• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Apr

Kjarasamningsviðræður komnar á fulla ferð

Nóg er að gera í kjarasamningsmálum Verkalýðsfélags Akraness þessa dagana en félagið er nú með þrjá lausa kjarasamninga. Þeir eru kjarsamningur Elkem Ísland á Grundartanga, kjarasamningur Klafa sem er þjónustufyrirtæki sem sér um út- og uppskipanir á Grundartanga og loks kjarasamningur starfsmanna síldarbræðslu HB Granda á Akranesi. 

Í dag var haldinn samningafundur með Samtökum atvinnulífsins og forsvarsmönnum Elkem Ísland vegna kjarasamnings starfsmanna Elkem. Á þeim fundi sendu stéttarfélagið og trúnaðarmenn skýr skilaboð til Samtaka atvinnulífsins um kröfur og áherslur starfsmanna í þessum viðræðum en kröfugerðin byggist á því að gerður sé sambærilegur samningur og Verkalýðsfélag Akraness gerði við Norðurál árið 2015. Blessunarlega hafa launakjör í stóriðjum almennt verið töluvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en það er hörð barátta að viðhalda þessum réttindum og auka þau.

Það kom fram á þessum fundi að það er ófrávíkjanleg krafa af hálfu VLFA og trúnaðarmanna að svokölluð launavísitölutenging verði tekin upp í þessum kjarasamningi með sambærilegum hætti og gert var í kjarasamningum Norðuráls á Grundartanga. Frá þessari kröfu verður ekki vikið. 

Því miður hafa kjör í þeim kísilverum sem hafa verið að rísa á Íslandi að undanförnu ekki tekið mið af þeim stóriðjusamningum sem eru til staðar á Íslandi. Það er grafalvarlegt ef þessar nýju verksmiðjur bæði í Helguvík og á Húsavík ætla að fara að keyra hér á kjarasamningi sem miðar við laun á hinum almenna vinnumarkaði þar sem laun og kjör eru mun lakari en þeir stóriðjusamningar sem til dæmis eru í gildi á Grundartanga. 

Semsagt, á fundinum í gær var Samtökum atvinnulífsins skýrt frá því með afgerandi hætti hverjar áherslurnar og kröfugerðin eru en þær eru að mati VLFA og trúnaðarmanna sanngjarnar, réttlátar og í takti við það sem um hefur verið samið í stóriðjufyrirtækinu sem er við hliðina á Elkem Ísland - Norðuráli.  

24
Apr

Sumar 2017 - eindagi fyrri úthlutunar í dag

Við viljum minna þá sem fengu úthlutað í fyrri úthlutun orlofshúsa vegna sumarsins 2017 á að í dag er síðasti dagur til að greiða leiguna og ógreiddar bókanir verða felldar niður í fyrramálið. Opið er fyrir skráningu umsókna í endurúthlutun sem mun fara fram 2. maí.

18
Apr

Uppsögn í kjölfar vinnuslyss

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá varð mjög alvarlegt vinnuslys í Norðuráli 22. mars síðastliðinn þar sem starfsmaður slasaðist illa eftir að svokallaður PTM 2 krani skall á töppunarkrana nr. 9  með þeim afleiðingum að svokölluð bímgræja sem er nokkur tonn að þyngd slóst í einn starfsmann. Viðkomandi starfsmaður slasaðist illa eins og áður sagði og lá t.d. á gjörgæslu Landspítalans í rétt rúma viku, en líður í dag eftir atvikum vel.

Rétt er að geta þess að starfsmenn stjórna þessum krönum með þráðlausum fjarstýringum en það var eins og áður sagði PTM 2 kraninn sem skall á töppunarkrana nr. 9 sem varð þess valdandi að þetta slys varð.

Það er alltaf skelfilegt þegar alvarleg vinnuslys eiga sér stað og eðlilega er hugur allra hjá þeim sem fyrir slysinu varð og eðlilega vona allir að viðkomandi starfsmaður nái fullum bata eins fljótt og kostur er. En svona slys hafa líka mikil áhrif á vinnustaðinn og svo ekki sé talað um þá sem urðu vitni að slysinu og þann sem er „grunaður“ um að hafa valdið því.

