• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jul

Fundað með forstjóra HB Granda og starfsmönnum fyrirtækisins

Rétt í þessu lauk fundi formanns Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmanna með forstjóra HB Granda og forsvarsmönnum fyrirtækisins. Í framhaldi af þeim fundi var síðan fundur með öllum starfsmönnum HB Granda.

Tilefni fundarins var að fara yfir stöðuna varðandi þá staðreynd að HB Grandi tók ákvörðun um að hætta allri vinnslu á bolfiski á Akranesi frá og með 1. september næstkomandi. En aðaltilefnið var að fara yfir og kynna hversu mörgum starfsmönnum væri boðin áframhaldandi vinna á Akranesi og í Norðurgarði í Reykjavík. 

En eins og flestir vita var öllu starfsfólki HB Granda í bolfiskvinnslu fyrirtækisins sagt upp störfum 11. maí sl. eða samtals 92 starfsmönnum og því hefur ríkt mjög mikil óvissa hjá starfsmönnum í rúma tvo mánuði um framtíð sína hjá fyrirtækinu. Sumir starfsmannanna hafa starfað í tugi ára fyrir HB Granda.

Á fundinum með forstjóra HB Granda var tilkynnt að flestum hafi verið tryggt áframhaldandi starf hjá HB Granda eða dótturfélögum þess eða samtals 57 starfsmönnum. Allir sem völdu Norðurgarð í Reykjavík fengu starf eða samtals 29 en 28 starfsmenn fá áframhaldandi starf á Akranesi hjá dótturfélögum HB Granda það er að segja hjá Vigni G Jónssyni, Norðurfiski og einnig við sameiginlega þjónustu þ.e. umsjón með tækjum, lóðum og fasteignum fyrirtækisins.

Það kom fram að 21 starfsmaður hefur  farið til annarra vinnuveitenda eða í nám eða jafnvel tekið ákvörðun um að sækja ekki um neinn af þeim valmöguleikum sem í boði voru.

Það er morgunljóst að þetta langa ferli sem leitt hefur til umtalsverðar óvissu starfsmanna hefur tekið verulega á starfsmenn enda aldrei gott þegar launafólk er í óvissu með lífsviðurværi sitt.

Það er rétt að geta þess að þótt 29 manns bjóðist starf í Norðurgarði í Reykjavík er ekki ljóst hversu margir munu þiggja það þegar á hólminn verður komið, enda höfðu starfsmenn 3 valmöguleika þegar þeir sóttu um starf hjá fyrirtækinu. Valmöguleikarnir voru semsagt á Akranesi hjá Vigni G Jónssyni eða hjá Norðanfiski og síðan í Norðurgarði í Reykjavík. Formaður veit að margir höfðu Norðurgarð sem þriðja valmöguleika og því ekki ljóst hvort allir muni á endanum þiggja starfið í Norðurgarði þótt þeir hafi sótt þar um sem þriðja möguleika.

Það er ljóst að þessi ákvörðun HB Granda hefur tekið á alla starfsmenn og reyndar á allt samfélagið hér á Akranesi, enda hefur bolfiskvinnsla verið einn af burðarstólpum í atvinnu okkar Akurnesinga í ein hundrað ár eða svo.  Það er mjög mikilvægt að öll fyrirtæki sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum þjóðarinnar átti sig á þeirri samfélagslegu skyldu sem hvílir á á þeim. Það ömurlegt þegar stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki hunsa þessa samfélagslegu skyldu sína gagnvart þeim samfélögum sem þau starfa í eins og mýmörg dæmi hafa sýnt.

Það verður samt að segjast að úr því sem komið var er ögn ásættanlegra að hægt sé að tryggja allt að 64% starfsmanna áframhaldandi starf þótt vissulega sé það þyngra en tárum taki að 14 manns séu að missa lífsviðurværi sitt.  Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að vonbrigðin hjá okkur skagamönnum er gríðarleg með þessa ákvörðun forsvarsmanna HB Granda með að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi enda höfum við svo sannarlega viljað sá fiskvinnslu hér á Akranesi aukast enda höfum við verið stolt af því að vera hluti af öflugu sjávarútvegsfyrirtæki eins og HB Grandi er.

