• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Feb

Á þriðja tug milljóna greiddar vegna verkfalls sjómanna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni og flestir landsmenn vita þá lauk rúmlega 10 vikna verkfalli sjómanna sunnudaginn 19. febrúar síðastliðinn.

Þessi kjaradeila sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi er ein erfiðasta kjaradeila sem háð hefur verið á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugina eða svo, enda liggur t.d. fyrir núna að þessi deila er sú lengsta í 37 ára sögu ríkissáttasemjara.

Eitt af hlutverkum stéttarfélaga þegar það á í erfiðum vinnudeilum við atvinnurekendur sem leiða tilverkfalls er að standa þétt við bakið á sínum félagsmönnum og koma þá verkfallsjóðir félaganna til sögunnar.

Það skiptir því miklu máli að stéttarfélögin séu fjárhagslega sterk og með góða og öfluga verkfallssjóði þegar farið er í erfiðar vinnudeilur við atvinnurekendur. Sem betur fer stendur Verkalýðsfélag Akraness vel fjárhagslega og gat því stutt sína félagsmenn sem tilheyrðu sjómannadeild félagsins allan tímann sem verkfallið stóð.

Verkfallsbætur voru greiddar út hálfsmánaðarlega og síðast þann 15. febrúar. Á morgun fer fram lokauppgjör til þeirra sjómanna sem áttu rétt á verkfallsstyrk frá félaginu en þá verða greiddir út síðustu dagar verkfallsins. Í heildina greiddi verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness á þriðja tug milljóna úr verkfallssjóðnum.

Formaður vill koma á framfæri þakklæti fyrir hönd stjórnar félagsins til sjómanna fyrir samstöðuna og stuðninginn í þessari erfiðu kjaradeilu, en baráttunni fyrir bættum réttindum og kjörum sjómanna og launafólks lýkur aldrei.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image