Það er rétt að geta þess að umræddur starfsmaður sem var að stjórna krana 2 hlúði vel að samstarfskonu sinni strax eftir slysið á meðan beðið var eftir sjúkrabílnum og lá við hlið hennar og hélt í hönd hennar allan tímann sem beðið var, þrátt fyrir að vera sjálfur í miklu andlegu áfalli eftir slysið.  En umræddur starfsmaður sem er 58 ára hefur starfað hjá Norðuráli í 14 ár og hefur fengið eina áminningu fyrir margt löngu eða nánar til getið fyrir 8 árum síðan.

En þá komum við að ástæðu þessara skrifa, sem er óánægja Verkalýðsfélags Akraness með framkomu fyrirtækisins gagnvart þeim aðila sem stjórnaði krana 2, en honum var sagt upp störfum 30. mars, átta dögum eftir slysið. Rétt er að geta þess að starfsmaðurinn fær uppsagnarfrestinn sinn greiddan.

En hvað er það sem Verkalýðsfélag Akraness er ósátt við í þessu máli? Það er mikilvægt í upphafi að greina frá því að umræddur starfsmaður tjáði öryggisstjóra fyrirtækisins strax eftir slysið að hann vissi alls ekki hvernig þetta gerðist enda sagði hann að svona ætti ekki að geta gerst og var andlega niðurbrotinn vegna þessa slyss. Honum var tjáð að hann ætti ekki að mæta í vinnu fyrr en haft yrði samband við hann aftur. Tveimur dögum eftir slysið var haft eftir fulltrúum fyrirtækisins í fjölmiðlum „að við fyrstu athugun virðist ekkert hafa verið að öryggisbúnaði“ (Sjá hér og hér).  Einnig kom á sama tíma yfirlýsing til allra starfsmanna frá framkvæmdastjóra Norðuráls um að prófanir á krananum hafi sýnt að öryggisbúnaði var ekki ábótavant.

Þessar yfirlýsingar forsvarsmanna Norðuráls að ekkert væri að búnaði kranans voru stórundarlegar í ljósi þess að einungis tveir dagar voru liðnir frá því slysið átti sér stað og rannsókn lögreglu og Vinnueftirlitsins rétt á frumstigi. En með þessu framferði forsvarsmanna Norðuráls að lýsa því einhliða yfir að ekkert væri að búnaðnum var allri sök varpað miskunnarlaust yfir á starfsmanninn.

Þessar yfirlýsingar fyrirtækisins um að ekkert hafi verið að verið að búnaði kranans ollu mínum félagsmanni enn meiri andlegri vanlíðan og var hún næg fyrir, enda hafði hann miklar áhyggjur af samstarfskonu sinni. Félagsmaðurinn leitaði til Verkalýðsfélags Akraness eftir yfirlýsingar Norðuráls um að ekkert væri að búnaðinum og sagðist óttast að fyrirtækið ætlaði sér að láta hann axla alla ábyrgðina einan sem honum þótti eðlilega ósanngjarnt.  

Starfsmaðurinn sem hafði verið andlega niðurbrotinn og nánast svefnlaus frá því slysið varð hafði gríðarlega áhyggjur af öllu málinu, en lítið sem ekkert var hugað að andlegri líðan hans af hálfu fyrirtækisins eftir slysið og nánast það eina sem hann fékk að vita var að nærveru hans á vinnustaðnum væri ekki óskað um sinn. Síðan gerist það 30. mars síðastliðinn að hann fær uppsagnarbréf þar sem honum er sagt upp störfum og ekki sé óskað eftir að hann vinni uppsagnarfrestinn. Í kjölfarið óskaði félagsmaðurinn eftir aðstoð félagsins sem var auðfengin.

Verkalýðsfélag Akraness kallaði eftir öllum upplýsingum sem þá lágu fyrir um málið og kallaði eftir að lögmaður VLFA kæmi einnig að málinu til að gæta að hagsmunum okkar félagsmanns sem okkur sýndist hafa fengið afar harðneskjulega meðferð af hálfu fyrirtækisins eftir 12 ára starf í þágu þess.