En við Akurnesingar ætlum svo sannarlega ekki að gefast upp og vonandi náum við að efla atvinnulífið hér á Akranesi enn frekar því málið er að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og því viljum við Skagamenn trúa.

28
Jun

Hvalur hf. dæmdur til að greiða félagsmanni VLFA tæpa hálfa milljón

Rétt í þessu var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Vesturlands í máli Verkalýðsfélags Akraness gegn Hvali hf. Kröfuliðir stefnunnar voru í fjórum liðum og vannst aðalkröfuliðurinn en Hvalur var sýknaður af hinum þremur kröfuliðunum.

Krafan sem vannst og var aðalkrafa félagsins laut að sérstakri greiðslu sem getið er um í ráðningarsamningi starfsmanna, en dómurinn féllst á kröfu félagsins dæmdi Hval hf. til að greiða umræddum starfsmanni sem er félagsmaður VLFA 455.056 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. janúar 2016. Hvalur hf. var einnig dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað.

Aðalkrafa félagsins byggðist á því að í ráðningarsamningi starfsmanna er getið um að fyrir hverja 12 tíma vakt séu greiddar 33.142 kr. á virkum dögum og 36.997 kr. fyrir helgarvaktir.

Í öðrum lið í ráðningarsamningi starfsmanna kveður á um að í sérstakri greiðslu séu greiddar 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.

Ágreiningurinn laut að því að Hvalur hf. vildi meina að þessi sérstaka greiðsla upp á 5.736 kr. fyrir hverja vakt vegna skerðingar á hvíldartíma og ferða til og frá vinnustað hafi verið inní vaktakaupinu, en dómurinn tók undir það með VLFA að starfsmenn hefðu klárlega mátt skilja ráðningarsamninginn þannig að þessi greiðsla væri til viðbótar vaktarkaupinu.

Það er ljóst að þessi dómur hefur klárlega fordæmisgildi gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hvali hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015 en dómurinn getur náð til allt að 130 starfsmanna eða svo. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að þessi dómur mun kosta Hval hf. um eða yfir 200 milljónir.

Verkalýðsfélagi Akraness er ekki kunnugt um það hvort Hvalur muni áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar en fyrirtækið hefur allt að þrjá mánuði til að taka ákvörðun um það. Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar falið lögmanni félagsins að innheimta þessa sérstöku greiðslu fyrir alla þá félagsmenn VLFA sem störfuðu hjá Hvali á áðurnefndum vertíðum og tíminn einn mun leiða það í ljós hvort Hvalur muni hlíta dómnum eða hvort stefna verði Hval vegna allra þessara starfsmanna sem störfuðu hjá fyrirtækinu.

Heilt yfir er formaður og lögmaður Verkalýðsfélags Akraness nokkuð sáttir með dóminn í ljósi Þess að aðalkrafan fékkst viðurkennd fyrir dómi þótt vissulega hefðum við viljað fá viðurkenningu á hinum þremur kröfuliðunum. Það er rétt að geta þess í ljósi þess fordæmisgildis sem dómurinn mun geta haft að þá er þetta langstærsta mál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur unnið fyrir dómsstólum til þessa.

Hægt er að lesa dóminn með því að smella hér.

21
Jun

Formaður fundaði með forsætisráðherra í dag

Formaður VLFA fundaði í ráðherrabústaðnum í dagForsætisráðherra boðaði formann Verkalýðsfélags Akraness til fundar í morgun í ráðherrabústaðnum, en ráðherra hefur verið að funda með nokkrum aðilum vinnumarkaðarins. Með fundunum vildi ráðherra fá fram sjónarmið og hugmyndir þessara aðila í þeim tilgangi að fá sem gleggsta yfirsýn yfir stöðu á vinnumarkaði. Rétt er að geta þess að til stóð að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR yrði einnig á fundinum, en því miður komst hann ekki þar sem hann er erlendis. Því fundaði formaður VLFA einn með forsætisráðherranum í morgun og stóð fundurinn yfir í um klukkutíma.

