• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Jun

Laun sjómanna lækkað um 50% á tveimur árum!

Það er skuggalegt að skoða þróun á launum sjómanna frá árinu 2015 og svo launin 2017 en það er óhætt að segja að þau séu nánast í frjálsu falli vegna lækkunar á fiskverði í íslenskum krónum. Þessu til viðbótar er rétt að vekja athygli á því að sumar fiskitegundir hafa einnig lækkað í erlendri mynt og nægir að nefna að karfaverð hefur lækkað um 45% sem helst má rekja til lokunar á Rússlandsmarkaði.

Formaður hefur skoðað hvaða áhrif þessi gengisstyrking og lækkun á fiskverði hefur haft á afkomu skipverja á Helgu Maríu AK og Ásbirni RE miðað við aflamagn þessara skipa árið 2016, en tekjufallið er gríðarlegt og nemur 5 til 6 milljónum á ársgrundvelli miðað við 192 róðrardaga eða sem nemur um 50%.

Þetta sést vel á samanburði á fiskverði í maí 2015 og maí 2017 miðað við aflamagn ársins 2016, en þá kemur í ljós að aflaverðmætið t.d. hjá Helgu Maríu lækkar úr 1,3 milljörðum í 855 milljónir eða um rúmlega 425 milljónir, en hér er lækkun á aflaverðmæti sem nemur um 50%.

Það er ljóst að margar hliðar eru á gríðarlegri gengisstyrkingu krónunnar og lækkunar á fiskverði og ein hliðin er sú að laun sjómanna hafa lækkað um sem nemur allt að 50% á einungis tveimur árum. Það má ekki heldur gleyma því að þetta tekjufall sjómanna hefur síðan áhrif á skatttekjur ríkis og sveitarfélaga sem og á verslun og þjónustu í þeim sveitafélögum þar sem sjávarútvegur er ríkur þáttur í atvinnusköpun.

Það er ljóst að sjómannadagurinn verður haldinn í skugga gríðarlegs tekjufalls íslenskra sjómanna vegna mikillar styrkingar á krónunni og lækkunar á afurðaverði og núna er sú staða að koma upp að erfiðlega getur gengið að manna íslenska skipaflotann ef ekki fer að verða breyting á gengi krónunnar og hækkun á fiskverði.

Það er morgunljóst að við sem þjóð verðum að passa okkur á að skapa ekki þannig forsendur að okkar helstu útflutningsgreinum verði stefnt í mikið rekstraróöryggi því ef það gerist þá munum við sem þjóð öll tapa.

Nú verða stjórnvöld að bregðast við og það geta þau gert m.a. með því að koma vitinu fyrir fulltrúa Seðlabankans með því að lækka vexti og síðan verða stjórnvöld að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingar heimilanna. Íslensk heimili vita hvað gerist ef gengið fellur en þá er ljóst að íslensk heimili munu verða fyrir miklum búsifjum þar sem verðtryggðar skuldir heimilanna geta stökkbreyst á skömmum tíma.

Á þessu sést að hér er við gríðarlegan vanda að etja en það er morgunljóst að ekki er hægt að ógna okkar helstu útflutningsgreinum með linnulausri styrkingu krónunnar því á endanum mun það koma illa í bakið á okkur almenningi og þá sögu þekkjum við vel.

06
Jun

Sérkjarasamningur starfsmanna í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi samþykktur

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir sérkjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi þann 31. maí sl. Kynningu og kosningu um sérkjarasamninginn er nú lokið og er skemmst frá því að segja að samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Samninginn má lesa hér..

Það verður því ekki annað séð en að starfsmenn séu bara nokkuð sáttir með samninginn en hann gefur starfsmönnum rétt tæp 11% launahækkun sem gildir afturvirkt frá 1. mars síðastliðnum, en laun starfsmanna eru að hækka um rétt tæpar 50.000 krónur á mánuði.  

01
Jun

Skrifað undir kjarasamning vegna fiskimjölsverksmiðjunnar

Það er óhætt að segja að nóg hafi verið að gera í kjarasamningsgerð hjá Verkalýðsfélagi Akraness á liðnum vikum, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá gekk félagið frá nýjum kjarasamningi við Elkem Ísland þann 12. maí síðastliðinn og í gær skrifaði félagið undir nýjan sérkjarasamning milli Verkalýðsfélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsmanna í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi.