Við skoðun VLFA og lögmanns VLFA kom fljótt í ljós að það stæðist alls ekki af hálfu Norðuráls að ætla að varpa allri sök á þessu slysi á herðar starfsmannsins. En það er rétt að geta þess að starfsmaðurinn var kallaður í skýrslutöku hjá lögreglunni með stöðu „sakbornings“ sem hugsanlega endurspeglast í því að fyrirtækið var ítrekað búið að gefa út yfirlýsingar um að ekkert væri að búnaði kranans. 

En þá komum við að kjarna málsins, eða með öðrum orðum var kraninn bilaður eða ekki? Það er skoðun Verkalýðsfélags Akraness að ekki sé neinn vafi á því að kraninn var bilaður og ef hann hefði verið í lagi þá hefði þetta skelfilega slys aldrei orðið. En af hverju segjum við hjá Verkalýðsfélagi Akraness að kraninn hafi verið bilaður? Jú, vegna þess að í 9. grein reglugerðar um öryggisbúnað krana og lyftibúnaðar segir m.a. orðrétt:  „Séu tvö eða fleiri lyftitæki á sömu braut eða spori skulu vera á þeim nálgunarrofar til að koma í veg fyrir árekstur“.

Sem sagt, reglugerð Vinnueftirlitsins kveður skýrt á um að það eigi að vera árekstrarvörn á öllum krönum sem eru á sömu braut (nálgunarrofi) til að koma í veg fyrir árekstur!  Með öðrum orðum, þetta slys átti ekki að geta átt sér stað ef fyrirtækið hefði haft búnaðinn í lagi eins og 9. grein reglugerðar Vinnueftirlitsins kveður á um.

Kjarni málsins er að þetta slys átti aldrei að geta gerst ef fyrirtækið hefði haft búnaðinn í lagi. Því er það þyngra en tárum taki að fyrirtækið skuli hafa vogað sér að gefa út einhliða yfirlýsingu þar sem allri ábyrgðinni var varpað á herðar starfsmannsins.  Í ljósi þessara staðreynda að búnaðurinn virkaði ekki sem skyldi er eðlilegt að spyrja: hver er ábyrgð fyrirtækisins á því að okkar félagsmaður leið andlegar vítiskvalir vegna þessa slyss, hefur stöðu sakbornings hjá lögreglu og hefur misst lífsviðurværi sitt til 14 ára?

Það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram að við hjá Verkalýðsfélagi Akraness og okkar lögmaður höfum ítrekað reynt að ná sátt í þessu máli og lögðum m.a. fram hugmynd að sáttatillögu sem byggðist t.d. á því að fyrirtækið viðurkenndi sína ábyrgð í málinu, það er að búnaðurinn hafi verið bilaður. Því hefur alfarið verið hafnað af hálfu fyrirtækisins.  

Verkalýðsfélag Akraness getur ekki og ætlar ekki að láta fyrirtæki komast upp með að koma svona fram við okkar félagsmenn og við að sjálfsögðu sláum skjaldborg um okkar fólk ef við teljum að verið sé að beita það misrétti og fara illa með það.  

Að sjálfsögðu gerum við okkur í VLFA grein fyrir því að það þurfa að gilda strangar reglur um öll öryggismál, því eins og við vitum geta störf í stóriðjum verið hættuleg og því þurfa allir að vera vel meðvitaðir um þær hættur sem skapast ef ekki eru allir með fulla öryggisvitund. Að sama skapi gerum við þá skýlausu kröfu á fyrirtækið að allur öryggisbúnaður tækja og tóla sé í lagi og uppfylli lög og reglugerðir enda er það alfarið á ábyrgð fyrirtækja að svo sé, eins og kveðið er á um í lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Ábyrgðin þarf að gilda í báðar áttir!

Það gengur alla vega ekki að skella alltaf „litla manninum á gólfinu“ undir fallöxinna ef einhver óhöpp og slys eiga sér stað og fyrirtækið og stjórnendur fría sig allri ábyrgð. Sér í lagi þegar þær staðreyndir blasa við í kringum þetta tiltekna slys að það hefði aldrei orðið hefði búnaður kranans uppfyllt reglugerð Vinnueftirlitsins. 

Því miður hafa þó nokkuð margir starfsmenn haft samband við Verkalýðsfélag Akraness og lýst yfir gremju sinni yfir þessari uppsögn sem og öðrum uppsögnum sem átt hafa sér stað á undanförnum mánuðum. Það er dapurlegt og til umhugsunar fyrir stjórnendur Norðuráls að alltof margir starfsmenn upplifa að rekin sé óttastjórnun og harðneskjuleg starfsmannastefna hjá fyrirtækinu.

