• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jan

Laun starfsmanna Norðuráls hækka um tæp 9% frá 1. janúar 2017

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Norðurál 17. mars 2015 og er óhætt að segja að sá kjarasamningur sé svo sannarlega búinn að vera starfsmönnum hagfelldur. 

En í þessum kjarasamningi var samið um að laun starfsmanna Norðuráls myndu taka hækkunum samkvæmt launavísitölu sem þýðir að laun starfsmanna Norðuráls munu hækka frá og með 1. janúar 2017 um rétt tæp 9%.  

Þetta þýðir að byrjandi á vöktum hjá Norðuráli hækkar með öllu um 45 þúsund á mánuði og verða heildarlaun hans rétt rúmar 570 þúsund á mánuði fyrir 184 tíma í vaktavinnu. Starfsmaður á vöktum sem unnið hefur í 10 ár mun hækka um 53 þúsund á mánuði og verða heildarlaun hans rétt tæpar 667 þúsund á mánuði með öllu. Ef hann hefur lokið bæði grunn- og framhaldsnámi Stóriðjuskólans þá verða heildarlaun hans alls 761 þúsund fyrir 182 tíma vinnu á mánuði.

Rétt er að vekja athygli á því að orlofs- og desemberuppbætur munu hækka samtals úr 371.376 kr. í 403.574 kr. og mun því hvor fyrir sig nema 201.787 kr. og eru því að hækka um 32.198 kr. á ári.

Það er ljóst að þessi samningur sem Verklýðsfélag Akraness gerði við forsvarsmenn Norðuráls hefur reynst hagfelldur, en þetta er fyrsti kjarasamningur hjá verkafólki og iðnaðarmönnum þar sem laun starfsmanna taka hækkunum samkvæmt launavísitölunni.

23
Jan

Slitnað upp úr viðræðum í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna

Rétt í þessu lauk samningafundi sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og það er skemmst frá því að segja að deilan sé nú komin í glerharðan hnút. Á fundinum slitnaði endanlega upp úr viðræðum deiluaðila og ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til annars fundar, en samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þarf næst að boða til fundar innan tveggja vikna.

Samningsaðilar fóru yfir stöðuna og þrátt fyrir að þokast hafi verulega í þremur af fimm kröfum sjómanna, þá standa eftir tvær af meginkröfnum sem eru eins og áður hefur komið fram breyting á olíuviðmiði og bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar. Báðum þessum kröfum hafna útgerðarmenn algerlega og því blasti það við í dag að slíta viðræðum þar sem sjómenn eru alls ekki tilbúnir að hvika frá sínum sanngjörnu og réttlátu kröfum.

Það liggur fyrir að öll sjómannafélög á Íslandi hafa síðustu daga fundað ítarlega með sínum sjómönnum og á öllum þessum fundum fengu forsvarsmenn stéttarfélaganna skýr skilaboð um að hvika hvergi frá þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram, enda telja sjómenn þær vera hóflegar, réttlátar og sanngjarnar og séu ekki því marki brenndar að það eigi að vera til erfiðleika fyrir útgerðina að ganga að þeim.

Eins og áður sagði þá er allt eins líklegt að næsti fundur verði ekki fyrr en eftir tvær vikur, eða eins og fram kom í máli ríkissáttasemjara að þá hefur hann ekki í hyggju að boða til fundar nema eitthvað óvænt gerist í millitíðinni. Það er því óhætt að segja að þessi deila sé orðin grafalvarleg og afar fátt sem bendir til þess að hún muni leysast á næstu dögum eða vikum. En sjómenn eru gallharðir á því að standa á sínum kröfum og hafa sent samninganefndum skýr skilaboð hvað það varðar.

20
Jan

Hvergi hvikað - sjómenn hafa fengið nóg

Rétt í þessu lauk gríðarlega fjölmennum fundi sjómanna þar sem formaður VLFA fór yfir stöðuna í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Formaður fór ítarlega yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin, og fór hann yfir hvað hefur áunnist og hvað það er sem stendur útaf.

Sýndi formaður hvað þau þrjú atriði sem hafa þokast áfram í kjaraviðræðunum muni skila sjómönnum og að því loknu fór hann yfir þau atriði sem útaf standa. En eins og fram hefur komið þá hafa útgerðarmenn hafnað algerlega kröfum um breytingu á olíuviðmiðinu og bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar.

Formaður greindi frá þessari erfiðu og snúnu stöðu sem upp er komin, en ítrekaði að það væri sjómanna að taka ákvörðun um framhaldið og það fór ekkert á milli mála að sjómenn eru granítharðir á því að standa fastir á þeim tveimur atriðum sem útaf standa og var það gert með formlegri atkvæðagreiðslu þar sem allir viðstaddir greiddu því atkvæði að hvika hvergi frá þeim tveimur atriðum sem útaf standa.