Þessi samningur gildir afturvirkt frá 1. mars 2017 til 15. maí 2019, en samningurinn er að gefa starfsmönnum við undirritun rétt rúm 10% launahækkun með öllu og eru flestir starfsmenn að hækka í launum sem nemur rúmum 43 þúsund krónum á mánuði. Allir starfsmenn fiskimjölsverksmiðjunnar eru með svokallað SF-námskeið og viðbótarnámskeið sem þýðir að starfsmaður með 7 ára starfsreynslu verður með 365.141 krónu á mánuði í grunnlaun og ofaná þau laun leggjast síðan vaktaálög sem voru hækkuð úr 30% í 36%. Einnig fá starfsmenn svokallaðan vaktabónus þannig að heildarlaun starfsmanns með SF-námskeið verða rétt tæp 500 þúsund fyrir 173 tíma á mánuði.

Á morgun mun formaður kynna nýjan kjarasamning fyrir starfsmönnum og að aflokinni kynningu verður kosið um samninginn.

19
May

71% sögðu já við nýjum kjarasamningi Elkem Ísland

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður nýr kjarasamningur fyrir starsfmenn Elkem á Grundartanga þann 12. maí síðastliðinn og rétt í þessu lauk talningu á atkvæðum úr kosningu um samninginn. Var samningurinn samþykktur með miklum meirihluta en tæplega 71% sem greiddu atkvæði sögðu já og 29% sögðu nei.

Á þessu sést að mikil ánægja var með nýgerðan kjarasamning enda voru fjölmörg atriði í samningnum til mikilla hagsbóta fyrir starfsmenn enda er hann að skila til dæmis ofngæslumönnum yfir 9% launahækkun í upphafi ásamt mikilli hækkun á orlofs- og desemberuppbótum og einnig eru launahækkanir á samningstímanum vel tryggðar.  

17
May

Nýr kjarasamningur Elkem kynntur fyrir starfsmönnum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður nýr kjarasamningur fyrir starfsmenn Elkem Ísland á föstudaginn en formaður félagsins var í gær að kynna samninginn fyrir starfsmönnum Elkem. Þessi kjarasamningur er að mati formanns félagsins mjög góður enda er hann í anda þess samnings sem gerður var fyrir starfsmenn Norðuráls. Ofngæslumenn eru til dæmis að hækka um 9% í heildarlaunum á fyrsta ári samningsins. Heildarlaun ofngæslumanns með 10 ára starfsreynslu voru fyrir samninginn fyrir utan desember- og orlofsuppbætur 517.609 kr. en fara upp í 564.988 kr. sem er tæplega 50.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum eða eins og áður sagði 9,15%

Í samningnum var bónuskerfið lagfært en það getur gefið að hámarki 10,5% Samningsaðilar eru sammála um að það eigi að skila starfsmönnum um eða yfir 80% af hámarkinu sem eru 8,4%. Gamla bónuskerfið var ekki að virka sem skyldi en sá bónus gaf 5,6% að meðaltali á síðasta samningstíma. Orlofs- og desemberuppbætur hækka umtalsvert eða úr rúmum 181.000 kr. hvor fyrir sig eða samtals 362.000 kr. í 202.000 kr. eða samtals 404.000 kr. sem þýðir að hækkun orlofs- og desemberuppbóta nemur 11,3% á fyrsta ári. En orlofs- og desemberuppbætur hjá stóriðjunum á Grundartanga eru langtum hærri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Í þessum samningi náðist líka í gegn svokallaður Elkem skóli sem er starfstengt nám sem er tvískipt, annars vegar grunnnám og hinsvegar framhaldsnám og spannar hvort námið fyrir sig 3 annir. Að afloknum skólanum munu starfsmenn fá 5% hækkun fyrir hvort námið fyrir sig eða samtals 10% sem þýðir að þegar starfsmenn hafa lokið bæði grunn- og framhaldsnámi þá mun það skila þeim uppundir 60.000 kr. launahækkun.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. febrúar 2017 en hann gildir til 31. mars 2019 og munu hækkanir í samningnum verða með sambærilegum hætti og gerist hjá Norðuráli á Grundartanga fyrir árið 2018. Ástæða þess að samningurinn gildir bara til 31. mars 2019 er sú að þá rennur raforkusamningur Elkem við Landsvirkjun út og eins og staðan er núna ríkir töluverð óvissa varðandi raforkumál fyrirtækisins þar sem það hefur ekki enn náð samningum við Landsvirkjun. Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að hann hefur verulegar áhyggjur af þeim málum enda hefur okkar atvinnusvæði orðið fyrir nægum áföllum að undanförnu og nægir að nefna í því samhengi uppsagnir uppundir 100 starfsmanna í landvinnslu HB Granda.

En eins og áður sagði er þetta mjög góður samningur en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að samið var á hinum almenna vinnumarkaði um aukið framlag í lífeyrissjóði sem verður komið upp í 3,5% í júlí 2018. Þetta aukaframlag munu starfsmenn Elkem mega nota í sína eigin séreign allt þar til lögum um lífeyrissjóði verður breytt og ef þeim verður breytt. Semsagt, þeir mega ráða hvort þeir setji þetta í samtryggingu síns lífeyrissjóðs eða í séreignina sem þeir eru nú þegar með hver fyrir sig.