Eins og áður sagði hafa nokkrar uppsagnir átt sér stað að undanförnu hjá Norðuráli, sem VLFA og margir starfsmenn telja að hafi verið fyrir afar litlar sakir og nánast að ósekju. Einn starfsmaður sem var sagt upp eftir 6 ára starf, fékk að fjúka fyrir að segja einum liðsstjóra að „þegja“ um leið og hann bað hann að hlusta á sínar skýringar. Öðrum varð á að slá í plasthlíf á hjálmi liðsstjóra eftir að honum fannst verið talað niður til sín, en hann sá strax að sér og tók í hönd liðstjórans og bað hann afsökunar. Öðrum var sagt upp vegna brota á öryggisreglum en sú ástæða stóðst ekki nokkra skoðun og þá var uppsagnarbréfinu bara breytt og sagt að ástæða uppsagnar væri samskiptaörðugleikar! Sá aðili hefur lagt fram kvörtun til Vinnueftirlitsins vegna eineltis af hálfu yfirmanns.

Þessir þrír starfsmenn eru með samanlagða starfsreynslu sem nemur um 40 árum og allir eru þeir með flekklausan starfsferil hjá Norðuráli, hvorki með munnlegar né skriflegar áminningar og eru tjónalausir. Allir eiga þeir það sammerkt að samstarfsfólkið talar virkilega vel um þá og skilja ekki hvernig þessar uppsagnir gátu gerst og finnst þær afar ósanngjarnar.  

Það er gríðarlega mikilvægt að þegar segja þarf upp starfsmönnum á íslenskum vinnumarkaði þá sé það gert með þeim hætti að þær séu hafnar yfir allan vafa og alls ekki að ósekju, enda fylgir því mikil ábyrgð að svipta starfsfólk lífviðurværi sínu og það jafnvel eftir að það hafi þjónað fyrirtæki á annan áratug.

Norðurál hefur alla burði til að vera einn af eftirsóttustu og bestu vinnustöðum á okkar félagssvæði enda telur Verkalýðsfélag Akraness það einfalt að lagfæra svona stjórnunarhætti því það er aldrei gott fyrir andlega líðan á vinnustað ef starfsmenn upplifa óttastjórnun.

Það er rétt að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness hefur komið öllu því sem stendur í þessari grein vel á framfæri við stjórnendur Norðuráls og reynt að leysa málin í sátt en í ljósi þess að það hefur ekki tekist þá sér félagið sig knúið til að greina frá málinu. Enda tekur VLFA ekki þátt í þöggun og meðvirkni þegar kemur að því að verja réttindi okkar félagsmanna eða þegar félagið telur að þeir séu beittir misrétti.

En kjarninn í þessari grein er að vekja athygli á því að fyrirtækið ætlar sér að varpa allri ábyrgð á starfsmanninn þrátt fyrir að búnaður hafi ekki virkað eins og reglugerð Vinnueftirlitsins kveður á um og slíkt getur VLFA ekki að unað. Ábyrgðin skal gilda í báðar áttir, ekki bara gegn manninum á gólfinu!

10
Apr

Sumar 2017 - Fyrri úthlutun lokið

Nú er lokið fyrri úthlutun vegna dvalar í orlofshúsum félagsins sumarið 2017. Allir þeir sem sóttu um eiga nú von á bréfi þar sem fram kemur hvort þeir hafi hlotið viku, og þá um hvaða viku ræðir. Þeir sem eru með skráð netfang í kerfi félagsins eiga auk þess að hafa fengið sendan tölvupóst þess efnis. Félagsmenn eru beðnir að athuga á Félagavefnum hvort rétt netfang er skráð þar, það auðveldar og flýtir fyrir samskiptum. Einnig er hægt að nálgast bréf um afgreiðslu úthlutunar á Félagavefnum (undir Skjöl). Hafi félagsmaður fengið úthlutað er nú tilbúin bókun fyrir hann á Félagavef (undir Orlofshús-Bókunarsaga) og þar getur hann gengið frá greiðslu leigu með greiðslukorti. 

