• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Nov

Formaður með erindi hjá SÁÁ

Það er nokkuð algengt að hin ýmsu félaga- og góðgerðasamtök óski eftir að formaður Verkalýðsfélags Akraness komi og haldi erindi um verkalýðshreyfinguna og þá hagsmunabaráttu sem VLFA stendur fyrir á hverjum degi.

Í gær hélt formaður erindi fyrir svokallaða Heiðurmenn SÁÁ að Efstaleiti 7 en það er hópur manna sem hittist annan hvern fimmtudag.  Áður en formaður hélt sitt erindi þá var farið yfir sögu SÁÁ og þá starfsemi sem þar er innt af hendi.

Það er algerlaga morgunljóst að það er verið að vinna gjörsamlega frábært starf hjá SÁÁ við að hjálpa fólki sem haldið er þeim slæma sjúkdómi sem alkóhólmisti er. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að SÁÁ er búið að bjarga svo mörgum mannslífum með sinni starfsemi í gegnum árin og áratugina að þeim verður seint þakkað nægilega fyrir það. Fram kom í ræðu frá starfsmanni SÁÁ að Verkalýðsfélag Akraness væri eina stéttarfélagið á Íslandi sem hefði stutt SÁÁ fjárhagslega.

Formaður byrjaði erindi sitt á þakka fyrir að hafa verið boðið og einnig þakkaði hann fyrir frábært starf sem unnið væri af hálfu SÁÁ enda eru fáar fjölskyldur sem eiga ekki einhvern ættingja eða vin sem hefur glímt við áfengis- eða fíkniefnavandamál. Formaður sagði líka að honum fyndist það undarlegt og hálf skammarlegt að Verkalýðsfélag Akraness væri eina stéttarfélagið sem hafi veitt SÁÁ fjárhagslegan stuðning.

Í erindi sínu fór formaður yfir mikilvægi stéttarfélaganna og nefndi sem dæmi að frá því ný stjórn tók við Verklýðsfélagi Akraness árið 2004 hafi félagið innheimt uppundir 400 milljónir vegna hina ýmsu kjarasamningsbrota á félagsmönnum. Hann kom líka að því að barátta fyrir bættum hag félagsmanna lykki aldrei og sem dæmi þá er VLFA með 4 mál fyrir dómstólum þar sem verið er að láta reyna á réttindi félagsmanna.

Formaður fór líka yfir það að verkalýðsbarátta er lýðheilsumál og sagði hann að þegar lágtekjufólk nær ekki að framfleyta sér og börnum sínum þá getur það eðlilega leitt til kvíða, þunglyndis og annarrar andlegrar vanlíðunar. Því miður erum við núna með lágmarkslaun og launataxta fyrir verkafólk sem ekki duga fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og til að verkafólk geti haldið mannlegri reisn. Á þessari forsendu er stéttarfélagsbarátta m.a. lýðheilsumál!

Það var mjög ánægjulegt að hitta þessa Heiðursmenn SÁÁ og var ekki annað á þeim að heyra en þeir væru mjög ánægðir með erindi formanns.

04
Nov

Lægsti taxti verkafólks væri í dag 124.089 ef...

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá var þing Alþýðusambands Íslands haldið dagana 26.-28. október. Það mál sem helst var til umfjöllunar á þinginu var nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd.

Það er morgunljóst að mjög skiptar skoðanir voru hjá þingfulltrúum um nauðsyn þess að taka hér upp nýtt samningalíkan. Það er óhætt að segja að þessar skiptu skoðanir endurspeglist í þeirri ályktun sem samþykkt var á þinginu um nýtt vinnumarkaðsmódel, en í ályktun sem samþykkt var á þinginu segir m.a.:

„42. þing Alþýðusambands Íslands bendir á þá staðreynd að grunnur að nýju íslensku samningalíkani verður ekki unninn við núverandi aðstæður. Til þess þarf lengri tíma og dýpri umræður. Eigi að breyta og bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga þurfa að vera til staðar forsendur sem hægt er að vinna út frá.“

Á þinginu var mikið rætt um að traust þyrfti að ríkja á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði í sínum ræðum að mikilvægt væri að forysta ASÍ myndi byrja á því að skapa sér og ávinna sér traust innbyrðis, með öðrum orðum við sín aðildarfélög og félagsmenn.

