• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Oct

Fundur í Háskólabíói - Guð blessi heimilin

Síðastliðinn laugardag stóðu Verkalýðsfélag Akraness og VR fyrir opnum fundi í Háskólabíói sem bar yfirskriftina "Guð blessi heimilin -  okurvextir og verðtrygging, mesta böl þjóðarinnar". Framsögu á fundinum höfðu Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Ólafur Margeirsson doktor í hagfræði, Ásta Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Auk þess var fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis boðið að senda fulltrúa á fundinn til að kynna hvað þeirra flokkur ætlar að gera varðandi okurvextina og verðtrygginguna á lánum heimilanna.

Í sinni framsögu gagnrýndi Vilhjálmur, formaður VLFA, harðlega Seðlabankann og stjórnvöld og hvatti þau til að vera á tánum en ekki á hnjánum gagnvart fjármagnseigendum þegar kemur að því að verja heimili landsins gegn okurvöxtum og verðtryggingu. Hann benti meðal annars á það að verðtryggðir vextir á Íslandi eru hærri en óverðtryggðir vextir í löndunum í kringum okkur.

Einnig sagði Vilhjálmur að í raun ætti Seðlabankinn að vera fremstur í flokki í baráttunni fyrir afnámi verðtryggingar því þegar ókostir verðtrygginar á neytendalánum eru skoðaðir kemur í ljós að hún leiðir af sér aukið pen­inga­magn í um­ferð og verðbólguþrýst­ing, gengur gegn eðli­leg­um lög­mál­um og var­færni í lán­töku, hvet­ur til of mik­ill­ar skuld­setn­ing­ar og dreg­ur úr virkni pen­inga­mála­stefnu Seðlabank­ans.

Glærur Vilhjálms má skoða með því að smella hér.

Glærur Ólafs Margeirssonar má skoða með því að smella hér.

Fundinum var streymt beint á netinu og er hægt að hlusta og horfa hér.

25
Sep

Trúnaðarmannanámskeið haldið 21. og 22. september

Dagana 21. og 22. september fór fram námskeið fyrir trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness. Þátttaka var góð en námskeiðið sátu 13 trúnaðarmenn félagsins. Um var að ræða annað þrep þessa náms en trúnaðarmenn þurfa ekki að taka þrepin í ákveðinni röð og því voru sumir trúnaðarmennirnir að koma á sitt fyrsta námskeið en aðrir eru reyndari og hafa setið nokkur trúnaðarmannanámskeið. Trúnaðarmönnum er heimilt að sækja námskeið í eina viku á ári án skerðingar á launum. Markmið slíkra námskeiða er að styrkja og efla trúnaðarmenn í sínum störfum en það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um skipulagningu og kennslu á slíkum námskeiðum.

Á fyrri degi námskeiðsins var fjallað um lestur launaseðla þar sem meðal annars var farið yfir helstu reiknitölur launaútreiknings, útreikning á staðgreiðslu og iðgjöldum og hvernig launaseðlar eru uppbyggðir frá grunni. Seinni dagurinn hófst á því að formaður félagsins fór yfir starfsemi Verkalýðsfélags Akraness, kjarasamninga þess og sjóði. Eftir hádegi var svo fjallað um einelti á vinnustað og meðal annars farið yfir birtingarmyndir þess og viðbrögð við einelti. Námskeiðið heppnaðist vel og hér má sjá myndir frá því.  

 

20
Sep

Stjórnarkjör 2017

Samkvæmt 29. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2017, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 5. október nk. Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar. Listann er hægt að skoða með því að smella hér.

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

14
Sep

Taka þarf upp þrepaskiptan persónuafslátt

Formaður var í viðtali í þættinum Ísland í bítið í gær en til umræðu var fjárlagafrumvarpið og hvaða áhrif það hefur á þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.  Fram kom í máli formanns að það sé með öllu ólíðandi sú aukna skattbyrði sem fólk sem tekur laun eftir lágmarkslaunum hefur þurft að þola á undanförnum árum og áratugum.

Fram kom í máli formanns að skoða verði gaumgæfilega þann möguleika að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt þannig að ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu og millitekjufólks aukist.  Allavega er full ástæða til að skoða hvort eðlilegt sé að einstaklingar með lægstu og millitekjur séu með sama persónuafslátt og hátekjufólk.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að gera verði breytingar á skattkerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur milli- og lágtekjufólks. Þrepaskiptur persónuafsláttur getur svo sannarlega verið góð leið til þess enda má alveg láta persónuafsláttinn fjara út þegar launafólk hefur náð t.d. 2 milljóna króna launum á mánuði. Þann ávinning og sparnað má síðan nota til að hækka persónuafslátt hjá milli-og lágtekjufólki. Það er ólíðandi að launafólki sem er t.d. á lágmarkslaunum upp á 280.000 á mánuði sé gert að greiða yfir 46 þúsund á mánuði í skatt og það verður að vera forgangsverkefni hjá verkalýðshreyfingunni að berjast fyrir því að lágmarkslaun verði skattlaus.