Það liggur fyrir að þær 5 kröfur sem farið var af stað með eru að okkar mati sanngjarnar og réttlátar og því munu sjómenn halda sínum kröfum til streitu og eru tilbúnir til að standa og falla með þessum kröfum.

Það er mjög gott fyrir formann félagsins að vera búinn að fá skýr skilaboð frá sínum sjómönnum, enda kom fram í máli formanns að hann er í vinnu fyrir þá og vinni því ávallt samkvæmt ákvörðunum og samþykktum sjómanna sjálfra. Því eins og áður sagði er þetta lífsviðurværi þeirra sem um er að ræða, en það er morgunljóst miðað við samstöðuna á þessum fundi að sjómenn hafa fengið nóg.

18
Jan

Sjómenn - VLFA boðar til áríðandi fundar!

Vegna alvarlegar stöðu sem upp er komin í samningaviðræðum á milli sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var ákveðið að fresta samningaviðræðum fram til mánudags.

Öll stéttarfélög sjómanna hafa ákveðið að funda með sjómönnum næstu daga til að fara yfir stöðuna og greina sjómönnum frá því hvað hefur áunnist í þessum viðræðum og hvað standi útaf til að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Á þeirri forsendu boðar Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness til áríðandi fundar með sjómönnum sem tilheyra VLFA næsta föstudag klukkan 14:00 á Gamla Kaupfélaginu. Á fundinum mun formaður félagsins fara ítarlega yfir það sem hefur áunnist og hvað standi útaf.

Eins og flestum sjómönnum er kunnugt þá eru kröfur sjómanna í aðalatriðum fimmþættar: 

  • Bætur komi að fullu vegna afnáms sjómannaafsláttar
  • Breyting komi á olíuviðmiði
  • Sjómenn fái frítt fæði
  • Sjómenn fái frían vinnufatnað
  • Net- og fjarskiptakostnaður sjómanna lækki


Einnig er rétt að geta þess að þau atriði sem voru komin inn í kjarasamningum sem felldur var síðast myndu halda sér þar sem það á við.

Það er mat formanns VLFA að útgerðamenn eigi vel að geta komið til móts við þessar kröfur, enda eru þær sanngjarnar og réttmætar. Það er rétt að geta þess að tekist hefur að þoka þremur af þessum fimm atriðum verulega áleiðis en eftir standa tvö atriði sem útgerðamenn hafa hafnað og því eru þessar viðræður komnar uppvið vegg eins og staðan er núna.

Það er mikilvægt að sjómenn sjái sér fært að mæta á fundinn til að ræða þessa alvarlegu stöðu sem upp er komin í viðræðunum. 

06
Jan

Laun háseta eru ekki 2,3 milljónir eins og SFS ýjar að!

Það verður að segjast alveg eins og er að grein sem birtist í gær eftir framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að sjómenn séu með hærri laun en læknar hafi valdið gríðarlegri reiði á meðal sjómanna. Í greininni er sagt að meðallaun sjómanna árið 2014 hafi verið 2,1 milljón á mánuði og á árinu 2015 hafi meðallaun sjómanna verið komin uppí 2,3 milljónir. 

Þessi samanburður er með svo miklum ólíkindum að það nær ekki nokkru tali enda eru þessi meðallaun í engu samræmi við þau laun sem hásetar t.d. á ísfisktogurum og frystiskipum hafa. Í greininni er framkvæmdastjórinn að tala um meðaltal tekjuhæstu sjómanna landsins og inní þessu meðaltali eru t.d. skipstjórar, yfirvélstjórar og aðrir yfirmenn á fiskiskipum sem eru ekki einu sinni verkfalli. Í greininni er ýjað að því að þetta séu meðallaun háseta sem eru í verkfalli og vinnubrögð af þessu tagi eru til skammar og gera ekkert annað en að hleypa illu blóði í sjómenn og það eðlilega.

Verkalýðsfélag Akraness gerði stutta athugun á iðgjaldaskrá félagsins og skoðaði hver meðallaun háseta á ísfisktogurum og frystiskipum hafi verið á þessum árum. Þá kemur í ljós að meðallaun háseta á þessum tveimur útgerðaflokkum árið 2014 voru 1,1 milljón á mánuði en ekki 2,1 milljón eins og framkvæmdastjóri SFS gaf í skyn. Árið 2015 voru meðallaun háseta á þessum skipum 1,2 milljónir en ekki 2,3 milljónir eins og framkvæmdastjóri SFS ýjaði að. Á árinu 2016 eru hásetar á ísfisks- og frystitogurum að meðaltali með 994 þúsund á mánuði!

