• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Dec

Aðalfundur sjómanna haldinn í gær í skugga verkfalls

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær en auk venjubundinna aðalfundastarfa þá var verkfall og kjaradeila við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að sjálfsögðu aðalumræðuefnið.

Eins og allir vita liggur nú fyrir að sjómenn hafa fellt tvo kjarasamninga sem gerðir voru og því morgunljóst að innhald í nýjum kjarasamningi þarf að vera mun innihaldsríkara en síðasti samningur sem felldur var með 80% atkvæða.

Sjómenn í sjómannadeild Verkalýðsfélagi Akraness hafa samþykkt að leggja áherslu á 5 atriði til að hægt verði að ná í gegn nýjum kjarasamningi en þau atriði sem um ræðir eru:

 

°              Sjómannaafslátturinn komi aftur inn

°              Olíuviðmiði verði breytt

°              Fæði sjómanna verði frítt

°              Hlífðarfatnaður verði sjómönnum að kostnaðarlausu

°              Netkostnaður verði lækkaður verulega

 

Þetta eru þau atriði sem sjómenn telja mikilvægt að náist fram til að hægt verði að ganga frá nýjum samningi og er það mat formanns að útgerðarmenn eigi alveg að geta komið til móts við þessar kröfur sjómanna.

Það er ríkir mikil samstaða á meðal sjómanna um að ná viðunandi kjarasamningi en það er hins vegar mikilvægt að almenningur átti sig á því mikilvæga og fórnfúsa starfi sem sjómenn þessa lands vinna og það oft á tíðum við mjög erfiðar aðstæður.

Það kom t.d. fram á fundinum í gær að sjómenn þurfi jafnvel að greiða allt að 100.000 kr. á mánuði fyrir það eitt að vera um borð í fiskiskipi.  Þessar 100.000 krónur liggja í fæðiskostnaði, hlífðarfatnaði og netkostnaði en það eru ekki margar starfsstéttir sem þurfa að greiða slíkar upphæðir fyrir það eitt að mæta í vinnuna!

Það má heldur ekki gleyma því að árið 2009 voru kjör sjómanna rýrð um 30 þúsund krónur eða yfir 300 þúsund á ári þegar sjómannaafslátturinn var afnumin í þrepum.  Um það ríkir mikil óánægja á meðal sjómanna og benda þeir t.d. á að þegar eftirlitsmenn frá Fiskistofu koma með þeim í túra þá fá þeir greidda skattfrjálsa dagpeninga.

Það liggur fyrir að djúpstæður ágreiningur er á milli sjómanna og útgerðamanna í þessari kjaradeilu og allt eins líklegt að þetta verkfall geti orðið nokkuð langvinnt en næsti fundur hefur verið boðaður af ríkissáttasemjara þann 5. janúar næstkomandi.     

28
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar VLFA á morgun kl. 14

Sjómenn athugið að aðalfundur sjómannadeildar VLFA verður haldinn á morgun á Gamla Kaupfélaginu kl. 14. Sjómenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna!

27
Dec

Lausn fannst á ágreiningi við Hvalfjarðasveit

Í október leituðu ófaglærðir starfsmenn Heiðarskóla til Verkalýðsfélags Akraness vegna ágreinings um uppsögn á 6% umframkjörum sem 6 starfsmenn skólans höfðu haft frá 1. júní 2011.  En sveitastjórn Hvalfjarasveitar hafði tilkynnt umræddum starfsmönnum að þessum umframkjörum yrði sagt upp frá og með 1. desember síðastliðnum.

Ástæður fyrir uppsögn á umframkjörum þeirra starfsmanna sem um ræðir væru þær að hugmyndum um sveigjanleika í starfi hafi ekki komið til framkvæmda en einnig vildi sveitafélagið eyða launamisrétti á meðal almennra starfsmanna á grundvelli jafnræðis.

Formaður félagsins átti marga fundi með starfsmönnum Heiðarskóla til að finna lausn á málinu sem og fulltrúum sveitafélagsins.  Á þessum fundum kom fram að þessi uppsögn á þessum 6% umframkjörum væri alls ekki sparnaðaraðgerð heldur liður í að gæta jafnræðis á meðal almennra starfsmanna.  Formanni var tjáð af fulltrúum sveitafélagsins að Hvalfjarðasveit væri að greiða 16 þúsund krónur á mánuði til ófaglærðra í leik-og grunnskóla sveitafélagsins umfram kjarasamninga.