Formaður VLFA vill koma á framfæri hrósi til forsætisráðherra fyrir að eiga frumkvæði að þessum fundi og gefa formanni VLFA þannig tækifæri til að koma áherslum og sjónarmiðum félagsins á framfæri við stjórnvöld. Það hefur að öllum líkindum ekki farið framhjá neinum að Verkalýðsfélag Akraness hefur alls ekki verið sammála forystu ASÍ í mörgum málum er lúta að hagsmunum launafólks eins og t.d. hugmyndum um nýtt vinnumarkaðsmódel í anda SALEK samkomulagsins.

Á fundinum voru fjölmörg atriði til umræðu sem lúta að hagsmunum verkafólks almennt sem og þeir atburðir sem tengjast atvinnumálum okkar Akurnesinga, en eins og flestir vita hafa stór skörð verið höggvin í atvinnulíf okkar Skagamanna á liðnum vikum og árum. Formaður kom því á framfæri við forsætisráðherra að ef það á að nást sátt á vinnumarkaði þá þurfi nokkur grundvallaratriði að koma til:

- Í fyrsta lagi þarf að hækka kjörin hjá þeim tekjulægstu þannig að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.
- Í öðru lagi  þarf að hætta að nota prósentuhækkanir í kjarasamningum og semja þess í stað um krónutöluhækkanir, enda eru prósentuhækkanir aflgjafi misskiptingar á íslenskum vinnumarkaði.
- Í þriðja lagi þarf að lækka húsnæðisvexti niður í 2% og afnema verðtryggingu, eða í það minnsta að taka húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni hvað varðar lög um vexti og verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna.
- Í fjórða lagi þarf að lækka kostnaðarhlutdeild almennings í heilbrigðisþjónustunni verulega.

Formaður sagði við forsætisráðherra að ef koma ætti á sátt á vinnumarkaði þá þurfi þessi fjögur atriði í það minnsta að koma til og mun Verkalýðsfélag Akraness alls ekki taka þátt í neinni sátt á vinnumarkaði sem byggist á svokölluðu Salek samkomulagi sem gengur út á að skerða samningsfrelsi launafólks með því að beisla og skerða möguleika launafólks til að sækja launahækkanir.

Formaður kom líka inn á hræsnina hjá alltof mörgum stjórnendum fyrirtækja sem eru með margar milljónir í laun á mánuði og tala síðan um mikilvægi þess að beisla þurfi launahækkanir í almennum kjarasamningum. Hann nefndi líka við ráðherra að almenningur í þessu landi líður það t.d. ekki mætingarbónusa á borð við þann sem greiddur var í Framtakssjóði Íslands upp á 20 milljónir fyrir það eitt að framkvæmdastjórinn náði þriggja ára starfstíma hjá sjóðnum. Hann fór líka yfir ofurlaun sumra framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna sem ná allt að 43 milljónum á ári og einnig nefndi hann ofurlaun sumra forstjóra á íslenskum vinnumarkaði sem nema tugum milljóna ári. Það mun aldrei nást sátt á meðal almenns launafólks um nýtt vinnumarkaðsmódel ef þessi misskipting og óréttlæti heldur áfram.

