• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Feb

Að gefnu tilefni er Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi svarað!

Nú liggur fyrir að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa hunsað fyrirmæli frá ríkissáttasemjara frá fundinum í gær um að algert fjölmiðlabann skyldi ríkja og deilendur mættu ekki upplýsa hvað fram færi á samningafundum.  Sjá hér.

Að sjálfsögðu kom ekki til greina hjá sjómannaforystunni að hunsa þessi fyrirmæli frá ríkissáttasemjara um fjölmiðlabann en í ljósi þess að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa rofið þetta fjölmiðlabann þá telur formaður Verkalýðsfélags Akraness mjög mikilvægt að sjómenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og sjómenn almennt fái upplýsingar um hvað þessi bókun sem lögð var fram á fundinum í gær snérist um.

Þessi bókun laut að því að samningsaðilar yrðu sammála um að leitað yrði skýringa á því hvers vegna erlend uppsjávarskip sem landa makríl, síld og loðnu t.d. í Noregi virðast ætíð fá hærra fiskverð en greitt er til íslenskra sjómanna.

Bókunin laut líka að því að samningsaðilar væru sammála um mikilvægi þess að skipa fjögurra manna óháða nefnd sem hefur það hlutverk að rannsaka í hverju mismunurinn á fiskverði á makríl, síld og loðnu hér og í Noregi liggur.

Hún laut líka að því að samningsaðilar væru sammála um að eyða þurfi þeirri tortryggni og vantrausti sem ríkt hefur um verðmyndun á uppsjávarafla og væri þessi fjögurra manna óháða nefnd einn liður í þeirri vinnu.

Þetta er nú þessi svakalega „krafa“ sem samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skilja bara ekkert í og segja í fréttabréfi til sinna félagsmanna að þessi bókun sjómannasamtakanna sýni í verki algert viljaleysi til að ná farsælli lendingu í kjaraviðræðum sem eru á viðkvæmu stigi.

Þessi bókun um að skipa fjögurra manna óháð rannsóknarnefnd er liður í að eyða því vantrausti og tortryggni sem ríkt hefur um áratugaskeið um verðmyndun á uppsjávarafla til íslenskra sjómenna.  Hvernig í ósköpunum stendur á þessium ofsafengu viðbrögð frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi í ljósi þess að útgerðamenn segja að verðmyndun á uppsjávarafla sé í alla staði eðlileg og þeir hafi ekkert að fela.

Ef svo er þá ætti að vera afar auðvelt fyrir útgerðamenn að samþykkja þessa bókun sem er einungis liður í að eyða vantrausti og tortryggni við verðmyndun á uppsjávarafla.  Við í sjómannaforystunni spyrjum okkur að sjálfsögðu að því hví í ósköpunum eru útgerðamenn á móti þessari bókun í ljósi þess að útgerðin segir að ekkert sé við verðlagningu á uppsjávarafla að athuga?  Er kannski eitthvað við verðlagningu á uppsjávarafla að athuga sem ekki getur litið dagsins ljós? Að sjálfsögðu velta sjómenn því fyrir sér í ljósi þessara viðbragða.

Formaður VLFA vill koma því skýrt á framfæri að það stóð aldrei til að hunsa fyrirmæli um fjölmiðlabann frá ríkissáttasemjara en í ljósi þess að SFS gerði það þá varð að upplýsa sjómenn um hvað þessi svokallaða „krafa“ laut að.

Bara þannig að því sé til haga haldið þá eru sjómenn svo sannarlega tilbúnir til að ganga frá nýjum kjarasamningi enda telja sjómenn að þær kröfur sem liggja nú fyrir útgerðamönnum séu sanngjarnar,réttlátar og hóflegar

31
Jan

Atvinnulífið á Akranesi verður fyrir þungum höggum

Það er óhætt að segja að atvinnulífið á starfssvæði félagsins hafi orðið fyrir nokkuð þungum höggum síðustu daga, en í dag tilkynnti HB Grandi að fyr­ir­hugaðar fram­kvæmd­ir við fiskþurrk­un á Akra­nesi hafa verið lagðar til hliðar. Sú ákvörðun hefur þau áhrif að 26 manns sem hafa starfað við þessa framleiðslu í mörg ár láta af störfum en HB Grandi mun reyna að finna önnur störf handa fólkinu í öðrum starfstöðvum fyrirtækisins á Akranesi. Þessi ákvörðun er tekin vegna markaðsaðstæðna, en markaður fyr­ir þurrkaðar afurðir hef­ur verið mjög erfiður vegna lít­ill­ar kaup­getu í Níg­er­íu og virðist lítil von vera til að það breytist á næstu misserum.