Formaður VLFA spurði á þinginu hvort það væri til þess fallið að skapa traust gagnvart aðildarfélögunum og grasrótinni í umræðunni um nýtt vinnumarkaðsmódel að leggja fram gögn þar sem borinn er saman kaupmáttur á Norðurlöndunum og Íslandi, gögn sem ná aðeins til ársins 2014 og hafa ekki verið uppfærð. Formaður spurði líka hvort það væri traustvekjandi að forysta ASÍ upplýsi ekki að kaupmáttur lægstu launa á Íslandi er helmingi hærri en á hinum Norðurlöndunum, en kaupmáttur lægstu launa var að meðaltali rétt yfir 4% á Íslandi á meðan kaupmáttur á Norðurlöndunum var 1,8%.

Formaðurinn gagnrýndi forystu ASÍ harðlega á þinginu fyrir að hafa ekki uppfært samanburðinn við Norðurlöndin til dagsins í dag enda hafa allar forsendur gjörbreyst frá árinu 2014. Nefndi formaður sem dæmi að gengi Evrunnar gagnvar íslensku krónunnihafi lækkað um 21,58%. Gengi norsku krónunnar hefur lækkað um 26,52% og gengi Bandaríkjadollars hefur lækkað um 1,45% gagnvart íslensku krónunni. Þessi breyting á genginu og sú staðreynd að laun á Íslandi hafa hækkað mun meira en á hinum Norðurlöndunum hafa gjörbreytt öllum alþjóðlegum launasamanburði en forysta ASÍ sá enga ástæðu til að upplýsa þingfulltrúa um þessar staðreyndir, sem er gjörsamlega óskiljanlegt.

Það er rétt að vekja athygli á að Samtök atvinnulífsins fjölluðu um þessa breyttu stöðu í frétt á heimasíðu SA 22. október 2015 en þar segir m.a. orðrétt: „Auk mikilla breytinga á gengi gjaldmiðla hafa laun á Íslandi hækkað mun meira en í öðrum ríkjum. Þessar breytingar gerbreyta alþjóðlegum samanburði á launakjörum.“

Formaður Verkalýðsfélags Akraness gangrýndi forystu ASÍ harðlega í ræðum sínum á þinginu fyrir að upplýsa ekki þing ASÍ um þessa breyttu stöðu en ítrekaði samt að allur samanburður í prósentum væri afar blekkjandi. Það er hins vegar rétt að geta þess að forysta ASÍ hefur ítrekað sagt að það skipti ekki máli hversu margar krónur launafólk fær í launaumslagið heldur sé það aukning á kaupmætti sem skipti öllu máli. Formaður VLFA blés á þessi rök og sagði í ræðum sínum að verkafólk færi ekki útí búð og verslaði með prósentum heldur krónum. En ef forysta ASÍ vill halda sig við kaupmáttaraukningarsamanburð þá er ljóst að kaupmáttur lægstu launa á Íslandi er helmingi hærri en á hinum Norðurlöndunum frá árinu 2000.

Formaður fór yfir það á þinginu að það væri með ólíkindum að forysta ASÍ vilji innleiða hér nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd, enda eru öll módelin á Norðurlöndunum þannig innbyggð að þau skerða og takmarka frjálsan samningsrétt launafólks. Það er bláköld staðreynd sem enginn sem hefur kynnt sér þessi vinnumarkaðsmódel á Norðurlöndunum getur þrætt fyrir. Það liggur líka fyrir að öll vinnumarkaðsmódelin á Norðurlöndunum byggjast á því að samið sé um afar hóflegar launbreytingar og hafa aðilar Salek samkomulagsins nefnt að meðaltals launahækkanir á Norðurlöndum hafi verið 3,5% frá árinu 2000. Rétt er líka að vekja athygli á skýrslu sem aðilar Salek hópsins létu Steinar Holden frá Háskólanum í Noregi gera um nýtt íslenskt vinnumarkaðsmódel en í þeirri 28 blaðsíðna skýrslu koma orðin „hóflegar launahækkanir“ fram 19 sinnum.

