• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Aug

Kjarasamningur Klafa samþykktur með öllum greiddum atkvæðum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa við Samtök atvinnulífsins 14. ágúst síðastliðinn.  En á föstudaginn kynnti formaður samninginn fyrir starfsmönnum  og að aflokinni kynningu var kosið um samninginn.

Það var afar ánægjulegt að sjá og heyra að starfsmenn voru mjög ánægðir með nýja samninginn og nægir í því samhengi að nefna að hann var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Það er mat formanns félagsins að hér sé um afar góðan kjarasamning að ræða, enda taka laun Klafamanna alfarið mið af stóriðjusamningi Elkem Ísland en eins og flestir vita eru kjör í flestum stóriðjum umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Í þessum nýja kjarasamningi hækka mánaðarlaun frá 63 þúsundum upp í 73 þúsund á mánuði. Einnig munu orlofs- og desemberuppbætur hækka og verða þær samtals 404 þúsund á ári, eða 202 þúsund hvor um sig.

Einnig var samið um að starfsmenn Klafa hafi möguleika á að fara í stóriðjuskóla hjá Elkem Ísland en þegar starfsmenn hafa lokið námi þar mun það skila starfsmönnum 10% launahækkun að auki.

Um önnur kjör starfsmanna mun kjarasamningur Elkem Ísland gilda og eins og áður sagði er þetta mjög góður samningur en fyrir 156 tíma vaktarvinnu í kvöld og dagvinnu mun starfsmaður með 10 ára starfsreynslu vera með um 520 þúsund í heildarlaun.

Samningurinn er afturvirkur og gildir frá 1. febrúar 2017 sem þýðir að starfsmenn munu fá laun leiðrétt frá þeim tíma og getur sú upphæð numið allt að 300 þúsundum króna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image