Einnig nefndi formaður í þessu tiltekna viðtali að mikilvægt væri að breyta skattkerfinu þannig að ofurbónusar og kaupaukar verði skattlagðir með sérstökum hátekjuskatti.

Það er mat formanns að einn liður í komandi kjaraviðræðum á næsta ári sé að lagfæra persónuafsláttinn hjá milli-og lágtekjufólki enda morgunljóst að hækkun persónuafsláttar t.d. með því að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt myndi klárlega liðka vel fyrir því að hægt væri að ná sátt á íslenskum vinnumarkaði hvað þessa hópa varðar.

Það verður fróðlegt að sjá og heyra hvort forsætisráðherra og fjármálaráðherra verði tilbúnir til að skoða t.d. þessar leiðir til að auka ráðstöfunartekjur milli-og lágtekjufólks á kostnað hátekjufólks, en eins og áður sagði getur þrepaskiptur persónuafsláttur verið einn liður í að koma á sátt á vinnumarkaði en fleira þarf klárlega að koma til af hálfu stjórnvalda eins og veruleg lækkun á húsnæðisvöxtum til almennings. 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélag Akraness mun fara yfir þessar hugmyndir um að gerð verði krafa um að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt á næsta fundi sínum.

08
Sep

VLFA hefur innheimt yfir hálfan milljarð fyrir félagsmenn frá árinu 2003

Það er óhætt að segja að nóg hafi verið að gera við að verja réttindi félagsmanna þessari viku en í heildina hefur þessi réttindavarsla skilað sjö félagsmönnum sem um ræðir yfir einni milljón króna.

Málin eru margvísleg en eitt málið laut að því að félagsmanni var ekki greiddur uppsagnafrestur eins og kjarasamningar kveða á um. Annað málið laut að því að leiðrétta þurfti laun vegna vinnu í matartímum og einnig var þar leiðrétting vegna aksturs í þágu vinnuveitenda. Þriðja málið laut að leiðréttingu á greiðslu fyrir aðalhreingerningar og fjórða málið laut að því að það vantaði yfirvinnutíma hjá þremur starfsmönnum fimm mánuði aftur í tímann.

Það liggur fyrir að ef minnsti vafi er á að fyrirtæki séu ekki að uppfylla ákvæði kjarasamninga gagnvart félagsmönnum þá fer félagið af fullri einurð í slík mál. En jákvæð niðurstaða fékkst í öll þessi mál eftir að félagið hafði farið yfir þau með þeim aðilum sem þau tengdust og kom því ekki til kasta þess að vísa þessum málum til lögmanns félagsins.

Rétt er að geta þess að frá nóvember 2003 hefur Verkalýðsfélag Akranes náð að verja réttindi sinna félagsmanna um sem nemur um 540 milljónum og takið eftir, yfir hálfan milljarð króna. En þetta eru allt mál þar sem félagið hefur þurft að hafa aðkomu, bæði með aðstoð lögmanna félagsins sem og mál sem unnist hafa fyrir dómstólum.

Það er mat formanns að það skiptir gríðarlegu máli fyrir félagsmenn að hafa öflug stéttarfélög til að verja sín réttindi ef þeir telja að verið sé að brjóta á þeim enda er leikurinn á milli launamannsins og atvinnurekandans afar ójafn og því gott að geta leitað til síns stéttarfélags.

07
Sep

Trúnaðarmannanámskeið dagana 21.-22. september

Dagana 21. til 22. september verður haldið námskeið fyrir trúnaðarmenn félagsins. Um er að ræða Trúnaðarmannanámskeið I, 2. þrep, en efni námskeiðsins er: lestur launaseðla, kynning á kjarasamningum, sjóðum og starfsemi félagsins svo og fræðsla um einelti á vinnustað. Skráning stendur yfir og enn eru laus pláss. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um skipulagningu og kennslu á námskeiðinu.

Samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmönnum heimilt að sækja námskeið í eina viku á ári án skerðingar á launum. Markmið slíkra námskeiða er að styrkja og efla trúnaðarmenn í sínum störfum.

Trúnaðarmenn eru hvattir til að skrá sig sem fyrst. Vanti trúnaðarmann á vinnustaðinn þinn og viljir þú koma á kosningu veitir starfsfólk skrifstofu VLFA fúslega aðstoð við framkvæmdina. Athygli er vakin á því að eftir kosningu trúnaðarmanns þarf að tilkynna um kjörið til félagsins þar sem félagið þarf að tilnefna nýjan trúnaðarmann formlega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image