• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Feb

Á þriðja tug milljóna greiddar vegna verkfalls sjómanna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni og flestir landsmenn vita þá lauk rúmlega 10 vikna verkfalli sjómanna sunnudaginn 19. febrúar síðastliðinn.

Þessi kjaradeila sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi er ein erfiðasta kjaradeila sem háð hefur verið á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugina eða svo, enda liggur t.d. fyrir núna að þessi deila er sú lengsta í 37 ára sögu ríkissáttasemjara.

Eitt af hlutverkum stéttarfélaga þegar það á í erfiðum vinnudeilum við atvinnurekendur sem leiða tilverkfalls er að standa þétt við bakið á sínum félagsmönnum og koma þá verkfallsjóðir félaganna til sögunnar.

Það skiptir því miklu máli að stéttarfélögin séu fjárhagslega sterk og með góða og öfluga verkfallssjóði þegar farið er í erfiðar vinnudeilur við atvinnurekendur. Sem betur fer stendur Verkalýðsfélag Akraness vel fjárhagslega og gat því stutt sína félagsmenn sem tilheyrðu sjómannadeild félagsins allan tímann sem verkfallið stóð.

Verkfallsbætur voru greiddar út hálfsmánaðarlega og síðast þann 15. febrúar. Á morgun fer fram lokauppgjör til þeirra sjómanna sem áttu rétt á verkfallsstyrk frá félaginu en þá verða greiddir út síðustu dagar verkfallsins. Í heildina greiddi verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness á þriðja tug milljóna úr verkfallssjóðnum.

Formaður vill koma á framfæri þakklæti fyrir hönd stjórnar félagsins til sjómanna fyrir samstöðuna og stuðninginn í þessari erfiðu kjaradeilu, en baráttunni fyrir bættum réttindum og kjörum sjómanna og launafólks lýkur aldrei.

21
Feb

Starfsmenn Norðuráls fá tæplega 30 milljóna króna leiðréttingu greidda á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Norðuráli fyrir Félagsdóm vegna ágreinings um túlkun á kjarasamningi vegna tveggja atriða í kjarasamningnum. Annað atriðið laut að útreikningi til ávinnslu orlofs- og desemberuppbóta. Hitt atriðið var ávinnsla á starfsaldri hjá fyrirtækinu, en VLFA hafði gert athugsemdir við fyrirtækið vegna þessa tveggja atriða án árangurs og voru aðilar sammála um að vera ósammála og því fór málið til Félagsdóms til úrlausnar.

Það er skemmst frá því að segja að Verkalýðsfélag Akraness hafði rétt fyrir sér í báðum málunum, en dómur féll í Félagsdómi 1. desember á síðasta ári. Á morgun mun koma til greiðslu vegna þessa dóms og mun sú endurgreiðsla, eða leiðrétting, ná til 260 starfsmanna sem hafa starfað hjá fyrirtækinu við  og ná fjögur ár aftur í tímann, eða nánar til getið frá 1. janúar 2013.

Eins og áður sagði mun leiðréttingin vegna orlofs- og desemberuppbóta ná til 260 starfsmenn sem unnið hafa tímbundið og/eða við sumarafleysingar og nemur hún samkvæmt upplýsingum formanns um 26 milljónum króna með dráttarvöxtum. Og vegna seinna málsins sem laut að starfsaldurshækkunum nær sú leiðrétting í það minnsta til fjögurra starfsmanna og nemur á þriðju milljón króna.

Þannig að þessi hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness er að skila félagsmönnum tæpum 30 milljónum og er félagið stolt af því hvernig þetta mál fór, enda var félagið sannfært um að það hefði rétt fyrir sér í þessu máli. Það er stefna félagsins að standa ætíð fast fyrir þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir félagsmenn, enda er félagið óhrætt við að láta á slík mál reyna fyrir dómsstólum ef félagið telur minnsta vafa leika á að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna.

20
Feb

Verkfalli sjómanna lokið - lengsta kjaradeila í sögu ríkissáttasemjara

Í gær voru atkvæði vegna kosningar um kjarasamning sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi talin í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Það er skemmst frá því að segja að samningurinn var samþykktur naumlega, en 52,6% samþykktu samninginn á meðan 46,9% höfnuðu honum.

Það er rétt að geta þess að það er aldrei gott að niðurstaða kosningar sé með þeim hætti að tæpur helmingur þeirra sem kjósa eru ekki sáttir við niðurstöðuna. En það er hins vegar eitthvað sem þarf að vinna með, lýðræðislegur meirihluti er alltaf sá sem ræður og í þessu tilfelli samþykkti meirihluti sjómanna samninginn.

Það er óhætt að segja að þetta sé ein erfiðasta kjaradeila sem háð hefur verið á íslenskum vinnumarkaði í marga áratugi og einnig sú langvinnasta í sögu ríkissáttasemjara sem spannar ein 37 ár.

