• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Mar

Kjarasamningur Norðuráls svínvirkar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá tímamótasamningi við Norðurál á síðasta ári en sá samningur byggðist meðal annars á því að tengja launahækkanir starfsmanna við hækkun launavísitölu. En á fyrstu 12 mánuðum samningsins hækkuðu laun starfsmanna Norðuráls um 16% en auk þess fékk hver og einn starfsmaður 300.000 kr. eingreiðslu. 

Næsta hækkun mun koma 1. janúar 2017 og er óhætt að segja að fyrstu 2 mánuðirnir lofi góðu hvað varðar launahækkunina enda hefur launavísitalan á fyrstu tveimur mánuðum ársins hækkað um rétt tæp 4% en í síðasta mánuði hækkaði hún um 3,5%. Þannig að nú þegar eru starfsmenn Norðuráls búnir að tryggja sér tæp 4% sem munu koma 1. janúar 2017 og það þrátt fyrir að 10 mánuðir séu enn eftir í mælingu launavísitölunnar. Það er alveg morgunljóst að hér var um algjöran tímamótasamning að ræða sem mun koma starfsmönnum Norðuráls mjög vel og hann verður töluvert yfir þeim væntingum sem menn reiknuðu með að hann myndi gefa. Það góða við tengingu við launavísitölu er að allt launaskrið sem verður á íslenskum vinnumarkaði hefur VLFA tryggt starfsmönnum Norðuráls.   

18
Mar

Mikið annríki á skrifstofu VLFA undanfarna viku

Það er óhætt að segja að það sé búið að vera líf og fjör á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness í þeirri viku sem nú er senn á enda. Vikan byrjaði með látum þar sem þriggja daga trúnaðarmannanámskeið var haldið í fundarsal félagsins. 9 trúnaðarmenn tóku þátt til að fræðast og gera sig hæfari til að geta gegnt því viðamikla verkefni sem er að vera trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Í þessari viku er einnig búið að vera mikið að gera við skattframtalsaðstoð en eins og undanfarin ár hefur félagið boðið félagsmönnum sinum aðstoð við gerð skattframtals. Hafa fjölmargir félagsmenn nýtt sér þessa þjónustu og meirihlutinn eru félagsmenn sem hafa íslensku ekki að móðurmáli. 

Undirbúningur hefur verið á fullu fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður 5. apríl en verið er að ganga frá reikningum félagsins og öðrum undirbúningi sem lýtur að aðalfundi en eins og undanfarin ár er Verkalýðsfélag Akraness gríðarlega sterkt, bæði fjárhagslega sem og félagslega. Hefur félagsmönnum fjölgað á árinu, í heildina eru uppundir 3.000 manns í félaginu en þeim fjölgaði um 5% milli ára. Félagið vinnur nú að því að láta reyna á réttindi félagsmanna fyrir dómstólum og undirbýr stefnu á hendur Norðuráli vegna túlkunar á kjarasamningi. Að öllum líkindum mun stefnan verða klár um eða eftir páska. Það er stefna félagsins að ef ágreiningur er á milli atvinnurekanda og félagsins um túlkun á kjarasamningi og ekki næst sátt við atvinnurekendur að félagið láti skýlaust á slikt reyna fyrir dómstólum. Það er og hefur verið stefna Verkalýðsfélags Akraness að berjast í hvívetna fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna og verja þau réttindi sem félagsmenn hafa með öllum þeim tiltæku ráðum sem félagið hefur. 

Þessu til viðbótar er nú unnið að því að senda út orlofsbæklinga og umsóknir til félagsmanna vegna sumarsins. Boðið verður upp á sambærilega valkosti og í fyrra, meðal annars munu Framsýn á Húsavík og VLFA aftur skipta á bústöðum, VLFA fær Illugastaði af Framsýn og Framsýn fær í staðinn Bláskóga í Svínadal af VLFA. Jafnframt verður áfram boðið upp á sumarhús í Vestmannaeyjum en það nýtur mikilla vinsælda hjá félagsmönnum.

11
Mar

Trúnaðarmannanámskeið í næstu viku

Það er hverju stéttarfélagi mikilvægt að vera með góða, öfluga og vel upplýsta trúnaðarmenn sem eru tilbúnir til að taka að sér krefjandi verkefni á vinnustöðunum, verkefni sem lúta að hinum ýmsu málum sem kunna að koma upp tengd kjarasamningum og öðrum réttindamálum launafólks. Á þeirri forsendu heldur Verkalýðsfélag Akraness reglulega námskeið til að gera sína trúnaðarmenn hæfari til að gegna þessu ábyrgðarmikla hlutverki og í næstu viku er komið að slíku námskeiði. 

Námskeiðið verður haldið 14. til 16. mars og stendur yfir frá kl. 9-16. Í þessari lotu munu 9 trúnaðarmenn sitja námskeiðið en sem fyrr er það Félagsmálaskóli alþýðu sem annast kennsluna. Fræðslan er þrepaskipt og á þessu námskeiði er um að ræða 1. þrep þar sem töluverð endurnýjun hefur verið í hópi trúnaðarmanna félagsins undanfarin ár. Á fyrsta degi námskeiðsins verður fjallað um þjóðfélagið og vinnumarkaðinn, annan daginn verður farið í starf trúnaðarmannsins og stöðu hans og á síðasta degi námskeiðsins verður umfjöllunarefnið samskipti á vinnustað.

11
Mar

Neyðarkerran afhent Rauða krossinum á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá tók Verkalýðsfélag Akraness það verkefni að sér að safna fyrir neyðarkerru eftir að hafa fengið ábendingu um að slík kerra væri ekki til staðar hér á Akranesi. Þessi neyðarkerra inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum. 

Formaður félagsins hafði samband við nokkur öflug fyrirtæki hér á Akranesi - Norðurál, HB Granda, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstað og óskaði eftir að þessir aðilar myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið. Það er skemmst frá því að segja að það tók örskamma stund að safna fyrir kerrunni og voru allir tilbúnir til að leggja málefninu lið. Meira að segja hafði slysavarnadeildin Líf samband þegar hún frétti af þessari söfnun og óskaði eftir að fá að leggja fjármuni í verkefnið. 

Á morgun verður neyðarkerran formlega afhent Rauða krossinum á Akranesi og er Verkalýðsfélag Akraness stolt af því að hafa tekið þátt í þessu verkefni en félagið mun styrkja þetta mál um 200.000 kr. Vill stjórn félagsins þakka fyrirtækjunum, Akraneskaupstað og slysavarnadeildinni Líf fyrir að hafa tekið svona vel í að styðja við þetta góða og þarfa verkefni.

03
Mar

Framtalsaðstoð fyrir félagsmenn VLFA

Eins og undanfarin ár býður félagið upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og geta félagsmenn pantað tíma á skrifstofu VLFA eða í síma 4309900. Síðasti dagur til að skila framtali er þriðjudagurinn 15 mars, en hægt er að sækja um frest á síðunni www.skattur.is. Framtalsfrestur er lengst veittur til 20. mars.

Framtalsaðstoðin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image