Lokun á fiskþurrkun HB Granda voru ekki einu slæmu tíðindi síðustu daga, því síðasta föstudag var tilkynnt um að 17 starfsmönnum málmendurvinnslufyrirtækisins GMR á Grundartanga hafi verið sagt upp störfum og fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Það hefur legið fyrir að reksturinn hefur verið erfiður nánast frá upphafi og einnig hafi bakslag orðið þegar heimsmarkaðsverð á stáli hríðlækkaði fyrir tveimur árum síðan. Þarna misstu eins og áður sagði 17 manns lífsviðurværi sitt en flestir starfsmenn voru félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness og vinnur félagið að því að halda utan um réttindi starfsmanna í ljósi þess að fyrirtækið verður tekið til gjaldþrotaskipta.

Á þessu sést að lífviðurværi 43 starfsmanna þessara tveggja fyrirtækja er í uppnámi og vonandi ná sem flestir starfsmenn sem um ræðir að finna sér ný störf sem fyrst.

31
Jan

Fiskvinnslunámskeið hjá HB Granda

Þessa dagana situr fiskvinnslufólk sem starfar hjá HB Granda á Akranesi fiskvinnslunámskeið, en slík námskeið eru haldin reglulega og þar sem vinnslan er ekki í gangi um þessar mundir vegna verkfalls sjómanna er ekki úr vegi að nýta tímann í slíkt. Í morgun kom formaður Verkalýðsfélags Akraness á námskeiðið og hélt erindi um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Í kjölfarið sköpuðust góðar umræður og fram komu spurningar um hin ýmsu atriði sem tengjast þessum málefnum. Starfsmenn sem ljúka fiskvinnslunámskeiði hækka um tvo launaflokka og það skiptir auðvitað miklu máli. Auk þess öðlast starfsmenn meiri þekkingu á hinum ýmsu sviðum enda fjölbreytt efni sem kennt er á námskeiðum sem þessum.

25
Jan

Verð á makríl í Noregi 125% hærra en á Íslandi - er maðkur í mysunni?

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í rúmar 6 vikur og hjá sjómönnum ríkir gríðarleg gremja, reiði, tortryggni og vantraust gagnvart útgerðamönnum. En af hverju er þetta gríðarlega vantraust til staðar? Hér verður fjallað um eitt atriði sem fjölmargir sjómenn hafa nefnt sérstaklega og það er verðmyndun á uppsjávarafla þar sem veiðar og vinnsla eru á sömu hendi.

Það er gjörsamlega sláandi að sjá þann gríðarlega verðmun sem er t.d. á síld og makríl milli Íslands og Noregs eins og hefur komið fram í fréttum til dæmis hér og hér. Í þessu samhengi er rétt að benda á að árið 2015 voru seld 184 þúsund tonn í gegnum sölukerfi norska síldarsamlagsins og var meðalverðið 7,98 norskar krónur á kíló, eða tæpar 113 krónur íslenskar. Á Íslandi voru veidd um 168 þúsund tonn af makríl og var meðalverðið á Íslandi sama ár einungis 62 krónur á kíló samkvæmt hagstofunni. Þetta þýðir að í Noregi var verð á makríl 82% hærra en á Íslandi.

Aflaverðmæti á makríl árið 2015 var 10,4 milljarðar hér á landi, en ef íslenskir sjómenn hefðu fengið sama verð fyrir makrílinn og fékkst í Noregi þá hefði verðmætið numið numið tæpum 19 milljörðum! Hér munar heilum 8,6 milljörðum sem þýðir að ef íslenskir sjómenn hefðu fengið sama verð og í Noregi þá hefði aflahlutur íslenskra sjómanna aukist um tæpa 3,1 milljarð!

