• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jul

Fundað með forstjóra HB Granda og starfsmönnum fyrirtækisins

Rétt í þessu lauk fundi formanns Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmanna með forstjóra HB Granda og forsvarsmönnum fyrirtækisins. Í framhaldi af þeim fundi var síðan fundur með öllum starfsmönnum HB Granda.

Tilefni fundarins var að fara yfir stöðuna varðandi þá staðreynd að HB Grandi tók ákvörðun um að hætta allri vinnslu á bolfiski á Akranesi frá og með 1. september næstkomandi. En aðaltilefnið var að fara yfir og kynna hversu mörgum starfsmönnum væri boðin áframhaldandi vinna á Akranesi og í Norðurgarði í Reykjavík. 

En eins og flestir vita var öllu starfsfólki HB Granda í bolfiskvinnslu fyrirtækisins sagt upp störfum 11. maí sl. eða samtals 92 starfsmönnum og því hefur ríkt mjög mikil óvissa hjá starfsmönnum í rúma tvo mánuði um framtíð sína hjá fyrirtækinu. Sumir starfsmannanna hafa starfað í tugi ára fyrir HB Granda.

Á fundinum með forstjóra HB Granda var tilkynnt að flestum hafi verið tryggt áframhaldandi starf hjá HB Granda eða dótturfélögum þess eða samtals 57 starfsmönnum. Allir sem völdu Norðurgarð í Reykjavík fengu starf eða samtals 29 en 28 starfsmenn fá áframhaldandi starf á Akranesi hjá dótturfélögum HB Granda það er að segja hjá Vigni G Jónssyni, Norðurfiski og einnig við sameiginlega þjónustu þ.e. umsjón með tækjum, lóðum og fasteignum fyrirtækisins.

Það kom fram að 21 starfsmaður hefur  farið til annarra vinnuveitenda eða í nám eða jafnvel tekið ákvörðun um að sækja ekki um neinn af þeim valmöguleikum sem í boði voru.

Það er morgunljóst að þetta langa ferli sem leitt hefur til umtalsverðar óvissu starfsmanna hefur tekið verulega á starfsmenn enda aldrei gott þegar launafólk er í óvissu með lífsviðurværi sitt.

Það er rétt að geta þess að þótt 29 manns bjóðist starf í Norðurgarði í Reykjavík er ekki ljóst hversu margir munu þiggja það þegar á hólminn verður komið, enda höfðu starfsmenn 3 valmöguleika þegar þeir sóttu um starf hjá fyrirtækinu. Valmöguleikarnir voru semsagt á Akranesi hjá Vigni G Jónssyni eða hjá Norðanfiski og síðan í Norðurgarði í Reykjavík. Formaður veit að margir höfðu Norðurgarð sem þriðja valmöguleika og því ekki ljóst hvort allir muni á endanum þiggja starfið í Norðurgarði þótt þeir hafi sótt þar um sem þriðja möguleika.

Það er ljóst að þessi ákvörðun HB Granda hefur tekið á alla starfsmenn og reyndar á allt samfélagið hér á Akranesi, enda hefur bolfiskvinnsla verið einn af burðarstólpum í atvinnu okkar Akurnesinga í ein hundrað ár eða svo.  Það er mjög mikilvægt að öll fyrirtæki sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum þjóðarinnar átti sig á þeirri samfélagslegu skyldu sem hvílir á á þeim. Það ömurlegt þegar stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki hunsa þessa samfélagslegu skyldu sína gagnvart þeim samfélögum sem þau starfa í eins og mýmörg dæmi hafa sýnt.

Það verður samt að segjast að úr því sem komið var er ögn ásættanlegra að hægt sé að tryggja allt að 64% starfsmanna áframhaldandi starf þótt vissulega sé það þyngra en tárum taki að 14 manns séu að missa lífsviðurværi sitt.  Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að vonbrigðin hjá okkur skagamönnum er gríðarleg með þessa ákvörðun forsvarsmanna HB Granda með að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi enda höfum við svo sannarlega viljað sá fiskvinnslu hér á Akranesi aukast enda höfum við verið stolt af því að vera hluti af öflugu sjávarútvegsfyrirtæki eins og HB Grandi er.

En við Akurnesingar ætlum svo sannarlega ekki að gefast upp og vonandi náum við að efla atvinnulífið hér á Akranesi enn frekar því málið er að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og því viljum við Skagamenn trúa.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image