Þeir sem fengu úthlutað hafa frest til 24. apríl að greiða leiguna og eftir það verða ógreiddar bókanir felldar niður. Það er því mikilvægt að greiðsla komist örugglega til skila, og er þá öruggast að greiða með korti á Félagavef. Sé greitt með millifærslu verður greiðandi að vera sá sami og er skráður fyrir bókuninni, annars er ekki tryggt að hægt sé að para saman bókun og greiðslu og tekur starfsfólk félagsins enga ábyrgð á því.

Þeir sem ekki fengu úthlutað eru sjálfkrafa með í endurúthlutun sem fer fram þann 2. maí. Í endurúthlutun er úthlutað þeim vikum sem ekki gengu út í fyrri úthlutun, auk þeirra sem ekki voru greiddar á eindaga. Á hádegi þann 2. maí verður svo hægt að bóka lausar vikur og gildir þá reglan fyrstur kemur-fyrstur fær.

Helstu dagssetningar 2017:

9. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús
10. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á Félagavefnum)
24. apríl  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur
2. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi
2. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur, líka á Félagavefnum (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)
11. maí  - Eindagi endurúthlutunar, ógreiddar vikur verða lausar til bókunar á Félagavefnum.

06
Apr

Félagsmenn - munið að skila orlofshúsaumsóknum!

Við minnum á að frestur til að skila inn umsóknum um dvöl í orlofshúsum félagsins sumarið 2017 rennur út sunnudaginn 9. apríl! Hægt er að nota heimsend umsóknareyðublöð, eða þá skila umsókn á Félagavefnum.

29
Mar

HB Grandi frestar áformum um lokun landvinnslunnar

Rétt í þessu lauk fundi Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmanna HB Granda með forsvarsmönnum HB Granda. VLFA og trúnaðarmenn lögðu til við forsvarsmenn fyrirtækisins að þeir myndu fresta áformum um að hætta landvinnslu á Akranesi og hefja viðræður við bæjaryfirvöld á Akranesi á grundvelli viljayfirlýsingar sem bæjaryfirvöld gáfu út í gær. Það er skemmst frá því að segja að forsvarsmenn fyrirtækisins tóku jákvætt í þessa hugmynd og voru tilbúnir til að hefja viðræður við Akraneskaupstað á grundvelli viljayfirlýsingarinnar. Í sameiginlegri yfirlýsingu sem aðilar gáfu út kemur fram að ef þessar viðræður við Akraneskaupstað, Faxaflóahafnir og aðra aðila sem tengjast málinu munu ekki verða með jákvæðum hætti að mati fyrirtækisins, þá muni landvinnsla á Akranesi hætta 1. september á þessu ári.

Það má segja að hér sé um hálfgerðan varnasigur að ræða, því við stóðum frammi fyrir því að fá uppsagnir nú um mánaðarmótin og því er það jákvætt að fyrirtækið sé tilbúið að hefja þessar viðræður við bæjaryfirvöld á grundvelli þess að lagfæra hér höfnina og annað sem til þarf til að hægt sé að efla starfsemi HB Granda á Akranesi. Eftir samráðsfundinn með forsvarsmönnum HB Granda var haldinn fundur með starfsmönnum fyrirtækisins og sagði formaður VLFA þar að þetta væru jákvæð tíðindi, en hann ítrekaði að hann vildi ekki vekja upp of miklar vonir hjá starfsmönnum því tíminn yrði að leiða í ljós hvort þau áform sem bæjaryfirvöld hafa um að uppfylla kröfur fyrirtækisins muni verða næginleg til að ekki þurfi að koma til þessara uppsagna.

En formaður vill vera bjartsýnn á að þessari viðræður eigi að geta skilað jákvæðri niðurstöðu, því sóknarfærin hér á Akranesi til að efla fiskvinnslu eru gríðarmörg. Hér er mikill mannauður og verkþekking sem skiptir hvert fyrirtæki greíðarlega miklu máli. Nú er bara að vona að þessar viðræður milli Akraneskaupstaðar, Faxaflóahafna og forsvarsmanna HB Granda verði okkur Akurnesingum til heilla, en tíminn einn mun geta leitt það í ljós. Niðurstaðan á að liggja fyrir í lok júní á þessu ári.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image