En hver skildi verðmunurinn hafa verið fyrir síðustu makrílvertíð, það er að segja fyrir árið 2016. Jú, fram hefur komið í fréttum að í gegnum sölukerfi norska síldarsamlagsins hafi farið 133 þúsund tonn af makríl og meðalverðið hafi verið 10,23 krónur norskar á kíló, eða rúmar 144 krónur íslenskar. En hvað skyldi meðalverðið hafa verið á Íslandi á árinu 2016? Samkvæmt Hagstofunni veiddust rúmlega 170 þúsund tonn og aflaverðmætið var 10,9 milljarðar og meðalverðið því 63,9 íslenskar krónur.

Takið eftir að í Noregi var á síðasta ári verið að greiða rúmum 80 krónum hærra verð fyrir kílóið að meðaltali fyrir makríl en á Íslandi eða sem nemur 125%. Hugsið ykkur, íslenskir sjómenn fá 125% minna verð fyrir makríl en fæst fyrir hann í Noregi.

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú, ef íslenskir sjómenn hefðu fengið sama verð og fékkst í Noregi árið 2016 þá hefði aflaverðmætið ekki verið 10,9 milljarðar heldur 24,5 milljarðar en hér er mismunur á aflaverðmæti upp á 13,6 milljarða sem gerir það að verkum að sjómenn sem stunda makrílveiðar fá 4,9 milljörðum minna í sinn hlut vegna þessa verðmunar á milli Íslands og Noregs.

Ef við tökum árin 2015 og 2016 þá kemur í ljós að við veiddum samtals 338 þúsund tonn og samanlagt aflaverðmæti vegna makrílveiða á þessum árum er á Íslandi 21,3 milljarðar. Ef íslenskir sjómenn hefðu hins vegar fengið sama verð og fæst í Noregi þá hefði aflaverðmætið verið 43,5 milljarðar. Hér munar 22,2 milljörðum sem þýðir að þessi tvö ár er aflahlutur sjómanna 8 milljörðum króna lægri vegna þess verðmunar sem er á milli Íslands og Noregs.

Útgerðamenn verða að skýra hvernig í ósköpunum standi á þessum gríðarlega verðmuni á markíl á milli Íslands og Noregs. Hvernig geta útgerðamenn skýrt það út að verð til sjómanna hér á Íslandi, verð sem þeir nánast ákveða sjálfir hvert eigi að vera, skuli vera allt að 125% en í Noregi? Svo eru útgerðamenn hissa að það ríki vantraust og tortryggni á milli sín og sjómanna þegar svona gríðarlegur verðmunur blasir við sjómönnum ár eftir ár. Hins vegar er einnig er rétt að geta þess að þessi gríðarlegi verðmunur er ekkert einskoraður við makríl, þetta á líka við síld og loðnu.

Ég ítreka það að útgerðamenn verða að leggja allt á borðið og skýra sitt mál og reyndar er það eina í stöðunni að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd af hinu opinbera og sú nefnd þarf að hafa víðtækar heimildir til gagnaöflunar og rannsaka þetta ofan í kjölinn. Útgerðamenn verða að útskýra fyrir þjóðinni af hverju þessi gríðarlegi verðmunur stafar, því það eru ekki bara sjómenn sem verða af gríðarlegum fjármunum þegar allt bendir til þess að ekki sé verið að selja aflann á hæsta verði, heldur verður ríkissjóður, sveitafélög og hafnarsjóðir af miklum skatttekjum vegna þessa.

Útgerðamenn hafa alltaf sagt að þeir hafi ekkert að fela hvað varðar verðmyndun á uppsjávarafla sem þeir nánast ákveða einhliða. Ef þeir hafa ekkert að fela þá hljóta þeir að taka undir þá hugmynd að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd sem hafi víðtækar rannsóknarheimildir og kanni hvernig stendur á því að ef við hefðum fengið sama verð fyrir makríl og fékkst í Noregi þá hefði aflaverðmæti á síðustu 2 árum verið 22,2 milljörðum hærra en raunin varð. Kannski eru til eðlilegar skýringar á þessum gríðarlega verðmun eins og útgerðamenn vilja meina en það eru ríkir almannahagsmunir fyrir því að ráðist verði tafarlaust í að finna skýringu á þessum gríðarlega verðmuni á milli Íslands og Noregs. Ég vil líka að lokum minna útgerðamenn á grein í kjarasamningi sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðamenn skuli tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Til að eyða vantrausti og tortryggni á milli sjómanna og útgerðamanna verða verðlagsmál á sjávarafurðum að vera hafin yfir allan vafa, en slíku er ekki til að dreifa í dag. Alla vega ekki hvað varðar verðlagningu á uppsjávarafla.