Formaður fór yfir það á þinginu að ef verkalýðshreyfingin hefði tekið upp nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd og samið með sama hætti og gert var á Norðurlöndunum frá árinu 2000 þá væri lægsti launataxti verkafólks 124.089 krónur en ekki 244.517 krónur á mánuði eins og hann er í dag. Formaður benti einnig á að launataxti iðnaðarmanna væri einungis 189.005 krónur ef samið hefði verið að meðaltali um 3,5% frá árinu 2000 eins og gert var á Norðurlöndunum.

Nú hafa launahækkanir kjararáðs verið mikið til umræðu síðustu daga og hefur Verkalýðsfélag Akraness bent á að ef þingmenn hefðu tekið sömu launahækkun og um hefur verið samið á hinum Norðurlöndunum frá árinu 2000 að meðaltali 3,5% þá væri þingfararkaupið í dag einungis 526.872 krónur á mánuði en ekki 1.101.194 krónur. Formaður spyr, vita þingmenn þetta? Það er ljóst að ef nýtt vinnumarkaðsmódel hefði verið tekið upp hér á landi að norrænni fyrirmynd árið 2000 þá væru laun á Íslandi um helmingi lægri en þau eru í dag og eru þau þó lág fyrir.

Á þinginu spurði formaður að því á hvaða vegferð æðsta forysta ASÍ væri í ljósi þess að þetta módel byggist á því að semja ætíð um afar hóflegar launahækkanir og það á sama tíma og lægstu laun duga ekki fyrir framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðneytið hefur gefið út og ekki bara það, lægstu laun duga einungis til 15 júlí ár hvert. Hvað gengur forystunni til að ljá máls á því að beisla möguleika launafólks til að fá aukna hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja, en í gær kom fram að heildarhagnaður íslenskra fyrirtækja nam 327 milljörðum í fyrra og á árinu 2014 voru 215 milljarðar greiddir í arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja á meðan kostnaður vegna launahækkana nam einungis 35 milljörðum.

Formaður fór líka yfir það að launahækkunum launafólks er ekki um að kenna að hér hefur því miður ríkt óstöðugleiki og töluverð verðbólga á liðnum áratugum. Formaður benti á að húsnæðisbóla á fasteignamarkaði hefur knúið verðbólguna áfram sem nemur um 50% verðbólgunnar og öll gögn sýna að það á bæði við fyrir hrun og eftir hrun. Allt tal um að óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi sé íslensku launafólki að kenna stenst ekki nokkra skoðun og því er það grátlegt að forysta ASÍ skuli taka undir hræðsluáróður Seðlabankans, stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins að launahækkanir launafólks séu aðalorsakavaldur óstöðugleika og annarrar óáran sem veldur efnahagslegum óstöðugleika. Formaður benti á að árið 2014 hafi Samtök atvinnulífsins bent á að þróun fasteignaverðs og verðs á leiguhúsnæði er helsta ógnunin við markmið um verðstöðugleika á Íslandi.