Formaður kom síðan inn á þær hamfarir sem við Akurnesingar höfum þurft að þola á undanförnum vikum og árum í okkar atvinnumálum.  Formaður rifjaði það upp að árið 2011 hafi Sementsverksmiðjan hætt starfsemi, en þar störfuðu þegar mest lét uppundir 180 manns. Það sem er að gerast þessa daganna er svo sú ákvörðun HB Granda að hætta landvinnslu á Akranesi. Formaður upplýsti forsætisráðherra um það að árið 2004, eða fyrir sameiningu Haraldar Böðvarssonar við Granda, hafi starfað um 350 manns hjá fyrirtækinu og Haraldur Böðvarsson var að greiða 2 milljarða í laun.  Núna er þetta allt farið og sagði formaður að honum væri það mjög til efs að nokkurt sveitarfélag hefði orðið fyrir jafnmiklum áföllum í atvinnumálum á svo skömmum tíma.

Formaður fór líka yfir það að við höfum ekki eingöngu misst þessi fyrirtæki úr okkar samfélagi heldur gengur Elkem Ísland erfiðlega að ganga frá raforkusamningi við Landsvirkjun, en samningurinn við fyrirtækið rennur út í mars 2019. Elkem Ísland treysti sér ekki til að gera 4 til 5 ára kjarasamning við Verkalýðsfélag Akraness í síðasta mánuði vegna óvissu um raforkumál fyrirtækisins og gildir samningurinn því einungis fram til mars 2019.

Formaður greindi forsætisráðherra frá því að hann hefði verulegar áhyggjur af þessari stöðu og byggir hann áhyggjur sínar á skrifum Ketils Sigurjónssonar sem hefur verið launaður verktaki hjá Landsvirkjun en hann hefur skrifað að vel megi áætla að raforkusamningur Elkem Ísland muni hækka um 100% árið 2019.  Ketill hefur skrifað að raforkureikningur Elkem muni jafnvel hækka um 2 til 2,5 milljarða á ári, til viðbótar þeim 2 milljörðum sem fyrirtækið er að greiða fyrir raforkuna í dag. Ef eitthvað er að marka skrif Ketils sem titlar sig sérfræðing um orkumál og hefur verið eins og áður sagði á launaskrá hjá Landsvirkjun þá er ljóst að allur rekstrargrundvöllur fyrirtækisins verður lagður í rúst og vel það, ef af þessu verður.

Nægir að nefna í því samhengi að það sem Ketill áætlar að raforkusamningur Elkem muni hækka um er meira en allur launakostnaður fyrirtækisins á ári sem er í dag um 2 milljarðar. Þessu til viðbótar er meðaltalshagnaður Elkem rétt rúmar 500 milljónir á ári frá árinu 1998. Hvernig í himninum á rekstur Elkem að geta gengið upp ef hækka á raforkuna um 100% sem er uppundir 2 milljörðum meira en sem nemur meðaltalshagnaði fyrirtækisins á síðustu 20 árum?

Það þarf ekki neinn sérfræðing til að sjá að verið er að ógna rekstrarafkomu þessa fyrirtækis gróflega  ef spá Ketils Sigurjónssonar gengur eftir um 100% hækkun á raforkuverði, og jafnvel hægt að segja að henni verði hreinlega slátrað ef af verður. Formaður fór yfir það með forsætisráðherra að ef eitthvað er að marka þessi skrif sérfræðingsins í orkumálum um hækkun á raforkuverði um allt að 100% þá skjóti það skökku við í ljósi þess að raforkuverð í Kanada, Norðurlöndum og Þýskalandi hefur lækkað um 50% á liðnum misserum.

Formaður taldi mjög brýnt að fara yfir þessar áhyggjur vegna atvinnuöryggis okkar Akurnesinga með forsætisráðherra enda er það hlutverk stéttarfélaga að verja kjör og atvinnuöryggi sinna félagsmanna. Við Skagamenn höfum þurft að þola nóg hvað varðar skerðingar á atvinnumöguleikum okkar svo ekki bætist við óvissa um framtíð Grundartangasvæðisins vegna glórulausrar græðgi hjá einokunarfyrirtækinu Landsvirkjun!

Þetta var mjög góður fundur og mikilvægt að geta komið hagsmunamálum launafólks milliliðalaust til forsætisráðherra með þessum hætti og þetta framtak hans að heyra í fulltrúum launafólks til fyrirmyndar.