24
Jan

Laun starfsmanna Norðuráls hækka um tæp 9% frá 1. janúar 2017

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Norðurál 17. mars 2015 og er óhætt að segja að sá kjarasamningur sé svo sannarlega búinn að vera starfsmönnum hagfelldur. 

En í þessum kjarasamningi var samið um að laun starfsmanna Norðuráls myndu taka hækkunum samkvæmt launavísitölu sem þýðir að laun starfsmanna Norðuráls munu hækka frá og með 1. janúar 2017 um rétt tæp 9%.  

Þetta þýðir að byrjandi á vöktum hjá Norðuráli hækkar með öllu um 45 þúsund á mánuði og verða heildarlaun hans rétt rúmar 570 þúsund á mánuði fyrir 184 tíma í vaktavinnu. Starfsmaður á vöktum sem unnið hefur í 10 ár mun hækka um 53 þúsund á mánuði og verða heildarlaun hans rétt tæpar 667 þúsund á mánuði með öllu. Ef hann hefur lokið bæði grunn- og framhaldsnámi Stóriðjuskólans þá verða heildarlaun hans alls 761 þúsund fyrir 182 tíma vinnu á mánuði.

Rétt er að vekja athygli á því að orlofs- og desemberuppbætur munu hækka samtals úr 371.376 kr. í 403.574 kr. og mun því hvor fyrir sig nema 201.787 kr. og eru því að hækka um 32.198 kr. á ári.

Það er ljóst að þessi samningur sem Verklýðsfélag Akraness gerði við forsvarsmenn Norðuráls hefur reynst hagfelldur, en þetta er fyrsti kjarasamningur hjá verkafólki og iðnaðarmönnum þar sem laun starfsmanna taka hækkunum samkvæmt launavísitölunni.

23
Jan

Slitnað upp úr viðræðum í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna

Rétt í þessu lauk samningafundi sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og það er skemmst frá því að segja að deilan sé nú komin í glerharðan hnút. Á fundinum slitnaði endanlega upp úr viðræðum deiluaðila og ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til annars fundar, en samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þarf næst að boða til fundar innan tveggja vikna.

Samningsaðilar fóru yfir stöðuna og þrátt fyrir að þokast hafi verulega í þremur af fimm kröfum sjómanna, þá standa eftir tvær af meginkröfnum sem eru eins og áður hefur komið fram breyting á olíuviðmiði og bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar. Báðum þessum kröfum hafna útgerðarmenn algerlega og því blasti það við í dag að slíta viðræðum þar sem sjómenn eru alls ekki tilbúnir að hvika frá sínum sanngjörnu og réttlátu kröfum.

Það liggur fyrir að öll sjómannafélög á Íslandi hafa síðustu daga fundað ítarlega með sínum sjómönnum og á öllum þessum fundum fengu forsvarsmenn stéttarfélaganna skýr skilaboð um að hvika hvergi frá þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram, enda telja sjómenn þær vera hóflegar, réttlátar og sanngjarnar og séu ekki því marki brenndar að það eigi að vera til erfiðleika fyrir útgerðina að ganga að þeim.

Eins og áður sagði þá er allt eins líklegt að næsti fundur verði ekki fyrr en eftir tvær vikur, eða eins og fram kom í máli ríkissáttasemjara að þá hefur hann ekki í hyggju að boða til fundar nema eitthvað óvænt gerist í millitíðinni. Það er því óhætt að segja að þessi deila sé orðin grafalvarleg og afar fátt sem bendir til þess að hún muni leysast á næstu dögum eða vikum. En sjómenn eru gallharðir á því að standa á sínum kröfum og hafa sent samninganefndum skýr skilaboð hvað það varðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image