Formaður lagði einnig fram spurningu til þingsins um hvernig ætti að lagfæra lægstu laun á íslenskum vinnumarkaði þannig að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út ef ætíð á að semja um hóflegar launahækkanir eins og nýtt vinnumarkaðsmódel gengur útá. Eða hvernig á að lagfæra kynbundinn launamun eða laun lögreglunnar, kennara, slökkviliðsmanna og annarra hópa sem telja sig hafa setið eftir í launamálum. Málið er að nýtt vinnumarkaðslíkan gerir alls ekki ráð fyrir slíkum leiðréttingum eða lagfæringum, en því miður er almennt launafólk ekki upplýst um hvað nýtt vinnumarkaðsmódel gengur út á og formanni finnst eins og það sé gert vísvitandi. Slíkt er alveg óskiljanlegt og formaður spurði á þinginu hvaða hagsmuni sé verið að verja með því að taka upp nýtt vinnumarkaðsmódel sem gengur út á skerðingu á samningsfrelsi launafólks þar sem samið verði um hóflegar launahækkanir. Svar við þeirri spurningu hefur formaður ekki enn fengið og mun ugglaust aldrei fá. Það er mikilvægt fyrir allt launafólk að brjóta þessa fyrirætlan um nýtt vinnumarkaðsmódel á bak aftur enda er þetta módel sem menn hafa í hyggju að taka upp alls ekki til hagsbóta fyrir launafólk svo mikið er víst!

31
Oct

Ályktun um að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu VLFA stóð þing Alþýðusambands Íslands yfir dagana 26. til 28. október.  Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð látið til sín taka á þessum þingum enda eru þing ASÍ æðsta vald innan verkalýðshreyfingarinnar og þar eru stefna í hinum ýmsu málum mótuð.  Á þessu þingi var engin undartekning á og lagði VLFA fram tvær ályktanir. Önnur laut að samningsfrelsi stéttarfélaganna en hin laut að því að skorað var á stjórnvöld og Alþingi að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar.  

Það er skemmst að segja frá því að þessi tillaga okkar var samþykkt með öllum greiddum atkvæða. Formaður Verkalýðsfélags Akraness skal fúslega viðurkenna að hann var afar ánægður með að hafa fengið þessa tillögu samþykkta enda morgunljóst að hér er um gríðarlega hagsmuni fyrir íslensk heimili um að ræða og nægir að nefna í því samhengi að 12 mánaða verðbólgan í dag er 1,8% en án húsnæðisliðar er hún neikvæð um 0,5%.

Til að sýna fram á hversu miklir hagsmunir eru hér í húfi fyrir heimilin og íslenska neytendur þá eru verðtryggðar skuldir heimilanna um 2000 milljarðar og hækkun á neysluvísitölunni upp á 1,8% hefur leitt til þess að skuldir heimilanna hafa hækkað um 36 milljarða á síðustu 12 mánuðum. Ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inn í neysluvísitölunni til reikningar á verðtryggðum skuldum heimilanna þá hefðu þær lækkað um 10 milljarða! Hér er mismunur uppá 46 milljarða heimilunum í óhag!!!

Á þessu sést hversu mikið hagsmunamál er hér á ferðinni fyrir íslenska neytendur og núna er ekkert annað en í stöðunni en að stjórnvöld og Alþingi hlusti á kröfu þings ASÍ og taki húsnæðisliðinn út úr mælingunni hvað verðtryggðar skuldir heimilanna varðar og það strax eftir kosningar. Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgja þessari áskorun frá þingi ASÍ fast eftir!

Tillaga sem samþykkt var á þingi ASÍ hljóðaði með eftirfarandi hætti: „42. þing Alþýðusambands Íslands skorar á stjórnvöld og Alþingi að vísitala til neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð út án húsnæðisliðar.“

31
Oct

Formaður fundar með félagsmönnum innan Elkem

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fundaði á þriðjudaginn síðastliðinn með félagsmönnum VLFA sem starfa hjá Elkem Ísland. Tilefnið var kjarasamningur þeirra sem rennur út í janúar á næsta ári. Farið var yfir hugmyndir að kröfugerð, SALEK samkomulagið og fleira. Fínar og gagnlegar umræður sköpuðust á milli starfsmanna Elkems og formanni en tveir fundir voru haldnir þann daginn.

24
Oct

Kvennafrídagurinn- skrifstofa VLFA lokar klukkan 14:00

Í dag 24. október verður skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness lokað klukkan 14:00 í tilefni af kvennafrídeginum.  Eins og allir vita Þá er kvennafrídagurinn – dagurinn þar sem konur meta árangur jafnréttisbaráttunnar og brýna sig til frekari baráttu. Kynbundinn launamunur á vinnumarkaði er því miður bláköld staðreynd og er samfélagslegt mein sem verður að vinna bug á.