09
Jun

Sjómannadagurinn 2017

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um allt land á sunnudaginn kemur. Hefð er fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness gefi leikskólabörnum harðfisk í tilefni dagsins og í morgun fór formaður félagsins fyrir hönd sjómanna á alla leikskóla bæjarins með harðfiskpoka handa börnunum og var hvarvetna tekið vel á móti honum. Hægt er að sjá myndir frá heimsóknunum hér.

Á sjálfan sjómannadaginn verður dagskrá með hefðbundnu sniði. Verkalýðsfélag Akraness mun að vanda annast minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarðinum kl. 10:00. Að henni lokinni verður hátíðarguðsþjónusta í Akraneskirkju kl. 11 þar sem sjómaður verður heiðraður fyrir störf sín, en í ár er það Ingimar Magnússon, fyrrv. skipstjóri, sem hlýtur heiðursmerki Sjómannadagsráðs. Að messu lokinni verður gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi og blómsveigur lagður að því eftir stutta athöfn.

Aðrir dagskrárliðir eru fjölmargir og má þar til dæmis nefna dorgveiðikeppni, róðrarkeppni, dýfingarkeppni, kaffisölu Slysavarnardeildarinnar Lífar og fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu svo eitthvað sé nefnt, og eru bæjarbúar hvattir til að taka þátt í hátíðahöldunum. Upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu Akraneskaupstaðar:

Dagskrá sjómannadagsins á Akranesi 2017

Kl. 9:00-18:00
Frítt í sund í Jaðarsbakkalaug

Kl. 10:00
Minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarði.

Kl. 10:00-18:00  
Frítt í Akranesvita. Ljósmyndasýning Hildar Björnsdóttur prýðir veggi vitans.

Kl. 10:30
Á Breið afhenda félagar í Slysavarnardeildinni Líf fulltrúa Akraneskaupstaðar björgunarhringi að gjöf.

Kl. 11:00  
Sjómannadagsmessa í Akraneskirkju, sjómaður heiðraður. Blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna á Akratorgi að lokinni athöfn.

Kl. 11:00
Dýfingakeppni á vegum Sjóbaðsfélags Akraness. Keppendur og áhorfendur safnast saman við Aggapall við Langasand. Dýfingarnar munu fara fram af nýju björgunarskipi Björgunarfélags Akraness. Keppt verður í tveimur greinum, annars vegar hefðbundinni stungu og hins vegar frjálsri aðferð. Aldursflokkar verða tveir, 49 ára og yngri og 50+. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki.

Kl. 12:00 
Opnun ljósmyndasýningar Hildar Björnsdóttur, Farið á fjörur, í Akranesvita. Travel Tunes Iceland spila við opnunina.

Kl. 13:00-14:00
Dorgveiðikeppni á Sementsbryggjunni.

Kl. 13:30 
Björgunarfélag Akraness vígir nýtt björgunarskip á hafnarsvæðinu, allir velkomnir.

Kl. 13:30-16:30  
Kaffisala í Jónsbúð við Akursbraut á vegum Slysavarnardeildarinnar Lífar. Allir hjartanlega velkomnir.

Kl.14:00-16:00  
Fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu í samstarfi við Akraneskaupstað, Verkalýðsfélag Akraness, HB Granda, Faxaflóahafnir, Runólf Hallfreðsson ehf., Björgunarfélag Akraness og Fiskmarkað Íslands. Á boðstólnum verða m.a.: Róðrarkeppni Gamla Kaupfélagsins, bátasmíði í boði Húsasmiðjunnar, kassaklifur, furðufiskar og ýmislegt fleira. Von er á þyrlu Landhelgisgæslunnar í heimsókn ef aðstæður leyfa og félagar í Sjósportfélaginu Sigurfara verða sýnilegir á svæðinu.Þá verður ýmislegt sjávartengt til sölu, bæði matur til að njóta á staðnum sem og aðrar vörur.

