ef tekið verður upp 8 tíma vaktakerfi eins og í hinum sóriðjunum þá verður Norðurál mjög eftirsóknarverður vinnustaður.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image