Það liggur fyrir að meðal atvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Verkalýðsfélags Akraness hvetur konur til að taka þátt í því að ganga út á slaginu 14:38 og sækja útifundi og viðburði um allt land í tilefni dagsins. Íslenskar konur hafa vakið verðskuldaða athygli um allan heim vegna baráttugleði og skilyrðislausrar kröfu um jafnrétti en baráttunni en hvergi nærri lokið. Stöndum saman og útrýmum birtingamyndum misréttis!

17
Oct

VLFA leggur fram ályktanir fyrir þing ASÍ

Eftir rétt rúma viku eða nánar til getið 26. október hefst 42. þing Alþýðusambands Íslands og stendur þingið yfir í 3 daga. Rétt er að geta þess að þing Alþýðusambandsins eru æðsta vald í málefnum sambandsins, en þau eru haldin á tveggja ára fresti. Hvert aðildarfélag hefur rétt á að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing sambandsins og á þingin mæta þrjú hundruð fulltrúar launafólks af öllu landinu til að móta heildarsamtökunum stefnu og starfsáætlun og velja þeim forystu. Verkalýðsfélag Akraness  á 8 þingfulltrúa á þinginu í ár.

Verkalýðsfélag Akraness tekur ætíð virkan þátt á þingum ASÍ og það gerir félagið með því að taka þátt í umræðum og koma þeim sjónarmiðum sem félagið telur að séu til hagsbóta fyrir félagsmenn vel á framfæri.

Þessu til viðbótar leggur VLFA ætíð lagt fram ályktanir til afgreiðslu á þingum ASÍ og það eru fá félög innan ASÍ sem hafa lagt fram fleiri ályktanir en Verkalýðsfélag Akraness á síðastliðnum þingum. Þetta gerir VLFA í ljósi þess að þing ASÍ eru æðsta vald í málefnum sambandsins og það er þingið sem mótar stefnu heildarsamtakanna í hinum ýmsu hagsmunamálum er lúta að félagsmönnum. Á þeirri forsendu er mikilvægt að stéttarfélögin séu virk í að leggja fram tillögur og ályktanir sem félögin telja að séu til hagsbóta fyrir sína félagsmenn.

Á liðnum þingum hefur VLFA lagt fram margar tillögur og ályktanir og nægir að nefna tillögu um að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum verði kosnir af öllum sjóðsfélögum og atvinnurekendur fari úr stjórnum sjóðanna, að forseti ASÍ sé kosinn í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna ASÍ en ekki inná lokuðum þingum ASÍ einnig hefur VLFA lagt fram ályktun um að ASÍ vilji að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin og sett verði þak á óverðtryggða vexti.

Á komandi þingi mun Verkalýðsfélag Akraness leggja fram tvær ályktanir. Önnur lýtur að nýju samningalíkani þar sem allt bendir til að mikilvægasti réttur launafólks verði skertur gróflega, en að sjálfsögðu er hér verið að tala um samningsréttinn. Síðari ályktunin lýtur að því að ASÍ beiti sér fyrir því að húsnæðisliðurinn verði tekin út úr mælingu neysluvísitölunnar enda hefur sá liður knúið verðbólguna áfram bæði fyrir og eftir hrun. Þetta er afar mikilvægt í ljósi þess að nánast allar fjárskuldbindingar heimilanna eru tengdar við umrædda neysluvísitölu.

Það er ljóst að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness munu berjast fyrir því að þessar ályktanir fái brautargengi á þinginu enda eru miklir hagsmunir undir í báðum þessum málum en eins og allt launafólk veit þá er samningsréttur launafólks hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á Íslandi og hann má ekki skerða undir nokkrum kringumstæðum. 

Hægt er að skoða ályktanir Verkalýðsfélags Akraness með því að smella hér og hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image