Rétt er að geta þess sérstaklega að inní þessum launum er orlof sem þýðir að meðalmánaðarlaun háseta á árinu 2016 án orlofs voru 865 þúsund á mánuði. Það líka rétt að geta þess að frá þessum launum dragast síðan fæðis-, fata- og netkostnaður sem getur numið tugum þúsunda í hverjum mánuði!  

Á þessu sést að þessi grein framkvæmdastjóra SFS er með ólíkindum, enda munar meira en helmingi á þeim meðallaunum sem SFS ýjar að því að hásetar í verkfalli séu með, og niðurstöðu skoðunar VLFA á meðallaunum háseta innan raða sjómannadeildar félagsins.

Það er fórn að vera sjómaður við Íslandsstrendur enda vinna sjómenn við hættulegar, krefjandi og erfiðar aðstæður. Það liggur t.d. fyrir að sjómenn þurfa eðlilega að láta af störfum mun fyrr en starfsfólk sem vinnur í landi. Ástæðan fyrir þessu er að sjómannsstarfið er erfitt og krefjandi og kallar algerlega á að sjómenn séu vel á sig komnir líkamlega.

Það er líka rétt að geta þess  að sjómenn hafa mun minni möguleika á að taka þátt í uppeldi barna sinna og horfa á þau vaxa úr grasi. Það er mikilvægt að almenningur átti sig á þessari fórn sem sjómenn færa við sín störf eins t.d. að vera staddir úti á rúmsjó þegar alvarlegir atburðir gerast í fjölskyldu sjómanna. Dæmi eru um sjómenn sem hafa misst einhvern nákomin og það tekur kannski einhverja daga að komast heim til fjölskyldunnar. Svona dæmi hafa svo sannarlega gerst, eins og til dæmis sjómaður sem tilheyrir sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness. Hann var á kolmunnaveiðum við Færeyjar þegar hann fékk tilkynningu um að dóttir hans hefði látist í bílslysi og það tók sjómanninn um tvo sólarhringa að komast heim í faðm fjölskyldu sinnar.

Fórn sjómanna birtist víðar, eins og í öryggismálum því það er ekkert grín að veikjast alvarlega eða slasast um borð í skipi úti á ballarhafi víðsfjarri allri læknisþjónustu. Við slíkar aðstæður þurfa sjómenn að reiða sig algerlega á kraftaverkamennina sem starfa á þyrlum Landhelgisgæslunnar, enda eru þyrlurnar lífæð sjómanna ef einhver vá á sér stað um borð í fiskiskipum. Þessar fórnir íslenskra sjómanna eru blákaldar staðreyndir sem ekki á að gera lítið úr og því mikilvægt að kjör og aðbúnaður sjómanna sé með þeim hætti að sómi sé af.

Að þessu öllu sögðu þá sér allt vitiborið fólk að laun sjómanna, sem eru núna þetta í kringum 865 þúsund á mánuði fyrir utan orlof, eru laun sem ekki er hægt að tala um sé góð miðað við þær fórnir sem þeir leggja á sig. Fyrir það eitt að mæta til skips greiða þeir auk þess tugi þúsunda í fæðis- fata- og netkostnað.

Það er morgunljóst að sjómenn munu hvergi hvika frá sanngjörnum kröfum sínum og eru svo sannarlega tilbúnir að taka þann slag alla leið!

02
Jan

Umsóknir um styrk úr vinnudeilusjóði VLFA vegna verkfalls sjómanna

Umsóknareyðublað vegna styrks úr vinnudeilusjóði vegna launataps í verkfalli sjómanna er nú aðgengilegt á skrifstofu félagsins á Sunnubraut 13, og á heimasíðu félagsins undir Eyðublöð. Hægt er að senda útfylltar umsóknir í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., í pósti á Sunnubraut 13, 300 Akranes, eða koma þeim á skrifstofu félagsins á annan hátt.

Verkfallsstyrkur greiðist frá og með deginum í dag, 2. janúar 2017 svo lengi sem verkfall varir. Greiddar verða 10.800 kr. fyrir hvern virkan dag, sem er ígildi kauptryggingar háseta. Greitt verður út á tveggja vikna fresti, fyrst mánudaginn 16. janúar 2017. 

Sem betur fer er fátítt að það komi til verkfalls hjá félagsmönnum VLFA. Verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness er því sterkur og mun vel geta staðið undir greiðslum til félagsmanna komi til langtímaverkfalls.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image