• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Nov

Gremja á meðal sjómanna

Í gær hélt formaður Verkalýðsfélags Akraness fund með sjómönnum sem tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Á fundinum var farið yfir nýgerðan kjarasamning Sjómannasambands Íslands við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Það er óhætt að segja að veruleg gremja ríki hjá sjómönnum með nýgerðan kjarasamning og var að heyra á mönnum að þeim fyndist vanta umtalsvert í samninginn. Það fer einnig ekkert á milli mála að það hefur myndast gríðarleg gjá á milli sjómanna og útgerðarmanna hvað varðar traust, en sjómenn treysta því ekki að þau atriði sem um var samið verði framkvæmd eins og samningur kveður á um. Kom skýrt fram hjá sjómönnum að þar tala þeir af reynslu.

Sjómönnum var t.d. tíðrætt um að þeir treysta því ekki að sú úttekt sem samið var um og lýtur t.d. að mönnunarmálum á uppsjávarskipum og ísfisktogurum verði hafin yfir alla vafa. Menn treysta ekki heldur útgerðarmönnum hvað varðar samræmda upplýsingagjöf á uppsjávarafurðum sem nota á til grundvallar á verðmyndun á uppsjávarafla. Það er svo sannarlega umhugsunarefni fyrir útgerðarmenn hvernig þeir virðast hafa glatað öllu trausti sjómanna.

Það verður að viðurkennast að margir sjómenn virðast upplifa hroka, yfirgang og virðingarleysi í sinn garð af hálfu sumra útgerðarmanna sem klárlega hefur gert

það að verkum að það ríkir því miður algert vantraust á milli sjómanna og útgerðarmanna. Það er ljóst að útgerðarmenn verða að  líta í eigin rann og spyrja sig af hverju þetta mikla vantraust ríki og hvað þeir geti gert til að bæta samskipti sín við sjómenn.

Það er algerlega morgunljóst að nýgerður kjarasamningur verður að vera innihaldsríkari, með öðrum orðum það þarf að koma meira inn í samninginn til að sjómenn verði á eitt sáttir. Útgerðarmenn verða líka að ávinna sér traust sjómanna og sýna þeim virðingu fyrir þau mikilvægu störf sem þeir inna af hendi fyrir útgerðarmenn og þjóðarbúið allt. Ugglaust vilja útgerðarmenn ekkert kannast við að þeir sýni sjómönnum hroka, vanvirðingu og skilningsleysi en það er hins

vegar staðreynd að fjölmargir sjómenn upplifa slíkt.

Hvernig ráðningarsamband er það á milli útgerðar og sjómanna þegar gríðarlegur fjöldi sjómanna þorir ekki undir nokkrum kringumstæðum að tjá sig um þau atriði sem þeir eru á eitt ósáttir við af ótta

við að verða látnir taka pokann sinn og missa þannig sitt lífsviðurværi. Að sjálfsögðu á allt launafólk að geta komið óánægju vegna sinna hagsmunamála á framfæri við sinn vinnuveitanda án þess að eiga von á því að vera refsað illilega fyrir þau sjálfsögðu mannréttindi að mega koma sínum skoðunum á framfæri.

Þegar atvinnurekendur haga sér með þessum hætti þá er ekki hægt annað en að kalla slíkt ráðningarsamband ofbeldissamband og er það þeim til skammar.

Eftir fundinn í gær þá myndi formaður telja yfirgnæfandi líkur á að þessi kjarasamningur verði felldur en það kemur í ljós 14. desember þegar kosningu lýkur. Það mikilvægt fyrir alla útgerðarmenn að líta í eigin rann og segja við verðum að ávinna traust sjómanna og við verðum að sýna okkar sjómönnum þá lágmarksvirðingu sem þeir eiga skilið fyrir sín störf.  Þetta eru menn sem vinna oft á tíðum við mjög erfiðar aðstæður fjarri sinni fjölskyldu svo dögum og vikum skiptir.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að útgerðarmenn eigi að nýta tíman vel til 14. desember og ræða hvernig þeir geti áunnið sér traust hjá sjómönnum og lagfært kjarasamninginn þannig á sjómenn séu á eitt sáttir.  Ef það gerist ekki þá telur formaður nokkuð ljóst að það sama muni gerast og gerist í flestum ofbeldissamböndum, að annar aðilinn lætur sig eðlilega hverfa og í þessu tilfelli verða það sjómenn sem munu láta sig hverfa ef kjarasamningurinn verður ekki lagfærður og þessari vanvirðingu sem þeir upplifa ljúki ekki í eitt skipti fyrir öll.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image