• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Aug

Hundrað ára sögu vinnslu á bolfiski HB Granda á Akranesi lýkur í dag!

Eins og margir vita tók stjórn HB Granda ákvörðun um að hætta allri landvinnslu á bolfiski á Akranesi frá og með 1. september en í þessum töluðu orðum eru síðustu fiskarnir að renna eftir flæðilínu HB Granda en áætlað er að hráefnið klárist um eða eftir hádegi.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að sveitarfélag sem hefur í aldanna rás byggt nánast alfarið á vinnslu á sjávarafurðum standi nú í þeim sporum að verið sé að slökkva ljósin hvað varðar vinnslu á bolfiski.

En rétt að geta þess að fyrirtækið Haraldur Böðvarsson var stofnað árið 1906 og allt frá þeim tíma hafa vinnsla og veiðar verið fjöregg okkar Skagamanna og morgunljóst að samfélagið hér á Akranesi væri alls ekki með þeim hætti í dag ef veiðar og vinnsla á sjávarafurðum hefði ekki verið burðarstólpi í okkar afkomu.

En nú eru færiböndin í frystihúsi HB Granda að stoppa og því miður er alls óvíst hvort eða hvenær þau munu snúnast á nýjan leik.

Það er mikilvægt að rifja það upp að útgerðarfyrirtækið Haraldur Böðvarsson var áður en það sameinaðist Granda árið 2004 með 350 manns í vinnu  og greiddi 2 milljarða í laun og á Akranesi var landað um 170 þúsund tonnum.

Það er líka rétt að rifja upp að Akranes var einn af stærstu vertíðarstöðum á landinu þar sem allt snerist um veiðar og vinnslu á sjávarafurðum en núna er nánast allt horfið þökk sé því galna fyrirkomulagi við stjórnun á fiskveiðikerfinu sem við búum við. Enda er það galið og alls ekki líðandi að útgerðarmenn geti einhliða tekið ákvarðanir um að flytja aflaheimildir eða vinnslu sjávarafurða í burtu frá sveitarfélögunum og skilið fiskvinnslufólk og heilu byggðarlögin eftir með blæðandi sár.

Við höfum í gegnum árin og áratugina horft upp á fjölmörg byggðarlög skilin eftir í þvílíkum sárum eftir að útgerðarmenn hafa tekið ákvarðanir um að selja aflaheimildir úr byggðarlögunum. Það er ólíðandi að fyrirkomulag við stjórnun á fiskveiðum geti í raun og veru slegið heilu byggðarlögin fast í kviðinn þannig að þau séu í keng og geti vart rétt úr sér á nýjan leik.

Ég tel fulla ástæðu til að hvetja stjórnvöld til að vera á tánum en ekki hnjánum þegar kemur að því að verja hagsmuni fiskvinnslufólks og tryggja atvinnu vítt og breitt um landið gagnvart þeim sem fara með tímabundinn umráðarétt yfir sjávarauðlindinni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image