Það er alveg ljóst að þessi kjarasamningur skilar íslenskum sjómönnum umtalsverðum ávinningi. Mörg brýn réttindamál náðust í gegn og mun kjarasamningurinn á fyrsta ári skila íslenskum sjómönnum um eða yfir 2 milljörðum. En það er alltaf þannig í allri kjarasamningsgerð að menn vilja gera betur. Menn vilja ná meiru og það er eðlilegt. En málið er með íslenska verkalýðsbaráttu að henni lýkur aldrei, menn munu halda áfram að berjast fyrir réttindum og bættum kjörum íslenskra sjómanna á komandi árum. Það eru fjölmörg atriði sem enn liggja óbætt hjá garði og munu sjómenn og sjómannaforystan leggja sig í líma við að halda áfram vinnu við að lagfæra það sem sjómenn eru ekki á eitt sáttir með.

Formaður félagsins ítrekar að fjölmörg atriði í þessum kjarasamningi eru til mikilla hagsbóta fyrir íslenska sjómenn. Hann ítrekar það líka eins og áður hefur komið fram að menn hefðu svo sannarlega viljað geta náð meiru í þessum samningi. Formaður hefur einnig greint frá því á opinberum vettvangi að aðkoma stjórnvalda í þessari deilu var íslenskri stjórnsýslu ekki til sóma. Það er dapurlegt til þess að vita að forystumönnum sjómanna hafi verið stillt upp við vegg á ögurstundu vegna þeirrar sjálfsögðu kröfu að sjómenn yrðu meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði þegar kemur að skattameðferð á dagpeningum vegna fæðiskostnaðar. Sjómenn voru búnir að semja við útgerðamenn um greiðslu á dagpeningum sem nam 2.350 kr., en þeir fjármunir áttu að fara í að greiða fyrir allan fæðiskostnað. Það eina sem sjómenn voru að biðja um var að vera meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og annað launafólk. 

Sjávarútvegsráðherra lagði fram sáttatilboð, en greindi forystumönnum sjómanna jafnframt frá því að lög á deiluna væru tilbúin. Hún tók skýrt fram að þetta væri ekki "hótun", en bað sjómannaforystuna jafnframt að svara sér fyrir miðnætti því ef sjómenn myndu hafna þessari sáttatillögu þá þyrfti ráðherrann að hafa samband við forseta Alþingis, væntanlega til að undirbúa lagasetningu á verkfall sjómanna. Skýrari verður hótun í garð forystumanna sjómanna ekki. En það alvarlega í þessu máli var að í þessu sáttatilboði varðandi skattahagræði vegna fæðishlunninda var kveðið skýrt á um að allir þeir sem dveldur skemur en 48 klukkustundir fjarri heimili sínu nytu þess ekki. Þetta þýddi að 40% allra íslenskra sjómanna hefðu ekki fengið neitt. Með þessu var verið að reka fleyg í raðir sjómanna, því það kom aldrei til greina hjá samninganefnd sjómanna að skilja 40% af félögunum eftir án þess að þeir fengju neitt. Á þessari forsendu hafnaði sjómannaforystan þessu svokallaða sáttatilboði, því þetta sáttatilboð setti samninganefndina í gríðarlega erfiða og ógeðfellda stöðu.

Það er ljóst að formaður VLFA mun halda áfram að berjast fyrir því réttlætismáli að íslenskir sjómenn verði meðhöndlaðir með sambærilegum hætti og annað launafólk þegar kemur að greiðslu dagpeninga vegna fæðiskostnaðar. Þeirri vinnu er ekki lokið, þeirri baráttu mun halda áfram. Formaður skorar á Alþingi að allt þetta mál sem lýtur að sjávarútvegsráðuneytinu verði skoðað og rannsakað, því þetta inngrip og þessi vinnubrögð eru íslenskri stjórnsýslu hvorki til framdráttar né sóma.

Eins og áður sagði hefur þetta verið löng, ströng og erfið kjarabarátta sem fer í reynslubanka allra þeirra sem í henni tóku þátt. Flestir lögðu sig alla fram til að ná góðri niðurstöðu, en í samninganefndinni sátu margir venjulegir sjómenn sem svo sannarlega lögðu mikið af mörkum til að hægt væri að ná eins góðri niðurstöðu og kostur var. Vill formaður VLFA þakka þessum mönnum sérstaklega fyrir samstarfið sem er væntanlega ekki lokið, því vonandi eru menn tilbúnir að halda áfram vinnunni við að lagfæra og bæta réttindi og kjör íslenskra sjómanna.

Það hefur sýnt sig svo ekki verður um villst hversu gríðarlega mikilvægur sjávarútvegurinn er fyrir íslenskt þjóðarbú, enda hefur komið fram að ríki og sveitarfélög hafa orðið af 3,5 milljörðum í tekjum vegna verkfallsins. Það vita líka allir sem vita vilja að íslensk þjóð byggi ekki við þau lífsgæði sem hún gerir í dag ef ekki væri fyrir íslenskan sjávarútveg síðastliðin 100 ár eða svo með íslenska sjómenn og íslenskt fisvinnslufólk í broddi fylkingar. Þessum starfsstéttum þarf að sýna virðingu.

