• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Nov

Forseti ASÍ segir að allir forstjórar sem séu núna á eftirlaunum fái fullar bætur frá Tryggingastofnun!

Eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni  sjá hér og hér þá hefur Verkalýðsfélag Akraness gagnrýnt forystu ASÍ harðlega hvernig hún hefur fótum troðið kjarasamningsbundinn rétt launafólks er lýtur að ráðstöfun á svokallaðri bundinni séreign sem um var samið í kjarasamningum í janúar 2016. Nægir að nefna í því samhengi að Fjármálaeftirlitið hefur í þrígang þurft að benda forystu ASÍ á að þeirra tilmæli til lífeyrissjóðanna standist ekki lagastoð sjá hér og hér

Vegna þessarar gagnrýni frá Verkalýðsfélagi Akraness var formanni Verkalýðsfélags Akraness og forseta ASÍ  boðið að koma í þáttinn Reykjavík síðdegis á síðasta fimmtudag til að fjalla um þennan ágreining.

Í þessu viðtali þá rakti formaður söguna um aukið framlag sem samið var um í kjarasamningunum 2016 og þau alvarlegu atriði sem VLFA hefur gert athugasemdir við hvað varðar tilburði forystu ASÍ til að vinna gegn hagsmunum félagsmanna ASÍ.

Eitt af því sem VLFA hefur gagnrýnt harðlega er að hugmyndir eru uppi um að þessi tilgreinda séreign muni skerða bætur almannatrygginga. En formaður gagnrýndi þann þátt sérstaklega enda glórulaust að vera að semja um aukið framlag í lífeyrissjóði ef það leiðir til skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun enda eru allir vitibornir menn sammála um mikilvægi þess að draga úr öllum tekjutengingum hvað varðar greiðslur frá Tryggingastofnun. Það er mat flestra að þessar tekjutengingar séu á góðri leið með að eyðileggja lífeyriskerfið enda lítill ávinningur sem launafólk hefur þegar nánast allar greiðslur frá Tryggingastofnun eru dregnar frá vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum. Því hefur VLFA sagt það óskiljanlegt að forysta ASÍ sé að vinna að því að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf hvað greiðslur frá Tryggingastofnun varðar.

Á hverju byggir Verkalýðsfélag Akraness það að hugmyndir séu uppi um að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf? Halda menn virkilega að VLFA sé bara að búa slíkt til? Að sjálfsögðu ekki enda var það tilkynnt á auka aðalfundi Festu lífeyrissjóðs að þessi tilgreinda séreign yrði skerðingarhæf og á þessum auka aðalfundi var Halldór Benjamín framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og í samtali formanns VLFA við hann kom fram að vilji SA og ASÍ væri sá að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf.

Þessar hugmyndir um skerðingu á greiðslum frá Tryggingastofnun voru líka ræddar á þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var í október og þar voru þessar hugmyndir líka staðfestar.

Það var því með ólíkindum að hlusta á óheiðarleika forseta ASÍ í þessum umrædda þætti þar sem hann þrætti eins og sprúttsali fyrir það að einhverjar slíkar tillögur væru á teikniborðinu. Það er sorglegt að maður sem á að vera æðsti maður íslenskrar verkalýðshreyfingar vílar ekki fyrir sér að segja þjóðinni og sínum félagsmönnum ósatt. Það eru vinnubrögð sem engum eru sæmandi og allra síst forseta ASÍ.

En orðrétt sagði forseti ASÍ um hvort tilgreind séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingarstofnun:

„Það eru engar tillögur um það hvorki í ákvörðun miðstjórnar né í samningi þeim sem við gerðum né í því frumvarpi sem var til vinnslu. Þannig að ég veit ekki alveg hvaðan þú tekur þetta. Það eru engar tillögur á borðinu svo ég viti.“

Þetta svar er ótrúlegt og virkilega óheiðarlegt í ljósi þess sem hér að ofan hefur verið rakið m.a. var það kynnt eins og áður sagði að þessi tilgreinda séreign yrði skerðingarhæf á auka aðalfundi Festu lífeyrissjóðs og nú kannast forseti ASÍ ekki við eitt né neitt.

Þetta var alls ekki það eina sem vakti athygli sem forseti ASÍ sagði í þessu viðtali en hann sagði að allir forstjórar landsins sem væru komnir á eftirlaun fengju fullar bætur frá Tryggingastofnun vegna þess að þeir hefðu tekið allan lífeyri sinn út í séreign. Hér er mjög alvarleg ásökun sem forseti ASÍ slengir fram og 99,9% líkur á að þetta standist ekki nokkra skoðun en sé sagt í þeim tilgangi að reyna að afvegaleiða umræðuna frá því að til standi að skerða tilgreindu séreignina.

Það er algjör skylda fréttamanna að krefja forseta ASÍ skýringa á þessari ásökun um að allir forstjórar landsins sem eru komnir á eftirlaun séu að fá fullar bætur frá Tryggingastofnun á meðan almenningur fær skerðingu á sínar greiðslur eins og forseti ASÍ sagði orðrétt í þessu viðtali.

En orðrétt sagði forseti ASÍ um að forstjórar landsins væru að fá fullar bætur frá Tryggingarstofnun:

„Það er mjög sérstakt að eftir að tekin var ákvörðun um það á Alþingi að séreign skerti ekki bætur frá almannatryggingum, þegar allir forstjórar landsins greiddu í séreignasjóði áður en lögin komu til þeir sem eru núna komnir á eftirlaun í gegnum sína séreignasjóði fá núna fullar bætur frá Tryggingastofnun á meðan félagsmenn okkar Vilhjálms þurfa að þola þessa skerðingu. Við höfum sagt við Alþingi að það sé mjög skrýtin jafnræðisregla að sumir fái bætur almannatrygginga óskertar en almenningur ekki.“

Að hugsa sér að í þessu viðtali segir forseti ASÍ að allir forstjórar séu að fá fullar bætur vegna þess að þeir hafi notið þess að greiða sér bara frjálsa séreign sem ekki skerðir bætur frá Tryggingastofnun. Þetta eru stórtíðindi sem bæði forstjórar landsins sem og Samtök atvinnulífsins verða að svara. Er það rétt hjá forseta ASÍ að allir forstjórar sem eru komnir á eftirlaun séu að fá fullar greiðslur frá Tryggingastofnun á sama tíma og almenningur þarf að þola krónu á móti krónu skerðingar frá Tryggingarstofnun?

Þessu verðum við að fá svör við því það gengur ekki upp að forseti ASÍ geti komið og skellt svona fram og það er grafalvarlegt ef hann er að gera þetta til að afvegaleiða umræðuna sem lýtur að því að gera eigi tilgreindu séreignina skerðingarhæfa eins og tilkynnt hefur verið t.d. á auka aðalfundi Festu lífeyrissjóðs.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image