Formaður kynnti þennan samning í gær á tveimur fjölmennum fundum og eru starfsmenn nú að kjósa um samninginn. Kosningu lýkur á næsta föstudag kl. 13:30 og mun niðurstaðan liggja fyrir um kl. 14.

12
May

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær. Það er skemmst frá því að segja að atburðir dagsins í gær settu mark sitt á fundinn en öllum starfsmönnum í landvinnslu HB Granda, 86 manns, var sagt upp störfum.

Þrátt fyrir að þetta mál hafi mikið verið rætt á aðalfundinum þá fór formaður að venju yfir skýrslu stjórnar. Kom fram í hans máli að félagið stendur gríðarlega vel, ekki bara fjárhagslega heldur einnig félagslega. Rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins nam 109 milljónum króna en það hefur verið stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu félagsins með einum eða öðrum hætti, til dæmis í formi hækkunar á styrkjum og öðru sem tengist réttindum félagsmanna í félaginu.

Eins og áður sagði var afkoman góð og því var fæðingarstyrkur félagsmanna hækkaður úr 85.000 kr. í 100.000 kr. og ef báðir foreldrarnir eru í félaginu nemur heildarupphæðin 200.000 kr. Einnig var gleraugnastyrkurinn hækkaður úr 40.000 kr. í 45.000 kr. 

Það kom einnig fram að réttindabarátta félagsins og vinna við varðveislu réttinda félagsmanna hefur verið gríðarlega mikil á liðnum misserum. Félagið rekur nú þrjú mál fyrir dómstólum og hefur frá því að núverandi stjórn tók við árið 2003 innheimt yfir 400 milljónir vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota.

Að sjálfsögðu voru málefni líðandi stundar ofarlega í huga fundarmanna eins og áður kom fram og var sú ákvörðun forsvarsmanna HB Granda að hætta hér landvinnslu eftir yfir 100 ára vinnslu á sjávarafurðum fordæmd harðlega. Fram kom í máli formanns að árið 2002 hafi 170.000 tonnum verið landað á Akranesi, 350 manns hafi þá starfað hjá Haraldi Böðvarssyni og fyrirtækið verið langstærsti launagreiðandi á Norðvesturlandi með greiðslur sem námu 2 milljörðum króna. Núna væri öll vinnslan að fara héðan og var það mat fundarmanna að það væri ekki hægt að láta slíkt átölulaust. Því var sett fram áskorun til félagsins um að fordæma þessi vinnubrögð harðlega enda liggur fyrir að þær forsendur fyrir þessu sem HB Granda menn gefa sér virðast ekki standast eina einustu skoðun.

Það kom fram í máli formanns að lega Akraness varðandi fiskimið væri mjög hagstæð þar sem veiðar á uppsjávarafla færu að stórum hluta fram við suðurströndina en þrátt fyrir stutta siglingu til Akraneshafnar tækju forsvarsmenn HB Granda ákvörðun um að sigla hringinn í kringum landið með þær afurðir. Vakti hann einnig athygli á því að eftir að HB Granda var gert skylt að fara með beinabræðsluna úr Norðurgarði í Reykjavík þá hefur fyrirtækið þurft að keyra þúsundum tonna af beinum til bræðslu á Akranesi og nam þessi flutningur um 15.000 tonnum í fyrra. Það er óhætt að segja að frá því sameining HB og Granda átti sér stað árið 2004 hafa allar hagræðingaraðgerðir fyrirtækisins bitnað á okkur Akurnesingum. Hér að neðan má sjá ályktun fundarins varðandi ákvörðun HB Granda.

Ályktun aðalfundar Verkalýðsfélags Akraness vegna ákvörðunar HB Granda

"Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness, haldinn þann 11. maí 2017, fordæmir ákvörðun HB Granda um að ætla sér að hætta landvinnslu á Akranesi og færa störfin til Reykjavíkur. Það er mat fundarins að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi ekki sýnt fram á þá hagræðingu sem slíkar aðgerðir eiga að leiða af sér. Aðalfundurinn skorar á Alþingi Íslendinga að byggðafesta aflaheimildir og standa vörð um dreifða byggð í landinu og trygga atvinnu eins og kveðið er á um í 1. grein laga um stjórn fiskveiða. Fundurinn telur það nöturlegt þegar aðilar sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum hafsins geta tekið ákvörðun um að svipta fólk lífsviðurværi sínu og skilja samfélögin eftir í sárum. Því ítrekar fundurinn áskorun til Alþingis um að tekið verði á þessari meinsemd við stjórnun fiskveiða."  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image