Verkalýðsfélag Akraness skrifaði sveitastjórn Hvalfjarðasveitar bréf 1. desember sl. þar sem lögð var fram tillaga að sátt í málinu sem laut að því að hækka þessar greiðslur úr 16 þúsundum í 22 þúsund krónur á mánuði til ófaglærðra starfsmanna í leik- og grunnskóla Hvalfjarðasveitar.  Rök VLFA laut að því að ekki yrði um kostnaðarauka fyrir Hvalfjarðasveit að ræða enda yrði sparnaðurinn sem hlytist af því að segja upp 6% umframkjörum hjá þessum 6 starfsmönnum notaður til að hækka þessar mánaðargreiðslur hjá öllum ófaglærðum starfsmönnum sveitafélagsins.  Þessa tillögu lagði VLFA fram á grundvelli þess að uppsögnin á umframkjörum var ekki sparnaðaraðgerð heldur gerð til eða eyða launamisrétti.

Það ánægjulega er að sveitastjórn Hvalfjarðasveitar féllst á þessa tillögu Verkalýðsfélags Akraness og munu því mánaðarlegar eingreiðslur sem ófaglærðs starfsfólks í leik-og grunnskóla Hvalfjarðasveitar hækka úr 16.000 krónum á mánuði í 22.000 krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2017 og munu því 20 ófaglærðir starfsmenn hækka um 6.000 krónur á mánuði eða sem nemur 72.000 krónur á ársgrundvelli.

Það er ljóst að þessi ágreiningur var gríðarlega erfiður og tók mjög á þá starfsmenn sem áttu hlut að máli en miðað við aðstæður þá var þetta farsæl lausn í mjög svo erfiðu máli.

22
Dec

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Hefðbundinn opnunartími verður yfir hátíðarnar, nema hvað skrifstofa félagsins verður lokuð á morgun, Þorláksmessu. Opnum á ný þriðjudaginn 27. desember kl. 8.

Ef áríðandi mál koma upp er hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

21
Dec

Gríðarleg samstaða meðal sjómanna

Rétt í þessu var að ljúka kynningar- og samstöðufundi félaga í Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni skall verkfall sjómanna á þann 14. desember sl.

Formaður fór ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og niðurstöðu fundar deiluaðila hjá Ríkissáttasemjara í gær, en eins og fram hefur komið í fréttum er himinn og haf á milli deiluaðila í þessum kjarasamningaviðræðum og lýsti formaður yfir miklum áhyggjum af því að þetta verkfall gæti orðið langt og strangt.

Á fundi sjómanna í dag fór þó ekki á milli mála að mikil samstaða er í hópnum og var það afar ánægjulegt að finna. Fundurinn veitti formanni fullt umboð til að leiða þessar viðræður fyrir hönd þeirra sjómanna sem tilheyra Sjómannadeild VLFA og var formaður nestaður með nokkrum atriðum sem sjómenn telja að þurfi að koma til, svo hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi sjómönnum til heilla.

Formaður þakkaði sjómönnum traustið og fór yfir mikilvægi þess að menn stæðu saman og lofaði því að halda sjómönnum vel upplýstum um gang viðræðna og greindi frá því að ef svo kynni að það sæist til lands með nýjan kjarasamning, þá myndi formaður koma með hann til kynningar áður en skrifað yrði undir slíkan samning. En eins og staðan er í dag er ljóst að fátt bendir til þess að deilan leysist á næstu vikum. Til þess þurfa útgerðarmenn að brjóta odd af oflæti sínu og hlusta á sanngjarnar kröfur sjómanna.

19
Dec

Sjómenn - áríðandi fundur á miðvikudaginn kl. 14:00 á Gamla Kaupfélaginu

Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni og allir sjómenn vita þá hófst ótímabundið verkfall hjá sjómönnum 14. desember síðastliðinn. Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness boðar sjómenn til fundar á Gamla kaupfélaginu miðvikudaginn 21. desember og hefst fundurinn klukkan 14:00.

Dagskrá fundarins er að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaraviðræðum sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eftir að kjarasamningur sjómanna hefur verið felldir í tvígang. Á fundinum mun formaður félagsins fara yfir stöðuna en rétt er að geta þess að fyrsti fundurinn með forsvarsmönnum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi verður haldinn á morgun og mun formaður greina frá niðurstöðu þess fundar.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að það er himinn og haf sem skilur á milli deiluaðila í þessum kjaraviðræðum og því mikilvægt að sjómenn mæti á fundinn til að fara yfir stöðuna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image