07
Jun

Laun sjómanna lækkað um 50% á tveimur árum!

Það er skuggalegt að skoða þróun á launum sjómanna frá árinu 2015 og svo launin 2017 en það er óhætt að segja að þau séu nánast í frjálsu falli vegna lækkunar á fiskverði í íslenskum krónum. Þessu til viðbótar er rétt að vekja athygli á því að sumar fiskitegundir hafa einnig lækkað í erlendri mynt og nægir að nefna að karfaverð hefur lækkað um 45% sem helst má rekja til lokunar á Rússlandsmarkaði.

Formaður hefur skoðað hvaða áhrif þessi gengisstyrking og lækkun á fiskverði hefur haft á afkomu skipverja á Helgu Maríu AK og Ásbirni RE miðað við aflamagn þessara skipa árið 2016, en tekjufallið er gríðarlegt og nemur 5 til 6 milljónum á ársgrundvelli miðað við 192 róðrardaga eða sem nemur um 50%.

Þetta sést vel á samanburði á fiskverði í maí 2015 og maí 2017 miðað við aflamagn ársins 2016, en þá kemur í ljós að aflaverðmætið t.d. hjá Helgu Maríu lækkar úr 1,3 milljörðum í 855 milljónir eða um rúmlega 425 milljónir, en hér er lækkun á aflaverðmæti sem nemur um 50%.

Það er ljóst að margar hliðar eru á gríðarlegri gengisstyrkingu krónunnar og lækkunar á fiskverði og ein hliðin er sú að laun sjómanna hafa lækkað um sem nemur allt að 50% á einungis tveimur árum. Það má ekki heldur gleyma því að þetta tekjufall sjómanna hefur síðan áhrif á skatttekjur ríkis og sveitarfélaga sem og á verslun og þjónustu í þeim sveitafélögum þar sem sjávarútvegur er ríkur þáttur í atvinnusköpun.

Það er ljóst að sjómannadagurinn verður haldinn í skugga gríðarlegs tekjufalls íslenskra sjómanna vegna mikillar styrkingar á krónunni og lækkunar á afurðaverði og núna er sú staða að koma upp að erfiðlega getur gengið að manna íslenska skipaflotann ef ekki fer að verða breyting á gengi krónunnar og hækkun á fiskverði.

Það er morgunljóst að við sem þjóð verðum að passa okkur á að skapa ekki þannig forsendur að okkar helstu útflutningsgreinum verði stefnt í mikið rekstraróöryggi því ef það gerist þá munum við sem þjóð öll tapa.

Nú verða stjórnvöld að bregðast við og það geta þau gert m.a. með því að koma vitinu fyrir fulltrúa Seðlabankans með því að lækka vexti og síðan verða stjórnvöld að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingar heimilanna. Íslensk heimili vita hvað gerist ef gengið fellur en þá er ljóst að íslensk heimili munu verða fyrir miklum búsifjum þar sem verðtryggðar skuldir heimilanna geta stökkbreyst á skömmum tíma.

Á þessu sést að hér er við gríðarlegan vanda að etja en það er morgunljóst að ekki er hægt að ógna okkar helstu útflutningsgreinum með linnulausri styrkingu krónunnar því á endanum mun það koma illa í bakið á okkur almenningi og þá sögu þekkjum við vel.

06
Jun

Sérkjarasamningur starfsmanna í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi samþykktur

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir sérkjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi þann 31. maí sl. Kynningu og kosningu um sérkjarasamninginn er nú lokið og er skemmst frá því að segja að samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Samninginn má lesa hér..

Það verður því ekki annað séð en að starfsmenn séu bara nokkuð sáttir með samninginn en hann gefur starfsmönnum rétt tæp 11% launahækkun sem gildir afturvirkt frá 1. mars síðastliðnum, en laun starfsmanna eru að hækka um rétt tæpar 50.000 krónur á mánuði.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image