• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Sep

Taka þarf upp þrepaskiptan persónuafslátt

Formaður var í viðtali í þættinum Ísland í bítið í gær en til umræðu var fjárlagafrumvarpið og hvaða áhrif það hefur á þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.  Fram kom í máli formanns að það sé með öllu ólíðandi sú aukna skattbyrði sem fólk sem tekur laun eftir lágmarkslaunum hefur þurft að þola á undanförnum árum og áratugum.

Fram kom í máli formanns að skoða verði gaumgæfilega þann möguleika að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt þannig að ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu og millitekjufólks aukist.  Allavega er full ástæða til að skoða hvort eðlilegt sé að einstaklingar með lægstu og millitekjur séu með sama persónuafslátt og hátekjufólk.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að gera verði breytingar á skattkerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur milli- og lágtekjufólks. Þrepaskiptur persónuafsláttur getur svo sannarlega verið góð leið til þess enda má alveg láta persónuafsláttinn fjara út þegar launafólk hefur náð t.d. 2 milljóna króna launum á mánuði. Þann ávinning og sparnað má síðan nota til að hækka persónuafslátt hjá milli-og lágtekjufólki. Það er ólíðandi að launafólki sem er t.d. á lágmarkslaunum upp á 280.000 á mánuði sé gert að greiða yfir 46 þúsund á mánuði í skatt og það verður að vera forgangsverkefni hjá verkalýðshreyfingunni að berjast fyrir því að lágmarkslaun verði skattlaus.

Einnig nefndi formaður í þessu tiltekna viðtali að mikilvægt væri að breyta skattkerfinu þannig að ofurbónusar og kaupaukar verði skattlagðir með sérstökum hátekjuskatti.

Það er mat formanns að einn liður í komandi kjaraviðræðum á næsta ári sé að lagfæra persónuafsláttinn hjá milli-og lágtekjufólki enda morgunljóst að hækkun persónuafsláttar t.d. með því að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt myndi klárlega liðka vel fyrir því að hægt væri að ná sátt á íslenskum vinnumarkaði hvað þessa hópa varðar.

Það verður fróðlegt að sjá og heyra hvort forsætisráðherra og fjármálaráðherra verði tilbúnir til að skoða t.d. þessar leiðir til að auka ráðstöfunartekjur milli-og lágtekjufólks á kostnað hátekjufólks, en eins og áður sagði getur þrepaskiptur persónuafsláttur verið einn liður í að koma á sátt á vinnumarkaði en fleira þarf klárlega að koma til af hálfu stjórnvalda eins og veruleg lækkun á húsnæðisvöxtum til almennings. 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélag Akraness mun fara yfir þessar hugmyndir um að gerð verði krafa um að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt á næsta fundi sínum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image