18
Feb

Sjómenn áríðandi kynningarfundur og kosning um nýgerðan kjarasamning í dag kl. 17:00

Klukkan þrjú í nótt var skrifað undir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eftir 10 vikna verkfall.  Á þeirri forsendu boðar sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness til mjög svo áríðandi kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning í dag kukkan 17:00 á Gamla kaupfélaginu.

Á fundinum mun formaður fara ítarlega yfir nýgerðan kjarasamning og eftir fundinn geta fundarmenn kosið um hann.

Það er afar mikilvægt að sem flestir sjómenn sjái sér fært að mæta á kynningarfundinn!

****Uppfært kl. 16:00

Kjarasamningurinn er nú aðgengilegur hér.

Kaupskráin er aðgengileg hér.

15
Feb

Staðan áfram alvarleg í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi

Núna eru liðnir rétt rúmlega tveir mánuðir síðan verkfall hófst hjá sjómönnum, en það var eins og flestir muna þann 14. desember á síðasta ári. Frá því verkfall hófst hefur linnulaust verið reynt að ná kjarasamningi til handa sjómönnum, en þeir hafa verið samningslausir frá 1. janúar 2011 eða í rétt rúm 6 ár.

Kröfur sjómanna til lausnar þessarar deilu voru mótaðar inni í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands og meðal annars hefur Verkalýðsfélag Akraness haldið fjóra kynningar- og stöðufundi þar sem ákvarðanir hafa verið teknar um ýmis atriði er lúta að kröfugerðinni sem og önnur mál sem komið hafa upp í þessarar kjaradeilu. Þau atriði sem um ræðir eru eftirfarandi:

- Bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar
- Breyting á olíuviðmiði
- Frítt fæði
- Frír vinnufatnaður
- Lækkun á net- og fjarskiptakostnaði

Það er skemmst frá því að segja að síðustu þrjú atriðin hafa þokast ágætlega áfram, en eftir standa hins vegar tvö efstu atriðin en þeim hafa útgerðarmenn til þessa ekki verið tilbúnir að mæta. 

Samninganefnd sjómanna lagði fram hugmynd um að útgerðamenn greiddu sjómönnum dagpeninga, en til að það gæti gengið upp þá þurfa stjórnvöld að vera tilbúin að veita sambærilegar skattaívilnanir og annað launafólk nýtur þegar það starfar víðs fjarri sínu heimili. Lengi vel höfnuðu sjávarútvegs- og fjármálaráðherrar þessu alfarið en formaður félagsins hefur gagnrýnt þá ákvörðun harðlega í fjölmiðlum undanfarið. Það var því afar ánægjulegt að sjá í fréttum í gær og í morgun að stefnubreyting er að verða hjá stjórnvöldum hvað þetta varðar, því það er réttindamál að sjómenn njóti sömu réttinda og annað launafólk í formi þess að fá dagpeninga frádráttarbæra frá skatti vegna fæðiskostnaðar. Mikilvægt er að það komi fram að sjómenn eru ekki að biðja um neina ölmusu, heldur er krafa gerð á útgerðirnar um greiðslu dagpeninganna, og að þeir dagpeningar verði síðan meðhöndlaðir á sama hátt og hjá öðru launafólki vegna fæðiskostnaðar sem þeir þurfa að bera.

Þann 9. febrúar kom samninganefnd sjómanna síðast saman með útgerðarmönnum, en sá fundur var árangurslaus. Mánudaginn 13. febrúar ákvað samninganefnd sjómanna að leggja fram lokatilboð til útvegsmanna og var það algjörlega klárt að hér væri um lokatilboð að ræða og ekki yrði hvikað frá því tilboði. Var þetta viðleitni samninganefndar sjómanna til að sýna þá ábyrgð að finna lausn á deilunni, en því miður virðist vera sem útvegsmenn hafi slegið á þá sáttahönd. Það er aldrei gagnlegt til árangurs að leggja fram gagntilboð við lokatilboði, en það gerðu útvegsmenn hins vegar seinnipartinn í gær. Þessu gagntilboði var hafnað snarlega af samninganefnd sjómanna og ítrekað enn og aftur að með lokatilboðinu hefðu sjómenn hefðu sett strik í sandinn hvað varðar frekari viðræður um þau atriði sem í því komu fram.

Staðan er því núna í þessum töluðu orðum þannig að boltinn er hjá útgerðarmönnum. Það er þeirra að taka ákvörðun um að ganga að lokatilboði sjómanna og er því morgunljóst að ábyrgð útvegsmanna á lausn þessarar deilu liggur öll hjá þeim því eins og áður kom fram þá kemur ekki til greina hjá sjómönnum að hvika frá lokatilboðinu sem lagt var fram mánudaginn 13. febrúar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image