• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Nov

Sjómenn komnir í verkfall

Eins og fram hefur komið í fréttum þá slitnaði upp á viðræðum Sjómannasambands Íslands við Samtök fyrirækja í sjávarútvegi í gærkvöldi og því skall á verkfall sjómanna klukkan 23:00 það sama kvöld.

Verkalýðsfélag Akraness hefur mikilla hagsmuna að gæta hér, enda er félagið með um 100 sjómenn í sínu félagi, en flestir þeirra starfa á skipum HB Granda. Þessu til viðbótar getur verkfallið haft áhrif á hátt í 300 félagsmenn sem starfa í fiskvinnslu.

Það er ósköp eðlilegt að töluverð harka sé í þessum kjaraviðræðum, enda hafa sjómenn verið kjarasamningslausir frá 1. janúar 2011. En eðli málsins samkvæmt er slíkt algjörlega óviðunandi. Og krafa sjómanna er skýr, það er að ná viðunandi samningi þar sem gengið er að þeirra helstu kröfum er lúta að þeirra réttindum og kjörum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður VLFA hefur aflað sér náðu samninganefndir viðunandi niðurstöðu í nokkrum málum sem djúpur ágreiningur hefur verið um, áður en upp úr viðræðunum slitnaði, en þau mál eru:

  • Verðlagsmál 80% af fiskmarkaðsverði
  • Nýsmíðaálag, en tillaga var um að það myndi fjara út á jafnlöngum tíma og það hefur verið við lýði
  • Kauptrygging hækki umtalsvert
  • Bættur orlofsréttur
  • Ákvæði um sundurliðun á fjarskiptakostnaði sjómanna komi inn


Það eru hins vegar mál sem ennþá standa útaf og það sem viðræðurnar strönduðu á voru mönnunarmál á uppsjávarskipunum meðal annars. En það hefur verið skoðun sjómanna og stéttarfélaganna að sú fækkun sem hefur átt sér stað á þessum skipum sé farin að ógna illilega öryggi þeirra um borð í skipunum. Þetta er mál sem er mjög mikilvægt að finnist lausn á, því það er ekki hægt að láta það átölulaust að fækkun skipverja um borð í skipum stefni öryggi þeirra í tvísýnu.

Formaður ber von í brjósti um að á þessu finnist lausn sem báðir aðilar geti verið ásáttir um, en fyrst verða menn að vera sammála um að þessi mikla fækkun sé að leiða til þess að áðurnefndu öryggi skipverja sé stefnt í hættu. Sjómenn og stéttarfélögin eru eins og áður sagði ekki í neinum vafa um að svo sé.

Síðan er gríðarlega mikilvægt að ákvörðun um verðmyndun á uppsjávarafla sé hafin yfir allan vafa, en því miður hafa sumir útgerðarmenn ekki hagað sér með eðlilegum hætti þegar ákvörðun hefur verið tekin um verð á uppsjávarafla. Sem dæmi þá hafa útgerðir í sumum tilfellum ákveðið einhliða hvert verðið eigi að vera og það þrátt fyrir skýrt sé kveðið á um það í kjarasamningum að sjómenn kjósi um það hvort þeir séu sáttir við það verð sem útgerðin er tilbúin að greiða. Þetta framferði útgerða hefur valdið skipverjum á uppsjávarskipum eðlilega mikilli gremju, og því mikilvægt að á þessu máli sé tekið í þeim kjarasamningi sem nú er verið að vinna að.

Einnig þarf að hækka fatapeninga handa sjómönnum, en ekki var komið endanleg niðurstaða í það mál þegar uppúr slitnaði og einnig var krafa frá stéttarfélögunum um að sjómenn nytu þeirra sjálfsögðu réttinda eins og annað launafólk hér á landi að fá orlofs- og desemberuppbætur. Það er mikilvægt að menn setjist niður sem fyrst og reyni að finna flöt á þessum atriðum sem útaf standa. Hagsmunir okkar allra eru í húfi, enda græðir enginn á langtímaverkfalli og því ábyrgð okkar mikil að finna viðunandi lausn, en sú lausn þarf að vera með þeim hætti að sjómenn geti við unað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image