• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Nov

Tillögur ASÍ þýða að lágtekjufólk er skilið eftir!

Mynd frá RUV sem sýnir tillögur ríkisstjórnarinnar í skattabreytingumMynd frá RUV sem sýnir tillögur ríkisstjórnarinnar í skattabreytingumEins og fram kom í fjárlagafrumvarpinu þá hyggst ríkisstjórnin lækka miðþrepið í skattkerfinu úr 25,8% í 25% og er áætlað að kostnaður ríkissjóðs vegna þessara tillagna sé um 5 milljarðar króna. Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness mótmælt harðlega og telur í raun og veru þessar tillögur algjörlega galnar. Ástæðan er einföld, allir sem eru undir kr. 250.000 í mánaðarlaun fá alls enga skattalækkun, heldur gagnast þessi tillaga þeim tekjuhæstu langbest, enda kemur fram að einstaklingur sem er með 800.000 krónur í mánaðarlaun mun fá í skattalækkun á ári kr. 47.808. Á sama tíma fær lágtekjufólkið sem er með tekjur undir kr. 250.000 ekki krónu í skattalækkun. Og einstaklingur með kr. 350.000 í mánaðarlaun skv. tillögum ríkisstjórnarinnar myndi einungis fá 9.000 kr. skattalækkun á ári.

Þessi tillaga er því algjörlega galin og miðast fyrst og fremst að því að hygla þeim tekjuhæstu í íslensku samfélagi og slíkt getur Verkalýðsfélag Akraness aldrei tekið þátt í að styðja. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness hvað fyrirhugaðar skattabreytingar áhrærir hefur verið hvellskýr. VLFA vill að það 5 milljarða svigrúm sem er til skattalækkana verði notað til hækkunar á persónuafslætti, en skv. útreikningum fjármálaráðuneytisins þá liggur fyrir að persónuafslátturinn gæti hækkað um 2.000 kr. á mánuði sem myndi gilda fyrir alla launþega óháð tekjum. Þetta myndi skila öllu launafólki kr. 24.000 í auknar ráðstöfunartekjur á ári, en að sjálfsögðu kemur hækkun persónuafsláttar sér hlutfallslega best fyrir lágtekjufólkið.

 

 

Samantekt VLFA sem sýnir tillögur ASÍ að skattabreytingumSamantekt VLFA sem sýnir tillögur ASÍ að skattabreytingumÞað skal algjörlega viðurkennast að tillögur Alþýðusambands Íslands sem lagðar hafa verið fyrir ríkisstjórn eru formanni VLFA hulin ráðgáta. Enda gera þær ráð fyrir að lágtekjufólk sem er með tekjur undir 250.000 fái enga skattalækkun. Tillögur Alþýðusambandsins miðast við að neðri mörk miðþreps skattakerfisins hækki úr 241.476 upp í kr. 350.000. Þessi tillaga gengur áfram út á það eins og hjá ríkisstjórninni að skilja öryrkja, atvinnulausa og lágtekjufólk sem eru undir 250.000 kr. í tekjur, eftir án nokkurra skattalækkana. Þessi tillaga Alþýðusambandsins þýðir líka það að launamaður sem hefur 350.000 kr. eða meira í mánaðarlaun fær skattalækkun á ári sem nemur rúmum 32.000 kr. En á sama tíma fær lágtekjufólkið sem er með tekjur undir kr. 250.000 ekki krónu í skattalækkun.

Formaður spyr sig á hvaða vegferð ASÍ er að leggja ekki til að persónuafslátturinn hækki því það liggur fyrir að hækkun persónuafsláttar kemur tekjulægstu hópunum í íslensku samfélagi best, hópum sem samkvæmt rannsóknum hafa í sumum tilfellum ekki efni á að sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu sökum lakra kjara.

Það er óskiljanlegt að Alþýðusambandið sem á að berjast fyrir bættum kjörum m.a. þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi skuli ekki hafa lagt til hækkun persónuafsláttar sem hefði tryggt því fólki 24.000 kr. í auknar ráðstöfunartekjur á ári, og eins og áður sagði hefði allt launafólk fengið slíka skattalækkun.

Verkalýðsfélag Akraness mun vinna að því á næstu dögum að vinda ofan af þessu og tryggja frekar að persónuafslátturinn hækki þannig að tryggt verði að allt launafólk, þar með talið öryrkjar, atvinnuleitendur og lágtekjufólk fái einnig skattalækkun eins og aðrir íslenskir launþegar, enda þurfum við að slá skjaldborg utan um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi en það er ljóst að ASÍ er ekki að gæta að hag þessa fólks með þeim tillögum sem þeir haga lagt fyrir ríkisstjórn Íslands. Verkalýðsfélag Akraness skorar á ríkisstjórn Íslands að hækka persónuafsláttinn þannig að allir launþegar fái notið skattaafsláttar en ekki einungis sérútvaldir hópar í íslensku samfélagi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image